hóstakjöltur og klofnar neglur, festin sem að jafnaði heldur jesú um hálsinn á mér slitnaði í morgun, það er eins og ég tolli eitthvað illa saman ... suma daga fer ég hvorki úr skóm né yfirhöfn þegar ég kem heim, eins og ég ætli mér bara að stoppa stutt, rétt að líta við áður en ég held áfram þangað sem för minni sé raunverulega heitið, set svo í þvottavél og þurrkara og vökva blómin, geng frá leirtaui og nasla eitthvað, kappklædd, hundinum þykja þessi tvöföldu skilaboð bæði óskiljanleg og óþægileg, ertu að koma eða fara? dreggjar marsmánaðar seytla ofan í gegnsósa grasbletti og mína gljúpu sál og mig langar burt, væri ég fleygur fugl, flygi til ... stundum hugleiði ég að taka mér elskhuga eins og djörf kvenpersóna í franskri skáldsögu en kem því aldrei almennilega í verk, ég kann ekkert á þess háttar, væri ég fleygur fugl væri ég bókfinka, þær velja sér aðeins einn maka
laugardagur, 21. mars 2015
laugardagur, 14. mars 2015
í millitíðinni
einn daginn mun ég einnig eiga túrkísbláa útidyrahurð á bleikum vegg, þetta er aðeins spursmál um einhverja mánuði, kannski örfá ár, guð vill að ég geri eitthvað smotterí í millitíðinni en svo búmm! ... einn daginn, í dag aftur á móti hefur geysað óveður, á morgun mun sömuleiðis geysa óveður, í millitíðinni horfi ég út um gluggann og sendi þessi öllu fingurinn, opnaði flösku af frönsku rauðvíni upp úr fjögur og heilvaxaði, hvað maður er alltaf sem nýr eftir heilvax! eftir að tappinn fór úr flöskunni skoluðust plönin svo kannski aðeins til, ég hafði hugsað mér að sækja þýska kvikmyndadaga núna klukkan átta en ákvað að betra væri að vinna áfram í franska rauðvíninu og elda lambafille með sveppum og blaðlauk í sítrónu og hvítlauk handa engum nema sjálfri mér, mun ekki reyna að neita því oft í röð að ég stundi mikið við átið, klikkaði vitaskuld ekki á að setja á mig maskara og dálítið af himnesku fíkjuilmolíunni áður en borðhaldið hófst þó ég sé ein heima og enginn til að taka eftir því að ég sé bæði mjög sæt í dag og angi auk þess eins og forboðinn ávöxtur, það er allt í lagi, dylan og duke og van eru til skiptis í spilaranum svo ég er ekki án vitna, það er einhver andvökuandi í mér þessar næturnar, þetta er orðið verulega spennandi á kvöldin þegar ég fer uppí, stundvíslega klukkan tíu; skyldi ég sofa í nótt? hugsanlega má ég ekki fá mér rauðvínsglas yfir eldamennskunni, hugsanlega er það að gera rúmrusk þarna milli þrjú og fjögur, en suss suss og þey þey, um slíkt viljum við hvorki tala né hugsa, ekki með flösku af úrvals frönsku rauðvíni á borðinu og van að syngja alls kyns loforð um nýjan dag og nýja von, hugsum þá frekar um túrkísbláar hurðar á bleikum vegg, hver veit hvert slík hurð liggur, ef þá ekki inn í nýjan dag og nýja von
laugardagur, 7. mars 2015
úr dagbókarfærslum einfarans
„ ... út um gluggann á kaffihúsinu fylgist ég með fjölskyldufólki á leið upp og niður skólavörðustíginn, hjón með barnakerrur og litlar manneskjur í pollagöllum í eftirdragi, ég segi í eftirdragi af því ég get ekki hugsað mér þetta barnalíf, frelsisskepnan í mér berst um eins og tjóðrað villidýr við tilhugsunina, fyrir aftan mig situr par af þessari sort, konuna kannaðist ég við í gamladaga þegar við vorum menntaskólastjúpids, hún er með börnin sín þrjú með sér, einu sinni var hún svo mikil skvísa að maður varð eins og klessumynd í rigningu við hliðina á henni, núna er hún þreytt og reytt og fær lítinn frið til að drekka kaffið sitt, ég drekk piparmyntuteið mitt og finn að tíu villtir hestar geta ekki dregið mig á þennan stað ... “
frelsifrelsifrelsi, ég þrái ekkert eins heitt og frelsi, þetta andskotans náttúruafl sem djöflast í sálinni á mér og spyr stöðugt: erþettaþaðsemþúþráirerþettaþaðsemþúþráirerþettaþaðsemþúþráir ... tíminn vinnur ekki með mér, tíminn er núna, núnanúnanúna, það má bara nota hann í það sem skiptir máli, ég hef ekkert skrifað sem máli skiptir í fimm mánuði, fimm mánuði! á þessum tíma hef ég gert ýmislegt annað sem ég man ekki einu sinni hvað er! hvað er að mér!?
