sunnudagur, 30. nóvember 2014

fyrsta ritúal - hreyfingu komið á geómetríuna

opna dyr
 leggja við hlustir
fyllast forvitni
trúa
eigin augum

sunnudagur, 16. nóvember 2014

sambandsleysi algjört (skyggnilýsing þess fjarstadda)

ellefti tunglmánuður og vorið hefur tekið sig upp með svo einbeittum mótþróa að það getur ekki talist neitt minna en aðdáunarvert, ég sit á hækjum mér í hlíðum úlfarsfells og pissa á kolsvört, þrýstin krækiber undir vökulum augum hundsins og horfi yfir í átt að upplýstu helgafellinu; eina blett sveitarinnar sem lághangandi* morgunsólin nær til í augnablikinu, eitthvað í þöglum samskiptum okkar ferðafélagans vekur með mér sektarkennd yfir því að vera að pissa á fullkomlega fín krækiber sem sjálfsagt mætti týna og setja í blandara ásamt kókosmjólk og möndlum þegar heim er komið (þessi innkoma blandarans virkar mjög órómantískt stílbrot og á skjön við senuna eins og hún leggur sig en ég læt þetta standa eins og er), ég gæti meira að segja hæglega komið berjunum fyrir í litla pokanum í úlpuvasanum þar sem ég geymi lifrapylsubita vinar míns þannig að ég hef mér nákvæmlega ekkert til málsbóta, mér finnst eitthvað leiðinlegt við þetta, ég kemst ekki undan þeirri tilfinningu að ég sé einhvern veginn lent óþægilega uppá kant við sjálfa mig og hafi verið „gripin með allt niðrum mig“ þarna í hlíðinni, gönguskórnir sökkva ofan í raka moldina þegar ég hisja upp um mig ullarbrókina og á meðan ég laga peysuna sem hefur dregist upp um mig undir úlpunni við pissustoppið verður þetta litla atvik að risavöxnu tákni í huga mínum fyrir þá undarlegu fjarlægð sem myndast hefur milli manns og náttúru; væru þessi sömu ber til sölu fyrir töluvert fé útí næstu búð myndi mér aldrei detta til hugar að pissa á þau, þess í stað myndi ég taka upp greiðslukortið (það magnaða vopn) og beita því eftir bestu getu, hafa svo berin með heim og reyna að muna eftir að borða þau fyrir síðasta neysludag, ég stika upp í móti yfir mosabreiður og lausamöl, hundurinn hleypur um í því sem virðist stefnulaust ráf þó ég viti vel að hegðun hunda er sjaldnast tilviljanakenndari en mannfólks, ef eitthvað er er því einmitt öfugt farið, þetta gæti næstum verið upphafssenan í sjálfstæðu fólki nema hundurinn er ekki sullaveikur og ég er ekki alveg jafnmikið viðrini og söguhetja þeirrar bókar (þó nærri stappi), allt í kringum mig flögra ósýnilegar bylgjur sem hafna í eyrum mínum sem rödd útvarpsmannsins e.g. og tveggja viðmælenda hans, umræðuefnið er nýjustu verk höfundarins g.e. en hann er einmitt einn af mínum uppáhalds og ég gleymi fljótlega þessum leiðindum í sambandi við krækiberin, e.g. og viðmælendur hans klappa saman lófum yfir magískum skáldskap g.e. enda er það mál manna að enginn höfundur sé betur skrifandi á íslenska tungu í dag, svakalega fínt stöff segir e.g. sem bullar aldrei, g.e. lengi lifi! og ég gleðst þarna í fjallshlíðinni yfir því að í mínum háværa og félagslynda samtíma skuli einhver geta skrifað merkingarbært um einveruna og það sem spekúlantarnir í útvarpinu skilgreina sem „þá hættu sem sköpunarferlinu stafar af mannlegri nánd“ og fái fyrir það lof og prís, við örkum síðasta spölinn upp á topp og göngum einn hring í kringum kofaskriflið sem þar stendur og ég veit ekki hvað hýsir – og hef svo sem engan sérstakan áhuga á vita nein nánari deili á, hringferðin er meira til að taka aðeins inn útsýnið – sem reyndar er að mestu hulið mystri svo maður verður að geta í eyðurnar – en líka til að forðast þennan sýsifosarfíling sem grípur mann svo gjarnan þegar maður klífur fjall til þess eins að ganga beint niður það aftur, líkast til myndi ég aldrei gera neitt svipað ef ekki væri fyrir félagsskap hundsins og raddanna í útvarpinu sem eru nógu fjarlægar til að vera mátulega nærri, ullarfötin eru blaut af svita og ég tek af mér húfuna, ég er alltof mikið klædd fyrir vorveðrið, ég skil ekki hvernig hundurinn þolir við í þessum tvöfalda feldi sem hann gengur í allt árið um kring hvort sem honum líkar betur eða verr, ég sé mér til ergelsis og pirru móta fyrir tveimur manneskjum í hlíðinni fyrir neðan mig og kalla á hundinn að koma áður en ég byrja að feta mig til baka niður hlíðina, þó leiðin niður á við sé óneitanlega auðveldari en gangan upp og sækist manni jafnframt hraðar er hún að sama skapi alltaf einhvern veginn leiðinlegri, meira að segja þó maður sé ekki með neinn stein, ólíkt sýsifosi sem hlýtur alltaf að hafa verið mjög órólegur á niðurleiðinni með steininn á fullri fart fyrir framan sig og kannski einhverjar mannaferðir í fjallinu eins núna, þó maður geti átt það á hættu að fá grjótið yfir sig á uppleiðinni er það alltaf verri tilhugsun að aðrir verði undir því þegar það veltur frá manni niður snarbratta hlíðina ... og enn eys ég vatni á myllu einverunnar

