best að vekja að fyrra bragði máls á því sem augljóst er svo fólk haldi ekki að maður hafi eitthvað að fela, sá fjórði er að sjálfsögðu löngu liðinn, drengurinn fæddur og búið að afhenda gjafirnar án þess að nokkuð hafi verið fært um það hér til bókar, ég sinni öðru, lestri aðallega og held mig fjarri mannabyggðum, langt í burt og loka augum blám í hvítri auðn, dvalarstaðinn gef ég ekki upp (hér gætu glöggir lesendur áttað sig í vísun í ljóðabókina hjörturinn skiptir um dvalarstað, sjá aðventugetraunina hér neðar), við í vitnaverndinni viljum síður að veruleikinn hafi upp á okkur, þessi „við“ erum ég og eiríkur guðmundsson sem sefur uppí hjá mér yfir hátíðarnar, ekki á náttborðinu, uppí, fyrir utan gluggann er myrkrið svo þétt að ef ekki væri fyrir vindhviðurnar sem berja timburveggina mætti hæglega halda að húsið væri á þyngdarlausu flugi um himinngeiminn, það veldur hvorki mér né fylgdarfólki mínu áhyggjum, matarbyrgðirnar ættu að duga okkur út að landamærum sólkerfisins og ég sýndi all umtalsverða fyrirhyggjusemi – nokkuð sem ég annars er ekki þekkt fyrir – þegar ég pakkaði niður bæði hkl, kierkegaard og ee cummings fyrir ferðina, auk þeirra höfðu fyrrnefndur e.g. og lærimóðir mín v.g. lætt sér dulbúin með; hann sem jólasveinn, hún sem hvítar stjörnur á fjólubláum himni, spruttu svo undan trénu í gærkvöld og hreiðruðu um sig milli handa mér eins og eitthvað sem hefði alltaf átt þar heima en aðeins haldið sig til hlés þar til rétti tíminn rynni upp, auk okkar eiríks sefur í rúmi mínu eitt smáskott og flóðhestur úr gerviefni merktur sænskri verslunarkeðju, hann fékk að koma uppí gegn því skilyrði að hann léti lítið fyrir sér fara, sjálf vissi ég ekki að flóðhestar yxu í svíþjóð, hvað þá krókódílar en einn slíkur liggur uppí hjá smáskottinu sem sefur í næsta herbergi, auk þeirra eru hér bæði hundar og mýs, hvort tveggja íslensk og af holdi og blóði, hér í geimörkinni er fjölbreytileikanum fagnað, reyndar eru ekki allir á eitt sáttir með mýsnar en fólk hefur komið sér saman um að vera ósammála, ég fyrir mitt leiti úthýsi engum á friðartímum – hvorki úr hýbýlum hjartans né öðrum – þó ég gangist við því að setja ekki allt undir sama hatt og eitt standi mér nær en annað og enginn nær en póesíuprinsinn e.g., þar kæmist ekki hnífsblað á milli skal ég segja ykkur
e.s. og já svarið við aðventugetrauninni er að sjálfsögðu jesú, krónhjörtur kærleikans