sunnudagur, 21. desember 2014

Fjórði í ritúali – leiðin að trénu

velja af kostgæfni jólakærasta í formi kasmír og silki
vefja honum þétt um herðar og háls 
finna hvað hann ilmar vel
hlusta á dolly syngja um litla trommuleikarann
klæða gjafirnar í heimatilbúinn felubúning
leiða hjá sér eldsvoðann sem geysar í heimabankanum

sunnudagur, 14. desember 2014

þriðji í ritúali – ljósræktun í húmi

öll vötn virðast renna í átt að þeirri niðurstöðu að við séum ekki án vonar
verði svo

sunnudagur, 7. desember 2014

annar í ritúali - trúðu, og sjá, inn gengur sauður í sauðagæru

endurhæfing hjartans er hæg ganga í djúpri fönn, lambið – höfuðskepna þess sem treystir - bíður merkis um að vera boðið velkomið, suma morgna stingur ljóstýra sér undir þröskuldinn, allt er hljótt, enginn syngur – ekki enn – en stöku sinnum flýgur rjúpa hjá, hvít eins og vígð mjólk, trúin drýpur í seigum taumum niður gluggarúðurnar og ég hripa hjá mér í minnisbókina „allt streymi fram um síðir“, strika svo samstundis yfir setninguna aftur, förin sitja í pappírnum eins og skuggar

sunnudagur, 30. nóvember 2014

fyrsta ritúal - hreyfingu komið á geómetríuna

opna dyr
 leggja við hlustir
fyllast forvitni
trúa
eigin augum

sunnudagur, 16. nóvember 2014

sambandsleysi algjört (skyggnilýsing þess fjarstadda)

ellefti tunglmánuður og vorið hefur tekið sig upp með svo einbeittum mótþróa að það getur ekki talist neitt minna en aðdáunarvert, ég sit á hækjum mér í hlíðum úlfarsfells og pissa á kolsvört, þrýstin krækiber undir vökulum augum hundsins og horfi yfir í átt að upplýstu helgafellinu; eina blett sveitarinnar sem lághangandi* morgunsólin nær til í augnablikinu, eitthvað í þöglum samskiptum okkar ferðafélagans vekur með mér sektarkennd yfir því að vera að pissa á fullkomlega fín krækiber sem sjálfsagt mætti týna og setja í blandara ásamt kókosmjólk og möndlum þegar heim er komið (þessi innkoma blandarans virkar mjög órómantískt stílbrot og á skjön við senuna eins og hún leggur sig en ég læt þetta standa eins og er), ég gæti meira að segja hæglega komið berjunum fyrir í litla pokanum í úlpuvasanum þar sem ég geymi lifrapylsubita vinar míns þannig að ég hef mér nákvæmlega ekkert til málsbóta, mér finnst eitthvað leiðinlegt við þetta, ég kemst ekki undan þeirri tilfinningu að ég sé einhvern veginn lent óþægilega uppá kant við sjálfa mig og hafi verið „gripin með allt niðrum mig“ þarna í hlíðinni, gönguskórnir sökkva ofan í raka moldina þegar ég hisja upp um mig ullarbrókina og á meðan ég laga peysuna sem hefur dregist upp um mig undir úlpunni við pissustoppið verður þetta litla atvik að risavöxnu tákni í huga mínum fyrir þá undarlegu fjarlægð sem myndast hefur milli manns og náttúru; væru þessi sömu ber til sölu fyrir töluvert fé útí næstu búð myndi mér aldrei detta til hugar að pissa á þau, þess í stað myndi ég taka upp greiðslukortið (það magnaða vopn) og beita því eftir bestu getu, hafa svo berin með heim og reyna að muna eftir að borða þau fyrir síðasta neysludag, ég stika upp í móti yfir mosabreiður og lausamöl, hundurinn hleypur um í því sem virðist stefnulaust ráf þó ég viti vel að hegðun hunda er sjaldnast tilviljanakenndari en mannfólks, ef eitthvað er er því einmitt öfugt farið, þetta gæti næstum verið upphafssenan í sjálfstæðu fólki nema hundurinn er ekki sullaveikur og ég er ekki alveg jafnmikið viðrini og söguhetja þeirrar bókar (þó nærri stappi), allt í kringum mig flögra ósýnilegar bylgjur sem hafna í eyrum mínum sem rödd útvarpsmannsins e.g. og tveggja viðmælenda hans, umræðuefnið er nýjustu verk höfundarins g.e. en hann er einmitt einn af mínum uppáhalds og ég gleymi fljótlega þessum leiðindum í sambandi við krækiberin, e.g. og viðmælendur hans klappa saman lófum yfir magískum skáldskap g.e. enda er það mál manna að enginn höfundur sé betur skrifandi á íslenska tungu í dag, svakalega fínt stöff segir e.g. sem bullar aldrei, g.e. lengi lifi! og ég gleðst þarna í fjallshlíðinni yfir því að í mínum háværa og félagslynda samtíma skuli einhver geta skrifað merkingarbært um einveruna og það sem spekúlantarnir í útvarpinu skilgreina sem „þá hættu sem sköpunarferlinu stafar af mannlegri nánd“ og fái fyrir það lof og prís, við örkum síðasta spölinn upp á topp og göngum einn hring í kringum kofaskriflið sem þar stendur og ég veit ekki hvað hýsir – og hef svo sem engan sérstakan áhuga á vita nein nánari deili á, hringferðin er meira til að taka aðeins inn útsýnið – sem reyndar er að mestu hulið mystri svo maður verður að geta í eyðurnar – en líka til að forðast þennan sýsifosarfíling sem grípur mann svo gjarnan þegar maður klífur fjall til þess eins að ganga beint niður það aftur, líkast til myndi ég aldrei gera neitt svipað ef ekki væri fyrir félagsskap hundsins og raddanna í útvarpinu sem eru nógu fjarlægar til að vera mátulega nærri, ullarfötin eru blaut af svita og ég tek af mér húfuna, ég er alltof mikið klædd fyrir vorveðrið, ég skil ekki hvernig hundurinn þolir við í þessum tvöfalda feldi sem hann gengur í allt árið um kring hvort sem honum líkar betur eða verr, ég sé mér til ergelsis og pirru móta fyrir tveimur manneskjum í hlíðinni fyrir neðan mig og kalla á hundinn að koma áður en ég byrja að feta mig til baka niður hlíðina, þó leiðin niður á við sé óneitanlega auðveldari en gangan upp og sækist manni jafnframt hraðar er hún að sama skapi alltaf einhvern veginn leiðinlegri, meira að segja þó maður sé ekki með neinn stein, ólíkt sýsifosi sem hlýtur alltaf að hafa verið mjög órólegur á niðurleiðinni með steininn á fullri fart fyrir framan sig og kannski einhverjar mannaferðir í fjallinu eins núna, þó maður geti átt það á hættu að fá grjótið yfir sig á uppleiðinni er það alltaf verri tilhugsun að aðrir verði undir því þegar það veltur frá manni niður snarbratta hlíðina ... og enn eys ég vatni á myllu einverunnar