*hér spreyti ég mig á nýyrðasmíð í tilefni dags íslenskrar tungu, það er á allra ábyrgð að halda tungumálinu á lífi, jónas er löngu hættur störfum

sunnudagur, 2. nóvember 2014

hökt með hænum

einhver pinterest vinur minn er með myndaborð sem ber yfirheitið decorating with dinosaurs, á einhvern ójósan hátt varð það kveikjan að titli þessarar færslu þó orsakatengslin séu mér að mestu hulin, fyrir utan hið augljósa; að hænur og risaeðlur eru hvoru tveggja dýr með ólögulega fótleggi og furðuleg hlutföll í skrokknum, hér er allt í vanagangi, sem er einhver versta gangtegund sem hægt er að hugsa sér, hún færir mann kannski nokkuð örugglega á milli staða en aðeins til að fullvissa mann um að það muni ekki færa manni neitt nýtt, maður stjáklar þetta sinnulaus undir síbylju daganna og telur sér trú um að allt færist nær um síðir þegar staðreyndin er sú að mann rekur jöfnum höndum frá þeim stað sem maður upphaflega stefndi að, ég er að hugsa um að hafa þetta stutta færslu, ekki endilega vegna þess að hún spratt út frá því sem virðast – í það minnsta við fyrstu sýn þó maður verði alltaf að hafa hugfast að undirmeðvitundin starfar ekki tilviljanakennt – merkingarlausum hugrenningartengslum heldur meira vegna þess að á heildina litið er ég frámunalega leiðinleg, dóttir mín hefur bent mér á að ég þurfi nauðsynlega að „vinna í viðhorfinu“, dóttir mín er á níræðisaldri, annað hvort það eða hún sækir dale carnegie námskeið á laun og les undirstöðurit jákvæðrar sálfræði á kvöldin eftir að ég er sofnuð út frá murakami, murakami er dásamlegur, og þá á ég ekki við sem svefnmeðal, hann svæfir mig ekki vegna þess að hann sé bróðir minn í leiðindum, hreint ekki, colorless tsukuru tazaki and his years of pilgrimage er með skemmtilegasta móti, ég er bara alltaf svo þreytt, eru allir alltaf svona þreyttir? telst það eðlilegt? ef ég gæti óskað mér hvers sem er myndi ég óska þess að geta hugsað eina bærilega heildstæða hugsun og komist í gegnum tíu mínútna hugleiðslu án þess að upplifa það beinlínis sem líkamlegt erfiði, ég viðurkenni að hafa velt fyrir mér þeim möguleika að versla mér rítalín á svörtum markaði, auðvitað ekki af neinni alvöru samt, og já, ég skammast mín fyrir ábyrgðarleysið, það stóð aldrei til að gera neina alvöru úr þessu, ég þarf bara að komast eitthvað í burtu og ná að haga mér eins og skrifandi manneskja, ég kaupi mér mikið af pennum þessa dagana, það segir sitt, því miður eru þeir mest brúkaði við yfirferð prófa, murakami er ekki að brúka sína penna við neitt svipað, murakami vaknar víst alltaf klukkan fjögur og fer út að hlaupa, svo sest hann við skriftir, stundum borðar hann og klukkan níu er hann farinn í háttinn, þetta virðist gera sig ágætlega, japanskur einfaldleiki í bland við sjáflsaga samúræjans, ég veit ekki hvort hann á hund en ég er nokkuð pottþétt á að hann eigi ekki hænur, já, ég er eiginlega alveg með það á hreinu að hann eigi ekki eina einustu hænu