þarna er hann, glugginn minn í parís, ég er hrifin af þykkum veggjum, bak við slíka veggi má bardúsa margt sniðugt og skemmtilegt, um veru mína í parís hef ég það eitt að segja að allir finna jú að endingu sinn heimabæ, það hlýtur að skrifast á einhvers konar skipulagsklúður í kosmosinu að mér hafi ekki verið holað þarna niður strax í upphafi, borg sem bannar stórmarkaði! og svo deila menn um staðsetningu edingarðsins! mér gengur illa að halda dampi eftir heimkomuna, sjálfsagt á andinn enn eftir að skila sér að fullu aftur í líkamann, reikar líkast til um stræti og garða parísarborgar og stingur sér öðru hvoru inní súkkulaðibúð eða sest inná gott brasserí og pantar egg með krydduðu majónesi og glas af kampavíni með, maður á aldrei að drekka neitt nema kampavín með mat, annað er kjánaskapur, íslendingar virðast ekki átta sig á þesu, svona geta hlutirnir skolast til í höfðinu á fólki þegar það er umkringt bónusbúllum og sjoppum og bauhausauglýsingum og almennum viðrinisma, ljótleikinn er slyng skepna, hann drepur okkur ekki í einu vetfangi heldur gerir það hægt og bítandi, svo maður taki síður eftir því