sunnudagur, 30. ágúst 2015

að vera er að velja

ég á veggi núna. og þak. gólf, glugga, útidyr, bakdyr og pall. það síðastnefnda telur um 40% eignarinnar. ég hef komið pablo í póstkortaformi fyrir yfir öllum þýðingarmeiri dyrakörmum heimilisins. sem og yfir asúrbláa sófanum. klee í forstofunni. held eldhúsveggnum auðum svo silúettan frá sægrænu ljóskúpunni geti seitlað eins og vatn niður á kökukrembleikt gólfið. bleiki ísskápurinn stendur gengt sófanum. þeim asúrbláa. mér líður stundum eins og ég búi í ísbúð á fimmta áratugnum. það er góður staður að búa á. refurinn unir sér vel. fyrir honum er heimili aðeins sá staður þar sem fætur húsbóndans hvíla hverju sinni. einfalt og gott viðmið. ef ég ætti kærasta myndi ég vilja hafa slíkt viðmið. en ég á engan kærasta. og veit ekki hvort ég vil eiga neitt í þá veruna. að tengjast heiminum (þeim sem maður er ævinlega á flótta undan) er nógu flókið verkefni. að tengjast öðru fólki er allt annar og töluvert meira ógnvekjandi gjörningur. mikilvægast er að týna ekki tengslum við sjálfan sig. sem gerist auðveldlega. ég kom heim frá spáni líkt silfurslegin sál í nýjum líkama. berstrípaði veggi og gólf. misbauð úlnliðum mínum með hringlaga hreyfingum. sleppti máltíðum. kepptist við. mætti í vinnuna. og vissi næst af mér á stofugólfinu með sleftauminn lekandi niður kinnina. núna langar mig bara að sofa. vinur minn gaf mér búnt af appelsínugulum ástareldi í fertugsafmælisgjöf. hann stendur ennþá. blómafróðir segja mér að hann sé svo lífseigur að stundum skjóti hann jafnvel rótum í vatni. ég vil vera ástareldur. stilkurinn er svo þykkur að ég þarf að taka töluvert á ætli ég að ná honum í sundur með flugbeitta saxinu, jafnvel þó það sneiði í sundur gulrætur eins og smjörklípu sem staðið hefur á borði frá morgni til eftirmiðdags á óvenju hlýjum degi. það haustar. ég finn það á skörpum morgunsvalanum. á rakanum. á lyktinni. hver þarf almanak! bráðum breytast litirnir og eitthvað í okkur deyr svo annað megi lifna. aldrei að stoppa. það er lykilatriði. taka eftir. anda að sér því sem er að eiga sér stað. sjá. finna. beina sjónum að því sem augun vilja nema. varast að standa í röð. varast raðupplifanir. en leggja rækt við ritúalið. á þessu tvennu er skýr munur. aldrei að taka eitt fyrir annað. næmi á hvað það er sem skilur þetta tvennt að gæti skilið á milli lífs og dauða. þarftu ekki að skrifa þessa nóvellu? nú, eða þetta ljóð? þarftu ekki að gera eitthvað nú þegar þú hefur skilið hismið frá kjarnanum? taka nýtt trúarstökk? ertu vakandi? veröldin sefur en úniversið vakir. klukkur þeirra eru aldrei samslátta. þess vegna er tilvistin erfið. ekki tapa þér samt í existensíalismanum. og ekki tapa húmornum. það er raunverulega hættulegt. raun/verulega.