miðvikudagur, 25. desember 2013

4.


best að vekja að fyrra bragði máls á því sem augljóst er svo fólk haldi ekki að maður hafi eitthvað að fela, sá fjórði er að sjálfsögðu löngu liðinn, drengurinn fæddur og búið að afhenda gjafirnar án þess að nokkuð hafi verið fært um það hér til bókar, ég sinni öðru, lestri aðallega og held mig fjarri mannabyggðum, langt í burt og loka augum blám í hvítri auðn, dvalarstaðinn gef ég ekki upp (hér gætu glöggir lesendur áttað sig í vísun í ljóðabókina hjörturinn skiptir um dvalarstað, sjá aðventugetraunina hér neðar), við í vitnaverndinni viljum síður að veruleikinn hafi upp á okkur, þessi „við“ erum ég og eiríkur guðmundsson sem sefur uppí hjá mér yfir hátíðarnar, ekki á náttborðinu, uppí, fyrir utan gluggann er myrkrið svo þétt að ef ekki væri fyrir vindhviðurnar sem berja timburveggina mætti hæglega halda að húsið væri á þyngdarlausu flugi um himinngeiminn, það veldur hvorki mér né fylgdarfólki mínu áhyggjum, matarbyrgðirnar ættu að duga okkur út að landamærum sólkerfisins og ég sýndi all umtalsverða fyrirhyggjusemi  – nokkuð sem ég annars er ekki þekkt fyrir – þegar ég pakkaði niður bæði hkl, kierkegaard og ee cummings fyrir ferðina, auk þeirra höfðu fyrrnefndur e.g. og lærimóðir mín v.g. lætt sér dulbúin með; hann sem jólasveinn, hún sem hvítar stjörnur á fjólubláum himni, spruttu svo undan trénu í gærkvöld og hreiðruðu um sig milli handa mér eins og eitthvað sem hefði alltaf átt þar heima en aðeins haldið sig til hlés þar til rétti tíminn rynni upp, auk okkar eiríks sefur í rúmi mínu eitt smáskott og flóðhestur úr gerviefni merktur sænskri verslunarkeðju, hann fékk að koma uppí gegn því skilyrði að hann léti lítið fyrir sér fara, sjálf vissi ég ekki að flóðhestar yxu í svíþjóð, hvað þá krókódílar en einn slíkur liggur uppí hjá smáskottinu sem sefur í næsta herbergi, auk þeirra eru hér bæði hundar og mýs, hvort tveggja íslensk og af holdi og blóði, hér í geimörkinni er fjölbreytileikanum fagnað, reyndar eru ekki allir á eitt sáttir með mýsnar en fólk hefur komið sér saman um að vera ósammála, ég fyrir mitt leiti úthýsi engum á friðartímum – hvorki úr hýbýlum hjartans né öðrum – þó ég gangist við því að setja ekki allt undir sama hatt og eitt standi mér nær en annað og enginn nær en póesíuprinsinn e.g., þar kæmist ekki hnífsblað á milli skal ég segja ykkur 


e.s. og já svarið við aðventugetrauninni er að sjálfsögðu jesú, krónhjörtur kærleikans

sunnudagur, 15. desember 2013

3.

hér er lítil  aðventugetraun; hvað gengur mér til með þessum hjartardýrum? vegleg verðlaun í boði

mánudagur, 9. desember 2013

fjarri raun og veru


hef nú skilað af mér lærðri ritgerð um hina upphöfnu kvenímynd í ljóðum ítalskra miðaldaskálda, ég get svarið það maður er hreint undarlega vel að sér, sjálf myndi ég ekki falla að fyrrnefndri ímynd í mínu núverandi ástandi og þá meina ég ekki eingöngu fyrir þær sakir að vera ekki glóhærð og engilfríð og frómari en menn geta gert sér í hugarlund, hef hvorki baðað mig, klætt né greitt síðustu fjóra daga og ég er hvorki að draga úr né bæta í þegar ég segi að afleiðingarnar séu minna en hrífandi, ég virðist hafa náð þeim aldri að þurfa að hafa fyrir hinum náttúrulega sjarma, stakk mér út fyrir hússins dyr um leið og ég hafði ýtt á send og brá hálfpartinn við lyktina af fersku lofti, ég hafði ekki fundið beran himin yfir höfði mér frá því fyrir helgi og þarna á dyraþrepina varð ég skyndilega slegin yfir stærð hans og umfangi og bleikri slikjunni yfir skýjunum sem minnti mig á kínverskt epli, ekki spyrja mig hvernig kínversk epli líti út, ég er á móti viðskiptum við kínverja, þetta var einfaldlega það fyrsta sem mér kom í hug og ef það er einhver færni sem ég ætla að vera búin að tileinka mér fyrir fertugt er það að treysta innsæinu, ég tók nokkur spor í að hlusta á brakið í fönninni áður en ég leyfði monsjör n.c. að hefja upp sína djúp dimmu í dvínandi skammdegisbirtunni, tók stefnuna í átt að einu af fellunum sjö og skynjaði hvað hvítt yfirborð fer vel í auga á ójöfnum útlínum þó það geti virst kuldalegt í sléttu hornréttu rými

sunnudagur, 8. desember 2013

2.

ítölsk bókmenntasaga er að eyðileggja fyrir mér aðventuna, fyrir utan mandarínubörkinn á borðinu og hreindýrin sem mæna á mig utan úr garðinum er hér ekkert sem minnir á jólin, þessi grenigrein í vasanum hérna fyrir aftan mig er bara til málamynda, fremur aumkunarverð tilraun vilji maður vera hreinskilinn

fimmtudagur, 5. desember 2013

kæra jesúbarn


það hryggir mig að skrifa þér svo stuttu fyrir afmælið þitt og tilkynna að ég muni mæta tómhent í veisluna (hafðu samt engar áhyggjur af skreytingunum, nágranni minn keypti prýðilega leikmynd að helgileikunum á vægu verði í húsasmiðjunni og hefur komið henni upp í garðinum svo eftir er tekið, mitt hlutverk var að yfirfara allar seríur sem ég og gerði samviskusamlega), málið er að síðastliðið ár hefur mér – þessari manneskjuögn – ekkert orðið ágengt með fyrirgefninguna og þar sem ég veit af fenginni reynslu að þig langar aldrei í neitt annað (full ósveigjanlegt kannski, en allt í lagi) get ég í fljótu bragði ekki séð hvernig mætti bjarga málum fyrir horn, eðlilega þykir mér þetta ákaflega leiðinlegt og bið þig innilega að fyrirgefa

miðvikudagur, 4. desember 2013

stóð uppá stól

ég viðurkenni að dekadans nútímans nær stundum tökum á mér (þrátt fyrir alla hugleiðsluna, maður er mennskur, hvað get ég sagt), í allan dag hef ég hálfpartinn verið öll uppí loft yfir þessu pisa-könnunar rugli, guð minn góður hvað ég hata samanburðinn og félaga hans samkeppnina, guð minn góður hvað ég hata alla þessa þvælu um að læsisleysi (já ég var að búa þetta orð til) íslenskra drengja sé skólum landsins að kenna, og ég ætla ekki einu sinni að tala um viðrinismann sem einkennir hugmyndir vorar um menntun –  hvað teljist tækt sem slíkt og hvað sé þess virði að mæla það, þessi stöðluðu viðmið sem eru ekkert annað en aðför að mennskunni, andskotinn ég er búin að vera svo brjáluð í dag að mig langar stöðugt að brjóta eitthvað, núna verð ég að hugleiða, það eitt er víst, ekki til að skilja af hverju þetta hafi svona djúp áhrif á mig – það veit ég vel – heldur til að reyna að sjá skýrt hvernig ég geti best nýtt þessa reiði, á ég að gerast kennari aftur? og reyna að mylja þetta andskotans kerfi niður innan frá? eða snúa mér alfarið að því að hlúa að listamanninum í mér og standa með þeirri hugmynd að sköpun og samhyggð séu einu öflin í heiminum sem hreyfi hann áfram? ég veit það ekki ennþá, ég veit það ekki, ég veit bara að:

a) samanburður smækkar fjölbreytileika mennskunnar

b) það sem skiptir mestu máli verður aldrei mælt á stöðluðum kvörðum

… og annað sem tengist þessu ekki beint (þó allt tengist þegar allt kemur til alls): það er tvennt í þessum heimi sem elur á heimsku manna; of mikil athygli og of miklir peningar

sunnudagur, 1. desember 2013

1.

