mánudagur, 27. maí 2013

standi maður frammi fyrir einhverju sem maður fær ekki breytt borgar sig að velta sér upp úr því (hugleiðingar tengdar thermostatískum ögrunum)


ég sat í gufubaðinu í morgun og fylgdist með kóngulónum halda dauðahaldi í vefinn sinn fyrir utan gluggann, eitthvað við það hvernig þær hristust og dúuðu þarna í rokinu eins og veðurbarin börn á trampólíni gerði mig arga, það á enginn að þurfa að þola svona kulda að vori til, á eftir stóð ég ögn lengur undir köldu bununni en vanalega til að sýna þeim samstöðu (bara ögn samt, mér er í alvörunni ekkert svona umhugað um kóngulær, mér fannst þetta bara fín byrjun og ríma ágætlega við þá hugmynd sem maður hefur um fólk sem stundar mikið gufu en frekari stoðum verður einmitt rennt undir þá hugmynd aðeins neðar í textanum þegar ég tala um hugleiðsluna, lestu endilega áfram), yfirleitt líkar mér best að sitja ein í gufubaðinu, þá get ég hellt allri fötunni yfir steinana í staðinn fyrir að skammta mér eina og eina ausu af tillitsemi við þá sem eru ekki eins góðir í gufubaði og ég, ég er mjög góð í gufubaði, ég er búin að æfa mig svo rosalega, fæstir gefa sér tíma til að æfa sig svona mikið í gufu, fólk er svo stressað, oftast reyni ég að nýta tímann í gufunni til að hugleiða og þá er ólíkt notalegra að hlusta á platfuglasönginn sem streymir úr spiladósinni á veggnum heldur en gömlu kallana að þrefa um pólitík, hugleiðsla og pólitík ganga illa í efnasamband, eiginlega útlokar annað sjálfkrafa hitt en gömlu kallarnir virðast ekki hafa nokkurn einasta áhuga á andlegum málefnum, samt dragast gamlir kallar að gufuböðum í mun ríkara mæli en annað fólk, sem væri allt í lagi ef þeir væru þessar þöglu sterku týpur sem eldri menn eiga að vera, en það er ekki svo gott, það virðist vera eitthvað við heitt vatn sem losar verulega um málbeinið á karlmönnum, ég undra mig stundum á því hvers vegna þetta ráð er ekki brúkað meira af hjónabandsráðgjöfum, allavega, gufan var skammgóður vermir og mér er búið að vera svo kalt í dag að ef ég loka augunum sé ég innyfli mín fyrir mér sem risastóra undarlega lagaða ísmola og finn um leið í hjarta mér hvað þetta er hárrétt ákvörðun hjá okkur mæðgum að ætla að eyða öllum júlímánuði suður á ítalíu, í alvöru talað, ég hef ekki einu sinni farið á klósettið síðan fyrir hádegi af því ég get ekki hugsað mér að fara úr buxunum, ég er nokkuð viss um að enginn á ítalíu sé í þessum sömu sporum, þar er fólk að fara úr buxunum as we speak ... í alls kyns tilgangi

miðvikudagur, 15. maí 2013

einbeittur brotavilji


já, ég át allan ferraro rocher kassann ein, já ætli þetta hafi ekki verið um tuttugu molar, og já, ég veit að ég á ekki að borða hvítan sykur en ég var einfaldlega mjög svöng – eftir að hlaupa upp aðra hverja brekku hérna í bænum í gargandi bleiku hlaupaskónum mínum – og svo óheppilega vildi til að hann var það fyrsta sem varð á vegi mínum í eldhúsinum, ekki að ég eiga að þurfa að afsaka mig við nokkurn mann, ég átti þennan konfektkassa (hann var meira að segja gjöf frá mínum ágæta fyrrverandi manni) og það var ekki sála nærri til að deila honum með ... nema hundurinn auðvitað og það kom ekki til greina að gefa dýrinu með mér því þessi hundur á þegar í nægu veseni með meltinguna í sér þó ég sé ekki að bera í hann sælgæti í ofanálag, en þetta hlýtur auðvitað að afhjúpa einhverja djúpstæða sjálfseyðingarhvöt að örmagna sig fyrst við líkamsæfingar til að örva boðefnaflæðið og lyfta sálinni upp úr slíminu en vaða svo beint í sykurstampinn og keyra blóðsykurinn út um allar trissum með tilheyrandi afleiðingum, og fyrst ég er þegar búin að taka eina vonda ákvörðun er best að halda bara áfram og hita kaffi líka, ég get þá dekstrað við andskotans hégómann í mér á eftir og skrúbbað á mér lærin með korginum, reyndar full ástæða til, í dag kemur út bók eftir mig og vini mína, við ætlum að halda útgáfupartý og ég veit ekki hvað og hvað og hvað, dúndar töppum úr flöskum og láta jónas sig spila músík fyrir okkur og ég veit ekki hvað og hvað og hvað, svo maður ætti heldur betur að vera hress, samt er ég ekkert hress, hvað í andskotanum er eiginlega að mér og hvað á ég að gera í því? þrátt fyrir að iðka hvoru tveggja vandlega úthugsaðar sem og algjörlega fríhendis æfingar í að ná andlegri heilsu er ég samt sem áður svo sorgmædd flesta daga að mér finnst eins og andlitið á mér sé að bráðna, fólki finnst það ekki aðlaðandi, lái þeim hver sem getur, ekki ég, ég get svarið fyrir það stundum hvarflar að mér að kannski sé maður einfaldlega staðráðinn í því að standa sig illa, experience you cannot learn stóð á tepokanum mínum í morgun, ég varð dáldið hvumsa, langaði mest að hringja í einhvern á indlandi – einhvern í miklu andlegu jafnvægi – og benda á að suma reynslu kæri maður sig einfaldlega ekkert um, en þannig má víst ekki hugsa, það kallast örugglega að vera and- eitthvað ... andreynslusinnaður kannski, rétt viðbrögð eru víst að setja upp þennan milda „búdda á lótusnum“ svip, þakka fyrir hina ömurlegu reynslu og draga af henni djúpan lærdóm, ég reyni þetta stundum þegar ég reyni að hugleiða (mörg reyni í þessari setningu, getur einhver í alvörunni einbeitt sér að einhverju lengur en í þrjár sekúndur?) en yfirleitt enda ég grenjandi á baðherbergisgólfinu og minni meira að úttaugaðan pillusjúkling en hinn bústna glaða búdda, samt held ég áfram, núna er ég að byrja á einhverri art þerapíu, ég er að verða ein af þessu kellingum sem er hægt að selja hvað sem er, það er að segja ef ég ætti einhverja peninga, en almáttugur ég verð að hætta þessar sjálfsvorkun, maður verður að gefa sér afmarkaðan tíma í að vorkenna sjálfum sér, það er svo margt annað sem þarf að gera, ég meina, það er ekki eins og þessi læri skrúbbi sig sjálf, skiljiði

