í gær sátum við fía slompaðar á bekk í gamla kirkjugarðinum og tönuðum okkur á meðan við fílósóferuðum, hugsandi fólk hlýtur að mega vera sólbrúnt í framan eins og aðrir ef því hugnast svo, það er líka bara svo skemmtilegt að sitja í gamla kirkjugarðinum og þykjast ekki greina mun á lifandi og látnum, í dag forðast ég útiveru, ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður hafi áhuga á öllu þessu vatni þarna úti – þó það sé ókeypis og vatn í sjálfu sér ekki alveg sjálfsagður hlutur, eiginlega er ég að forðast flesta hluti fyrir utan heimilisverk en ekkert eins mikið og tilhugsunina um atvinnuumsóknir og framtíðarhorfur mínar sem fagurskrifara, ég hugsa ýkjalaust að mér sé ekki jafnilla við neitt í veröldinni og atvinnuumsóknir ... nema kannski saurgerla, ég veit það ekki, því miður gæti þó svo farið að ég neyðist á einhverjum tímapunkti til að fylla slíkan óhugnað út því jafn ótrúlega og það hljómar þá stendur fólk ekki stappandi fyrir utan hjá mér og heimtar að fá að borga mér peninga fyrir að skrifa bókina mína, verðmætamat fólks nú til dags er alvarlega bjagað, en eins og ég segi er ég markvisst að forðast þessar hugsanir svo það er best að ég segi ekki meir um þetta (ekki hugsa um bleikan fíl ekki hugsa um bleikan fíl ekki hugsa ... ) þetta gengur illa, sér í lagi þar sem dóttir mín andar niður um hálsmálið á mér alla daga: ætlar þú ekkert að fara að finna þér vinnu, mamma mín, heldurðu að þú getir bara verið að leika þér endalaust ... skyndilega fyllast eyru mín af vaxi, andskotinn sem mér leiðist þessi vinnubissness allur, ég segi ekki að ég liggi við rúmstokkinn öll kvöld og biðji guð um að senda mér velgjörðarmann, það stríðir auðvitað gegn allri pólitískri rétthugsun og hver vill svo sem láta berja sig til dauða með glerskó (hvílíkur subbuskapur) en það er sama hvað ég reyni ég get ómögulega fengið mig til að þrá að vera tannhjól í fyrirtæki einhvers staðar úti í bæ, nema kannski á bókaforlagi ... ég veit það ekki, hvern andskotann veit maður svo sem
svo kæri ég mig ekki um að fólk sé að spekúlera í því hvernig sé mögulegt að fara í gegnum þrjú skólastig og vera bráðum útskrifaður úr mastersnámi í ritlist og hafa ekki enn lært stafsetningarreglur um notkun á yfsiloni, fólk gerir alltof mikið úr þessum andskotans stafsetningarreglum, í mínum huga eru þær meira svona til viðmiðunar, það stuðlar örugglega að betri heimi að hætta að velta sér upp úr þessari þvælu