*hér spreyti ég mig á nýyrðasmíð í tilefni dags íslenskrar tungu, það er á allra ábyrgð að halda tungumálinu á lífi, jónas er löngu hættur störfum

sunnudagur, 2. nóvember 2014

hökt með hænum

einhver pinterest vinur minn er með myndaborð sem ber yfirheitið decorating with dinosaurs, á einhvern ójósan hátt varð það kveikjan að titli þessarar færslu þó orsakatengslin séu mér að mestu hulin, fyrir utan hið augljósa; að hænur og risaeðlur eru hvoru tveggja dýr með ólögulega fótleggi og furðuleg hlutföll í skrokknum, hér er allt í vanagangi, sem er einhver versta gangtegund sem hægt er að hugsa sér, hún færir mann kannski nokkuð örugglega á milli staða en aðeins til að fullvissa mann um að það muni ekki færa manni neitt nýtt, maður stjáklar þetta sinnulaus undir síbylju daganna og telur sér trú um að allt færist nær um síðir þegar staðreyndin er sú að mann rekur jöfnum höndum frá þeim stað sem maður upphaflega stefndi að, ég er að hugsa um að hafa þetta stutta færslu, ekki endilega vegna þess að hún spratt út frá því sem virðast – í það minnsta við fyrstu sýn þó maður verði alltaf að hafa hugfast að undirmeðvitundin starfar ekki tilviljanakennt – merkingarlausum hugrenningartengslum heldur meira vegna þess að á heildina litið er ég frámunalega leiðinleg, dóttir mín hefur bent mér á að ég þurfi nauðsynlega að „vinna í viðhorfinu“, dóttir mín er á níræðisaldri, annað hvort það eða hún sækir dale carnegie námskeið á laun og les undirstöðurit jákvæðrar sálfræði á kvöldin eftir að ég er sofnuð út frá murakami, murakami er dásamlegur, og þá á ég ekki við sem svefnmeðal, hann svæfir mig ekki vegna þess að hann sé bróðir minn í leiðindum, hreint ekki, colorless tsukuru tazaki and his years of pilgrimage er með skemmtilegasta móti, ég er bara alltaf svo þreytt, eru allir alltaf svona þreyttir? telst það eðlilegt? ef ég gæti óskað mér hvers sem er myndi ég óska þess að geta hugsað eina bærilega heildstæða hugsun og komist í gegnum tíu mínútna hugleiðslu án þess að upplifa það beinlínis sem líkamlegt erfiði, ég viðurkenni að hafa velt fyrir mér þeim möguleika að versla mér rítalín á svörtum markaði, auðvitað ekki af neinni alvöru samt, og já, ég skammast mín fyrir ábyrgðarleysið, það stóð aldrei til að gera neina alvöru úr þessu, ég þarf bara að komast eitthvað í burtu og ná að haga mér eins og skrifandi manneskja, ég kaupi mér mikið af pennum þessa dagana, það segir sitt, því miður eru þeir mest brúkaði við yfirferð prófa, murakami er ekki að brúka sína penna við neitt svipað, murakami vaknar víst alltaf klukkan fjögur og fer út að hlaupa, svo sest hann við skriftir, stundum borðar hann og klukkan níu er hann farinn í háttinn, þetta virðist gera sig ágætlega, japanskur einfaldleiki í bland við sjáflsaga samúræjans, ég veit ekki hvort hann á hund en ég er nokkuð pottþétt á að hann eigi ekki hænur, já, ég er eiginlega alveg með það á hreinu að hann eigi ekki eina einustu hænu   

sunnudagur, 12. október 2014

lausleg yfirferð á alls konar og engu

það er eitthvað að gerast með mig, kannski er þetta allt að fara úrskeiðis, ég er komin uppí tvær skálar af kaffi á dag og fresta því stöðugt að hugleiða, dreymir tóman hrylling nótt eftir nótt og ergi mig á öllum sköpuðum hlutum, myndi helst kjósa að opna ekki munninn fyrr en um hádegisbil en kemst ekki upp með það sökum vinnu minnar, það er ekki nokkur friður í þessu lífi, af hverju vill heimurinn öll þessi afskipti af mér? í augnablikinu þyrfti ég að þvo mér um hárið en fæ mig ekki til þess, ég kláraði að semja ljóð handa hallgrími péturssyni í fjögurhundruðára ammælisgjöf í morgun og verslaði mér auk þess bæði borðstofu- og sófaborð og það verður bara að duga í bili, er ekki eitthvað sjúklegt við það að kaupa sér húsgöng þegar maður á ekkert hús? núna langar mig í dauða stund, ég hef ríka þörf fyrir dauðar stundir, hundurinn líka, við horfumst í augu og þegjum, spilum philip glass, moppum kannski gólfið, þetta síðast ætti ekki að vera í fyrstu persónu fleirtölu, það er ég sem moppa gólfið, hundurinn gengur á eftir mér með ullarteppið sitt í kjaftinum og nemur reglulega staðar til að tæta það niður í sitt upprunalega form: illa lyktandi ullarvöðla sem bíða kembingar, ég sýni þessu skilning og moppa áfram, bráðum klárar hann teppið og þá get ég hætt að moppa, moppa þá jafnvel aldrei aftur, hvað veit maður? ekkert, jú annars, ég veit að eftir tvær vikur þarf ég standa fyrir framan biskupinn og guð og jesú og alls konar fólk og lesa ljóðið sem ég samdi handa hallgrími í ammælisgjöf, mér verður pínulítið mál að gubba þegar ég hugsa um það, er það þess vegna sem ég svitna svona á nóttinni? ég veit það ekki, kannski eru þetta hormónabreytingar, þetta eru örugglega hormónabreytingar, þetta er allt einhverjum helvítis hormónum að kenna, líka þunglyndið, ég þarf að komast í streymijöfnunarmeðferð fyrir hormónalasna, stilla jafnvægið, nálgast núllpunkt, smíða örk, hlusta á nið í djúpu vatni, lesa sólstafi, öðlast fullvissu um eitthvað, bara eitthvað, læra að elska, þvo mér um hárið, tileinka mér nýja færni í matarinnkaupum, pokarnir tveir sem ég kom með heim úr krónunni áðan kostuðu tuttuguþúsundogníutíu, ég hef það á tilfinningunni að þetta gangi ekki til lengdar, hvorki kennslan né ljóðaskrifin skaffa sérstaklega vel í augnablikinu, og van gogh seldi bara eitt verk um ævina þannig að það má alveg gefa sér að þetta ástand geti varað eitthvað áfram, ég fæ reyndar fimmtíuþúsundkall fyrir ljóðið til hallgríms (maðurinn var svo æstur í að fá mig í ammælið sitt að hann bauðst til að borga með sér), ég kemst þá í búðina tvisvar og hálfu sinni í viðbót, maður biður ekki um meir, ekki í bili  

