ég fór til læknis í dag, ég bað hann um að hlusta á mig anda, ég bað hann samt ekki um að hlusta á hjartað í mér, ég er alveg hætt að biðja karlmenn um svoleiðis, læknirinn hlustaði á mig anda og sagði svo að ég væri búin að verða mér út um þetta líka fína bronkítis (hvar?!!), ég var að hugsa um að segja honum að mér af vitandi leggði ég mig ekki sérstaklega eftir því að „verða mér út um“ óþægilega öndunarfærasjúkdóma, ég sé ekkert bankandi uppá hjá nágrönnunum í þeim tilgangi að nauða slíkt út úr þeim, en ég var svo þreytt í bakinu eftir hóstakviðurnar síðustu daga að ég þagði bara ólundarlega á meðan hann pantaði alls konar pillur og púst handa mér í apótekinu, loks hleypti hann mér út og ég gat dröslað mínum sjúka búk til apótekarans, inni í apótekinu var varla nokkur hræða, samt var mér sagt að bíða, geti maður einhvers staðar gengið að því vísu að þurfa að bíða er það í apótekum, sem ég skil ekki, af hverju tekur svona langan tíma að sækja lyfin í hillurnar og setja þau í hvíta bréfpokann? prenta út límmiðana og hefta fyrir? og þá skildi ég þetta allt í einu, alveg óvænt og án þess að ég hefði reynt sérstaklega á mig til komast að svo skýrri niðurstöðu laust svarinu skyndilega niður í kollinn á mér þar sem ég þvældist á milli snyrtivörurekkanna og sokkabuxnastandsins og ergði mig á þessu bjánalega fyrirkomulagi: biðinni í apótekinu er ætlað að leiða til þess sama og vakti fyrir vondu mönnunum sem hönnuðu ikea-búðina þannig að maður verði að ganga í gegnum búðina alla til að borga fyrir þennan eina pakka af sprittkertum sem maður kom til að kaupa, þegar maður loks kemst að kassanum er maður einhverra hluta vegna líka með straubretti, baðvigt og eitthvert eldhúsáhald í innkaupakerrunni og er rukkaður um upphæð sem er órafjarri þeirri sem maður upphaflega ætlaði að eyða í sprittkerti, nákvæmlega þetta henti mig í apótekinu í dag, eftir að hafa beðið þarna í einhvern óratíma í því ástandi sem fólk er gjarnan í þegar það heimsækir apótek; með áhyggjur af heilsufari mínu og tilbúin til að gera nánast hvað sem er til að losna úr viðjum veikinda minna, var ég – þegar konan bak við afgreiðsluborðið kallaði loksins í mig – með fangið fullt af alls kyns heilsubótarvarningi sem ég hafði stuttu áður ekki rennt í grun að væri mér algjörlega nauðsynlegur ætlaði ég yfir höfuð að halda áfram að lifa; feitt andlitskrem, lífrænt eplaedik með aðalbláberjum, d-vítamín og tannbursta sem við nánari eftirgrennslan kostaði áttahundruð krónur ... ég er ennþá að reyna að gera upp við mig hvort það sé mikið eða lítið fyrir tannbursta, þetta lítur út fyrir að vera mjög góður tannbursti, supersoft, einmitt gott fyrir fólk eins og mig sem hættir til að sýna aðeins of mikinn þjösnaskap við burstunina, konan á kassanum varð bókstaflega feimin þegar hún nefndi heildarupphæðina sem mér var gert að greiða þarna á staðnum andmælalaust, sem ég og gerði auðvitað án þess að bregða svip en ekki án þess að hugsa virkilega illa til vondu mannanna í heiminum, manneskjan er hvergi óhult fyrir kapítalinu, ekki einu sinni þar sem hún leitar líknar meina sinna, ég get svarið það, andskotans lyfjafyrirtæki, þegar heim kom sturtaði ég öllum heilsuvarningnum í mig án þess að skeyta sérstaklega um ráðlagða dagskammta eða þess háttar