hreindýrin voru mætt í garðinn í bítið í morgun, ég fylgdist með þeim út um gluggann og velti fyrir mér hverju væri best að fóðar þau á, það er næstum ekkert til í ísskápnum nema beikon og jalapenoostur og hörfræolía, ég verð að treysta á að þau geri sér þessar fáu hríslur í garðinum að góðu og teygi sig svo yfir til nágrannans þegar allt þrýtur, sjálf húki ég innandyra á ullarbrókinni og spila jim reeves sings christmas classics þó ég hafi hvorki komið mér upp aðventukransi né piparkökuhúsi, skrifa bréf til jesúbarnsins og afsaka frammistöðuleysi mitt á árinu í mikilvægum málalflokkum, fyrirgefningunni til að mynda, bið samt skömmustulaust um jólasnjó og aðra fánýta og forgengilega hluti, fleygi eplaafgöngum út um gluggann fyrir fuglana og hina hyrndu gesti sem róta í blómabeðunum og jórtra á seigum birkigreinum líkt og annars hugar, á morgun fer ég og kaupi eitthvað kjarngott fóður handa þeim, ég vil ekki eiga á hættu að þeir verði búnir að flytja sig yfir á númer 17 fyrir næsta sunnudag

laugardagur, 30. nóvember 2013

gjössovel

ég eyddi fimm klukkutímum í þögn og hugleiðslu undir esjurótum í dag og am feeling particularly generous, samt er ég pínulítið að grenja þó ég viti ekki yfir hverju, kannski þarf ég bara að hætta að hlusta á presley syngja silent night og borða eitthvað almennilegt, ég veit ekki af hverju ég er að hlusta á presley, þann hinn sama og ég hef haft þó nokkra andúð á í gegnum árin af því hann hafði svo óþolandi  vælulegan munnsvip, ég er að skrifa senu um þetta í nóvelluna mína, tveir fullorðnir karlmenn – báðir kennarar – sitja inni í brúnum volvo af árgerðinni ´92 og reykja viceroy og þrátta um gildi presley sem listamanns, í einhverjum skilningi grunar mig að þetta sé uppjör á milli okkar presley, maður má ekki fara í gegnum lífið og hafa fólk fyrir rangri sök, það er engan veginn í anda jesúbarnsins, á morgun er fyrsti í aðventu, maður minn hvað ég ætla að bauna jólamyndum hingað inn næstu vikur, ég hef djúpa þörf fyrir desember og jól og hugleiðingar um vonina og kraftaverkið og nýtt upphaf, amen, ég þarf líka að skrifa 99 birtingarhæf orð um ljós og myrkur fyrir jólabók ritlistarnema sem kemur út eftir andartak (áhersla á andartak), þú ætlar einmitt að kaupa þá bók því hún verður svo agalega skemmtileg, ég veit bara ekki vel hvað ég ætti að skrifa um, þemað ljós og myrkur kallar hættulega mikið á það sem ég vil kalla „hinn kalmanska orðaforða“ og ætti ekki að reyna í heimahúsum af öðrum en sveitunga mínum kalman, það sem flækir málið enn frekar er að mér er svo agalega uppsigað við tvíhyggjuna þessa dagana, ég held að hún sé hreinlega krabbameinsvaldandi, kannski enda ég sem búddisti og einbeiti mér að engu nema reynslunni, svo svindla ég auðvitað á jólum og tilbið jesúbarnið, búddah brosir örugglega bara að því, búddah er svo lygilega ligeglad náungi, þessi týpa sem allir vilja eiga fyrir nágranna en enginn vill vera giftur, allavega ekki ég, til þess er hann of skaplaus, svona maður myndi gera mig geðveika, ekki það að ég sé að leita mér að manni, stundum hef ég verið agalega svag fyrir hugmyndinni um aðventuástmann, einhvern til að hitta á kaffihúsi í desembermyrkrinu og ræða við um mína erkifjendur fyrirgefninguna og æðruleysið, svo gufar hann einhvern veginn upp eftir nýárið án allra eftirmála, sjálfsagt er aðventurástmaðurinn lítið annað en aum birtingarmynd hinnar mannlegu þrár eftir tengingu við guð, sú þrá leiðir manneskjuna útí ótrúlegustu hluti, til dæmis útí það að hlusta á presley 

föstudagur, 22. nóvember 2013

einhvern veginn verður kona að tjá sig


ég er alein heima, einu sinni talaði ég oft fjálglega um það hvað mér þyki gott að vera ein heima, það var áður en hundurinn minn dó og ég áttaði mig á því að ég hef eiginlega aldrei verið ein heima, núna finnst mér það ekkert sérstaklega gott, og alls ekki þegar ég verð myrkfælin, sem er næstum alltaf, ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég þurfi ekki að finna mér elskhuga fyrst ég eigi engan hund lengur og neyðist til að deila barninu með þeim sem gat það með mér, verst hvað karlmenn eru óáhugaverðar skepnur, hundar eru miklu meira spennandi, og ekki næstum því jafn miklir egóistar, nei almáttugur ég veit ekki hvaða bull þetta er í mér, í hvaða vasa ætti ég svo sem að finna tíma fyrir elskhuga? á kvöldin þegar ég er komin uppí? þá þarf ég að lesa, bunkinn á náttborðinu er ekki að fara neitt nema síður sé, á næstunni mun hann þvert í mót fara vaxandi enda hafa þau vigdís gríms og eiríkur guðmunds bæði gert mér þann bjarnargreiða nýverið að senda frá sér eitt og annað sem er stillt upp í gluggum hverrar einustu bókabúllu í bænum og mig hreinlega klæjar í olnbogabótina og hársvörðinn af spenningi og óþreyju, ég get svarið það, maður tjúnast allur upp inní sér og veit varla hvar maður eigi að hafa hendurnar, í gær til dæmis þegar ég slysaðist inn í mál og menningu (til að borða salat, ég sver ég var ekki að kaupa neitt úr pappír) og rétt gjóaði augunum í átt að staflanum af 1983 1983 1983 1983 …  flaug í gegnum huga minn – mjög hratt, þetta hefði aldrei orðið að veruleika – að stinga henni ofan í mína djúpu dökku handtösku og láta nægja að biðja eirík fyrirgefningar í hljóði, sem betur fer er ég á mjög krefjandi námskeiði í gjörhygli og iðka hugleiðslu í næstum klukkutíma á dag svo þar fæ ég tækifæri til að anda mig niður og koma böndum á allan æsinginn og þráhyggjuhugsanirnar og stelsýkina, kannski finnst fólki ég vera að flækja málin óþarflega, ég hefði bara getað keypt mér bókina og sleppt maríubænunum en málið er að ég þykist vera að spara … kannski hefði ég átt að skáletra þykjast …  af öllu því sem ég er óútskýranlega léleg í er sparnaður algjörlega spaðaásinn minn, trompið uppí erminni, my magictrick eins og los americanos myndu segja, einhvern veginn virðast hugmyndir mínar um sparnað vera algjörlega þvert á það sem almennt gerist meðal borgaralega þenkjandi manna og kvenna, þegar ég til dæmis kaupi mér bók eða eyrnalokka eða buxur úr hundrað prósent kínversku silki finnst mér ég vera að græða svo rosalega að það samsvari í rauninni sparnaði, nokkurs konar öfugur sparnaðu skiljiði? …  ekki? jæja, hver með sínu lagi þá, en aftur að því að vera einn heima og myrkfælinn, „foreldrar“ mínir – þ.e. min store sös og hendes mand – flýja jafnan heimilið (og mig þá um leið) um helgar til að trappa sig niður á sveitasetrinu sínu enda eru þau bæði – ólíkt mér – fólk sem slítur sér út í afar mikilvægum ábyrgðarstörfum hjá afar mikilvægum fyrirtækjum úti í bæ, með öðrum orðum eru þau svona fólk sem lætur hjól atvinnulífsins snúast, ég er vonlaus í þess háttar vélaverkfræði, í dag reyndar gengu þau svo langt (eða keyrðu öllu heldur) að flýja til akureyrar, fólk er tilbúið til að leggja ýmislegt á sig til að forðast samvistir við mig, skýlir sér svo á bak við afsakanir á borð við þær að „maður verði að rækta sambandið“ og eitthvað, eins og það sé við hæfi að ræða svona við fráskilda manneskju! ég get svarið fyrir það fólk er eitthvað undarlegt, en allt í góðu ég held mér upptekinni við að stunda hot yoga og hugleiðslu, drekka lífrænt rauðvín og tala við sjálfa mig á mínu eigin bloggi, kannski ég ætti að kommenta á sjálfa mig … og svara kommentinu, það eru allri hættir að kommenta hérna, hvað í andskotanum er að ykkur?  