laugardagur, 6. september 2014

héðan í frá ætla ég bara að eiga bækur og hunda

ég bjó þetta til, ekki ein auðvitað, ég er ekki ofurkvenmennsk, maður þarf að kunna hundrað hluti til að búa til bók og ég kann bara einn af þeim; að skrifa hana, sem er vissulega mikilvægt en hrekkur engan veginn til eitt og sér, en það er svo magnað að þegar maður er einu sinni búinn að senda afdráttarlausan þanka í fullri einlægni út í úniversið er engu líkara en að þetta sama únivers vindi sér í að raða í kringum mann akkúrat því fólki sem maður þarfnast til að allt megi ganga eftir, og einmitt þannig gerðist það, ég er mjög þakklát, í gær stóð ég inní bókabúð og dáðist að litlu fegurðinni minni þar sem hún lá þarna svo sæl og komplexalaus sem bók á meðal bóka, ég er ósköp stolt af henni, hún er svo hugrökk og sterk þarna alein úti í heiminum, mér þykir agalega vænt um hana, semsagt: allt er gott og allir glaðir, þegar ég segi allir á ég við sjálfa mig, barnið og okkar afbragðsfína hvolp, kona sem á afbragðsfínan hvolp þarf ekki mikið meira skal ég segja ykkur (nema þá kannski afbragðsfínt skáldverk úr eigin smiðju), ég hef auðvitað verið hálfómöguleg svona hundlaus og satt að segja hundeinmana þær stundir sem ég neyðist til að deila barninu með þeim sem skóp það með mér, en nú er þetta allt til hins betra, það eina sem gæti bætt ástandið væri að vera kölluð fyrirvaralaust og án tafar til búsetu í parísarborg, en það kemur auðvitað að því, parísarborg hefur víst verið á sínum stað í aldaraðir og ég geri ekki ráð fyrir að á því verði neinar breytingar í nánustu framtíð, þar fyrir utan er haust og einmitt þá er gott að vera ábúandi í mosfellsbæ og eiga hund, við ferfættlingurinn eyðum löngum stundum í reykjalundarskógi við hlaup og innihaldsrík samskipti sem að mestu fara fram í gegnum snertingu, fylgjumst með grænu breytast í gult og rautt og finnum að allt er einmitt eins og það á að vera akkúrat núna, stundum hlustum við á ane brun sem á alltaf eitthvað svo vel við í haustinu, haustið er hugsanlega besti tími ársins til að eiga hund, ég er agalega ánægð með þennan hund sem er öllu hlýðnari en minn gamli (guð blessi elsku hjartað heitið) og virðist – ólíkt fyrirrennaranum sem á köflum var satt að segja allur á hliðinni andlega – ekki glíma við neinar sértækar geðrænar truflanir; hvorki taugaveiklun, mótþróaþrjóskuröskun né stelsýki, það eina sem hugsanlega væri hægt að telja dýrinum til foráttu – þó sjálf telji ég þetta töluvert greindarmerki – er að honum er meinilla við allt á hjólum, en einmitt þetta var eitt af því sem sannfærði mig um að við brún- og blíðeygði vinur minn ættum samleið í lífinu; dýrið tortryggir allt sem fer um með öðrum hætti en með því að færa einn ganglim fram fyrir annan, þjáist af mikilli bílveiki og geltir aldrei nema hjá fari barnavagnar eða vespur, ég aftur á móti keyri ekki nokkurn skapaðan hlut og hef alfarið lagt barneignir á hilluna, fólk hlýtur að sjá að þetta dæmi reiknar sig sjálft, eða eins og ég sagði: allt er gott og allir glaðir

föstudagur, 18. júlí 2014

nú er ég eilíflega annars staðar

þarna er hann, glugginn minn í parís, ég er hrifin af þykkum veggjum, bak við slíka veggi má bardúsa margt sniðugt og skemmtilegt, um veru mína í parís hef ég það eitt að segja að allir finna jú að endingu sinn heimabæ, það hlýtur að skrifast á einhvers konar skipulagsklúður í kosmosinu að mér hafi ekki verið holað þarna niður strax í upphafi, borg sem bannar stórmarkaði! og svo deila menn um staðsetningu edingarðsins! mér gengur illa að halda dampi eftir heimkomuna, sjálfsagt á andinn enn eftir að skila sér að fullu aftur í líkamann, reikar líkast til um stræti og garða parísarborgar og stingur sér öðru hvoru inní súkkulaðibúð eða sest inná gott brasserí og pantar egg með krydduðu majónesi og glas af kampavíni með, maður á aldrei að drekka neitt nema kampavín með mat, annað er kjánaskapur, íslendingar virðast ekki átta sig á þesu, svona geta hlutirnir skolast til í höfðinu á fólki þegar það er umkringt bónusbúllum og sjoppum og bauhausauglýsingum og almennum viðrinisma, ljótleikinn er slyng skepna, hann drepur okkur ekki í einu vetfangi heldur gerir það hægt og bítandi, svo maður taki síður eftir því          

föstudagur, 27. júní 2014

úr blámanum

hér tifar tíminn, og ýmist gerist eitthvað eða það gerist ekki neitt, og þegar eitthvað gerist gerist það svo hratt að minnstu munar að það fari framhjá mér og ég er jafnvel ekki vel viss um hvort það hafi yfir höfuð gerst, til að mynda er í pósthólfinu mínu farmiði til parísar sem lenti þar með svo skjótum og undurfurðulegum hætti að ég hef engan veginn náð að tengja veru hans þar við hugmyndina um líkamsveru mína í parís, til parísar hef ég nokkrum sinnum komið í draumi en aldrei í vökulífinu, núna veit ég ekki hvort mig nátt- eða dagdreymir

en sumar nætur er manni heldur ekki svefnvært fyrir himninum

mánudagur, 19. maí 2014

dýfingar eru ekki leyfðar á grunna svæðinu


það getur verið svo auðvelt að vera til í sólskini, þá finnst manni stundum skyndilega eins og maður sé tilbúin til að taka stökkið, en með ofbirtu í augunum sér maður ekki endilega alltaf vel hvar maður kemur niður, þetta getur leitt af sér dýfingarkvíða, lömun jafnvel

sunnudagur, 11. maí 2014

gleðilegan mæðradag (þó hann sé alveg jafn misgleðilegur og aðrir dagar ársins)

geðvonda mamman var í sundi í dag, athugið að ég er hvorki að tala um sjálfa mig né um einhverja tiltekna mömmu, þetta er meira eins og samheiti yfir ákveðna gerð af mömmu sem er mjög oft í sundi, því miður, þetta er hræðileg kona, ég lá á bekknum í útiklefanum og hafði nýlokið við að þerra mig og bera á mig lífræna kremið með sítruslyktinni þegar ég heyrði í henni geltið: stefán! hættu þessu fikti, láttu lyklana vera, liggðu ekki svona í gólfinu barn, hvað er þetta drengur, stattu upp, ekki leika þér með hárblásarann! það er eiginlega alveg sama hvað stefán finnur sér til dundurs, hann á að hætta því öllu, næst er honum skipað að þurrka á sér hárið, samt ekki með hárblásaranum þó hann sé í boði fyrir alla aðra í klefanum, stefán byrjar að væla, ég ligg enn þarna á bekknum og sé því ekki það sem fram fer í klefanum fyrir innan þó ég heyri greinilega orðaskil og af þeim ræð ég að stefán sé ekki að þurrka á sér hárið eða farist það allavega mjög hægt úr hendi því nú geltir móðir hans sem aldrei fyrr að hann eigi ekki að vera með þetta (?) og koma sér í nærbuxurnar, og hætta þessum hlaupum, og ekki vera með þetta (?), líklega er stefán orðinn mjög ringlaður í því hvað hann eigi að gera fyrst (hætta að hlaupa eða hætta að vera með þetta (?) eða klæða sig í nærbuxurnar), honum gengur í það minnsta hvorki né rekur í að verða við gargi móður sinnar – eðlilega, ekki myndi ég gera neitt af viti ef mamma mín stæði öskrandi á mig allsbera og varnarlausa í votta viðurvist, ég er steinhætt að fá eitthvað út úr verunni í útiklefanum og er auk þess við það að fá krabbamein af meðvirkni með aumingja stefáni sem getur hreint ekki átt sjö dagana sæla heima hjá sér ef þetta er það sem honum er boðið uppá fyrir opnum tjöldum í sundklefanum og það á sjálfan mæðradaginn, ég ligg samt áfram, hálfpartinn af því ég þori ekki innfyrir af ótta við mömmu hans stefáns, ég á það nefninlega sjálf til að dunda eitthvað með hárblásarann, þó ekki til að þurrka á mér hárið (þessir hárblásarar fara víst mjög illa með hárið á fólki, ég læt mitt bara þorna alveg fríhendis) heldur til að þurrka mér á milli tánna svo ég fái ekki fótasvepp, stóru stelpurnar í eldri borgara sundhópnum kenndu mér það (alveg án þess að öskra á mig) en ég er næstum viss um að mömmu hans stefáns muni ekki finnast það tilhlýðileg notkun á hárblásara svo ég ligg áfram og fylgist með því hvernig stefán er með einhverjum hætti gargaður í fötin og dreginn gólandi út úr klefanum, þá fyrst hætti ég mér innfyrir og læði mér í nærbuxurnar