minniháttar atriði, ég þarf að ná heilsu núna, ekki á morgun eða hinn eða hinn, kveikti svo á útvarpsfréttunum og kom lambalærissneiðunum fyrir í eldfasta mótinu með nokkurri natni áður en ég hófst handa við að smjörsteikja sveppina og vorlaukinn ásamt hvítlauk og sítrónutimian, ég veit ekki hvort það voru heilsuvörurnar eða fréttirnar af kjarnorkubrölti friðarverðlaunahafans sem fóru öfugt ofan í mig en einhverra hluta vegna kom ég ekki miklu niður af kvöldmatnum, lambakjötið var reyndar ekki frá ss en eftir að systir mín hóf störf hjá því fyrirtæki verð ég oft mjög óróleg og þurr í munninum ef ég borða vörur frá öðrum matvælaframleiðanda, þetta er samt ekkert svo mikið mál á heimilinu, ekki þannig lagað ... ég gekk frá afgöngunum og vaskaði upp undir söng mariu callas á fræga laginu úr carmen, þið vitið þetta sem maður getur engan veginn hlýtt á án þess að fara ósjálfrátt að kippast allur til, ég man ekki hvað það heitir, æh maður er alveg uppgefinn eftir svona daga, ég hafði vonast til að geta tekið til í herberginu mínu í kvöld en einhvern veginn er ég hrædd um að af því geti ekki orðið, ég er ekki búin að horfa á neina mynd með gregory peck í dag af því ég var of upptekin við að teikna svo líklega neyðist ég til að fara í það mál í kvöld, svei mér þá, maður á bara aldrei lausa stund, er það furða að maður sé heilsulaus
föstudagur, 30. ágúst 2013
fimmtudagur, 29. ágúst 2013
miðvikudagur, 28. ágúst 2013
sjötti í veikindum
ég er gjörsamlega að skilja við úr leiðindum hérna heima hjá mér, núorðið hef ég reyndar náð nægilegri heilsu til að éta upp allan ost í ísskápnum og þvo á mér hárið en stofuvistin er engu að síður að ganga að mér dauðri, á milli þess sem ég ligg í lestri og fínkembi sarp ríkisútvarpsins ónáða ég heiðarlegt fólk í vinnunni þó ég viti vel að það megi engan veginn vera að því að tala við mig, þetta fólk er aðallega systir mín, eins og hún fái ekki nóg af röflandi liði inná gafl til sín sem yfirgæslumaður starfsmannamála hjá stóru fyrirtæki (þetta er ekki starfsheitið hennar, mér finnst ég þurfa að gæta viss trúnaðar), síðustu daga hef ég reynt að fara seint á fætur svo ég freistist ekki til þess að nauða það út úr henni að hringja sig inn í vinnuna með „veikt barn“, þið sjáið að ég er algjörlega að tapa allri sómatilfinningu, til að fólk fái sem skýrasta mynd af umfangi leiðinda minna (maður vill vera nákvæmur varðandi svona hluti) upplýsi ég hér með að ég hoppaði næstum hæð mína rétt í þessu þegar ikeabæklingurinn kom inn um lúguna ... við að skrifa þetta varð mér fyrst fyllilega ljóst hversu illa er komið fyrir mér, skaðinn gæti verið varanlegur, fréttablaðið – sá lúmski djöfull – leggur sitt í púkk kvala minna og birtir á baksíðunni auglýsingu frá flugfélagi sem finnst að ég eigi að skella mér til parísar eða berlínar eigi síður en núna! ég kemst ekki einu sinni út á svalir, íslenskt haust hefur aldrei verið eins lokkandi og æsilegt með allri þessari dásamlegu súld og roki, hver vill ekki vera úti í súld og roki?! hvers vegna eru engin börn úti að leika sér? hvað er að fólki í dag? ætlar fullfrískt fólk að verða af því að blotna í fæturnar vegna þess að því var að berast bæklingur frá einhverjum sænskum húsgagnaframleiðanda? er allt að fara í hundana á þessu landi?
