mig dreymir eitthvað undarlega mikið þessar næturnar, mestmegnis tóma þvælu að því virðist við fyrstu sýn en svo þegar ég set drauminn á blað og rýni aðeins í hann sé ég hvað hann er skýr birtingarmynd á innra lífinu, ef ég til dæmis setti draum næturinnar niður í stikkorðum væru þau svo hljóðandi (er það kannski eitt orð … ?): taugaveikluð barátta við agnarsmáa ógn, lyfta, flótti, leit, mikil ringulreið; með öðrum orðum líf mitt eins og það kemur mér fyrir sjónir, þetta með lyftuna tengist auðvitað undirvitundinni – ég er reyndar mjög lyftuhrædd og það var ekki fyrr en rétt í þessu að ég setti þann ótta í samhengi við undirvitundina og óttann við að ferja upp úr henni þann óhugnað sem þar er að finna, svona kemur allt til manns með tímanum, stundum eitthvað sem maður hefði heldur viljað að héldi sig fjarri, eins og í fyrrinótt, þá dreymdi mig dáldið óþolandi, hvað merkir það að einhver gefi manni bók í draumi? og gefandinn er einhver sem einu sinni var manni afar kær en er það ekki lengur? ég var að halda stórt boð og hafði hreint ekki óskað eftir nærveru þessa manns enda var hann mjög áhyggjufullur á svipinn þegar hann rétti mér gjöfina þó hún væri falleg og yfirleitt þyki mér fátt skemmtilegra en að fá gjafir og þá sér í lagi bækur, bókin var líka falleg, mig rámar í rauðan og bláan lit, ég varð mjög sorgmædd þegar ég rifjaði upp drauminn en í draumnum var ég alls ekki sorgmædd, mér var bara virkilega illa við að taka á móti gjöf frá þessum manni, af hverju þurfti hann að vera að gefa mér þetta? og með þennan svip? gat hann ekki bara sleppt þessu? bókin var þung og þykk, ekki ósvipuð þeirri sem kom með póstinum í vikunni; the golden notebook eftir doris lessing, pappírinn í þeirri bók er reyndar þykkari og skurðurinn á blaðsíðunum grófari en á þeirri sem ég fékk í draumnum sem var í alla staði afar vönduð, ég var ögn slegin þegar bókin hennar doris kom með póstinum, ég hélt ég hefði pantað mjög þunna bók svo þegar konan á pósthúsinu rétti mér pakka sem virtist innihalda símaskrá datt mér helst í hug að bókinni fylgdi einhver óvæntur kaupbætir, gat verið að dánarbú doris lessing væri að senda mér þakklætisvott fyrir sýndan áhuga? en svo opnaði ég pakkann og við mér blasti þessi múrsteinn sem nú liggur fyrir að lesa, og ég hef reyndar mun meiri áhuga á að lesa þennan múrstein heldur en þann sem ég fékk frá áhyggjufulla manninum í draumnum, á þeirri bók hafði ég satt að segja engan áhuga, mig langaði helst af öllu til að losa mig við hana enda hafði ég á tilfinningunni að með því að þiggja hana væri ég að skrifa undir ósýnilegan sáttmála um eitthvað sem ég hefði ekki kynnt mér að fullu en gæti hugsanlega öðlast einhverja innsýn í með því að lesa bókina, hugsanlega myndi ég þá komast að einhverju sem ég kærði mig ekki um að vita eða – það sem verra væri – neyðast til að skipta um skoðun, jafnvel viðurkenna að ég hefði haft rangt við, haft rangt fyrir mér og lesið lífið vitlaust, og það myndi ég ekki þola, það myndi ég aldrei samþykkja, svo ég hélt bara á bókinni og ákvað að ég skyldi aldrei lesa hana, fann fyrir djúpri óánægju og gremju og langað ekkert nema að skila henni, það sem fór sérstaklega í taugarnar á mér var hvað hún var falleg, mig langaði hreinlega til að kveikja í henni, en þá vaknaði ég, því miður, það hefði verið afar geðhreinsandi að kveikja í þessari bók þarna í miðju boðinu, já djöfull sem ég held að það hefði verið gott
stundum sef ég ekki neitt, og dreymir þá ekki neitt, kannski það sé ekki svo slæmt