stuttu eftir að ég kem heim hringir dyrabjallan, það er samfylkingin, þau vilja færa mér bækling um stefnu flokksins í málefnum barna, ég tek við bæklingnum og þegar ég þakka þeim fyrir flýgur í gegnum kollinn á mér að spyrja hvað þau ætli sér að gera varðandi mömmu hans stefáns, hann sé örugglega einhvers staðar með kringluolnboga og súrefnisskort af ekka og guð má vita hvað annað verra, en sem betur fer sé ég að mér í tæka tíð, ég þarf líkast til að stofna minn eigin stjórnmálaflokk til að koma þessu málefni að, þessu og „bönnum dónalega liðið í röðinni á kassanum í bónus“, það fólk er náskylt mömmu hans stefáns; meinvörp í mannslíki segi ég og skrifa undir í hástöfum

sunnudagur, 4. maí 2014

svo það sé fært til bókar


þá eru aspirnar farnar að ilma, það fann ég greinilega í gær þegar ég gekk yfir göngubrúna hér í mosfellsbæ (einhverjum óskáldlegasta stað veraldar) og varð uppnumin af andagift og ást til lífsins, hvað hringrásin er mikil huggun, ég segi ekki nema það

fimmtudagur, 1. maí 2014

konur! gerum óraunhæfar kröfur! það er vor sjálfsagði réttur (eða bara gleðilegan fyrsta maí)

að þreyta próf í háskóla íslands og vera í kjölfarið skilin eftir alein heima með engan sér til samlætis nema rauðvínsflösku og tölvuna sína getur ýtt konu út í ótrúlegustu hluti, að því komst ég í gærkvöldi þegar barnið hafði tekið saman sitt hafurtask og lagt af stað út fyrir borgarmörkin í fylgd fjölskyldumeðlima sem henni að jafnaði þykja hressilegri félagsskapur en ég, þar sem ég var ekki í nokkru einasta ástandi fyrir frekari lestur ákvað ég að finna mér kvikmynd á netinu til að stytta mér stundir yfir, það geri ég sjaldan, aðallega vegna þess að það er svo agalega fátt áhugavert í boði, en eftir endalausan lestur síðustu daga á ítölskum bókmenntatextum og fræðiefni um femínisma var ég einhvern veginn alveg til í að slaka aðeins á kröfunum og „vera opin“ fyrir því að láta koma mér á óvart, ekki svo að skilja að ég hafi verið til í að láta hvað sem er yfir mig ganga, ég skrollaði til dæmis framhjá robocop og vampire weekend – þó ég sé einhleyp og á öðru rauðvínsglasi er ekki þar með sagt að ég sé hálfviti – en staldraði að lokum við titilinn labor day: einstæð móðir hýsir strokufanga í nokkra daga og með þeim takast ástir, josh brolin og kate winslet í aðalhlutverkum … næs, hugsaði ég, soft porn for single moms, og flýtti mér að hala öllu dótinu hratt og ólöglega niður í tölvuna mína, þetta fór vel af stað, josh brolin er – eins og alheimurinn veit – sjúkt sexý mo-fo og í þokkabot mjög sólbrúnn í þessu hlutverki strokufangans sem hefur setið ranglega dæmdur (en ekki hvað) í einhverju andstyggðar fangelsi í fjölda ára, kate winslet er náttúrulega kate winslet og ekkert nema gott um það að segja, hún leikur dauðþunglynda konu sem einhver eiginmannsdula hefur yfirgefið fyrir aðra hressari og frjósamari en auminga kate hefur ekki getað átt fleiri börn eftir að frumburðurinn fæddist, sá er góður og velheppnaður drengur í alla staði, hinn afar karlmannlegi strokufangi tekur af henni og drengnum hús og fljótlega verður konunni sem og áhorfandanum morgunljóst að það er ekki nokkur ástæða til að krefjast þess að blessaður maðurinn hafi sig á brott, hann bindur hana að vísu við stól svo hún líti nú ekki út eins og vitorðsmaður ef ske kynni að löggan bankaði uppá en það er gert af svo svakalegu sensúalíteti að maður hálfpartinn fer að velta því fyrir sér af hverju fólk geri ekki meira af því að binda hvort annað niður við matarborðið, svo eldar hann handa henni og barninu, þau fylgjast furðulosin með þeirri færni og frumleika sem maðurinn sýnir við matseldina, að sjálfsögðu matar hann svo aumingjans konuna sem situr opinmynnt við borðið og er að því virðist ekki alveg rótt innra með sér, mér fannst þetta eiginlega besta atriðið (ókei ég viðurkenni það, mér fannst þetta geðveikt atriði), en hér er ekki látið við sitja, handritshöfundar myndarinnar virðast þvert á móti hafa ákveðið á þessum punkti í skrifunum að lengi geti gott bestnað og það ekkert lítið því nú ákveður hinn sólbrúni  – og þegar hér er komið sögu, nýrakaði (hvað karlmenn geta verið fallegir nýrakaðir!) – og handlagni maður að ekki veiti af því að ditta að einu og öðru í húsinu og skúra fyrir konuna gólfið, það er sumar og hitabylgja og allir mjög sveittir og maðurinn er heil ósköp heillandi dundandi sér þetta með stiga og þvegil á stuttermabolnum í hitanum, svo kemur sprengjan, nágranni nokkur er með ferskjutré í garðinum og algjörlega að drukkna í uppskerunni sem liggur undir skemmdum, eins og góðum nágranna sæmir færir hann konunni og syni hennar fulla fötu af þroskuðum ferskjum, þau hrista höfuðið í ráðaleysi yfir því hvað í veröldinni þau eigi að gera við alla þessa ávexti, þau muni aldrei komast yfir að borða ósköpin, við þessu eins og öðru kann gesturinn geðþekki ráð, hann opnar skápa, tekur út hveiti og sykur og smjör og bökuform og það er hreint engum blöðum um það að fletta að maðurinn hefur ekki sólundað tímanum sem hann varði bak við lás og slá og líkast til hefur hann sótt námskeið í bökubakstri því eins og ekkert sé sjálfsagðara tekur hann til við að kenna mæðginunum – sem vita orðið ekki hvað þetta er sem fallið hefur af himnum ofan og lent þarna í eldhúsinu þeirra – hvernig búa skuli til hina fullkomnu böku, hann hnoðar og mótar og sker og blandar með sínum fagurmótuðu höndum svo annað er erfitt en að fá vatn í munninn, í fullri hreinskilni var ég alveg að klæmaxa yfir þessu atriði (fyrirgefiði upplýsingaflæðið) og ekki laust við að mér hafi verið farið að finnast þetta komið gott af húsverkum og bakstri og akkúrat mátulegt að leysa senuna upp í funheitum ástarleik á hveitihvítu eldhúsborðinu í fallegri lýsingu, en því miður virðist lífið á köflum staðráðið í að hafa af manni það sem gott er og svo fór að í þessari senu var ekki annað hnoðað en bökudeigið, sjálfsagt hefur fyrrnefndum handritshöfundum þótt þörf á að koma með raunsæan tón í frásögnina; eins og allir viti líði varla sá dagur að ekki hendi vondir hlutir gott fólk í þessum heimi og við það verði maður bara að lifa, því fer það svo að eftir hina mögnuðu bökusenu er eins og allt liggi niður á við í sögunni og áður en maður veit af er einhver leiðinda lögreglumaður farinn að skipta sér af því sem honum kemur ekki við undir því yfirskini að hann sé að vinna vinnuna sína, meira ætla ég ekki að segja en ég fer ekki leynt með að þetta voru mér nokkur vonbrigði, eins og það sé ekki nóg að ástarlíf fólks sé allt á hliðinni hér í veruleikanum, geta hlutirnir þá í það minnsta ekki bara gengið upp í þessum helvítis bíómyndum