þriðjudagur, 12. nóvember 2013

nunna spyr …

nákvæmlega hvað á fólk við þegar það spyr hvort maður trúi á ástina . . .  ég skil ekki spurninguna, er þetta spurning um trú? ég get annað hvort trúað eða trúað ekki á tilvist guðs vegna þess að ég get ekki fært sönnur fyrir því hvort guð sé til eða ekki, ég veit aftur á móti að ástin (fyrst skrifaði ég guð, freudian typo!) er til, ég hef orðið vitni að þeirri tilteknu kennd bæði í eigin lífi og annarra, þannig að þegar fólk spyr hvort maður trúi á ástina getur það varla verið að spyrja að því hvort maður viðurkenni að hún fyrirfinnist í brjósti manna yfirleitt, . . . svo um hvað er spurt? hvort maður trúi því að ástin sigri allt? ef svo er hlýtur hver maður með hjartað í brjóstinu og höfuðið á herðunum að svara spurningunni neitandi, maður þarf hvorki að horfa lengi í kringum sig né inná við til að sjá að ástin sigrar hreint ekki allt en það er aftur á móti ýmislegt sem sigrar ástina (einbeitingarskortur, brauðstrit, leti, tíminn, fyllerí, egóismi, óhreint leirtau, klisjukenndar hugmyndir um the task at hand, óþolinmæði, vanabundin hegðun, tilætlunarsemi, heimskulegar stjórnmálaskoðanir . . . ég gæti haldið endalaust áfram), stundum þegar ég þræði rekkana í matvörubúðinni eða mæti á uppákomur í skóla dóttur minnar laumast ég til að virða fyrir mér pörin í kringum mig og einhvern veginn getur mér ekki annað en fundist að fólk sé upp til hópa hundleitt og vonsvikið og þreytt, helst hallast ég að því að ástin sé einhvers konar brella sem við notum til að þurfa ekki að takast á við okkur sjálf, blekking til að komast í burt frá sjálfum sér, nema maður kemst ekki upp með það nema í afar stuttan tíma, og þá situr maður uppi með sjálfan sig, er ekki eitthvað ömurlegt við þetta allt saman? eitthvað örvæntingarfullt? ekki það að maður vilji hljóma beiskur og bitur, sem ég er hreint ekki, en í augnablikinu halla ég mér allavega frekar að guði en ástinni, að  hinum eina sanna kærleiksstríðsmanni, ástin fær að njóta vafans      

laugardagur, 2. nóvember 2013

manifesto


lengst af ævi minnar hef ég trúað því að lífið ætli mér ekki góða hluti; að heimurinn kæri sig ekki um að ég sé hluti af honum, ég trúi því ekki lengur
                                             
                                                         ég skal verða heil 

þetta hljóðaði inní vitundina rétt í  þessu

               í gegnum mig skal ganga 

                              súla
                                
                úr órofnu ljósi
                        (ljómandi og skýr)

                  ég skal virkja rafmagnið í 

                               taugafrumunum

                   og spinna úr því  
                                               glóandi
                                                              þráð 

                                                                     á milli mín 
                                                                     og                                                                             heimsins

laugardagur, 26. október 2013

fagurfræðingurinn sem var einn í heiminum

ég er heltekin af myntugrænu, helst í bland við fíkjufjólublátt, ég veit ekki hvað það þýðir, annað en það að ég hef mjög háþróað litaskyn, að eigin mati alla vega, hvernig nýti ég mér það til að búa til peninga? svar óskast, ég var að henda afgöngunum af folaldasteikinni sem ég borðaði í kvöldmat, í hvert sinn sem ég hendi afgöngum í ruslið finn ég fyrir tóminu sem hundurinn minn skildi eftir sig í lífi mínu, að öllu jöfnu hefðu afgangarnir farið í dallinn hans og hann hefði horft á mig með þessum svip sem sagði: handa mér? ætlarðu í alvöru að gefa mér þetta? svo hefði hann gúffað öllu í sig og því næst lagt höfuðið í kjöltuna á mér á meðan hann sleikti nautnalega út um, ég er ein heima að þýða orð og hlusta á blúgrass, maður verður meyr af minna tilefni

föstudagur, 25. október 2013

ever the spinster


mér er boðið í partý í kvöld, barnið er hjá föður sínum og ég hef svo sem ekkert að gera annað en að þýða orð eða hlusta á víðsjá á hlaðvarpinu og teikna, samt nenni ég ekki að fara, ég er að verða ógeðslega miðaldra, bráðum þarf ég að plokka hár úr eyrunum á mér og kaupa mér nasaklippur, og fá eitthvað við hitakófunum, kött kannski

miðvikudagur, 23. október 2013

trúnaðarmál


ef efnt væri til fegurðarsamkeppni daganna er ég ekki í nokkrum vafa um að sigurvegarinn yrði haustdagur, bjartir sumardagar eru vissulega dýrlegir – ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri staðreynd – og stilltir vetrardagar geta verið hreinn unaður með öllu sínu dansandi ljósbroti og endurskini sem blindar, en hvað sem því líður eru það viðtekin sannindi að engir dagar eru fegurri en gullnir haustdagar, þetta er ekki einu sinni sanngjarn slagur, enginn stenst gyllta guðabirtu á þessum tíma árs þegar við vitum öll að bráðum verður öll birtan búin og þó við forðumst að tala um það hugsum við það öll þegar við opnum útidyrnar á morgnana og gröfum hendurnar í vösunum svo kuldinn í loftinu grípi ekki í þær, svo skjótum við öxlunum upp að eyrum og hvíslum ofan í hálsmálið: kæri guð, ekki slökkva ljósið, ekki slökkva ljósið, ekki slökkva ljósið, þessi óvænti inngangur er einhvers konar örvæntingafull réttlæting á því að fyrr í dag – í annað skiptið í þessari viku, best að hafa þetta rétt fyrst maður er á annað borð að þessu – virti ég að vettugi fyrirmæli sjúkraþjálfarans míns og stalst út að hlaupa, ég á alls ekki að fara út að hlaupa, í bataferli mínu að nýju og betra mjóbaki eru útihlaup það sem ameríkanar myndu kalla a big no no, sem á íslensku mætti útleggja eitthvað á þá leið að við þeim liggi blátt bann, reyndar hef ég aldrei fengið nokkurn botn í það orðatiltæki ... hefur þetta eitthvað með sjálfstæðisflokkinn að gera? mér líður hálf illa yfir þessu, ég kann mjög vel við sjúkraþjálfarann minn og allan tímann sem ég hljóp hafði ég svo miklar áhyggjur af því að til mín sæist að ég hálfpartinn naut þess ekkert að hlaupa, fyrir vikið hljóp ég mjög hratt, ég sentist upp brekkur og skaust milli birkitrjánna eins og antílópa í íþróttaskóm, en sama hversu hratt hjartað hamaðist undir illa lyktandi hlaupatreyjunni (hún er úr einhverju gerviefni sem er þeim eiginleikum búið að magna svitalykt upp að mörkum þess þolanlega) og sama hversu hratt ég hreyfði fæturna yfir sölnuð lauf og gulnað gras fannst mér eins og ég gæti aldrei ferðast hraðar en kvitturinn um óhlýðni mína sem færi með hraða hljóðbylgjunnar um mosfellskt samfélag – þeim sömu hljóðbylgjum og mynduðust við árekstur fóta minna við jarðveginn – og næði að lokum eyrum míns ágæta sjúkraþjálfara, hugsanlega þar sem hann stæði grunlaus og berskjaldaður í röðinni í fiskbúðinni eða gulu grísabúllunni hvar ég hef stundum hitt hann og veit því að hugmyndin er ekki alfarið ólíkleg þó ég viðurkenni að ef maður er fyllilega raunsær þá nái þetta bull auðvitað engu tali, fátt gerir manneskjuna jafn dómgreindarlausa og taugaveiklun, að ég hafi ekki endað á tröppunum hjá manninum og hringt hjá honum bjöllunni til að játa á mig brotið er næstum óskiljanlegt, þið farið ekki með þetta lengra

