hér í spánarveldi er ekkert lát á velgengni minni. ég má hvergi láta sjá mig án þess að farið sé að spila á gítar og klappa. einhver með veikari bein gæti látið þetta stíga sér til höfuðs. til allrar hamingju var ég vandlega alin upp í kristilegri hógværð og lítillæti og þarf því ekki að óttast slík örlög. hvarvetna eru bornar í mig ólívur. stundum meira en ég get í mig látið. sama má segja um melantónínið. það er með hreinum ólíkindum hvernig ég er orðin á litinn. ég líkist helst einhverju sem fólk stingur uppí sig og lætur bráðna á tungunni. og einmitt þannig líður mér í augnablikinu; eins og einhverju sem er hægt og rólega að bráðna í ógnarstórum og heitum munni. ég er næstum alveg hætt að pissa. sama hvað ég borða mikið af vatnsmelónum. fyrr í vikunni var loftið hérna uppi í hæðunum orðið svo logum blandið að ég var nauðbeygð til að flýja til sjávar. mér var það ekki á móti skapi. sjóböð eru lækning við öllu. það hef ég sannreynt bæði í heimahafinu og víða annars staðar þar sem ég hef verið gestkomandi. veri það taugaveiklun, depurð, ástarsorg eða aðrir krónískir verkir svo ég tali ekki um hita; allt linast það í hafinu. en það var dálítið merkilegt við þessa ferð. dálítið sem lætur mig ekki alveg í friði. dálítið sem gerir það að verkum að stundum sekk ég ofan í djúpa þanka og á í undarlegustu rökræðum við sjálfa mig. þannig vill til að stuttu fyrir förina niður að hafi hafði vinur minn hvatt mig til að húðflúra lítil akkeri á hælana á mér. hvort það var tilviljun eða ekki veit ég ekki og mun aldrei vita. kannski er ég bara að lesa yfir mig af búlgakov (já, ég er að lesa meistarinn og margaríta og já, ég hef ekki lesið hana fyrr og já, ég er svo víðáttu illa lesin að það er eins gott að það spyrjist ekki út). en hvernig sem á því stóð þá sótti sú hugsun stíft að mér á meðan ég maraði þarna í faðmi miðjarðarhafsins og lét ölduna vagga mér að eigin geðþótta, að kannski væri einmitt ekki vitlaust, nú þegar kona stendur á fertugu, að gera slíkt samkomulag við þyngdaraflið og undirrita það viðeigandi táknum; samkomulag um samband við upphafið (ha! upp-hafið! þetta var alveg óvart, ég sver það). hugmyndin þykir mér í það minnsta áhugaverð. og falleg. sér í lagi af því akkeri minna mig alltaf á vinnuföt föður míns sem voru einmitt með ísaumuðu litlu akkeri á brjóststykkinu. mér þótti hann alltaf svo óskaplega fallegur í flugstjóradressinu. furðulegt eiginlega hvernig ég hef komist hjá því að þróa með mér einhvern hallæris fetish fyrir mönnum í júniformi. ég skal ekki segja. best að bræða þetta með mér eins og annað sem hér kraumar og sýður yst sem innst. fara kannski aðra ferð að ölduborðinu og ganga út þar til botninum sleppir. fljóta þá í láréttri stöðu góða stund. blaka fótum. bræða með sér. blaka meir. bræða. blaka ...