sunnudagur, 27. apríl 2014

það komu páskar


og það fór ekki framhjá mér, en þó ég sé ekki upprisin er ég ekki án vonar, alls ekki, ég er einmitt á því að það vori, því til sönnunar skarta ég skarlatsrauðu baki eftir að hafa legið of lengi á maganum á sundlaugarbakkanum og lesið fyrir próf í ítölskum kvennabókmenntum, og sjálfsagt hef ég verpt einhverjum eggjum hér og þar þó ég virðist ekki hafa haft rænu á að punkta hjá mér hvar þau liggi, sem er kannski ekki nógu gott, sjálfsagt klekjast þau hraðar út ef maður liggur á þeim, ég á í örmagnandi innri baráttu, upp hefur komið sú hugmynd að ég gefi út bók með lýrískum smáprósum á afmælisdaginn minn, ýmist þykir mér þetta frábær hugmynd eða fullkomlega ömurleg, ekkert þar á milli, í sjálfu sér finnst mér allt í lagi að hugsa til þess að prenta einhver orð á pappír, málið flækist þegar ég leiði að því hugann að koma pappírnum á framfæri, í hendurnar á öðru fólki og lesa svo kannski upp þau orð sem á honum standa fyrir gesti og gangandi, þá liggur mér satt að segja við uppsölum, ýmislegt orkar líka mjög letjandi í þessu samhengi, til dæmis að lesa heimsljós, þá fer maður að hugsa um að henda tölvunni sinni, allt hangir á því að finna til elsku gagnvart sjálfum sér, því miður þykir mér það einmitt nánast ógerningur, æjæjæj

til minnis (því þessu klikkar maður ítrekað á):

sá sem ekki elskar þekkir ekki guð, því guð er kærleikur
og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í guði

og hér veltur allt og rúllar

laugardagur, 12. apríl 2014

enn af mínum æsilegu laugardögum

í annað skiptið á neyðarlega stuttum tíma hef ég neyðst til að éta það ofan í mig að sögulegur skáldskapur sé það leiðinlegasta sem hægt sé að hugsa sér, að fyrirskipan kennara míns hef ég eytt deginum í að lesa sigrún og friðgeir, ferðasaga og haft af því ekki bara gaman heldur (guð minn góður) töluvert gagn, nýlega las ég sömuleiðis kafla úr ragnari í smára og upplifði eitthvað viðlíka, er þetta til marks um að ég sé að eldast? verð ég dottin í ævisögurnar áður en ég veit af? það yrði nú eitthvað, svona fer fyrir manni þegar maður er allur í gífuryrðunum, nýlega gaspraði ég um það hvar sem ég kom að ljóð séu það eina sem taki því að lesa, flest annað sé drasl, svona getur maður verið yfirlýsingaglaður, í vikunni sem leið hreiðraði ég einmitt um mig á gólfinu í horni einnar af stærri bókabúðum bæjarins og las fyrstu síðurnar í afmælisbréfum ted hughes (ljóðabálki sem hann skrifaði um hjónaband þeirra sylviu minnar plath) af álíka áfergju og fólk með mikinn áhuga á slúðri les séð og heyrt eða national enquirer, ég er ekki yfir það hafin að næra mínar lágkúrulegustu hvatir, samt keypti ég ekki bókina en lét mig hafa það að skíta gallabuxurnar mínar út á rassinum og hnjánum af því ég er að sýna sjálfri mér og öðrum hvað ég sé fjárhagslega stabíl manneskja með einbeittan sjálfsaga, ég veit ekki hvað ég held þetta lengi út, að sumu leyti get ég nefninlega verið mjög raunsæ


. . . líf mitt er svo sannarlega mun meira spennandi en almennt gengur og gerist, þess vegna skrifa ég blogg, öðru eins lífshlaupi verður að deila með þeim sem ekki eru jafn lánsamir, þetta er sögulegur skáldskapur par excellence, og í þokkabót í beinni, ekki er það smátt

föstudagur, 11. apríl 2014

eitthvað tifar enn


klukkan er hálfþrjú … hvernig má það vera? klukkan var alls ekki hálfþrjú fyrir andartaki, hún var ellefu, ég er nánast viss um að ég hafi hvorki misst meðvitund né dottað fram á eldhúsborðið, ég bara skrifaði nokkrar línur í hugleiðingabókina mína, borðaði saltfisk á spænska vísu með spergilkáli í sítrónu og hvítlauk, snéri mér svo við og þessir klukkutímar höfðu horfið úr lífi mínu með dularfullum hætti, í síðustu viku var ég búin að ákveða að ég gæti ekki haldið þessu áfram, lífinu það er að segja, ég skuldaði kennurum mínum einhver verkefni og ritstjóranum mínum heilan helling af orðum og fannst ég satt að segja ekki getað sinnt neinu af þessu því ég er gríðarlega upptekin prívat og persónulega við að skrifa um þetta sem gerist og skiptir máli, það þyrmdi yfir mig, ég gat bara alls ekki séð að mér væri fært að gera nokkuð af því sem ætlast var til af mér, eðlilegast þótti mér því að leggjast niður – svo gott sem þar sem ég stóð – og gera ekki neitt, bíða einfaldlega eftir því að tíminn hæfi sig á brott og hefði líf mitt með sér, svo jafnaði þetta sig einhvern veginn, að hluta til af því ég ákvað að ég skuldi kennurum mínum ekki rass í bala, aðeins sjálfri mér, og þar sem ég er tiltöllulega sveigjanleg og alminnileg manneskja gaf ég það út að ég væri alveg til í að lána mér þessi verkefni aðeins áfram, ég skilaði  ritstjóranum svo þessum orðum og hlaut í verðlaun indverskt nudd af bestu sort hjá honum shiva sem er pínulítill maður með mjög sterkar hendur, „this treatment will clean you inside and outside“ sagði hann, fínt fínt og í guðs bænum hugsaði ég og lagðist á bekkinn, shiva hellti einhverjum ósköpum af heitri olíu yfir mig og nuddaði og nuddaði, ég fann fljótt að maðurinn vissi hvað hann var að gera því hann hóf samstundis að hamast við að nudda mína helaumu rassvöðva  og vinstri öxlina sem er öll úr lagi eftir skakkar skriftarsetur og asnalegar svefnstellingar, svo sinnti hann öðrum líkamshlutum af álíka kostgæfni og gleymdi hvorki kjúkubeinunum né svæðunum á milli tánna, að því loknu náði hann sér í funheita taupoka stútfulla af olíubleyttum lækningajurtum og lamdi mig sundur og saman með þeim, nuddaði svo meir, líka andlitið og inní eyrun, á indlandi er greinilega hugsað heildrænt um líkamann, allt var þetta gott og geðbætandi, ég gekk út sem bráðið smér, en hin raunverulega frelsun kom næsta dag þegar ég brá mér í kvikmyndahús, geti maður treyst á eitthvað í þessari veröld til að lyfta sálinni á hærra plan er það herramaður nick cave og hafir þú ekki komið því í verk að bregða þér í bíó paradís og sjá heimildarmyndina um hann skaltu drífa í því hið fyrsta, ég gekk í loftinu út úr salnum, yfirkomin af innspírasjón og ástríðu, hvar væri maður ef ekki væri fyrir tónlist? á vitlausraspítalanum held ég hreinlega

föstudagur, 28. mars 2014

mér færist iðulega of mikið í fang

jógakennarinn minn hvetur mig til að nota höfuðstöðurnar meira, það sé manni hollt að horfa á heiminn á hvolfi, að skipta um sjónarhorn, minn höfuðverkur er reyndar yfirleitt sá að finnast sjónarhornin of mörg, að vera alltaf að rembast við að ná öllu inní myndina, sjá hana frá öllum mögulegum sjónarhornum, líka að ofan, eins og guð, hljómar þetta ekki eins og hin fullkomna uppskrift að mistökum og vanlíðan