sunnudagur, 20. október 2013

þaðan og hingað

síðustu daga hef ég þvælst um í hringstiganum, stundum farið meira niður en upp – sem er aldrei beint markmiðið – og stundum ekki litið út um glugga tímunum saman – sem er ekki gott þótt það sé álíka slæmt að gleyma sér of mikið við að mæna á það sem er fyrir utan, þá hættir manni til að detta í samanburðinn, ég skrifa lítið sem ekki neitt, það er eins og það sé eitthvert þak eða skilrúm á milli brjóstsins og höfuðsins, ég set niður einhverjar setningar og finnst eins og ég  þrýsti á seiga, þykka himnu ... í dag er sjötugsafmæli föður míns og í næsta mánuði eru þrjátíu ár frá því hann hvarf úr lífi mínu, þrír og sjö gera níu, þrjár heilagar tölur, að því tilefni er ég að erfiða við að skrifa inní leifturmyndasafnið mitt, einhver textabrot byggð á minningum mínum um hann, það gengur hægt, aðallega af því ég man svo ósköp lítið, þegar ég las minnisbók sigurðar pálssonar á dögunum varð ég svo þakklát því sem hann skrifar um minnið, um að mest megnis muni maður andrúmsloft; tilfinningu; skynjun, það er einmitt þetta sem ég er að reyna að smíða úr orð, án þess þó að hugsa það út í hörgul hvort þau séu nákvæm eftirmynd af veruleikanum, minnið er svo merkilegur skáldskapur, veruleiki út af fyrir sig, og það er alltaf innri veruleikinn sem er hinn raunverulegi, hitt er umdeilanlegt



Andvari

Í upphafi var heimur. Það voru strá og það voru móar. Það var gul birta og lágar hæðir og moldarvegur með holum sem stundum fylltust af vatni. Nokkur hesthús og girðingar hér og hvar. Það var svolítið grasbarð sem var búið þitt og gola sem talaði við þig. Það var enginn skuggi og ekkert tóm. Aðeins himinn, gul birta og gola í gulum stráum, grasbarð og lágar hæðir. Og þú. Þú í rauðri peysu með hvítum bekk og buxum sem líkast til eru forugar á hnjánum. Í loftinu er angan af vori og fyrir aftan þig heyrir þú í hrossum að kljást og hófum að róta í möl. Og þú veist af honum bak við hesthúsið að sýsla með reiðtygin og að bráðum kemur hann og kallar.   
         Það var heimur og þú varst í honum.

bogi eða ör ...



... og maður er alltaf að leita að hreinum tón, þessum eina rétta, það er lamandi iðja að leita sannleikans og eiga bágt með að taka því hvað veruleikinn er samsettur, að vera alltaf í þessari togstreitu milli blæbrigða og grunnlita, þá endar maður stundum bara í svörtu, og er það ekki tóm sjálfseyðingarhvöt að vera stöðugt að reyna að finna hinn hreina þráð; komast að niðurstöðu; sjá hina endanlegu heildarmynd, þegar maður í raun hatar kyrrstöðuna og óttast hana meira en allt? mér skilst að þetta liggi allt í stjörnukortinu, ég er með svo erfiða spennulínu – heilar hundrað og átttatíu gráður – á milli þess að þrá frelsi en þurfa um leið ákveðinn fasta, öryggi, í þokkabót komst ég að því nýverið – mér til herfilegra vonbrigða, verð ég að viðurkenna – að þvert á það sem ég hafði áður talið er staðreyndin víst sú að ég noti bæði heilahvelin jafnt, aðeins þrettán prósenta slagsíða til hægri, og ég sem hef verið svo sannfærð um það allt mitt líf að ég sé hrein hægra hvels kona, nei, alas, alas! maður virðist hvorki fugl né fiskur heldur einhvers staðar mitt á milli, hvað gerir skepna með hvoru tveggja sporð og vængi? þrýfst hún annars staðar en á hinum svarta fleti?

laugardagur, 12. október 2013

eldur! eldur!

ég er að lesa önnu kareninu, af hverju hefur enginn sagt mér prívat og persónulega hvað það er dásamleg bók? ætlast fólk til þess að maður taki orðinu á götunni sem gefnu bara af því það hefur verið í umferð í meira en hundraðogfimmtíu ár? hér með legg ég í það minnsta mitt af mörkum til að koma því umbúðalaust á framfæri að það eru alveg fínar ástæður fyrir því að fleiri en tveir hafa nennt að lesa þessa bók síðastliðna öld og gott betur, dásamlegur tónn og kristalskýr stíll og margslungið persónugallerí sem ég get ekki annað en haft áhuga á þótt hálfpartinn þoli ég ekkert þeirra, í stuttu máli lifi ég mig svo inn í sögusviðið og atburðarásina alla að þegar ég skríð uppí á kvöldin og teygi mig í bókina finnst mér hálfpartinn eins og ég þurfi að hafa mig sérstaklega til, ef ég byggi ekki með öðru fólki – sem hugsanlega gæti fyllst áhyggjum – myndi ég liggja í bælinu allan daginn í loðfeldinum mínum með þung dramatísk gerviaugnahár og uppsett hár, það væri æðislegt, því miður má ég næstum aldrei vera að því að skreppa til rússlands þó ég glöð vildi því mín er vænst á ítalíu alla daga og ekki vill maður bregðast fólki, það er ekki nema svona rétt fyrir háttinn sem ég get stundum leyft mér að hoppa uppí lestina og gnísta tönnum yfir því hvað vronsky er ömurlega hégómlegur – páfugl af verstu sort og ég hef alveg sérstakan ímugust á þeirri manngerð enda ríkir almenn sátt um það í öllum siðuðum samfélögum að slíkir náungar séu einhvers konar meinvörp í mannslíki – og ég þoli bara ekki tilhugsunina um að hin viðkunnalega anna muni fyrr eða síðar gefa þeirri mannleysu hjarta sitt, andskotinn! af hverju elska konur á öllum tímum og þvert á menningarheima menn sem eru þeirra ekki verðir? hvað er það? andskotinn hvað þetta fer í taugarnar á mér!

föstudagur, 20. september 2013

maður á ekki að segja svona upphátt ...


... en mér finnst svo oft eins og líf mitt haldi ekki beinlínis „þræði“ eða myndi tiltekna heild ... að einhverju leyti er þetta skilt því sem ég velti fyrir mér varðandi kvikmyndina sem „heild“ – án þess að það sé beint skýrt mótuð hugsun – og ef einhver myndi hala lífi mínu niður myndi það líkast til birtast með álíka sundurleitum hætti og kvikmyndirnar sem ég hef reynt að sækja í tölvunni minni ... og ég velti því fyrir mér hvort ástæðan fyrir því hversu hægt mér gengur að skrifa skáldskap í merkingunni „saga“ sé sú að ég hafi ekki áhuga á skipulegri frásögn, á framvindunni og söguþræðinum, á bókmenntahátíð í síðustu viku heyrði ég búlgarskan höfund halda því fram að ef skáldskapur sé spegill sem við speglum okkur í þá sé sá spegill brotinn, og við þurfum að skrifa brotin, ég er dálítið ástfangin af þessum búlgarska manni, einhverra hluta vegna hafði hann engan áhuga á að tala við mig en það breytir því ekki að bókin hans náttúruleg skáldsaga er það besta sem ég hef lesið lengi, í tengslum við sömu hátíð varð mér undarlega uppsigað við hvít-rússneska blaðakonu og rithöfund sem einhvern tíman hélt því fram við íslenskan rithöfund að það eigi aldrei að skrifa um annað en veruleikann, hann sé nefninlega svo miklu stærri en skáldskapurinn, ég vissi ekki hvert ég ætlaði að komast

