mánudagur, 29. júní 2015

nokkur lögmál: hlutir þenjast út í hita, það snýst sem er snúið, það sem fer upp getur haldið áfram að fara upp


húsið mitt er á þremur hæðum. veggirnir þykkir eins og virkismúrar. minna má það ekki vera til að varna himnahitaranum inngöngu. á hverri hæð er aðeins ein íbúð og stiginn upp á terrassinn liggur snarbrattur í hring meðfram útvegg hússins. ekki beinlínis hringstigi en í áttina. ég hef sérlegt dálæti á hringstigum líkt og öllu því sem er spírallaga. eftirlætis minjagripurinn minn (eins og mér leiðast nú þau fyrirbæri) er einmitt lítill hlutur sem ég keypti á guggenheim-safninu (sem vel að merkja er hús í formi hringstiga ... eða hringstigi í formi húss ... ég er ekki viss); keila sem í má stinga þar til gerðum tússpenna, leggja odd pennans á pappír og snúa. penninn hringsnýst þá á blaðinu og teiknar upp hina ólíkustu spírala; stundum verða til smágerðir hringir, stundum löng lína með stöku lykkju og stundum rúllar keilan beinan veg út af blaðinu og skilur ekki annað eftir sig en daufa rák. engin leið er að sjá fyrir hvað muni birtast á blaðinu enda ræðst teikningin af þeim kröftum sem myndast þegar keilunni er snúið. dáleiðandi athöfn og gott að dunda sér við þegar allt virðist yfirþyrmandi. minnir mann á að í lífinu gildir það lögmál að sá ásetningur sem lagt er upp með er aðeins eitt tákn í jöfnunni. um annað höfum við lítið að segja. ég lít á þetta sem æfingu í að láta koma mér á óvart. það er mikilvægt að kunna að láta koma sér á óvart. annars er maður svo samanherptur og kyrkingslegur. út um glugga íbúðarinnar, þann eina sem á henni er, sér út á lítið torg þar sem mannaferðir eru nokkrar að morgni, töluverðar að kvöldi en engar yfir miðjan daginn þegar hitinn er brjálandi. þá er eins og allt sofi. hljótt og blítt. glugginn er óglerjaður en fyrir honum eru flúraðir járnrimlar. hann stendur opinn allan sólarhringinn og það er notalegt að heyra í smáfuglunum og dúfunum á morgnana þegar ég ligg og móki og nenni ekki fram úr. fyrir nágrönnum mínum fer lítið. það líkar mér vel. tveir þeirra vekja þó sérstakan áhuga minn af lógískum ástæðum; þeir eru báðir ferfættir; annar lítill depplóttur blendingur sem hámar í sig pottaplöntur húsbónda síns sér til dægrastyttingar; hinn íðilfagur svartur sjeffer (ég sé ekki ástæðu til að stafsetja þetta upp á útlensku) sem öðru hvoru lætur svo lítið að setjast út á svalirnar á heimkynnum sínum og horfa virðulega yfir pöpulinn á torginu. ég sakna hundsins míns. ef eitthvað er að marka þær fréttir sem ég hef fengið frá heimahögunum liggur hann helst undir sólpallinum á sveitasetri systur minnar og hagar sér í öllu undarlega. hér, eins og í öðrum siðmenntuðum samfélögum, eru hundar alls staðar velkomnir. í augnablikinu liggja þó nokkrir við fætur húsbænda sinna sem vökva sig í kvöldmollunni á vinsæla barnum á torginu og halda fyrir mér vöku með skrafi og hlátrasköllum. ég get svarið fyrir það, ef hundurinn minn væri hérna myndi ég líka drífa mig á barinn. jafnvel þó ég þoli ekki bari. það hlýtur að vera æðislegt að fara á barinn með hundinum sínum. við tvö. saman á barnum. hann; myndarlegasta deitið á svæðinu í smókingpresthempunni. og ég; óþekkjanleg í nýja húðlitnum og í svo góðum húmor að fólki hreinlega brygði við. geð mitt er svo gott þessa dagana að ég óttast að þetta fari illa. á versta veg jafnvel. harðar lendingar eru mér ekki með öllu framandi. ég get séð fyrir mér fall úr mikilli hæð. en ég ætla ekki að hugsa um það. ég ætla ekki að teikna upp eitthvað að falla úr mikilli hæð. ég ætla að teikna mynd af einhverju öðru. einhverju sem svífur. svífur hægt um heiðan himinn, hring eftir hring í mjúkri hreyfingu og skilur eftir sig fullkomið spírallaga form sem teygir sig skáhallt upp á við svo langt sem augað eygir, allt út að endimörkum alheimsins. ég sé þetta skýrt. mjög skýrt. ég hef mjög góða sjón.            

fimmtudagur, 25. júní 2015

fiskur í sjó. (þó með miklum elegans).