sunnudagur, 1. mars 2015
af meintum húsnæðismálum hins heimilislausa
engum sem hættir sér til að visítera heimili systur minnar og mágs ( ... sem er reyndar ekki nokkur sála þegar ég hugsa út í það, efalaust hefur það eitthvað með mig að gera) getur dulist það að tengsl mín við fasteign númer 21 á efri hæð til hægri að tröllateig í mosfellsbæ eru farin að valda skráðum eigendum eignarinnar töluverðum óþægindum, orð eins og mara gætu jafnvel flögrað að fólki, það sem í upphafi átti að vera örstutt stopp í aukaherberginu ásamt engu nema leslampa og jú ókei, einhverjum ósköpum af fataleppum – ástæðulaust að klæða sig eins og heimilisleysingi þó tæknilega teljist maður til þess auma samfélagshóps – hefur nú (fleiri árum síðar en ég kæri mig um að gera opinbert) breyst í hústökumál af svæsnustu sort, illa duldu með alls kyns yfirbreiðslum um að „ég sé svo dugleg að moppa gólfið“ (hið rétta er að umrætt gólf er eilíflega þakið hárum af mínum eigin hundi auk þess sem það stórsér á því eftir ágang okkar ferfættlingsins) og „svo dugleg að elda alltaf líka“ (sem ég og geri við og við, þó ekki öðruvísi en þannig að ég þröngvi mínu eigin sérviskulega mataræði uppá ábúendur sem spyrja sig í örvæntingu hversu mikinn fisk til viðbótar ein hjón geti afborið) og „það sé alltaf allt svo fínt og strokið“ (getur verið en á móti kemur að bæði þvottavél og þurrkari hafa verið að gefa sig og uppþvottvélin líka að mig minnir ... hugsið ykkur, að mig minnir ... hvað ég er samviskulaust samviskulaus!), en þetta er þó aðeins smælkið í þeirri svindlarasúpu sem mér hefur tekist að malla óáreitt og beinlínis við töluverðar vinsældir hér á heimilinu því í dag er staðan sú að fólk þarf hreinlega að búa yfir allnokkurri hreyfileikni til að komast á milli herbergja sökum alls mögulegs mublukyns sem ég hef sankað að mér á leigutímanum (farið ekki á mis við íroníuna sem skáletrunin á að undirstrika), má þar nefna borðstofusett og sófa og er þá fjarri að allt sé upptalið, athugið að innkaupin hafa ekki verið gerð til að mæta neinni knýjandi þörf eða skorti á innanstokksmunum né neinu viðlíka, eigendurnir að fasteign númer 21 við tröllateig í mosfellsbæ eiga alveg sín eigin húsgögn, mér hefur sjálfri bara þótt svo upplagt að nýta mér tilboð og útsölur og þess háttar sniðugheit til að byrgja mig upp skyldi mér einhvern tíman detta til hugar að hypja mig „að heiman“ (orðalag mitt), það merkilega í málinu er að þolendunum sjálfum, altsvo systur minni og mági (bæði tvö í hópi þess óheppna fólks sem kallast greiðvikið að upplagi) virðist fúlasta alvara þegar þau impra á því í mín eyru og annarra hvað þau séu lánsöm í sambúðinni við nýlenduherrann mig, næstum eins og þau séu þakklát, þetta er sláandi, það er engu líkara en að hin lymskulega yfirtaka mín á heimilinu hafi farið fram með einhverjum undurfurðulega ísmeygilegum hætti – svo ísmeygilegum reyndar að mér sjálfri er eiginlega ógerningur að skilja almennilega hvernig ég fór að – sem leiddi til þess að hægt og hljótt veiktust „varnir heimilisins“ ein af annarri án þess að nokkur maður gerði sér grein fyrir hvers kyns var eða hvað mér gekk til, líkt og ég hafi laumað gasslöngu inn um svefnherbergisgluggann en haft streymið svo veikt að áhrifanna varð ekki vart nema þegar allt var um seinan og „barnið“ – sem hér eru hjón á fimmtugsaldri – löngu sokkið til botns í sínum eigin innsta brunni, sjálf varð ég eins og ég segi einskis vör, þetta virðist vera einhver ótrúlega eðlislægur hæfilæki hjá mér (natural talent) að sölsa svona undir mig yfirráðasvæði þannig að fólki finnist það hreinlega hafa dottið í einhvern raretí lukkupott og megi prísa sig sælt með allt heila geimið, hvað þetta er furðulegt!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)