hæfileikalausi lögbrjóturinn


þrátt fyrir góðan vilja og nokkra ástundun fer mér ekkert fram í sjálfsnáminu í ólöglegu niðurhali, ég er búin að gera ótal tilraunir til að hala niður hinum ýmsu kvikmyndum sem mig langar til að horfa á og liggja ekki á glámbekk út á næstu myndbandaleigu en ekkert gengur, þetta er óþolandi, og það er niðurlægjandi að færa þetta í tal við annað fólk, allir sem ég spyr út í málið horfa á mig í forundran og skilja engan veginn í hverju vandinn felist, almennt virðist fólk hafa allt sitt á þurru í þessu samhengi, líka þeir sem annars myndu teljast fremur mistækir og kannski ekki að takast neitt sérstaklega upp á öðrum sviðum daglegs lífs, ef mér yfir höfuð tekst að hala einhverju niður í tölvuna mína eru það yfirleitt margar margar möppur sem allar bera titil myndarinnar sem ég falaðist eftir en engin þeirra inniheldur hina eiginlegu mynd heldur – og þetta er áhugavert í póstmódernískum skilningi – einstaka hluta hennar, þá á ég ekki við að myndin hafi verið hlutuð niður í nokkra kafla sem hægt sé að horfa á einn á fætur öðrum heldur er ein þeirra merkt audio, önnur inniheldur runur af kóðum sem ég veit ekki hvað tákna og enn önnur kannski tákn þess kvikmyndafyrirtækis sem framleiðir myndina, sem að sjálfsögðu vekur mann til umhugsunar um kvikmyndina sem form, hvernig hún er samansett og hversu flókin hún er sem miðill – þess vegna er hún svona nákvæm eftirlíking af lífinu, hvað sem því líður er ég algjörlega að missa móðinn, maður er allur að vilja gerður en hvað á kona að taka til bragðs, endurmenntun háskóla íslands býður til dæmis ekki upp á nein færni- og kunnáttunámskeið í nokkru á þessum nótum, til hvers er eiginlega ætlast af manni? hugmyndin á bak við ólöglegt niðurhal á að vera sú að gera pöpulnum kleift að nálgast listina hratt og auðveldlega en þegar vel er að gáð eru mismunun og eineltistilburðir alveg jafn inngróin í þetta kerfi og öll önnur, andskotans elítismi!     

laugardagur, 7. september 2013

ekki lifa öfugt


á milli þess sem ég engist um í þeirri angist sem fylgir flutningi orða á milli tungumála er ég tiltölulega upptekin við að vera hamingjusöm, ég hef gefist upp á þeirri örmagnandi iðju að reyna alltaf að vera skrefi á undan lífinu, framtíðin kemur mér ekki við, ég þarf á allri minni athygli að halda hér og nú, ég nenni ekki að standa í því að byrgja brunninn þegar ég veit ekki einu sinni hvort það er yfir höfuð einhver brunnur í næsta nágrenni, ég hugsa eingöngu um tímann í tengslum við tré, það sem vex, og finn nánast ekkert fyrir rafmagninu í taugafrumunum, allt sem tifar er líf og ég er yfirlýstur andstæðingur kyrrstöðunnar

sunnudagur, 1. september 2013

það er eitthvað við sunnudaga


ég eyddi morgninum í að éta upp úr sarpi ríkisútvarpsins og stoppa í götóttar flíkur, hugsanlega af nostalgískum hvötum, stundum held ég að ég einfaldi líf mitt og haldi mig til hlés svo ég geti komið mér fyrir í liðnum tíma, ég kann illa við mig í nútímanum, hann er eitthvað svo smekklaust samsettur, of mikið af öllu, þegar manni líður illa yfir nútímanum er gott að hlusta á gömul viðtöl við gyrði elíasson, þá finnst manni maður minna einn (ofsaleg ofstuðlun í þessari setningu), til að slitna ekki í sundur æfi ég mig í andartakinu, þar er ákveðið tímaleysi, ég er að verða dáldið góð í andartakinu, ég er ekki eins góð í skrifum, allt sem ég skrifa er einhvern veginn rembingslegt og tómt, fyrir vikið les ég meira en ég skrifa sem gerir það eitt að æra mig af löngun til að skrifa, þetta er að verða vítahringur, og þó hringurinn sé fegurstur forma er ég hrifnari af spíralnum, allavega svona sem lífsmynsti

föstudagur, 30. ágúst 2013

heimurinn er á hælum mér


ég fór til læknis í dag, ég bað hann um að hlusta á mig anda, ég bað hann samt ekki um að hlusta á hjartað í mér, ég er alveg hætt að biðja karlmenn um svoleiðis, læknirinn hlustaði á mig anda og sagði svo að ég væri búin að verða mér út um þetta líka fína bronkítis (hvar?!!), ég var að hugsa um að segja honum að mér af vitandi leggði ég mig ekki sérstaklega eftir því að „verða mér út um“ óþægilega öndunarfærasjúkdóma, ég sé ekkert bankandi uppá hjá nágrönnunum í þeim tilgangi að nauða slíkt út úr þeim, en ég var svo þreytt í bakinu eftir hóstakviðurnar síðustu daga að ég þagði bara ólundarlega á meðan hann pantaði alls konar pillur og púst handa mér í apótekinu, loks hleypti hann mér út og ég gat dröslað mínum sjúka búk til apótekarans, inni í apótekinu var varla nokkur hræða, samt var mér sagt að bíða, geti maður einhvers staðar gengið að því vísu að þurfa að bíða er það í apótekum, sem ég skil ekki, af hverju tekur svona langan tíma að sækja lyfin í hillurnar og setja þau í hvíta bréfpokann? prenta út límmiðana og hefta fyrir? og þá skildi ég þetta allt í einu, alveg óvænt og án þess að ég hefði reynt sérstaklega á mig til komast að svo skýrri niðurstöðu laust svarinu skyndilega niður í kollinn á mér þar sem ég þvældist á milli snyrtivörurekkanna og sokkabuxnastandsins og ergði mig á þessu bjánalega fyrirkomulagi: biðinni í apótekinu er ætlað að leiða til þess sama og vakti fyrir vondu mönnunum sem hönnuðu ikea-búðina þannig að maður verði að ganga í gegnum búðina alla til að borga fyrir þennan eina pakka af sprittkertum sem maður kom til að kaupa, þegar maður loks kemst að kassanum er maður einhverra hluta vegna líka með straubretti, baðvigt og eitthvert eldhúsáhald í innkaupakerrunni og er rukkaður um upphæð sem er órafjarri þeirri sem maður upphaflega ætlaði að eyða í sprittkerti, nákvæmlega þetta henti mig í apótekinu í dag, eftir að hafa beðið þarna í einhvern óratíma í því ástandi sem fólk er gjarnan í þegar það heimsækir apótek; með áhyggjur af heilsufari mínu og tilbúin til að gera nánast hvað sem er til að losna úr viðjum veikinda minna, var ég – þegar konan bak við afgreiðsluborðið kallaði loksins í mig – með fangið fullt af alls kyns heilsubótarvarningi sem ég hafði stuttu áður ekki rennt í grun að væri mér algjörlega nauðsynlegur ætlaði ég yfir höfuð að halda áfram að lifa; feitt andlitskrem, lífrænt eplaedik með aðalbláberjum, d-vítamín og tannbursta sem við nánari eftirgrennslan kostaði áttahundruð krónur ... ég er ennþá að reyna að gera upp við mig hvort það sé mikið eða lítið fyrir tannbursta, þetta lítur út fyrir að vera mjög góður tannbursti, supersoft, einmitt gott fyrir fólk eins og mig sem hættir til að sýna aðeins of mikinn þjösnaskap við burstunina, konan á kassanum varð bókstaflega feimin þegar hún nefndi heildarupphæðina sem mér var gert að greiða þarna á staðnum andmælalaust, sem ég og gerði auðvitað án þess að bregða svip en ekki án þess að hugsa virkilega illa til vondu mannanna í heiminum, manneskjan er hvergi óhult fyrir kapítalinu, ekki einu sinni þar sem hún leitar líknar meina sinna, ég get svarið það, andskotans lyfjafyrirtæki, þegar heim kom sturtaði ég öllum heilsuvarningnum í mig án þess að skeyta sérstaklega um ráðlagða dagskammta eða þess háttar minniháttar atriði, ég þarf að ná heilsu núna, ekki á morgun eða hinn eða hinn, kveikti svo á útvarpsfréttunum og kom lambalærissneiðunum fyrir í eldfasta mótinu með nokkurri natni áður en ég hófst handa við að smjörsteikja sveppina og vorlaukinn ásamt hvítlauk og sítrónutimian, ég veit ekki hvort það voru heilsuvörurnar eða fréttirnar af kjarnorkubrölti friðarverðlaunahafans sem fóru öfugt ofan í mig en einhverra hluta vegna kom ég ekki miklu niður af kvöldmatnum, lambakjötið var reyndar ekki frá ss en eftir að systir mín hóf störf hjá því fyrirtæki verð ég oft mjög óróleg og þurr í munninum ef ég borða vörur frá öðrum matvælaframleiðanda, þetta er samt ekkert svo mikið mál á heimilinu, ekki þannig lagað ... ég gekk frá afgöngunum og vaskaði upp undir söng mariu callas á fræga laginu úr carmen, þið vitið þetta sem maður getur engan veginn hlýtt á án þess að fara ósjálfrátt að kippast allur til, ég man ekki hvað það heitir, æh maður er alveg uppgefinn eftir svona daga, ég hafði vonast til að geta tekið til í herberginu mínu í kvöld en einhvern veginn er ég hrædd um að af því geti ekki orðið, ég er ekki búin að horfa á neina mynd með gregory peck í dag af því ég var of upptekin við að teikna svo líklega neyðist ég til að fara í það mál í kvöld, svei mér þá, maður á bara aldrei lausa stund, er það furða að maður sé heilsulaus

