miðvikudagur, 25. desember 2013

4.


best að vekja að fyrra bragði máls á því sem augljóst er svo fólk haldi ekki að maður hafi eitthvað að fela, sá fjórði er að sjálfsögðu löngu liðinn, drengurinn fæddur og búið að afhenda gjafirnar án þess að nokkuð hafi verið fært um það hér til bókar, ég sinni öðru, lestri aðallega og held mig fjarri mannabyggðum, langt í burt og loka augum blám í hvítri auðn, dvalarstaðinn gef ég ekki upp (hér gætu glöggir lesendur áttað sig í vísun í ljóðabókina hjörturinn skiptir um dvalarstað, sjá aðventugetraunina hér neðar), við í vitnaverndinni viljum síður að veruleikinn hafi upp á okkur, þessi „við“ erum ég og eiríkur guðmundsson sem sefur uppí hjá mér yfir hátíðarnar, ekki á náttborðinu, uppí, fyrir utan gluggann er myrkrið svo þétt að ef ekki væri fyrir vindhviðurnar sem berja timburveggina mætti hæglega halda að húsið væri á þyngdarlausu flugi um himinngeiminn, það veldur hvorki mér né fylgdarfólki mínu áhyggjum, matarbyrgðirnar ættu að duga okkur út að landamærum sólkerfisins og ég sýndi all umtalsverða fyrirhyggjusemi  – nokkuð sem ég annars er ekki þekkt fyrir – þegar ég pakkaði niður bæði hkl, kierkegaard og ee cummings fyrir ferðina, auk þeirra höfðu fyrrnefndur e.g. og lærimóðir mín v.g. lætt sér dulbúin með; hann sem jólasveinn, hún sem hvítar stjörnur á fjólubláum himni, spruttu svo undan trénu í gærkvöld og hreiðruðu um sig milli handa mér eins og eitthvað sem hefði alltaf átt þar heima en aðeins haldið sig til hlés þar til rétti tíminn rynni upp, auk okkar eiríks sefur í rúmi mínu eitt smáskott og flóðhestur úr gerviefni merktur sænskri verslunarkeðju, hann fékk að koma uppí gegn því skilyrði að hann léti lítið fyrir sér fara, sjálf vissi ég ekki að flóðhestar yxu í svíþjóð, hvað þá krókódílar en einn slíkur liggur uppí hjá smáskottinu sem sefur í næsta herbergi, auk þeirra eru hér bæði hundar og mýs, hvort tveggja íslensk og af holdi og blóði, hér í geimörkinni er fjölbreytileikanum fagnað, reyndar eru ekki allir á eitt sáttir með mýsnar en fólk hefur komið sér saman um að vera ósammála, ég fyrir mitt leiti úthýsi engum á friðartímum – hvorki úr hýbýlum hjartans né öðrum – þó ég gangist við því að setja ekki allt undir sama hatt og eitt standi mér nær en annað og enginn nær en póesíuprinsinn e.g., þar kæmist ekki hnífsblað á milli skal ég segja ykkur 


e.s. og já svarið við aðventugetrauninni er að sjálfsögðu jesú, krónhjörtur kærleikans

sunnudagur, 15. desember 2013

3.

hér er lítil  aðventugetraun; hvað gengur mér til með þessum hjartardýrum? vegleg verðlaun í boði

mánudagur, 9. desember 2013

fjarri raun og veru


hef nú skilað af mér lærðri ritgerð um hina upphöfnu kvenímynd í ljóðum ítalskra miðaldaskálda, ég get svarið það maður er hreint undarlega vel að sér, sjálf myndi ég ekki falla að fyrrnefndri ímynd í mínu núverandi ástandi og þá meina ég ekki eingöngu fyrir þær sakir að vera ekki glóhærð og engilfríð og frómari en menn geta gert sér í hugarlund, hef hvorki baðað mig, klætt né greitt síðustu fjóra daga og ég er hvorki að draga úr né bæta í þegar ég segi að afleiðingarnar séu minna en hrífandi, ég virðist hafa náð þeim aldri að þurfa að hafa fyrir hinum náttúrulega sjarma, stakk mér út fyrir hússins dyr um leið og ég hafði ýtt á send og brá hálfpartinn við lyktina af fersku lofti, ég hafði ekki fundið beran himin yfir höfði mér frá því fyrir helgi og þarna á dyraþrepina varð ég skyndilega slegin yfir stærð hans og umfangi og bleikri slikjunni yfir skýjunum sem minnti mig á kínverskt epli, ekki spyrja mig hvernig kínversk epli líti út, ég er á móti viðskiptum við kínverja, þetta var einfaldlega það fyrsta sem mér kom í hug og ef það er einhver færni sem ég ætla að vera búin að tileinka mér fyrir fertugt er það að treysta innsæinu, ég tók nokkur spor í að hlusta á brakið í fönninni áður en ég leyfði monsjör n.c. að hefja upp sína djúp dimmu í dvínandi skammdegisbirtunni, tók stefnuna í átt að einu af fellunum sjö og skynjaði hvað hvítt yfirborð fer vel í auga á ójöfnum útlínum þó það geti virst kuldalegt í sléttu hornréttu rými

sunnudagur, 8. desember 2013

2.