ég eldaði. einhver borðaði yfir sig. hvað get ég sagt, ég er góð í alls konar en ekki í því að elda vondan mat. hér uppi í hæðum andalúsíu hafa dagarnir tekið á sig nokkuð fast form. ég fer á fætur milli hálf átta og átta eftir vel heppnað svefnferðalag með hjálp eyrnatappa og því sem nemur nokkuð ríflega ráðlögðum dagskammti af magnesíum; fyrir utan gluggann minn (undir hverjum ég sef) er rekinn vinsæll bar, ósköp fallegur en spánverjar eru ekki fólk sem fer heim af kránni fyrir miðnætti, jafnvel ekki þó leikskólabörn séu með í för. þegar iljar snerta jörð og ég finn mig í lóðréttir stellingu, skola ég sítrónuvatninu niður á meðan heimsins sterkasta kaffi kraumar í mokunni á litlu hellunni í agnarsmáa eldhúsinu. sé sambýliskona mín vöknuð má spila sade yfir kaffidrykkjunni og morgunsíðurnar skrifaðar á meðan slitrurnar úr nóttinni týnast ein af annarri úr hárinu á mér. að því loknu er mál að hreyfa sinn búk og þakka guði fyrir að bein, sinar, vöðvar og taugar starfa eins og til er óskað (indæla enska stelpan fyrir ofan mig er ampúteruð frá vinstri mjöðm. ég er farin að þekkja fótatak hennar í stiganum. við spjöllum stundum við sólarhleðsluna á terrassinum og orðin sem hún hefur látið flúra niður eftir rifjahylkinu vinstra megin vekja aðdáun mína: never give up). um tíuleytið má því ganga að mér vísri á hlaupum eftir árbakkanum þar sem hvítir hegrarnir sitja eins og bústnir ávextir í trjánum og villikettirnir skjótast á milli runna, bláeygðir í trássi við öll náttúrulögmál. og af því jesú minn og maría (það ágæta fólk býr hér í annarri hverri götu) hugsa fyrir öllu áður en maður getur hugsað fyrir því sjálfur, datt ég niður á þann blett hér í borg þar sem svitaþolnir iðka armbeygjur og alls kyns tilfæringar undir berum himni (sumir einnig berir að ofan þó sjálf láti ég mér nægja að vera berbrystingur á þakinu heima hjá mér). og til að raska ekki því jafnvægi sem líkama og sál er nauðsynlegt borða ég dálítið af saltaðri vatnsmelónu við heimkomuna og vinn mig í gegnum jógastöður og heilnæmar teygjur áður en ég leggst við lestur og d-vítamíndrykkju á títt nefndum terras (eitt eða tvö ess ... hverjum er ekki sama). í augnablikinu les ég hina dásamlegu endurkomu maríu eftir bjarna bjarnason sem er nýji uppáhalds auk þess að glugga í ástarbréf löngu liðinni elskenda, enda ber vinnuskjalið í tölvunni bráðabirgðaheitið bréf til glataðra elskhuga ... athugið,  orðið glataðir er hér notað í merkingunni mér týndir, allt í einu áttaði ég mig á að kannski sé þetta ekki heppilegt orðalag ... en hvað um það. vinnudagurinn má ekki hefjast síðar en 13.30. þá er hitinn við það að verða brjálandi. svo ég sit og stend í kóralbleika náttkjólnum úr silkiblöndunni með alla mína eyrnalokka og fíkjuilmvatnið og graðga í mig ólívum og sólblómafræjum á meðan ég raða saman orðum til að verða sjö. ég gæti ekki logið því oft að það komi ekki fyrir að ég dreypi á hvítvíni á tímabilinu. þegar kvöldar má borða. matseld cordobabúa er til mikillar fyrirmyndar og alls ekki verðlögð á við innri líffæri á svörtum markaði (í því samhengi vil ég sérstaklega minnast á saltaðan og þurrkaðan túnfisk með ristuðum möndlum og fínt tættan hráan þorsk með húðflettum appelsínum og brenndri íberíuskinku) svo við sambýliskonan (sem er hreint afbragð án þess að um það séu höfð flóknari orð) höfum skipst á að bjóða hvor annarri út fyrir kvöldgönguna. hugsanlega er cordoba enn fegurri að kvöldi en að morgni þó ég finni þegar ég skrifa þetta að slíkt sé nánast fáránlegt að fullyrða um. en í kvöld sumsé sá ég um matseld og hlaut að launum klapp og þakkir og yfirdrifið hól ... og ljónið teygði úr sér í forsælunni undir límónutrénu, sleikti út um og malaði svo undir tók í borginni.

