sunnudagur, 27. apríl 2014

það komu páskar


og það fór ekki framhjá mér, en þó ég sé ekki upprisin er ég ekki án vonar, alls ekki, ég er einmitt á því að það vori, því til sönnunar skarta ég skarlatsrauðu baki eftir að hafa legið of lengi á maganum á sundlaugarbakkanum og lesið fyrir próf í ítölskum kvennabókmenntum, og sjálfsagt hef ég verpt einhverjum eggjum hér og þar þó ég virðist ekki hafa haft rænu á að punkta hjá mér hvar þau liggi, sem er kannski ekki nógu gott, sjálfsagt klekjast þau hraðar út ef maður liggur á þeim, ég á í örmagnandi innri baráttu, upp hefur komið sú hugmynd að ég gefi út bók með lýrískum smáprósum á afmælisdaginn minn, ýmist þykir mér þetta frábær hugmynd eða fullkomlega ömurleg, ekkert þar á milli, í sjálfu sér finnst mér allt í lagi að hugsa til þess að prenta einhver orð á pappír, málið flækist þegar ég leiði að því hugann að koma pappírnum á framfæri, í hendurnar á öðru fólki og lesa svo kannski upp þau orð sem á honum standa fyrir gesti og gangandi, þá liggur mér satt að segja við uppsölum, ýmislegt orkar líka mjög letjandi í þessu samhengi, til dæmis að lesa heimsljós, þá fer maður að hugsa um að henda tölvunni sinni, allt hangir á því að finna til elsku gagnvart sjálfum sér, því miður þykir mér það einmitt nánast ógerningur, æjæjæj

til minnis (því þessu klikkar maður ítrekað á):

sá sem ekki elskar þekkir ekki guð, því guð er kærleikur
og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í guði

og hér veltur allt og rúllar

laugardagur, 12. apríl 2014

enn af mínum æsilegu laugardögum

í annað skiptið á neyðarlega stuttum tíma hef ég neyðst til að éta það ofan í mig að sögulegur skáldskapur sé það leiðinlegasta sem hægt sé að hugsa sér, að fyrirskipan kennara míns hef ég eytt deginum í að lesa sigrún og friðgeir, ferðasaga og haft af því ekki bara gaman heldur (guð minn góður) töluvert gagn, nýlega las ég sömuleiðis kafla úr ragnari í smára og upplifði eitthvað viðlíka, er þetta til marks um að ég sé að eldast? verð ég dottin í ævisögurnar áður en ég veit af? það yrði nú eitthvað, svona fer fyrir manni þegar maður er allur í gífuryrðunum, nýlega gaspraði ég um það hvar sem ég kom að ljóð séu það eina sem taki því að lesa, flest annað sé drasl, svona getur maður verið yfirlýsingaglaður, í vikunni sem leið hreiðraði ég einmitt um mig á gólfinu í horni einnar af stærri bókabúðum bæjarins og las fyrstu síðurnar í afmælisbréfum ted hughes (ljóðabálki sem hann skrifaði um hjónaband þeirra sylviu minnar plath) af álíka áfergju og fólk með mikinn áhuga á slúðri les séð og heyrt eða national enquirer, ég er ekki yfir það hafin að næra mínar lágkúrulegustu hvatir, samt keypti ég ekki bókina en lét mig hafa það að skíta gallabuxurnar mínar út á rassinum og hnjánum af því ég er að sýna sjálfri mér og öðrum hvað ég sé fjárhagslega stabíl manneskja með einbeittan sjálfsaga, ég veit ekki hvað ég held þetta lengi út, að sumu leyti get ég nefninlega verið mjög raunsæ


. . . líf mitt er svo sannarlega mun meira spennandi en almennt gengur og gerist, þess vegna skrifa ég blogg, öðru eins lífshlaupi verður að deila með þeim sem ekki eru jafn lánsamir, þetta er sögulegur skáldskapur par excellence, og í þokkabót í beinni, ekki er það smátt

föstudagur, 11. apríl 2014

eitthvað tifar enn


klukkan er hálfþrjú … hvernig má það vera? klukkan var alls ekki hálfþrjú fyrir andartaki, hún var ellefu, ég er nánast viss um að ég hafi hvorki misst meðvitund né dottað fram á eldhúsborðið, ég bara skrifaði nokkrar línur í hugleiðingabókina mína, borðaði saltfisk á spænska vísu með spergilkáli í sítrónu og hvítlauk, snéri mér svo við og þessir klukkutímar höfðu horfið úr lífi mínu með dularfullum hætti, í síðustu viku var ég búin að ákveða að ég gæti ekki haldið þessu áfram, lífinu það er að segja, ég skuldaði kennurum mínum einhver verkefni og ritstjóranum mínum heilan helling af orðum og fannst ég satt að segja ekki getað sinnt neinu af þessu því ég er gríðarlega upptekin prívat og persónulega við að skrifa um þetta sem gerist og skiptir máli, það þyrmdi yfir mig, ég gat bara alls ekki séð að mér væri fært að gera nokkuð af því sem ætlast var til af mér, eðlilegast þótti mér því að leggjast niður – svo gott sem þar sem ég stóð – og gera ekki neitt, bíða einfaldlega eftir því að tíminn hæfi sig á brott og hefði líf mitt með sér, svo jafnaði þetta sig einhvern veginn, að hluta til af því ég ákvað að ég skuldi kennurum mínum ekki rass í bala, aðeins sjálfri mér, og þar sem ég er tiltöllulega sveigjanleg og alminnileg manneskja gaf ég það út að ég væri alveg til í að lána mér þessi verkefni aðeins áfram, ég skilaði  ritstjóranum svo þessum orðum og hlaut í verðlaun indverskt nudd af bestu sort hjá honum shiva sem er pínulítill maður með mjög sterkar hendur, „this treatment will clean you inside and outside“ sagði hann, fínt fínt og í guðs bænum hugsaði ég og lagðist á bekkinn, shiva hellti einhverjum ósköpum af heitri olíu yfir mig og nuddaði og nuddaði, ég fann fljótt að maðurinn vissi hvað hann var að gera því hann hóf samstundis að hamast við að nudda mína helaumu rassvöðva  og vinstri öxlina sem er öll úr lagi eftir skakkar skriftarsetur og asnalegar svefnstellingar, svo sinnti hann öðrum líkamshlutum af álíka kostgæfni og gleymdi hvorki kjúkubeinunum né svæðunum á milli tánna, að því loknu náði hann sér í funheita taupoka stútfulla af olíubleyttum lækningajurtum og lamdi mig sundur og saman með þeim, nuddaði svo meir, líka andlitið og inní eyrun, á indlandi er greinilega hugsað heildrænt um líkamann, allt var þetta gott og geðbætandi, ég gekk út sem bráðið smér, en hin raunverulega frelsun kom næsta dag þegar ég brá mér í kvikmyndahús, geti maður treyst á eitthvað í þessari veröld til að lyfta sálinni á hærra plan er það herramaður nick cave og hafir þú ekki komið því í verk að bregða þér í bíó paradís og sjá heimildarmyndina um hann skaltu drífa í því hið fyrsta, ég gekk í loftinu út úr salnum, yfirkomin af innspírasjón og ástríðu, hvar væri maður ef ekki væri fyrir tónlist? á vitlausraspítalanum held ég hreinlega