þó til annars sé ætlast af alminnilegu og eðlilegu fólki eru ambissjónir mínar nú í upphafi árs með því allra smæsta sem um getur í gervallri veröldinni, ég hef nákvæmlega engar væntingar til þessa árs aðrar en þær að það gangi tiltölulega áfallalaust fyrir sig, hvort það eru lágmarks- eða hámarkskröfur er kannski aðeins á reiki, ég veit það ekki, ég vildi óska að metnaðarleysi mitt væri til marks um nýlærða nægjusemi sprottna af breyttum lífsstíl og aukinni andlegri vakningu en ég er hrædd um að það sé ekki tilfellið, líkast til er maður bara að drepast úr þunglyndi, samt sem áður mun þetta allt saman rúlla einhvern veginn, ég mun klára enn eina háskólagráðuna og vera þá aðeins einni frá því að vera – eins og dóttir mín hefur unun af að benda mér á – „nákvæmlega eins og georg bjarnfreðarson“, svona líka ljómandi leiðum að líkjast, nei nei, þetta verður ábyggilega ágætt, ég er sjálfsagt bara illa fyrirkölluð og í hálfgerðu uppnámi og verulega ósátt við tilveruna af því ég er í þeirri skítastöðu að liggja undir grun um að vera með bakflæði og þá á maður ekki að drekka kaffi og ekki að borða súkkulaði og ekki að drekka áfengi, sérstaklega ekki rauðvín, sem er eina áfengið sem ég stundum drekk, mér finnst þetta fokkfúlt, ég hef haft þann sið að drekka einn kaffibolla þegar ég fer á fætur, borða fjóra bita af svörtu súkkulaði með tebollanum síðdegis, og drekka smá rauðvín öðru hverju, má maður andskotann ekki neitt í þessu lífi? þarf að hafa af manni alla hluti? djöfullinn! þetta er ekkert skemmtilegt, og til að kóróna ömurlegheitin hafði einhver pinterest vinur minn (þó ég hafi ekki í mér nokkurt geð til að kalla viðkomandi neitt í þá veruna) séð ástæðu til að pinna í morgun mynd af hundinum sínum á afmælisdaginn hans, hundurinn hafði lagt loppurnar uppá eldhúsborðið og virti fyrir sér ponsulitla ammælistertu með kertum og allt, þetta var ógeðslega sæt mynd, hundurinn var meira að segja nákvæmlega eins hundur og mig langar í, það mætti halda að sett hafi verið af stað sérstök aðgerðaáætlun til að knésetja tiltekna konu í mosfellsbæ, hvað gerði ég eiginlega til að verðskulda þessa meðferð? og já það er búið að loka pirate bay, akkúrat þegar ég var að ná fullum tökum á ólöglega niðurhalinu, og mig sem langar einmitt svo mikið til að horfa meira á bíómyndir á árinu, ég fer næstum aldrei í bíó af því það er næstum aldrei verið að sýna tékkneskar myndir með frönskum texta en samkvæmt fjölskyldu minni eru það einu kvikmyndirnar sem mig fýsir að horfa á, ég þyki leiðinleg heima hjá mér, en það er reyndar frönsk kvikmyndahátíð framundan í háskólabíó, hver veit kannski verður einhver þeirra með tékkneskum texta, kannski kastar heimurinn í mig beini eftir allt saman