einhver pinterest vinur minn er með myndaborð sem ber yfirheitið decorating with dinosaurs, á einhvern ójósan hátt varð það kveikjan að titli þessarar færslu þó orsakatengslin séu mér að mestu hulin, fyrir utan hið augljósa; að hænur og risaeðlur eru hvoru tveggja dýr með ólögulega fótleggi og furðuleg hlutföll í skrokknum, hér er allt í vanagangi, sem er einhver versta gangtegund sem hægt er að hugsa sér, hún færir mann kannski nokkuð örugglega á milli staða en aðeins til að fullvissa mann um að það muni ekki færa manni neitt nýtt, maður stjáklar þetta sinnulaus undir síbylju daganna og telur sér trú um að allt færist nær um síðir þegar staðreyndin er sú að mann rekur jöfnum höndum frá þeim stað sem maður upphaflega stefndi að, ég er að hugsa um að hafa þetta stutta færslu, ekki endilega vegna þess að hún spratt út frá því sem virðast – í það minnsta við fyrstu sýn þó maður verði alltaf að hafa hugfast að undirmeðvitundin starfar ekki tilviljanakennt – merkingarlausum hugrenningartengslum heldur meira vegna þess að á heildina litið er ég frámunalega leiðinleg, dóttir mín hefur bent mér á að ég þurfi nauðsynlega að „vinna í viðhorfinu“, dóttir mín er á níræðisaldri, annað hvort það eða hún sækir dale carnegie námskeið á laun og les undirstöðurit jákvæðrar sálfræði á kvöldin eftir að ég er sofnuð út frá murakami, murakami er dásamlegur, og þá á ég ekki við sem svefnmeðal, hann svæfir mig ekki vegna þess að hann sé bróðir minn í leiðindum, hreint ekki, colorless tsukuru tazaki and his years of pilgrimage er með skemmtilegasta móti, ég er bara alltaf svo þreytt, eru allir alltaf svona þreyttir? telst það eðlilegt? ef ég gæti óskað mér hvers sem er myndi ég óska þess að geta hugsað eina bærilega heildstæða hugsun og komist í gegnum tíu mínútna hugleiðslu án þess að upplifa það beinlínis sem líkamlegt erfiði, ég viðurkenni að hafa velt fyrir mér þeim möguleika að versla mér rítalín á svörtum markaði, auðvitað ekki af neinni alvöru samt, og já, ég skammast mín fyrir ábyrgðarleysið, það stóð aldrei til að gera neina alvöru úr þessu, ég þarf bara að komast eitthvað í burtu og ná að haga mér eins og skrifandi manneskja, ég kaupi mér mikið af pennum þessa dagana, það segir sitt, því miður eru þeir mest brúkaði við yfirferð prófa, murakami er ekki að brúka sína penna við neitt svipað, murakami vaknar víst alltaf klukkan fjögur og fer út að hlaupa, svo sest hann við skriftir, stundum borðar hann og klukkan níu er hann farinn í háttinn, þetta virðist gera sig ágætlega, japanskur einfaldleiki í bland við sjáflsaga samúræjans, ég veit ekki hvort hann á hund en ég er nokkuð pottþétt á að hann eigi ekki hænur, já, ég er eiginlega alveg með það á hreinu að hann eigi ekki eina einustu hænu