sunnudagur, 23. mars 2014

be quiet and tear the thorn from your heart (sagði einhver einhvern tímann)

nú hef ég sveipað mig mínu ullarsjali og hitað mitt svarta kaffi, strokið gólf og starað á veggi, mín innri ró er engin, ég íhuga að fara í messu en óttast að það yrði til einskis, æðruleysið skilst mér að þurfi að iðka, ekki bara biðja um það, það suðar í höfðinu á mér og enn einn daginn í röð klæðist ég eingöngu svörtu til að fækka ákvörðunum, ég held mig til hlés, ég er ekki á austurvelli, hugurinn er minn austurvöllur og ég mótmæli sjálfri mér: hví ferst þér jafn illa og raun ber vitni að ganga eigin erinda? að taka þér pláss í veröldinni? (er pláss ljótasta orð íslenskunnar?), dag eftir dag þvælist ég um göturnar með tölvuna mína í töskunni, blýþunga af orðum sem ég sannfæri sjálfa mig um að eigi hvergi heima nema þar sem þau þegar eru, þ.e. inní tölvunni minni og ofan í töskunni minni, úr þessu geri ég stórmál, sjálfsagt meira en efni standa til, þannig er það gjarnan með það sem manni þykir skipta máli, og ég nenni alls ekki að skrifa um annað en það sem skiptir mig máli, get það bara ekki

laugardagur, 8. mars 2014

laugardagskvöld

og diskókúlan er víðsfjarri, víðsfjarri, ég hugsa ekki einu sinni um hana, svo um hvað hugsar þrjátíuogátta ára gömul einstæð móðir á laugardagskvöldi eftir gufubað og heilvax og eldamennsku og eitt og hálft rauðvínsglas; aðallega eitthvað á þá leið að það væri nú agalega leiðinlegt að takast aldrei að skrifa neitt af viti, skrif ganga illa og efinn er mig lifandi að éta, eitthvað það mest óþolandi ástand sem hægt er að hugsa sér er að hafa ekki hugmynd um hvað maður ætli að skrifa en gera sér um leið fyllilega grein fyrir því að vera ekki bara töluvert ritfær manneskja heldur vel það og eiga sér þar af leiðandi ekkert til málsbóta, vandinn liggur fyrst og síðast í því að vera gríðargóður í spretthlaupinu en allverulega mikið slakari í langhlaupinu, maður missir einbeitinguna og nennuna og þegar verst lætur áhugann og fer að telja sér trú um að mann langi hvort eð er ekkert til að skrifa neitt og sé yfir höfuð sama um alla hluti, sérstaklega skrif, þetta kallast að ljúga að sjálfum sér, ég lýg oft að sjálfri mér, sjaldnar að öðru fólki, það geri ég ekki nema í ýtrustu neyð, eins og til dæmis þegar litla músin spyr mig hvort ég vilja hlusta á hana syngja titillagið úr frosin, þá lýg ég eins og ég er löng til og segi „já, endilega“, mér finnst þetta viðbjóðslegt lag þó það sé reyndar agnarögn skárra í flutningi músarinnar en í upphaflegri útsetningu, hugsanlega vegna  þess að músin talar ekki ensku og kann þar af leiðandi ekki textann, sem er afspyrnuvondur, ég vona að það verði ekki gert framhald af þessari mynd, það færi alveg með samband okkar músarinnar, ég verð að reyna að kenna barninu að hlusta á almennilega tónlist, sú aðgerð öll misheppnaðist reyndar algjörlega í uppeldinu á mínu eigin barni sem hlustar á tóman óhróður á youtube alla daga og lokar sig inní herbergi þegar ég hækka í springsteen að syngja um fjöldamorðingjann frá nebraska, hvað getur maður gert? guð veit að maður hefur reynt, eitt af því  sem barnið fékk oftar en einu sinni að heyra frá vinkonum sínum í æsku var athugasemdin „mamma þín er alltaf að spila svo skrýtna tónlist“, kannski fór ég vitlaust að þessu, kannski er maður bestur í því að skjóta sig í löppina, en það er laugardagskvöld og ég hugsa ekki um diskókúluna, nei, ég hugsa um fíkjutréð sem hún eva át af og það hvort ástin sé yfir höfuð möguleiki, horfi svo á yfirgengilega væmin myndbönd af hundum og eigendum þeirra, dapurlegt, sannarlega dapurlegt, og nú er auðvitað eðlilegt að fólk spyrji forviða: af hverju í veröldinni ertu að hafa fyrir því að vaxa á þér fótleggina (athugið að hér er átt við fótinn eins og hann leggur sig frá klofi og niður að ökkla) og handakrikana (eins og það er nú agalega óþægilegt)?! og ég svara þá svellköld: hvað svo sem öðru líður þá er maður alltaf sitt eigið vitni og sjálfsagt að vera álíka kurteis við sjálfan sig og aðra eða; komdu fram við sjálfan þig eins og þú vilt koma fram við aðra eða; það er óþarfi að standa sig illa í öllu, ég hef þegar staðið mig illa einu sinni í vikunni, mætti í munnlegt próf algjörlega yfir mig undirbúin og svo lömuð af stessi að ég var ekki fyrr sest niður fyrir framan kennarann en öll þau orð sem ég hafði nokkru sinni lært – gildir þá einu hvort við erum að tala um á ítölsku eða íslensku – gufuðu upp úr höfðinu á mér og þá alveg sérstaklega þessi sem ég var búin að undirbúa vandlega fyrir þetta próf, hvað ég sagði í framhaldinu veit ég ekki, eitthvað hlýt ég þó að hafa sagt því á einhverjum punkti sagði kennarinn: va bene, og vísaði mér út, sem ég lét ekki segja mér tvisvar og hrasaði út af skrifstofunni andstutt og eldrauð í framan og gott ef það var ekki kattarhlandslykt í handakrikunum á mér, bene bene    

laugardagur, 1. mars 2014

ölvið ykkur!

ef ekki með loftfyrrtri lotuþjálfun og endorfínsukki í líkingu við það sem ég lá í á stofugólfinu í morgun, þá með skáldskap, hvort sem er, í guðs bænum, ölvið ykkur!

ég klæði mig í svart silki (fyrir fíu mína langt í burtu)

og undirbý af kappi munnlegt próf í ítölskum femínisma, frammistöðunni verður hugsanlega lýst á tungu þarlendra sem completamente scandaloso, en ég, ég er hvergi bangin, ég er sætabrauðsdrengurinn, ég hleyp hraðar en allir, enginn getur náð mér, öðru hvoru hverf ég inní hliðarveröld eigin skáldskapar og skrifa sitthvað um blómstrandi fíkjutré í fjarlægum löndum og þetta sem gerist og skiptir máli, því einhvern veginn er það þannig að það sem gerist og skiptir ekki máli gerist aldrei aftur en það sem gerist og skiptir máli er uppfrá því í einhverjum skilningi alltaf að gerast, þegar það hefur einu sinni gerst gerist það í sífellu, þið skiljið hvað ég á við ... er það ekki? 