mánudagur, 26. ágúst 2013
mússísistinn er alltaf einn
stundum þegar ég er ein heima læt ég eins og fífl, ég stilli mússíkina hátt og dansa við allt sem ég geri, syng með – óbærilega illa, að sjálfsögðu – og nota ýktar handahreyfingar til að tjá tilfinningahitann í textanum, svona eins og fólk sést gera í asnalegum bíómyndum, ég segi ekki að öll mússík komi mér í slíkt ástand en ef ég finn að innra með mér hefur hlaðist upp óþægilega mikil dramatísk spenna dríf ég mig í að skella til dæmis ellu fitzgerald að syngja cole porter í spilarann og leyfi svo öllu að gossa óhindrað út úr mér, betra að tappa af sér í einrúmi en missa sig kannski óvart innan um aðra, maður hefur jú svo hástemmda skapgerð og það getur verið virkilega geðhreinsandi að sleppa fram af sér beislinu annað veifið, ég afsaka mig stundum við spegilinn með því að annar hver maður geri þetta á sveitaböllum og þorrablótum, ég aftur á móti sæki ekki slíkar skemmtanir og hef þar af leiðandi fullan rétt til að haga mér asnalega heima hjá mér við og við, öðru hvoru þegar ella syngur i get a kick out of you grípur mig djúp þrá eftir hávöxnum vatnsgreiddum dansfélaga en yfirleitt kann ég bara vel við mig svona sóló; hendist eins og vitleysingur veggja á milli í íbúðinni, síðustu daga hef ég því miður ekki getað leift mér neitt í þessa veruna þótt ekki veitti mér af, ég hef legið þungt haldin af bæði kóleru og berklum og má þakka fyrir einfalda hluti eins og að komast í tæka tíð á salernið (ég nota orðið salerni hér meðvitað, þótt það geti virkað ögn tilgerðarlegt finnst mér í seinni tíð orðið klósett eitthvað svo vúlgar að ég fæ mig æ sjaldnar til að brúka það á blaði), í hitamókinu í gærkvöld fór ég langleiðina með að lesa hina geysivinsælu píslavættisgöngu harolds fry, bók sem ég hef einhverra hluta vegna verið uppfull af fordómum gagnvart og hefur legið lengi nánast í óþökk á náttborðinu mínu, ég hef oftar en einu sinni hreytt í hana orðum eins og kellingabókmenntir og allt mögulegt annað án þess að hafa nokkuð fyrir mér í því, ég tek það 75% prósent til baka, þetta er alls ekki illa skrifuð bók, ansi hreint snilldarleg á pörtum meira að segja þótt núna á síðasta þriðjungnum sé kannski farið að lengjast aðeins í lopanum og prjónaskapurinn ögn endurtekningasamur, en að því loknu ætla ég að lesa heimsljós, já, ég hef ekki lesið heimsljós, já, það er sjokkerandi, reynum að jafna okkur, og um leið og ég get gengið á milli herbergja án þess að kúgast af hósta mun ég eiga mússíkalst stefnumót við sjálfa moi á stofugólfinu og fagna haustinu sem ég treysti að verði fegurra en sumarið, haustið er svo yndisleg þversögn, það er upphaf þótt það sé endalok og í því er einhver hreyfing og möguleiki, maður þarf að hafa eitthvað að hlakka til í veikindunum, hugsanlega set ég á mig ilmvatnið sem angar eins og mandarínur og basill, og plómuvaralitinn, appelsínugult, dökkgrænt og vínrautt, fabjölös litapalletta
miðvikudagur, 21. ágúst 2013
mánudagur, 19. ágúst 2013
er ég í alvörunni til?
