föstudagur, 19. apríl 2013

mér er alvara þegar ég segi að það sé ofmetin dyggð að hafa fæturna á jörðinni


í gær sátum við fía slompaðar á bekk í gamla kirkjugarðinum og tönuðum okkur á meðan við fílósóferuðum, hugsandi fólk hlýtur að mega vera sólbrúnt í framan eins og aðrir ef því hugnast svo, það er líka bara svo skemmtilegt að sitja í gamla kirkjugarðinum og þykjast ekki greina mun á lifandi og látnum, í dag forðast ég útiveru, ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður hafi áhuga á öllu þessu vatni þarna úti – þó það sé ókeypis og vatn í sjálfu sér ekki alveg sjálfsagður hlutur, eiginlega er ég að forðast flesta hluti fyrir utan heimilisverk en ekkert eins mikið og tilhugsunina um atvinnuumsóknir og framtíðarhorfur mínar sem fagurskrifara, ég hugsa ýkjalaust að mér sé ekki jafnilla við neitt í veröldinni og atvinnuumsóknir ... nema kannski saurgerla, ég veit það ekki, því miður gæti þó svo farið að ég neyðist á einhverjum tímapunkti til að fylla slíkan óhugnað út því jafn ótrúlega og það hljómar þá stendur fólk ekki stappandi fyrir utan hjá mér og heimtar að fá að borga mér peninga fyrir að skrifa bókina mína, verðmætamat fólks nú til dags er alvarlega bjagað, en eins og ég segi er ég markvisst að forðast þessar hugsanir svo það er best að ég segi ekki meir um þetta (ekki hugsa um bleikan fíl ekki hugsa um bleikan fíl ekki hugsa ... ) þetta gengur illa, sér í lagi þar sem dóttir mín andar niður um hálsmálið á mér alla daga: ætlar þú ekkert að fara að finna þér vinnu, mamma mín, heldurðu að þú getir bara verið að leika þér endalaust ... skyndilega fyllast eyru mín af vaxi, andskotinn sem mér leiðist þessi vinnubissness allur, ég segi ekki að ég liggi við rúmstokkinn öll kvöld og biðji guð um að senda mér velgjörðarmann, það stríðir auðvitað gegn allri pólitískri rétthugsun og hver vill svo sem láta berja sig til dauða með glerskó (hvílíkur subbuskapur) en það er sama hvað ég reyni ég get ómögulega fengið mig til að þrá að vera tannhjól í fyrirtæki einhvers staðar úti í bæ, nema kannski á bókaforlagi ... ég veit það ekki, hvern andskotann veit maður svo sem

svo kæri ég mig ekki um að fólk sé að spekúlera í því hvernig sé mögulegt að fara í gegnum þrjú skólastig og vera bráðum útskrifaður úr mastersnámi í ritlist og hafa ekki enn lært stafsetningarreglur um notkun á yfsiloni, fólk gerir alltof mikið úr þessum andskotans stafsetningarreglum, í mínum huga eru þær meira svona til viðmiðunar, það stuðlar örugglega að betri heimi að hætta að velta sér upp úr þessari þvælu  

fimmtudagur, 11. apríl 2013

ég geri margar misteikur

hér er allt í vitleysu, almennt séð, allt í vitleysu, og doða, og flækju, í leit minni að hnykklinum hef ég snúist hvern hringinn á fætur öðrum í kringum sjálfa mig með fullar hendur af lausum endum og líkist nú helst sjálf einum slíkum, þ.e. hnykkli, ekki sléttum og fallega ofnum eins og þeim sem maður finnur í bunkum í álafossbúðinni – hvar ég drep helst ekki niður fæti, það gerir ekkert nema minna mig á mínar lélegu fínhreyfingar – heldur frekar eitthvað sem lítur út fyrir að hafa verið vafið af barni ... með lélegar fínhreyfingar ... hmmmm ég er hnykill sem ég hef sjálf vafið sem barn, sigmund freud hvar ertu! sumt fólk – fólk með góðar fínhreyfingar – heklar, ég hnykkla, mig grunar að þannig sé því farið með flesta þá sem lífið réttir endalaust einhver fáránlega stór þroskaleikföng sem manni ætlar aldrei að takast að læra á, af hverju getur maður ekki bara stundum fengið lúdó? lúdó er einfalt, lúdó er vissulega leiðinlegt en stundum er hægt að ná ágætis fókus í einföldum leiðindum, tökum þrif á klósetti sem dæmi, þau ganga yfirleitt frekar snuðrulaust fyrir sig, og svo finnst mér óþarfi af guði að vera að eiga þetta við höfuðáttirnar, eitt er að skapa fólk og dæma það til eilífrar leitar að eigin rassi, annað er að breyta upp úr þurru senaríinu sem þetta sama fólk hreyfir sig innan bara rétt svona til að sjá hvað gerist, ég vil ekki hljóma eins og ég sé að væna skapara minn um svindl en á köflum virðist þetta dálítið ójafn leikur, plís, viltu muna að ég er barn  

þriðjudagur, 9. apríl 2013

sáðu því sem vex


Lacrima

Í grátnum
er engin undankomuleið
og ekki færðu lengi dulist
bak við litlausa blæju.

Ég held utan um þig
faðma þig að mér,
hlusta á regnið
í auga þínu, það fellur
alveg af sjálfu sér.

Það voru þau tár
sem vökvuðu jörðina,
en þau eru sölt 
og upp af þeim
sprettur ekkert.

(Pia Tafdrup)