föstudagur, 27. júní 2014

úr blámanum

hér tifar tíminn, og ýmist gerist eitthvað eða það gerist ekki neitt, og þegar eitthvað gerist gerist það svo hratt að minnstu munar að það fari framhjá mér og ég er jafnvel ekki vel viss um hvort það hafi yfir höfuð gerst, til að mynda er í pósthólfinu mínu farmiði til parísar sem lenti þar með svo skjótum og undurfurðulegum hætti að ég hef engan veginn náð að tengja veru hans þar við hugmyndina um líkamsveru mína í parís, til parísar hef ég nokkrum sinnum komið í draumi en aldrei í vökulífinu, núna veit ég ekki hvort mig nátt- eða dagdreymir

en sumar nætur er manni heldur ekki svefnvært fyrir himninum