kona (hér ég) heldur í göngutúr á náttkjólnum og ullarbrókinni og sine gummistövler, klæðnaður sem vekur óskipta athygli þeirra sem á vegi hennar verða þó hún kippi sér ekki upp við það, suma daga er maður einfaldlega of okkúperaður við að skilja sjálfan sig til að skeyta um það hvort aðrir telji mann sinnisveikan, með í för er svartur hundur (hér alvöru hundur, ekki þunglyndið, þunglyndið sefur eins og er), fatnaðinn á hún sjálf en hundinn hefur hún fengið að láni hjá fjölskyldumeðlim sem því miður liggur veirusýktur á sjúkrahúsi, í göngutúrnum hugsar konan eitt og annað um það sem helst á hana leitar þessi dægrin – plagar væri kannski réttar að segja – og spilaði þétta rullu í þeirri ákvörðun að hún sleppti hinni árlegu ammælisbloggfærslu þetta árið, hinir þungu þankar eru ekki nýir á nálinni – hvorki fyrir konuna sjálfa né aðra sem eru eða hafa verið þeim hæfileika gæddir að hugsa – en eru þrátt fyrir það engu minna áleitnir og óþægilegir enda er meginþráður þeirra hið óleysanlega eilífðarenigma innri og ytri veruleika, hvað er hvers og hvurs í þeim málum og hversu „innarlega“ getur kona leyft sér að halda sig, eins og til að minna á að manneskjan kemst ekki hjá því að lifa beggja blands rykkir hundurinn öðru hvoru í tauminn – væntanlega þegar hann sér kanínu á hlaupum í ágústgróðrinum – svo konan missir þráðinn í þankagangi sínum og gleymir sér við að undrast hversu mörg tilbrigði við grænt er hægt að eygja á einum og sama blettinum að morgni til í sumarlok, af öllu því sem maður óttast í lífinu (sem er hvorki fátt né smátt) eru þeir ömurlegu kumpánar narsissistinn og egóistinn með því fyrsta sem bankar uppá – fast á hæla þeirra mæta svo blekkingasmiðurinn og flóttamaðurinn ... þegar maður hugsar út í það er reyndar ekki ósennilegt að þessir fjórir séu einn og sami maðurinn – og af þeirri óværu vill maður sem minnst vita, sá sem baslar endalaust við að skilja sjálfan sig finnur sig þó, því miður, endurtekið með höfuðið svo kyrfilega skorðað uppí eigin rassi að jafnvel honum sjálfum þykir nóg um og öplevelsið allt saman algjörlega út úr öllum kortum – jarðneskum sem og planetískum, eru ekki takmörk fyrir því hversu lengi maður getur sinnt því sem fullu starfi að stúdera innviði sín með aðstoð sálarlæknisins, stunda innhverfa íhugun, stinga vart niður staf til annars en að átta sig á því hvernig maður er samansettur og halda nákvæma dagbók yfir svefn og næringu og depurðarstuðulinn án þess að fara á einhverjum tímapunkti að velgja við sjálfum sér? af þessum sökum lét konan sig einmitt hafa það – sem hún annars lætur kjurrt – að bæði fletta dagblaði og njósna um nágranna sína fyrir morgunmat, hvorugt reyndist svo áhugavert að hún entist til þess nema skamma stund, því næst kveikti hún á almenningsútvarpinu, en einhvern veginn var eins og eyru hennar fylltust vaxi yfir fréttaflutningi af öllum hörmungum heimsins og hún gat ómögulega fest hugann við annað en viðtal við hinn raddfagra paul auster, því næst hugleiddi hún að hringja í fólk en komst aldrei lengra en það, þ.e. að hugsa um það, símareikningur konunnar er endurtekið svo lygilega lágur að það er mesta undrun að eitthvert símafyrirtæki kæri sig yfir höfuð um hana sem viðskiptavin, og þar sem hún gengur – í einhverju sem sumir vilja kalla skóg þó það hljóti að teljast full íburðamikið orð yfir landsspildu þar sem fyrir tilverkan viljugra manna má finna örfá tugi af háum trjám – slær niður þeirri hugsun í hennar þvælusækna höfði að kannski komi einmitt að því, fyrr en síðar jafnvel, að allt snúist þetta í höndunum á henni, að skyndilega verði staðan sú að hinn ytri veruleiki striki hana út af listanum yfir það sem í honum finnist og hún verði að trénu fræga sem féll (ekki) í skóginum
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)