föstudagur, 28. mars 2014

mér færist iðulega of mikið í fang

jógakennarinn minn hvetur mig til að nota höfuðstöðurnar meira, það sé manni hollt að horfa á heiminn á hvolfi, að skipta um sjónarhorn, minn höfuðverkur er reyndar yfirleitt sá að finnast sjónarhornin of mörg, að vera alltaf að rembast við að ná öllu inní myndina, sjá hana frá öllum mögulegum sjónarhornum, líka að ofan, eins og guð, hljómar þetta ekki eins og hin fullkomna uppskrift að mistökum og vanlíðan

sunnudagur, 23. mars 2014

be quiet and tear the thorn from your heart (sagði einhver einhvern tímann)

nú hef ég sveipað mig mínu ullarsjali og hitað mitt svarta kaffi, strokið gólf og starað á veggi, mín innri ró er engin, ég íhuga að fara í messu en óttast að það yrði til einskis, æðruleysið skilst mér að þurfi að iðka, ekki bara biðja um það, það suðar í höfðinu á mér og enn einn daginn í röð klæðist ég eingöngu svörtu til að fækka ákvörðunum, ég held mig til hlés, ég er ekki á austurvelli, hugurinn er minn austurvöllur og ég mótmæli sjálfri mér: hví ferst þér jafn illa og raun ber vitni að ganga eigin erinda? að taka þér pláss í veröldinni? (er pláss ljótasta orð íslenskunnar?), dag eftir dag þvælist ég um göturnar með tölvuna mína í töskunni, blýþunga af orðum sem ég sannfæri sjálfa mig um að eigi hvergi heima nema þar sem þau þegar eru, þ.e. inní tölvunni minni og ofan í töskunni minni, úr þessu geri ég stórmál, sjálfsagt meira en efni standa til, þannig er það gjarnan með það sem manni þykir skipta máli, og ég nenni alls ekki að skrifa um annað en það sem skiptir mig máli, get það bara ekki

laugardagur, 8. mars 2014

laugardagskvöld

og diskókúlan er víðsfjarri, víðsfjarri, ég hugsa ekki einu sinni um hana, svo um hvað hugsar þrjátíuogátta ára gömul einstæð móðir á laugardagskvöldi eftir gufubað og heilvax og eldamennsku og eitt og hálft rauðvínsglas; aðallega eitthvað á þá leið að það væri nú agalega leiðinlegt að takast aldrei að skrifa neitt af viti, skrif ganga illa og efinn er mig lifandi að éta, eitthvað það mest óþolandi ástand sem hægt er að hugsa sér er að hafa ekki hugmynd um hvað maður ætli að skrifa en gera sér um leið fyllilega grein fyrir því að vera ekki bara töluvert ritfær manneskja heldur vel það og eiga sér þar af leiðandi ekkert til málsbóta, vandinn liggur fyrst og síðast í því að vera gríðargóður í spretthlaupinu en allverulega mikið slakari í langhlaupinu, maður missir einbeitinguna og nennuna og þegar verst lætur áhugann og fer að telja sér trú um að mann langi hvort eð er ekkert til að skrifa neitt og sé yfir höfuð sama um alla hluti, sérstaklega skrif, þetta kallast að ljúga að sjálfum sér, ég lýg oft að sjálfri mér, sjaldnar að öðru fólki, það geri ég ekki nema í ýtrustu neyð, eins og til dæmis þegar litla músin spyr mig hvort ég vilja hlusta á hana syngja titillagið úr frosin, þá lýg ég eins og ég er löng til og segi „já, endilega“, mér finnst þetta viðbjóðslegt lag þó það sé reyndar agnarögn skárra í flutningi músarinnar en í upphaflegri útsetningu, hugsanlega vegna  þess að músin talar ekki ensku og kann þar af leiðandi ekki textann, sem er afspyrnuvondur, ég vona að það verði ekki gert framhald af þessari mynd, það færi alveg með samband okkar músarinnar, ég verð að reyna að kenna barninu að hlusta á almennilega tónlist, sú aðgerð öll misheppnaðist reyndar algjörlega í uppeldinu á mínu eigin barni sem hlustar á tóman óhróður á youtube alla daga og lokar sig inní herbergi þegar ég hækka í springsteen að syngja um fjöldamorðingjann frá nebraska, hvað getur maður gert? guð veit að maður hefur reynt, eitt af því  sem barnið fékk oftar en einu sinni að heyra frá vinkonum sínum í æsku var athugasemdin „mamma þín er alltaf að spila svo skrýtna tónlist“, kannski fór ég vitlaust að þessu, kannski er maður bestur í því að skjóta sig í löppina, en það er laugardagskvöld og ég hugsa ekki um diskókúluna, nei, ég hugsa um fíkjutréð sem hún eva át af og það hvort ástin sé yfir höfuð möguleiki, horfi svo á yfirgengilega væmin myndbönd af hundum og eigendum þeirra, dapurlegt, sannarlega dapurlegt, og nú er auðvitað eðlilegt að fólk spyrji forviða: af hverju í veröldinni ertu að hafa fyrir því að vaxa á þér fótleggina (athugið að hér er átt við fótinn eins og hann leggur sig frá klofi og niður að ökkla) og handakrikana (eins og það er nú agalega óþægilegt)?! og ég svara þá svellköld: hvað svo sem öðru líður þá er maður alltaf sitt eigið vitni og sjálfsagt að vera álíka kurteis við sjálfan sig og aðra eða; komdu fram við sjálfan þig eins og þú vilt koma fram við aðra eða; það er óþarfi að standa sig illa í öllu, ég hef þegar staðið mig illa einu sinni í vikunni, mætti í munnlegt próf algjörlega yfir mig undirbúin og svo lömuð af stessi að ég var ekki fyrr sest niður fyrir framan kennarann en öll þau orð sem ég hafði nokkru sinni lært – gildir þá einu hvort við erum að tala um á ítölsku eða íslensku – gufuðu upp úr höfðinu á mér og þá alveg sérstaklega þessi sem ég var búin að undirbúa vandlega fyrir þetta próf, hvað ég sagði í framhaldinu veit ég ekki, eitthvað hlýt ég þó að hafa sagt því á einhverjum punkti sagði kennarinn: va bene, og vísaði mér út, sem ég lét ekki segja mér tvisvar og hrasaði út af skrifstofunni andstutt og eldrauð í framan og gott ef það var ekki kattarhlandslykt í handakrikunum á mér, bene bene    

laugardagur, 1. mars 2014

ölvið ykkur!

ef ekki með loftfyrrtri lotuþjálfun og endorfínsukki í líkingu við það sem ég lá í á stofugólfinu í morgun, þá með skáldskap, hvort sem er, í guðs bænum, ölvið ykkur!

ég klæði mig í svart silki (fyrir fíu mína langt í burtu)

og undirbý af kappi munnlegt próf í ítölskum femínisma, frammistöðunni verður hugsanlega lýst á tungu þarlendra sem completamente scandaloso, en ég, ég er hvergi bangin, ég er sætabrauðsdrengurinn, ég hleyp hraðar en allir, enginn getur náð mér, öðru hvoru hverf ég inní hliðarveröld eigin skáldskapar og skrifa sitthvað um blómstrandi fíkjutré í fjarlægum löndum og þetta sem gerist og skiptir máli, því einhvern veginn er það þannig að það sem gerist og skiptir ekki máli gerist aldrei aftur en það sem gerist og skiptir máli er uppfrá því í einhverjum skilningi alltaf að gerast, þegar það hefur einu sinni gerst gerist það í sífellu, þið skiljið hvað ég á við ... er það ekki?