steikingin á ítalska buffinu misheppnaðist með öllu, svona fer fyrir þeim sem neitar að líma hakkið sitt saman með hvítu hveiti en reiðir sig þess í stað á fokdýrar kryddblöndur og gæðaolíur af fínustu sort, þunglyndi mitt er í epískum lægðum ( ... epískar lægðir ... eru þetta öfugmæli?), það hefur ekkert með buffsteikinguna að gera, þetta er meira í ætt við það sem kallast altækt ástand (ég var að fletta þessu upp), reyndar er svo komið að hin hefðbundna hamletska tilvistarglíma hefur vikið fyrir þeirri spurningu sem maður ætlaði aldrei að hugleiða í samhengi við sjálfan sig; „að taka geðlyf eða taka ekki geðlyf?“ – þessi vangi er eiginlega enn leiðinlegri viðureignar en þessi um að vera eða vera ekki þótt sá konflikt allur hafi á köflum alveg verið að fara með mann, og áfram liðast tíminn, dagarnir renna saman í litlausan velling hvar ég svamla af takmörkuðum áhuga og held mér í þennan þanka einan; allt liðast áfram, fyrir utan eldhúsgluggann sinna kettirnir sínum hefðbundnu eltingaleikjum, nágrannarnir hafa lagt hvern einasta auða blett í hverfinu undir hjólhýsin sín eins og ætlunin sé að starta nýrri byggð án þess að neinn þurfi að fá til þess tilskilin leyfi, litadýrð bifreiðanna á götunum er í hrópandi ósamræmi við gulgrátt grasið í bakgrunninum og strætisvagnarnir virðast nokkurn veginn ná að halda áætlun, slíkt hið sama verður ekki hermt upp á melankólísku kennslukonuna sem okkúperar minn skrokk, þeirri manneskju tekst ekki einu sinni að halda almennilega heilsufarsdagbók, hvað þá meira, þegar komið er hádegi hefur hún steingleymt hvað hún borðaði um morguninn og hvort hún hafi sofið vel eða illa þá nóttina, hvort hún hafi munað eftir sítrónuvatninu þegar hún vaknaði og d-vítamíninu með morgunverðinum og hvernig henni leið í maganum í millitíðinni, í eftirmiðdaginn man hún svo ekki hvað hún ætlaði að gera við þessar upplýsingar eða af hverju hún sé að fylgjast með tengslum daglegra athafna við líkamlegt og andlegt heilbrigði, um það eitt er ekki deilt að kona hefur staðið sig betur, hvar er guð með startkaplana þegar maður þarfnast hans hvað mest? hve lengi má ég bíða þess að sjá hann steypa sér niður úr heiðskýru ofandjúpinu með eldingarforkinn í hægri hönd um leið og hann lyftir hinni yfir höfuð sér eins og til að blessa þann sem hann beinir leiftri sínu að (ath hér ég), ég hef týnt tölu á því hversu oft ég hef útfært uppákomuna í huga mér, að öllum líkindum væri ég á leið til eða frá vinnu og alls ekki fundinum undirbúin ( ... hvenær væri maður reyndar slíkum fundi undirbúin? ... enn ein ástæðan þó til að vera alltaf í sætum nærbuxum) enda að öllum líkindum með hugann við eitthvað allt annað og meira óspennandi en raflostmeðferð í boði æðri máttar, ég stæði því sem steinrunnin undir sjónarspilinu, handtaskan með hádegismatnum og heilsufarsdagbókinni lekur niður af öxlinni og hafnar í grasinu með mjúkum dynk sem þó fer framhjá bæði sjálfri mér og hverjum þeim sem mögulega er nærstaddur því áður en ég get með nokkru móti náð utan um það sem er að eiga sér stað sendir guðdómurinn leiftrið úr hendi sér með svo undurtærum tón að honum verða ekki gerð skil nema með beinni reynslu, svo mikill hvellur, það sem lýstur mig er sömuleiðis svo handan tungumálsins að ekki verður farið nánar út í það hér heldur klippi ég beint yfir í þá senu þar sem líkamsleifar mínar sáldrast til jarðar sem glit og sætkenndur ilmur líkur þeim sem finnst af ávexti einmitt þegar hann freistar manns sem mest, ummyndunin tekur svo ekki nema sex sekúndubrot því guði hefur farið svo mikið fram á þessari eilífð frá því hann skóp heiminn í fyrsta sinn og manninn í kjölfarið, ég klöngrast á fætur og horfi á fæturnar á mér eins og sjóndapur maður sem setur upp gleraugu í fyrsta sinn ... svo eitthvað, verk í vinnslu