ítölsk bókmenntasaga er að eyðileggja fyrir mér aðventuna, fyrir utan mandarínubörkinn á borðinu og hreindýrin sem mæna á mig utan úr garðinum er hér ekkert sem minnir á jólin, þessi grenigrein í vasanum hérna fyrir aftan mig er bara til málamynda, fremur aumkunarverð tilraun vilji maður vera hreinskilinn

fimmtudagur, 5. desember 2013

kæra jesúbarn


það hryggir mig að skrifa þér svo stuttu fyrir afmælið þitt og tilkynna að ég muni mæta tómhent í veisluna (hafðu samt engar áhyggjur af skreytingunum, nágranni minn keypti prýðilega leikmynd að helgileikunum á vægu verði í húsasmiðjunni og hefur komið henni upp í garðinum svo eftir er tekið, mitt hlutverk var að yfirfara allar seríur sem ég og gerði samviskusamlega), málið er að síðastliðið ár hefur mér – þessari manneskjuögn – ekkert orðið ágengt með fyrirgefninguna og þar sem ég veit af fenginni reynslu að þig langar aldrei í neitt annað (full ósveigjanlegt kannski, en allt í lagi) get ég í fljótu bragði ekki séð hvernig mætti bjarga málum fyrir horn, eðlilega þykir mér þetta ákaflega leiðinlegt og bið þig innilega að fyrirgefa

miðvikudagur, 4. desember 2013

stóð uppá stól

ég viðurkenni að dekadans nútímans nær stundum tökum á mér (þrátt fyrir alla hugleiðsluna, maður er mennskur, hvað get ég sagt), í allan dag hef ég hálfpartinn verið öll uppí loft yfir þessu pisa-könnunar rugli, guð minn góður hvað ég hata samanburðinn og félaga hans samkeppnina, guð minn góður hvað ég hata alla þessa þvælu um að læsisleysi (já ég var að búa þetta orð til) íslenskra drengja sé skólum landsins að kenna, og ég ætla ekki einu sinni að tala um viðrinismann sem einkennir hugmyndir vorar um menntun –  hvað teljist tækt sem slíkt og hvað sé þess virði að mæla það, þessi stöðluðu viðmið sem eru ekkert annað en aðför að mennskunni, andskotinn ég er búin að vera svo brjáluð í dag að mig langar stöðugt að brjóta eitthvað, núna verð ég að hugleiða, það eitt er víst, ekki til að skilja af hverju þetta hafi svona djúp áhrif á mig – það veit ég vel – heldur til að reyna að sjá skýrt hvernig ég geti best nýtt þessa reiði, á ég að gerast kennari aftur? og reyna að mylja þetta andskotans kerfi niður innan frá? eða snúa mér alfarið að því að hlúa að listamanninum í mér og standa með þeirri hugmynd að sköpun og samhyggð séu einu öflin í heiminum sem hreyfi hann áfram? ég veit það ekki ennþá, ég veit það ekki, ég veit bara að:

a) samanburður smækkar fjölbreytileika mennskunnar

b) það sem skiptir mestu máli verður aldrei mælt á stöðluðum kvörðum

… og annað sem tengist þessu ekki beint (þó allt tengist þegar allt kemur til alls): það er tvennt í þessum heimi sem elur á heimsku manna; of mikil athygli og of miklir peningar

sunnudagur, 1. desember 2013

1.

hreindýrin voru mætt í garðinn í bítið í morgun, ég fylgdist með þeim út um gluggann og velti fyrir mér hverju væri best að fóðar þau á, það er næstum ekkert til í ísskápnum nema beikon og jalapenoostur og hörfræolía, ég verð að treysta á að þau geri sér þessar fáu hríslur í garðinum að góðu og teygi sig svo yfir til nágrannans þegar allt þrýtur, sjálf húki ég innandyra á ullarbrókinni og spila jim reeves sings christmas classics þó ég hafi hvorki komið mér upp aðventukransi né piparkökuhúsi, skrifa bréf til jesúbarnsins og afsaka frammistöðuleysi mitt á árinu í mikilvægum málalflokkum, fyrirgefningunni til að mynda, bið samt skömmustulaust um jólasnjó og aðra fánýta og forgengilega hluti, fleygi eplaafgöngum út um gluggann fyrir fuglana og hina hyrndu gesti sem róta í blómabeðunum og jórtra á seigum birkigreinum líkt og annars hugar, á morgun fer ég og kaupi eitthvað kjarngott fóður handa þeim, ég vil ekki eiga á hættu að þeir verði búnir að flytja sig yfir á númer 17 fyrir næsta sunnudag