laugardagur, 8. febrúar 2014

dag nokkurn vaknaði ég í rúmi mínu eftir órólegar draumfarir og komst að því að …



mig dreymir eitthvað undarlega mikið þessar næturnar, mestmegnis tóma þvælu að því virðist við fyrstu sýn en svo þegar ég set drauminn á blað og rýni aðeins í hann sé ég hvað hann er skýr birtingarmynd á innra lífinu, ef ég til dæmis setti draum næturinnar niður í stikkorðum væru þau svo hljóðandi (er það kannski eitt orð … ?): taugaveikluð barátta við agnarsmáa ógn, lyfta, flótti, leit, mikil ringulreið; með öðrum orðum líf mitt eins og það kemur mér fyrir sjónir, þetta með lyftuna tengist auðvitað undirvitundinni – ég er reyndar mjög lyftuhrædd og það var ekki fyrr en rétt í þessu að ég setti þann ótta í samhengi við undirvitundina og óttann við að ferja upp úr henni þann óhugnað sem þar er að finna, svona kemur allt til manns með tímanum, stundum eitthvað sem maður hefði heldur viljað að héldi sig fjarri, eins og í fyrrinótt, þá dreymdi mig dáldið óþolandi, hvað merkir það að einhver gefi manni bók í draumi? og gefandinn er einhver sem einu sinni var manni afar kær en er það ekki lengur? ég var að halda stórt boð og hafði hreint ekki óskað eftir nærveru þessa manns enda var hann mjög áhyggjufullur á svipinn þegar hann rétti mér gjöfina þó hún væri falleg og yfirleitt þyki mér fátt skemmtilegra en að fá gjafir og þá sér í lagi bækur, bókin var líka falleg, mig rámar í rauðan og bláan lit, ég varð mjög sorgmædd þegar ég rifjaði upp drauminn en í draumnum var ég alls ekki sorgmædd, mér var bara virkilega illa við að taka á móti gjöf frá þessum manni, af hverju þurfti hann að vera að gefa mér þetta? og með þennan svip? gat hann ekki bara sleppt þessu? bókin var þung og þykk, ekki ósvipuð þeirri sem kom með póstinum í vikunni; the golden notebook eftir doris lessing, pappírinn í þeirri bók er reyndar þykkari og skurðurinn á blaðsíðunum grófari en á þeirri sem ég fékk í draumnum sem var í alla staði afar vönduð, ég var ögn slegin þegar bókin hennar doris kom með póstinum, ég hélt ég hefði pantað mjög þunna bók svo þegar konan á pósthúsinu rétti mér pakka sem virtist innihalda símaskrá datt mér helst í hug að bókinni fylgdi einhver óvæntur kaupbætir, gat verið að dánarbú doris lessing væri að senda mér þakklætisvott fyrir sýndan áhuga? en svo opnaði ég pakkann og við mér blasti þessi múrsteinn sem nú liggur fyrir að lesa, og ég hef reyndar mun meiri áhuga á að lesa þennan múrstein heldur en þann sem ég fékk frá áhyggjufulla manninum í draumnum, á þeirri bók hafði ég satt að segja engan áhuga, mig langaði helst af öllu til að losa mig við hana enda hafði ég á tilfinningunni að með því að þiggja hana væri ég að skrifa undir ósýnilegan sáttmála um eitthvað sem ég hefði ekki kynnt mér að fullu en gæti hugsanlega öðlast einhverja innsýn í með því að lesa bókina, hugsanlega myndi ég þá komast að einhverju sem ég kærði mig ekki um að vita eða – það sem verra væri – neyðast til að skipta um skoðun, jafnvel viðurkenna að ég hefði haft rangt við, haft rangt fyrir mér og lesið lífið vitlaust, og það myndi ég ekki þola, það myndi ég aldrei samþykkja, svo ég hélt bara á bókinni og ákvað að ég skyldi aldrei lesa hana, fann fyrir djúpri óánægju og gremju og langað ekkert nema að skila henni, það sem fór sérstaklega í taugarnar á mér var hvað hún var falleg, mig langaði hreinlega til að kveikja í henni, en þá vaknaði ég, því miður, það hefði verið afar geðhreinsandi að kveikja í þessari bók þarna í miðju boðinu, já djöfull sem ég held að það hefði verið gott

stundum sef ég ekki neitt, og dreymir þá ekki neitt, kannski það sé ekki svo slæmt



laugardagur, 1. febrúar 2014

dingaling!


dingalingaling! húllumhæ! hver hringir bjöllu? kom þetta kannski að innan? eða að ofan? eða út úr draumi? dingalingalingaling, nei það kemur að utan, nánar tiltekið frá dyrabjöllunni sem ég var yfir höfuð búin að gleyma að væri til því það hringir henni aldrei neinn, en nú er henni hringt og ekki bara einu sinni og með þeim hætti sem hefðbundið fólk myndi gera sér að góðu heldur oft í röð og ákaft eins og sá sem ber ábyrgð á hringingunni sé ekki að öllu leiti sáttur við viðbragðssnerpu þeirra sem inni liggja láréttir og rúmklæddir undir sæng, þegar ég átta mig á að hér sé verið að gera rúmrusk og ræs í húsi mínu stekk ég fram í anddyrið og ríf upp útidyrahurðina og viti menn hér er mættur herrmundur ellibjé í sínum sjúskuðu kuldastígvélum – þeim hinum sömu og mér þykja hörmulega ljót og langar til að henda þó ég þori ekki að nefna það af ótta við að móðir hans bendi mér á að ég sé afskiptasamt snobbhænsn og leiðindakelling en í því gæti konan haft eitt og annað fyrir sér, sjálfur virðist litli maðurinn alls ósnortinn af ljótleika stígvéla sinna, hann sparkar þeim einfaldlega af sér svo þau fljúga af fótum hans og hafna hér og þar í forstofunni um leið og hann rífur sig úr úlpunni og spyr „hvar er amma?“, einhvern veginn hafa hlutirnir þróast þannig að amma er uppáhalds en ekki ég sem mér finnst ekki endilega verðskuldað eða eins og það eigi að vera þó ég hafi ekki hátt um það við litla manninn, menn verða bara að fá að eiga sínar ömmur í friði, verra þótti mér þegar ég nýlega rakst á teikningu eftir hinn unga upprennandi listamann e.b.; listaverk þar sem markvisst var unnið með samspil fígúrutífrar teikningar og texta en á blaðið hafði hann teiknað það sem ég túlkaði sem sjálfsmynd og skrifað í kring nöfn allra sem honum þykja bestir, í stuttu máli sagt voru þar nöfn allra í heiminum nema mitt eigið, líka nafn hundsins, þetta sveið smá, maður má sín lítils gagnvart heiðarleika smáfólks, ég hugga mig við að í staðinn er ég töluvert uppáhalds hjá litlu músinni systur hans sem skondrast nú inn um dyrnar einnig klædd kuldastígvélum þó til allrar lukku séu hennar til muna smartari en þau sem ellibjé brúkar til að stappa á drulluklessum og þræða sullupolla, mitt aldraða ömmusysturhjarta verður allt mun hressara og sprækara þegar músin krýnir mig með dýrindis prinsessuennisbandi og leyfir mér að kyssa kinnina eins og mér sýnist, ég tek gleði mína og læt það hvorki á mig fá né segi neitt þegar kveikt er á barnatímanum þar sem hinn hryllilegi sveppi fer hamförum í að vera drengjum þessarar þjóðar slæm fyrirmynd og karlmönnum yfir höfuð til skammar, ég hef af því stórkostlegar áhyggjur að í hvert skipti sem sveppi opni munninn deyji tugir taugabrauta í heilum þeirra vesalings barna sem með honum fylgjast og hafa sökum reynsluleysis og trúgirni ekki vit á að bera hönd fyrir höfuð sér, meðfram því að fylgjast með sveppa leika mismunandi tilbrigði við stefið „ég er heimsins mesti hálfviti“ og háma í sig eftirlætisfæðu ellabjé (transfitumettað örbylgjupoppkorn með gulu bíósalti, nokkurs konar stórmarkaðsútgáfu af kjarnorkuúrgangi) hamast þau systkinin á uppáhalds stofustássinu hennar ömmu: gríðarstórum og (svo maður segi satt og rétt frá) ógnarljótum fjölþjálfa sem hún festi nýverið kaup á því ýmis teikn eru á lofti um að þau afinn séu – svo ég noti orðalag ömmunnar – „eiginlega í mjög vondu formi“, það sama virðist ekki hægt að segja um ellabjé og músina sem fara í loftköstum á tækinu að því virðist án þess að hreyfa þind – ef þannig má að orði komast, ég þakka mínu sæla fyrir að á heimilinu sé eitthvað sem vegi upp á móti slikkeríishirslunum sem geta satt að segja stundum – og þá sér í lagi þegar smáfólkið er væntanlegt í heimsókn – svipað fullmikið til rekka í heildsölu sem sérhæfir sig í hvítum sykri, nei heyrðu mig! nú er fasistinn að taka völdin í þessari færslu, best að hætta leik þá hæst hann stendur og snúa sér að öðru, og haga sér þá kannski í samræmi við þær skyldur sem ég geri ráð fyrir að fylgir prinsessuennisbandi eins og því sem ég nú ber á höfði mínu, ef ég er eðalborin hlýt ég að hafa einhverjum gylltum hnöppum að hneppa einhvers staðar í staðinn fyrir að liggja hérna á náttkjólnum og raupa þetta, fjandinn hafi það, hvað gera eðalbornir á laugardegi? setja á sig varalit og fara í hælaskó áður en þeir rigsa niður laugarveginn og veifa til múgsins? gæti hugsast, gæti hugsast