miðvikudagur, 8. maí 2013

fantasía mastersnema

hugsa sér, ég er með hálfgerðan sólsting, ha! er það nú ekki fullsnemmt í rassinn gripið? hinn útfjólublái höfuðverkur stafar líkast til af því að á milli þess sem ég sit við tölvuna hengslast ég í sólbaði í sundlauginni því ekki má ég hreyfa mig og eitthvað verður kona að gera þegar orð eru hana lifandi að drepa, reglugerðarmeistari háskóla íslands (mikið óskaplega hlýtur þeim manni að leiðast í starfi) heimtar að ég skrifi einhverja andskotans greinagerð með þýðingunni minni og jesús kristur hvað það er ömurlega leiðinlegt prójekt, þessi greinagerðabissness er svo hörmulegur allur saman að reglulega við vinnuna hellist yfir mig brennandi löngun til að æða beinasta veginn niður í hina miklu menntastofnun, þeyta upp hurðinni að skrifstofu viðkomandi (sem ég reyndar veit ekki hver er og ekki heldur hvort hann er einn maður eða tveir eða – guð hjálpi mér – jafnvel þetta sem fólk kallar „nefnd“) og hrópa: minn kæri, þetta er orðið gott! (athugið orðaleikinn, sögnin orðið hefur hér tvöfalda merkingu), svo sópa ég öllum leiðinlegu reglugerðarmöppunum og ljóta búrókratíudraslinu af skrifborðinu hans og horfi stíft í augun á honum (þannig að honum verður ekki um sel) og segi lágt en samt þannig að það heyrist um alla skrifstofuna: þú verður að gjöra svo vel, væni minn (brosi, en samt mjög mjög ógnandi) að reyna með einhverjum hætti – jafnvel þó það sé svo gott sem físískt ómögulegt fyrir þinn ferkanntaða haus – að skilja að þínar andskotans akademísku reglugerðir (hann lippst allur niður fyrir aftan skrifborðið) eru ekki að gera neitt fyrir minn listræna metnað, fótnótur eru ekki eitthvað sem eflir skapandi hugsun, engum – nema hugsanlega þér og nokkrum vinum þínum – finnst fótnótur skemmtilegar, fótnótur eru ömurlegar, sérstaklega í skáldskap, skilurðu það? (hann kinkar kolli, pínu sveittur á skrifstofuskallanum sínum – ég vorkenni honum næstum (næstum!)) þetta áhugamál þitt er bæði smásmugulegt og asnalegt og þú eignast aldrei hressa og skemmtilega vini – hvað þá kærustu (hlæ hæðnislega, that chance!) – ef þú ferð ekki að sjá að þér, svo storma ég út og þruma hurðinni af hjörunum á eftir mér, bamm búmm, hafðu það asnalegi asna...  asninn þinn!

laugardagur, 4. maí 2013

fimmtudagur, 2. maí 2013

ég er enn með lífsmarki en ...


ég er að skrifa lokaverkefni

þið mynduð ekki trúa því hvað það er mikil svitalykt af mér

mér hefur verið fyrirskipað að hvíla alla vöðvahópa í að minnsta kosti viku – það sér hvorki á heimilisfólki né húsgögnum ennþá en ég veit ekki hvað þetta heldur

nei, þetta át á mér nær auðvitað ekki nokkurri átt

hefur einhver séð passann minn?