miðvikudagur, 17. júní 2015

„the admiration towards the loved object is infinite“ (louise bourgeois)


aldrei er jafn gott að vera fjarri heimahögum eins og á þjóðhátíðardaginn! ég frábið mér allan þennan bómullarsykur og blaktandi fána undir hirðfíflalegu hæi og hói og frámunalegri þvælu um „árdags í ljóma“; við vitum öll að undantekningalaust er ekki einu sinni hægt að notast við þann frasa sem myndlíkingu á þessum degi. af fyrirhyggjusemi þess sem lærir hægt en lærir þó hafði ég því gert viðeigandi ráðstafanir og lenti í heimabæ míns ástkæra pablo laust eftir hádegi í fyrradag. á móti mér tók það sem veðurspámaðurinn í símanum mínum kallaði sunny and mostly pleasant – persónulega þykir mér sú lýsing óþarflega hófsöm, væri ég veðurfréttaritari myndi ég í það minnsta skipta atviksorðinu mostly út fyrir eitthvað meira afgerandi, t.d. entirely and mood altering. ég get svo lifandi svarið fyrir það að hér í suðrinu vegur hugur minn ekki nema rétt því sem nemur þyngd fastandi spörfugls og taugakerfið púlsar sínum boðefnum í kórréttum takti við klapp flamencodansarans í hjarta mér. hvað fegurðin getur verið einföld og nærri! indæla gistiheimilið sem sambýliskona mín hafði útvegað okkur í blindni þessa einu nótt sem við ákváðum að eyða í malaga reyndist bókstaflega í næsta húsi við listasafn elskhuga míns. í sjálfu sér kom það mér ekki á óvart; pablo passar uppá stelpurnar sínar. ég visiteraði snemma morguns í gær og eins og á öllum okkar stefnumótum þurfti ég að strjúka handarbakinu reglulega yfir augu og kinnar á meðan ég gekk um salina þar sem undraverðu formin hans flæddu um veggina; enginn hefur nokkru sinni málað líkt og picasso! við vorum að vísu ekki ein því hann hafði boðið louise bourgeois í sangriu. það gerði ekkert til. ég fann ekki fyrir afbrýði svo um megi tala. ef einhver kemst nálægt pablo í stórfengleik þá er það louise og ég ýki ekki með nokkru móti þegar ég segi að eftir samdrykkjuna fór ég um á himnaskautunum einum saman. „love must be proved by facts and not by reason“, sagði elskan mín við mig að skilnaði og ég kinkaði kolli; mikið rétt og mundu, mundu. úr húsi pablo hraðaði ég mér svo rakleiðis á lestarstöðina – sökum hita ákvað ég að hlífa arabísku gæðingunum við löngu ferðalagi hingað uppí hæðirnar; hér í andalúsíu slær sólin laust yfir þrjátíu gráður og lofar meiru. cordoba tók á móti mér hvítkölkuð og mettuð af syndandi ró. hér liggur engum á. hér sest fólk niður og borðar matinn sinn eins og sá sem treystir því að allt sé á sínum rétta sporbaug og ekki ástæða til að skipta sér sérstaklega af því sem verða vill. spánverjar eru afbragð í viðkynningu. kurteisir á einhvern heiðarlegan og afslappaðan hátt og dásamlega lausir við slepjuganginn sem ítalir geta átt til. miguel leigusali minn er til að mynda maður af því taginu sem fær mig til að seilast eftir orðasamböndum eins og „salt jarðar“ og „klettur í hafi“. það versta sem ég get sagt um andalúsíu að svo stöddu er að í hnetupokanum sem ég keypti í gær handa okkur sambýliskonu minni voru nokkrar pistasíur sem engin leið var að opna. mér segir þó svo hugur að viðlíka vandamál geti komið upp hvar á hnettinum sem er svo ég felli þessa athugasemd samstundis út. og það er engu um það logið að hér er spilað á strengjahljóðfæri á götuhornum, þá töfragripi guðanna! um ansjósur og ólívur verður rætt síðar.  af þessu má leiða að líkast til eru áhyggjur mínar af því að ég geti aldrei skrifað ljóð framar, en sú kennd heltekur mig í hvert sinn sem ég „lýk við“ ljóð (ef hægt er að nota jafn gróft orðalag um þá fínlegu iðju), – séu með flestu ástæðulausar. í það minnsta verður engum blöðum um það flett að kona er ekki með öllu rangt plaseruð í veröldinni. 

laugardagur, 6. júní 2015

úr blámanum


ég borða kirsuber í morgunsárinu af meiri áfergju en ég hef dregið andann um nokkurt skeið, kyngi steinum og svelgist á safanum, örva meltinguna með ljóðalestri og hryggvindum, einhvers staðar vætlar úr píanói, ég hlusta, í einfaldleikanum er harmræn hamingja, ég strýk yfir gólfið og bið þess að í dag sem og aðra daga verði mér flest að sólu og daglegu brauði; að blái gimsteinninn sem ég týndi annað hvort sökkvi til botns og gleymist eða fljóti aftur upp á yfirborðið þar sem ég get teygt mig eftir honum og komið honum fyrir í auga mér, að kljúfa atóm er endalaus vinna, og hvað það er sem skiptir máli við lausn minnar eigin gátu er mér með öllu hulið