þriðjudagur, 14. janúar 2014

nei


sjá yður hefur hlotnast mikil blessun! í dag hefur gott fólk tekið á sig það ómak að hafna þér um listamannalaun og þannig forðað þér frá því að verða einn af hötuðustu einstaklingum þjóðarinnar, ást hins mikla únivers er svo sannarlega máttug og magnþrungin

(ég er að reyna að temja mér þá hugsun að öll höfnun sé mikil blessun frá guði, ekki veitir af að einhver hafi vit fyrir manni)

mynd: hannah lemholt

mánudagur, 13. janúar 2014

á ég að skipta um skoðun?


tilneydd vinn ég nú að því hörðum höndum að sjúkdómsgreina sjálfa mig sem einstakling með of hátt sýrustig í líkamanum, aldrei hefði ég getað séð þetta fyrir, getur verið að mín líkamlega hreysti sé ekki sú forskrift að fullkomnun sem ég hef hingað til talið hana vera? getur verið að maður sé ekki haldin neinu nema ranghugmyndum um sjálfan sig? en ég læt ekki hugfallast, og þó ég hafi í þessa þrettán daga sem af eru þessu nýja ári ekki haft til þess neinar sérstakar væntingar er ég að hugsa um að taka þá afstöðu til endurskoðunar og skrúfa þá væntingarnar upp úr öllu valdi, þetta verður árið sem ég skrifa mín bestu ljóð, ég sigrast á efanum og við michael fassbinder verðum elskendur, mér virðist aðeins fært að lifa með tvennum hætti; annað hvort í lægsta þrepi hversdagsleikans eða í algerum óraunveruleika, millivegir eru utan minnar alfaraleiðar

föstudagur, 10. janúar 2014

heilög þrenning

iðka, trúa, elska

svo hljóðar stefnuyfirlýsing ársins 2014, kosmosið skrifar undir með fannferginu sem fellur að ofan og býr til autt blað, allt hefur verið þurrkað út, línur form og litir, hér hefst ný saga, upphaf hennar er óljóst og framvindan ófyrirséð, að skapa er að treysta, við ritun hinnar heilögu þrenningar var þess vandlega gætt að fara þvert gegn því sem lærðir kenna leikum um skýr og vel skilgreind markmið, vandlega tímasett og mælanleg, ég kæri mig ekki um markmið eða þrepaskiptar áætlanir, slíkt gerir ekkert fyrir andann og skynjunina, ég lifi aðeins í víðmynd (ég er næstum því pottþétt á að það sé orð) og innsæið er sjötta skilningsvitið, hin heilaga þrenning skal vaka yfir öllu dyggilega studd af ólíkindaparinu vilja og löngun sem bæði tvö reiða sig á forvitnina, hjartað skal ráða för og það er skylda að segja satt, með iðkun skal finna tilganginn, trúin skal styðja andann og með elsku skal skömmina burt reka

verði svo

fimmtudagur, 9. janúar 2014

ógæfa mín er endalaus


þó til annars sé ætlast af alminnilegu og eðlilegu fólki eru ambissjónir mínar nú í upphafi árs með því allra smæsta sem um getur í gervallri veröldinni, ég hef nákvæmlega engar væntingar til þessa árs aðrar en þær að það gangi tiltölulega áfallalaust fyrir sig, hvort það eru lágmarks- eða hámarkskröfur er kannski aðeins á reiki, ég veit það ekki, ég vildi óska að metnaðarleysi mitt væri til marks um nýlærða nægjusemi sprottna af breyttum lífsstíl og aukinni andlegri vakningu en ég er hrædd um að það sé ekki tilfellið, líkast til er maður bara að drepast úr þunglyndi, samt sem áður mun þetta allt saman rúlla einhvern veginn, ég mun klára enn eina háskólagráðuna og vera þá aðeins einni frá því að vera – eins og dóttir mín hefur unun af að benda mér á – „nákvæmlega eins og georg bjarnfreðarson“, svona líka ljómandi leiðum að líkjast, nei nei, þetta verður ábyggilega ágætt, ég er sjálfsagt bara illa fyrirkölluð og í hálfgerðu uppnámi og verulega ósátt við tilveruna af því ég er í þeirri skítastöðu að liggja undir grun um að vera með bakflæði og þá á maður ekki að drekka kaffi og ekki að borða súkkulaði og ekki að drekka áfengi, sérstaklega ekki rauðvín, sem er eina áfengið sem ég stundum drekk, mér finnst þetta fokkfúlt, ég hef haft þann sið að drekka einn kaffibolla þegar ég fer á fætur, borða fjóra bita af svörtu súkkulaði með tebollanum síðdegis, og drekka smá rauðvín öðru hverju, má maður andskotann ekki neitt í þessu lífi? þarf að hafa af manni alla hluti? djöfullinn! þetta er ekkert skemmtilegt, og til að kóróna ömurlegheitin hafði einhver pinterest vinur minn (þó ég hafi ekki í mér nokkurt geð til að kalla viðkomandi neitt í þá veruna) séð ástæðu til að pinna í morgun mynd af hundinum sínum á afmælisdaginn hans, hundurinn hafði lagt loppurnar uppá eldhúsborðið og virti fyrir sér ponsulitla ammælistertu með kertum og allt, þetta var ógeðslega sæt mynd, hundurinn var meira að segja nákvæmlega eins hundur og mig langar í, það mætti halda að sett hafi verið af stað sérstök aðgerðaáætlun til að knésetja tiltekna konu í mosfellsbæ, hvað gerði ég eiginlega til að verðskulda þessa meðferð? og já það er búið að loka pirate bay, akkúrat þegar ég var að ná fullum tökum á ólöglega niðurhalinu, og mig sem langar einmitt svo mikið til að horfa meira á bíómyndir á árinu, ég fer næstum aldrei í bíó af því það er næstum aldrei verið að sýna tékkneskar myndir með frönskum texta en samkvæmt fjölskyldu minni eru það einu kvikmyndirnar sem mig fýsir að horfa á, ég þyki leiðinleg heima hjá mér, en það er reyndar frönsk kvikmyndahátíð framundan í háskólabíó, hver veit kannski  verður einhver þeirra með tékkneskum texta, kannski kastar heimurinn í mig beini eftir allt saman