á föstudagskvöldi í febrúar geysar ofsafengið hvassviðri, kona slysast til að kveikja á ríkisútvarpinu þar sem verið er að leika (líkt og fyrir tilviljun) ofsafengna píanókonserta, í ofanálag hefur hún drukkið – af því maður vill segja satt og rétt frá – eitt og hálft rauðvínsglas, hundurinn sefur (til tilbreytingar), útifyrir fyllast hjólför bílanna af krapkenndri vætu og slyddan á gluggarúðunum býr til bjagaða mynd af því sem fyrir augu ber, myndina ætti maður að geta teiknað upp í huganum eftir minni en það er merkilegt hvað hlutirnir eru fljótir að skolast til í höfðinu á manni, og hvað liggur beint við á slíkum stundum annað en miskunnarlaus naflaskoðun? helsti ókostur einverunnar (sem annars er hinn besti ferðafélagi) eru óþægilegar spurningar – sem kalla þá um leið á óþægileg svör, umhugsunarefni kvöldsins eru dreggjar þess sem kyndað var undir á morgungöngu okkar hundsins undir úlfarsfellinu en undirspil þeirrar ferðar var hugvekja um hlutverk ástarinnar í lífi nútímafólks, mér telst svo til að ég sé þetta nútímafólk þó ég finni mig illa í samtíma mínum, öll umræða um þetta skelfingarfyrirbæri ástina koma mér vægast sagt úr jafnvægi, mér er ekkert um svona tal, það tengir svo beint inn í óttann, og hvað óttast maður? margt, margt, margt og mikið og margvíslegt, kannski mest af öllu öskurapann sem í betri teboðum bæjarins kallast eigið egó, maður óttast fölskvalausa frekjuna á tíma sinn og frelsi, kröfuna um ógnarlanga ól (ef þá einhverja yfir höfuð), alla sína undarlegu og hvimleiðu sérviskur og duttlunga og þörfina fyrir einveru sem satt að segja getur gert venjulegt og vel meinandi fólk í meira lagi ringlað og óöruggt, maður óttast eigin komplexa (sem eru margir og ömurlegir) sem og hina mannlegu tilhneigingu til að klína þeim á þann sem næst manni stendur af þeirri ástæðu einni að í návígi við annað fólk verður einhvern veginn nærtækast að fría sig ábyrgði á því sem – að manns eigin mati – er að fara forgörðum í tilverunni, og herra minn hvað maður er skítlogandi (mér er skítsama hvort það er eitt eða tvö orð) hræddur við nándina, bara orðið eitt er nóg til að það sjái undir iljarnar á mér, kannski er þetta árstíðarbundið, ég veit það ekki, ég er dálítið afgerandi þegar það kemur að árstíðunum enda er ég sólarraflhlaða, ég bendi til að mynda fólki meinfýsislega á það við hvert tækifæri að sama hversu bjargfastlega einhverjir vilji halda í þá tálsýna að það sé kominn febrúar (og þar af leiðandi sé þetta allt að mjakast) þá sé staðreyndin nú samt sem áður sú að það sé bara annar í janúar og að mér af vitandi sé það ekkert til að halda uppá í sjálfu sér, ekki sérlega uppbyggilegt kannski en í það minnsta viðleitni til að vera raunsær ... jafn lygilega úr karakter og það hljómar, þó er ég ekki frá því að ég sé öll örlítið hressari, sjálfsagt vegna þess að barnið mitt á afmæli í lok febrúar og engin leið að bera blak af því að hún er vorboðinn í lífi mínu, ár eftir ár, ég undra mig á því á hverjum degi að mér hafi tekist að ala upp svona vel heppnaða manneskju, jafn hjartahlýja og djúpvitra og fulla af samhyggð og skilningi og vilja og trú, og síðast en ekki síst jafn miskunnarlaust gagnrýna á mig; móður sína, það var ákveðið markmið í uppeldinu að skapa á milli okkar samband laust við meðvirkni og sektarkennd og í sem stystu máli virðist það hafa tekist fullkomlega (klapp fyrir það, kona!), enginn er mér jafn fölskvalaus spegill, ég þakka fyrir hana á hverjum degi og segi sjálfri mér að ég hafi í það minnsta gert eitt rétt í lífinu, það er huggun þegar maður hefur með öllu misst trúna á ástina, eða öllu heldur á sjálfan sig í ástinni af því maður er svo glataður í þeim paktsís öllum saman, sem betur fer reynir ekkert á þetta, það reynir enginn við konu sem hefur komið fyrir skilti á lóðinni sinni með áletruninni trespassers will be shot, og það er fínt, maður slasar þá engan á meðan