miðvikudagur, 28. ágúst 2013

sjötti í veikindum


ég er gjörsamlega að skilja við úr leiðindum hérna heima hjá mér, núorðið hef ég reyndar náð nægilegri heilsu til að éta upp allan ost í ísskápnum og þvo á mér hárið en stofuvistin er engu að síður að ganga að mér dauðri, á milli þess sem ég ligg í lestri og fínkembi sarp ríkisútvarpsins ónáða ég heiðarlegt fólk í vinnunni þó ég viti vel að það megi engan veginn vera að því að tala við mig, þetta fólk er aðallega systir mín, eins og hún fái ekki nóg af röflandi liði inná gafl til sín sem yfirgæslumaður starfsmannamála hjá stóru fyrirtæki (þetta er ekki starfsheitið hennar, mér finnst ég þurfa að gæta viss trúnaðar), síðustu daga hef ég reynt að fara seint á fætur svo ég freistist ekki til þess að nauða það út úr henni að hringja sig inn í vinnuna með „veikt barn“, þið sjáið að ég er algjörlega að tapa allri sómatilfinningu, til að fólk fái sem skýrasta mynd af umfangi leiðinda minna (maður vill vera nákvæmur varðandi svona hluti) upplýsi ég hér með að ég hoppaði næstum hæð mína rétt í þessu þegar ikeabæklingurinn kom inn um lúguna ... við að skrifa þetta varð mér fyrst fyllilega ljóst hversu illa er komið fyrir mér, skaðinn gæti verið varanlegur, fréttablaðið – sá lúmski djöfull – leggur sitt í púkk kvala minna og birtir á baksíðunni auglýsingu frá flugfélagi sem finnst að ég eigi að skella mér til parísar eða berlínar eigi síður en núna! ég kemst ekki einu sinni út á svalir, íslenskt haust hefur aldrei verið eins lokkandi og æsilegt með allri þessari dásamlegu súld og roki, hver vill ekki vera úti í súld og roki?! hvers vegna eru engin börn úti að leika sér? hvað er að fólki í dag? ætlar fullfrískt fólk að verða af því að blotna í fæturnar vegna þess að því var að berast bæklingur frá einhverjum sænskum húsgagnaframleiðanda? er allt að fara í hundana á þessu landi?

mánudagur, 26. ágúst 2013

mússísistinn er alltaf einn


stundum þegar ég er ein heima læt ég eins og fífl, ég stilli mússíkina hátt og dansa við allt sem ég geri, syng með – óbærilega illa, að sjálfsögðu – og nota ýktar handahreyfingar til að tjá tilfinningahitann í textanum, svona eins og fólk sést gera í asnalegum bíómyndum, ég segi ekki að öll mússík komi mér í slíkt ástand en ef ég finn að innra með mér hefur hlaðist upp óþægilega mikil dramatísk spenna dríf ég mig í að skella til dæmis ellu fitzgerald að syngja cole porter í spilarann og leyfi svo öllu að gossa óhindrað út úr mér, betra að tappa af sér í einrúmi en missa sig kannski óvart innan um aðra, maður hefur jú svo hástemmda skapgerð og það getur verið virkilega geðhreinsandi að sleppa fram af sér beislinu annað veifið, ég afsaka mig stundum við spegilinn með því að annar hver maður geri þetta á sveitaböllum og þorrablótum, ég aftur á móti sæki ekki slíkar skemmtanir og hef þar af leiðandi fullan rétt til að haga mér asnalega heima hjá mér við og við, öðru hvoru þegar ella syngur i get a kick out of you grípur mig djúp þrá eftir hávöxnum vatnsgreiddum dansfélaga en yfirleitt kann ég bara vel við mig svona sóló; hendist eins og vitleysingur veggja á milli í íbúðinni, síðustu daga hef ég því miður ekki getað leift mér neitt í þessa veruna þótt ekki veitti mér af, ég hef legið þungt haldin af bæði kóleru og berklum og má þakka fyrir einfalda hluti eins og að komast í tæka tíð á salernið (ég nota orðið salerni hér meðvitað, þótt það geti virkað ögn tilgerðarlegt finnst mér í seinni tíð orðið klósett eitthvað svo vúlgar að ég fæ mig æ sjaldnar til að brúka það á blaði), í hitamókinu í gærkvöld fór ég langleiðina með að lesa hina geysivinsælu píslavættisgöngu harolds fry, bók sem ég hef einhverra hluta vegna verið uppfull af fordómum gagnvart og hefur legið lengi nánast í óþökk á náttborðinu mínu, ég hef oftar en einu sinni hreytt í hana orðum eins og kellingabókmenntir og allt mögulegt annað án þess að hafa nokkuð fyrir mér í því, ég tek það 75% prósent til baka, þetta er alls ekki illa skrifuð bók, ansi hreint snilldarleg á pörtum meira að segja þótt núna á síðasta þriðjungnum sé kannski farið að lengjast aðeins í lopanum og prjónaskapurinn ögn endurtekningasamur, en að því loknu ætla ég að lesa heimsljós, já, ég hef ekki lesið heimsljós, já, það er sjokkerandi, reynum að jafna okkur, og um leið og ég get gengið á milli herbergja án þess að kúgast af hósta mun ég eiga mússíkalst stefnumót við sjálfa moi á stofugólfinu og fagna haustinu sem ég treysti að verði fegurra en sumarið, haustið er svo yndisleg þversögn, það er upphaf þótt það sé endalok og í því er einhver hreyfing og möguleiki, maður þarf að hafa eitthvað að hlakka til í veikindunum, hugsanlega set ég á mig ilmvatnið sem angar eins og mandarínur og basill, og plómuvaralitinn, appelsínugult, dökkgrænt og vínrautt, fabjölös litapalletta

miðvikudagur, 21. ágúst 2013

mánudagur, 19. ágúst 2013

er ég í alvörunni til?


