miðvikudagur, 30. janúar 2013
laugardagur, 26. janúar 2013
hjartkæra kosmos, kosmíska hjarta
hvað það er skrítið hvernig sorgin beygir tímann, beygir hann og teygir svo maður skynjar gang hans ekki lengur í tengslum við rýmið, kom nýtt ár? erum við enn stödd í sama heimi? lífið tifar áfram, sumir dagar greinileg blæbrigði við lífsmörk, sumir dagar eins og afrit af afriti sem varla er greinanlegt, stundum langar mig til að standa í alheiminum miðjum og skilja úrverkið að baki undrinu, einhvers staðar er mikill kærleikur að störfum, ég trúi því, einhvers staðar er hið undursamlega í mikilli nálægð, ég er viss um það, en manneskjan er svo agnarsmá, hendur hennar eru ekki gerðar til að taka á plánetum, þær falla eins og sprek til jarðar, og maður veit að hversu sem það er vítt til veggja og hátt til lofts í guðs kosmíska hjarta er mannshugurinn oft sú þrengsta og mest þrúgandi vistarvera sem fyrirfinnst í verunni
laugardagur, 19. janúar 2013
af því ég veit ekki betur
hvað skrifar maður þegar manns nánasta fjölskylda telur einum færra en hún á að gera? er hægt að venjast þeirri hugsun? ekki að ég standi frammi fyrir þessari spurningu í fyrsta skipti, samt er ég ekki örugg á svarinu, þegar ég hugsa um platón og frummyndirnar verð ég andaktug yfir því að maðurinn hafi í mörg þúsund ár gert sér grein fyrir því að undirstaða þess að vera til er að trúa á fegurðina og þrá eitthvað æðra manni sjálfum, það sem flækist fyrir manni er þetta eitthvað, það getur verið svo erfitt að treysta, treysta guði og sínu ófullkomna sjálfi sem maður hendir aldrei almennilega reiður á hvað er, andspænis lífi og dauða er manneskjan svo agnarsmá, nánast ekkert, að standa raunverulega frammi fyrir því hvað lífið er brothætt er áminning um hvað það er að vera manneskja, ég trúi því að mennskan gangi þvert á tíma og rúm, að allur sársauki og öll samhyggð sé sú sama hér og nú og þá og þar og að þráin eftir því að yrða það sem er handan tungumálsins hafi fylgt manninum frá því hann fór að mynda orð, en þrátt fyrir árþúsunda æfingu er niðurstaðan enn sú að ekkert í veröldinni er eins óendanlegt og bilið á milli þess sem er innra með manneskjunni og veruleikans fyrir utan hana, fjarlægðir mældar í hugtökum eðlisfræðinnar blikna í samanburðinum
fimmtudagur, 10. janúar 2013
kæra únivers
þó þetta ár sem nýlega kvaddi muni í baksýnisspeglinum teljast með þeim verri af þessum þrjátíuogsjö sem ég hef hingað til kvatt myndi ég heldur vilja hefja það ár aftur núna heldur en að byrja það nýja með allri þeirri sorg sem það flutti með sér, ef þetta gefur tóninn fyrir það sem koma skal á þessu ári – sem ber hina vafasömu forskrift 2013 – þá bið ég um það eitt, kæra únivers, að ástvinum mínum sé hlíft, það er eitt að drösla sjálfum sér – meingölluðum og komplexeruðum – í gegnum rými og tíma, annað er að fylgja elskuðum ástvini til grafar og horfa á þá sem eftir standa þjást, slíkt er óbærilegt og meira en ég get borið, ég bið algóðan kærleikann sem stýrir úrverki plánetanna og fullkomnum samhjómi sjávarfallanna að gefa grið, græða sár og umfaðma alla þá sem biðla til lífs og ljóss
miðvikudagur, 9. janúar 2013
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)