kona (hér ég) heldur í göngutúr á náttkjólnum og ullarbrókinni og sine gummistövler, klæðnaður sem vekur óskipta athygli þeirra sem á vegi hennar verða þó hún kippi sér ekki upp við það, suma daga er maður einfaldlega of okkúperaður við að skilja sjálfan sig til að skeyta um það hvort aðrir telji mann sinnisveikan, með í för er svartur hundur (hér alvöru hundur, ekki þunglyndið, þunglyndið sefur eins og er), fatnaðinn á hún sjálf en hundinn hefur hún fengið að láni hjá fjölskyldumeðlim sem því miður liggur veirusýktur á sjúkrahúsi, í göngutúrnum hugsar konan eitt og annað um það sem helst á hana leitar þessi dægrin – plagar væri kannski réttar að segja – og spilaði þétta rullu í þeirri ákvörðun að hún sleppti hinni árlegu ammælisbloggfærslu þetta árið, hinir þungu þankar eru ekki nýir á nálinni – hvorki fyrir konuna sjálfa né aðra sem eru eða hafa verið þeim hæfileika gæddir að hugsa – en eru þrátt fyrir það engu minna áleitnir og óþægilegir enda er meginþráður þeirra hið óleysanlega eilífðarenigma innri og ytri veruleika, hvað er hvers og hvurs í þeim málum og hversu „innarlega“ getur kona leyft sér að halda sig, eins og til að minna á að manneskjan kemst ekki hjá því að lifa beggja blands rykkir hundurinn öðru hvoru í tauminn – væntanlega þegar hann sér kanínu á hlaupum í ágústgróðrinum – svo konan missir þráðinn í þankagangi sínum og gleymir sér við að undrast hversu mörg tilbrigði við grænt er hægt að eygja á einum og sama blettinum að morgni til í sumarlok, af öllu því sem maður óttast í lífinu (sem er hvorki fátt né smátt) eru þeir ömurlegu kumpánar narsissistinn og egóistinn með því fyrsta sem bankar uppá – fast á hæla þeirra mæta svo blekkingasmiðurinn og flóttamaðurinn ... þegar maður hugsar út í það er reyndar ekki ósennilegt að þessir fjórir séu einn og sami maðurinn – og af þeirri óværu vill maður sem minnst vita, sá sem baslar endalaust við að skilja sjálfan sig finnur sig þó, því miður, endurtekið með höfuðið svo kyrfilega skorðað uppí eigin rassi að jafnvel honum sjálfum þykir nóg um og öplevelsið allt saman algjörlega út úr öllum kortum – jarðneskum sem og planetískum, eru ekki takmörk fyrir því hversu lengi maður getur sinnt því sem fullu starfi að stúdera innviði sín með aðstoð sálarlæknisins, stunda innhverfa íhugun, stinga vart niður staf til annars en að átta sig á því hvernig maður er samansettur og halda nákvæma dagbók yfir svefn og næringu og depurðarstuðulinn án þess að fara á einhverjum tímapunkti að velgja við sjálfum sér? af þessum sökum lét konan sig einmitt hafa það – sem hún annars lætur kjurrt – að bæði fletta dagblaði og njósna um nágranna sína fyrir morgunmat, hvorugt reyndist svo áhugavert að hún entist til þess nema skamma stund, því næst kveikti hún á almenningsútvarpinu, en einhvern veginn var eins og eyru hennar fylltust vaxi yfir fréttaflutningi af öllum hörmungum heimsins og hún gat ómögulega fest hugann við annað en viðtal við hinn raddfagra paul auster, því næst hugleiddi hún að hringja í fólk en komst aldrei lengra en það, þ.e. að hugsa um það, símareikningur konunnar er endurtekið svo lygilega lágur að það er mesta undrun að eitthvert símafyrirtæki kæri sig yfir höfuð um hana sem viðskiptavin, og þar sem hún gengur – í einhverju sem sumir vilja kalla skóg þó það hljóti að teljast full íburðamikið orð yfir landsspildu þar sem fyrir tilverkan viljugra manna má finna örfá tugi af háum trjám – slær niður þeirri hugsun í hennar þvælusækna höfði að kannski komi einmitt að því, fyrr en síðar jafnvel, að allt snúist þetta í höndunum á henni, að skyndilega verði staðan sú að hinn ytri veruleiki striki hana út af listanum yfir það sem í honum finnist og hún verði að trénu fræga sem féll (ekki) í skóginum  

mánudagur, 29. júlí 2013

quinto racconto


parmesanostur á gólfinu, kaffiblettir og ólífuolía í borðdúknum, leirtau í vaskinum og matarafgangar á trébrettinu sem lyktar af hvítlauk og basil, ein tvær þrjár fjórar ... mjög margar vatnsflöskur á víð og dreif, við mæðgur druslumst um á engu nema nærbrókinni í fjörutíuogégvilekkivitahversumörgumgráðum og tökum ekki sénsinn á að hreyfa okkur til annars en að anda, ég nenni ekki einu sinni að drepa moskítóflugurnar, ég er algjörlega metnaðarlaus, stari bara á vegsummerkin um okkar daglega líf og hrófla ekki við nokkrum hlut, líkt og óhreina tauið og grænmetisafskorningarnir séu fornleifar sem geti gefið mikilvæga vísbendingu og innsýn inní líf litla kvennaþjóðflokksins sem hér býr ef ske kynni að við dræpumst úr hita áður en dagurinn er úti, á morgun förum við heim, ef eitthvað er að marka feisbúkk statusa vina minna eru ekki nokkrar líkur á að við drepumst úr hita þegar þangað er komið, barnið er agnistarfullt yfir fréttum af lestarslysi á spáni og veltir fyrir sér öðrum ferðamöguleikum fyrir ferðalagið á flugvöllinn, hvað myndi leigubíll til mílanó kosta? ég útskýrði fyrir henni af yfirvegun að mamma hafi ekki komist á lista yfir tekjuhæstu lífskúnstnera íslands (enn eitt andskotans árið í röð) og hún verði bara að signa sig í bak og fyrir á morgun og treysta á að madonnan verði með okkur þessa fimm tíma á morgun í fábrotnu öðru farrými með engri loftkælingu, þegar við komum heim þurfi hún svo að fara að vinna fyrir okkur, ekki geri ég það, ég er lífskúnstner, sem er ekki launað starf í okkar fasíska uberkapítalíska samfélagi og staðan í heimabankanum óspennandi eftir því, ég hef engar áhyggjur, eftir allt þetta ísát höfum við bara gott af smá svelti, mig hefur líka alltaf langað til að prófa að lifa á því sem til fellur í nærumhverfinu, hundasúrur og krækiber og ... þari, mmmmm ...    

þriðjudagur, 23. júlí 2013

quarto racconto

þegar ég vaknaði í völundarhúsinu fljótandi í gærmorgun – algjörlega nakin sökum hita og með moskítóbit á ólíklegustu stöðum – verkjaði mig svo í iljarnar að ég hafði litla sem enga löngun til að fara fram úr, eini glugginn á herberginu stóð opinn upp á gátt og rammaði inn útsýnið yfir þökin fyrir utan; terra cotta flísar og pottaplöntur, loftnet og strompa, baklýst af hvítri morgunsólinni sem máði út allar útlínur líkt og skaparinn hefði ákveðið að mála heiminn í sfumato þennan dag, í gegnum flugnanetið sem hafði augljóslega sofið á verðinum um nóttina eða í það minnsta sinnt hlutverki sínu með hangandi hendi barst undarlegt hljóð, það sama og ég hafði stuttu áður – milli draums og vöku – talið annarlegan karlmannshlátur en kom þegar betur var að gáð frá mávi sem annað hvort af fórnfýsi eða fyrir misskilning hafði tekið að sér hlutverki morgunhanans og „hló“ trúðslega ofan af hæsta strompi hverfisins, herbergið í þessu fyrrum klaustri kom ekki heim og saman við hefðbundnar hugmyndir mínar um klaustur ef frá er talið að það var búið fáum og einföldum húsgögnum: rúm, stóll, borð, skápur, öll af ódýrustu gerð, frammi á ganginum var fábrotin en hreinleg sarlernisaðstaða og köld sturta, bróðir minn jesú og móðir hans sem annars eru allt um lykjandi og alls staðar hér suðurfrá voru aftur á móti hvergi sjáanleg, einfaldleikinn inni fyrir var jafnframt í hrópandi ósamræmi við óreiðuna fyrir utan; allt þetta vatn og engin leið að komast um nema þræða sig í gegnum endalausa ranghala og flækjubendur af götum sem sumar eru varla faðmur að breidd, troðnar af ferðamönnum með myndavélar og bakpoka, vatnsflöskur og kort sem eru lítið annað en óleysanlega gestaþraut, búðargluggar fullir af litríkum grímum, sætabrauði og minjagripum, hvergi beina línu að sjá, allar línur eru bylgjur, eins og umhverfið allt sé smám saman að gárast og taka á sig sömu mynd og yfirborð vatnsins sem borgin er byggð á, borg byggð á vatni, í feneyjum erum við öll jesú kristur, við göngum á vatni, blotnum samt í fæturnar af því við erum að sökkva, 2 millimetrar á ári, vatnsborðið hækkar og fólkið flyst upp um hæð í húsunum sínum, flýtur upp um eina hæð, býr fólk hérna? hugsaði ég í gær þegar ég leið í gegnum nóttina á gondóla undir nánast fullu tungli og virti fyrir mér húsin, fannst allt eins líklegt að þau væru öll tóm, allt er óraunverulegt eins og ég sé stödd í sögubók, þarna kom það; ég er stödd í sögubók og myndirnar eru allar málaðar í sfumato, bara ef rúmið mitt væri bátur, þá þyrfti ég  ekki að fara fram úr, ég datt ofan í kanínuholu og finn ekki höfuðáttirnar, ég er blaut í fæturna og finn ekki fyrir iljunum, hvert liggur þessi gata?

föstudagur, 19. júlí 2013

terzo racconto

hávaðinn í ruslabílunum vekur mig fyrir allar aldir hér fyrir sunnan, ekki svo að skilja að ég kvarti, ég er árrisul með eindæmu sama hvar ég hola mér niður á jarðkringlunni, auk þess er ákaflega indælt að opna út á svalirnar á morgnana og hleypa inn ferskum blæ áður en loftið mettast af hádegishitanum og moskítóflugurnar ákveða að baða sig í rakanum, hávaði í ruslabílum er þó alveg jafn óyndislegur á ítalska vísu og íslenska, sér í lagi þar sem ítalskir ruslakallar hrópa mikið við vinnuna, um hvað er rætt er mér enn hulið, skýrmæli virðist ekki vera krafa þegar sótt er um starf við sorphirðu hér í landi, ítalir hafa verið ósköp elskulegir í viðkynningu enda fyrr mætti nú vera miðað við hvílík innspýting koma okkar er fyrir hagkerfið í landinu, stuðningur okkar við ítalskar landbúnaðarafurðir – þá sér í lagi það sem kemur af kúnni – er með öllu fordæmalaus svo ekki sé meira sagt, þá daga sem við mæðgur og ástkær vinkona mín sem heiðrar okkur og nærir með félagskap þessa dagana erum ekki yfir okkur uppteknar við að troða okkur út af ólívum og parmesanosti, drekka prosecco og smyrja innyflin með ítölskum rjómaís tökum við stífar tarnir í túristahlutverkinu og drögum þá hvergi af okkur: rusluðum rómarborg upp í gær og um helgina gerum við innreið í feneyjar, eins gott að vanda sig svo maður lendi ekki í því að drekkja einhverju(m) – fyrrnefndum feneyjum til dæmis, ferðin er fyrst og fremst farin til að göfga andann, baða sig í listinni á tvíæringnum annan daginn og í adríahafinu hinn, en mín elskulega vinkona er einmitt guðmóðir mín í sjósundi og saman stefnum við að því að endurfæðast þarna í adríahafinu: hugsum botticelli; venus á skelinni og allt það ... nema við verðum auðvitað ekki svona fáránlega fölar heldur gullinbrúnar og sætar eins og karamellur í kramarhúsi, til að fullkomna hina andlegu för höfum við tryggt okkur gistingu undir þaki munka svo sálin ætti að nærast jafnt í svefni sem vöku og ekki ætti maður að þurfa að hafa áhyggjur af ruslabílum í borginni fljótandi, sjálfsagt er það sótt á gondóla og sungið við vinnuna en ekki hrópað, hugsanlega spilað undir á fiðlu, þetta verður indælt     

mánudagur, 15. júlí 2013

secondo racconto

í íbúðinni minni hér í ólívulundinum er gaseldavél, ég veit ekki hvernig þessi mistök gátu átt sér stað, það er ábyrgðarhlutur að skilja manneskju eins og mig – sem hvarvetna hefur getið sér gott orð fyrir klaufaskap – eftir í slíku kompaníi, ég hef einstakt lag á að handfjatla hluti á sama hátt og homo sapiens gerði áður en honum óx þumall ... það var líklega fyrir tíð homo sapiens en þið skiljið hvað ég á við, frá því við mæðgur hreiðruðum um okkur hér á via marconi hef ég margsinnis verið aðeins hársbreidd frá því að valda hverju stórslysinu á fætur öðru, með fádæma lagni hefur mér svo gott sem tekist að bræða handfangið af kaffikönnunni og svíða af mér þau líkamshár sem maður kærir sig síst um að missa; augabrúnirnar, nokkrum sinnum hef ég sömuleiðis nánast kveikt í:  
hárinu á mér
borðtuskunni
viskastykkinu
sparikjólnum
plasthnífapörum
matarumbúðum
dagbókinni
...
svo fátt eitt sé nefnt, ég man ekki meira í augnablikinu en tek fram að listinn er ekki tæmandi, ég er búin að verða mér út um númerið hjá slökkviliðinu og sé fyrir mér að ég bjargist héðan út úr brennandi íbúðinni með því að stökkva ofan af svölunum við dynjandi lófatak myndarlegra ítalskra slökkviliðsmanna sem og indversku strákanna sem reka hið torkennilega robin enterprice hér á neðri hæðinni, þó ég hafi nýtt mér allar mínar gáfur sem og óhamið ímyndunarafl hefur mér ekki tekist að svo mikið sem geta mér til um hvers konar starfsemi fari fram innan veggja þessa fyrirtækis, ég get sagt það eitt að nafnið virðist full (svo ekki sé kveðið sterkar að) ábúðarmikið miðað við innviðið, dettur helst í hug að þetta sé spagettíversjónin á nígeríusvindli ... nema rekið af indverjum, think globally act locally

sunnudagur, 14. júlí 2013

primo racconto

maður veit auðvitað aldrei hvað bíður manns á ítalíu – frekar en annars staðar – nema þá hugsanlega það að bíða, sem er kannski ekki svo neikvætt þegar maður hefur í huga að á ítölsku er sögnin að bíða afar keimlík sögninni að vona, aspettare - sperare, sem var einmitt það fyrsta sem ég gerði eftir komuna á flugvöllinn – beið og vonaði að farangurinn minn skilaði sér, svo merkilega vill til að fyrsta setningin sem kennd er á linguafóninum sem ég keypti handa dóttur minni fyrir ferðina er einmitt þessi: dov´é la mia valigia?(hvar er ferðataskan mín?), sjálfsagt setur fólk þessa linguafóna saman eftir mikla rannsóknarvinnu á reynslu túrista og hagar kennslunni í samræmi við niðurstöðurnar, góðum klukkutíma eftir lendingu þvældist ég allavega fyrir sjálfri mér og öðrum við færibandið í komusalnum algjörlega að drepast úr hungri og þrástagaðist í huganum á einmitt þessari setningu; hvar í andskotanum er ferðataskan mín? af þeirri einu fyrirhyggjusemi sem mér er gefin: að fara aldrei út úr húsi öðruvísi en  hafa meðferðis eitthvað sem má leggja sér til munns, hafði ég daginn áður – þegar ég flutti út af vinnustofunni minni  – tæmt úr skrifborðsskúffunum ofan í handtöskuna mína og var þar af leiðandi með einhver ósköp af hnetum og þurrkuðum ávöxtum sem ég gat gert mér að góðu þó hvort tveggja hefði við skúffudvölina tekið í sig eitthvert bragð óþarflega álíkt því sem maður finnur við það að naga blýant, ég náði mér svo í vatnsflösku til að skola skúffufæðinu niður á meðan ég braut heilann um afdrif farangursins úr íslensku vélinni, ég veit ekki hvort það er til marks um óhóflega sjálfhverfu eða sjúklegt ofsóknaræði en einhvern veginn óttaðist ég að töfin tengdist mínum eigin farangri með einum eða öðrum hætti, hvað gæti mögulega leynst í ferðatöskunni minni sem vekti annað hvort grunnsemdir eða hrifningu starfsmanna flugvallarins? kjálkar mínir unnu á ferðanaslinu eins og vel smurðar mulningsmaskínur, hnetumaukið klesstist upp með tannholdinu og ég tók stóran gúlsopa úr vatnsflöskunni, í huganum gramsaði ég í ofboði í gegnum það litla sem ég hafði sett niður í töskuna (nánast ekki neitt varð mér skyndilega ljóst, hverju hafði ég eiginlega hugsað mér að klæðast næsta mánuðinn?) og datt helst í hug að flugvallarstarfsmennirnir – klæddir í þessa hörmung sem kallast sýnileikafatnaður (systir mín kenndi mér þetta ömurlega orð, hvar lærir fólk svona orð?) – hefðu fundið jógadýnuna mína og samstundis ákveðið að breiða úr henni einhvers staðar „á bak við tjöldin“, í augnablikinu stæðu þeir svo í röð og skiptust á að powerblunda, jógadýnan mín er í mínum augum algjörlega heilagur blettur; vin í óvinveittum heimi; töfrateppi andans; afdrep og griðarstaður og tilhugsunin um að einhver vogaði sér að brúka hana til þess eins að iðka meðvitundarleysi var mér vægast sagt ekki að skapi, svo mjög að ég var við það að gera eitthvað róttækt í málunum þegar færibandið tók við sér og farangurinn silaðist til mín, ég var einfaldlega of svöng til að fara lengra með málið, maður á aldrei að gera neitt drastískt á fastandi maga, það er dæmt til að enda með ósköpum, sem betur fer er ekkert útlit fyrir að til þess komi hér suðurfrá, þ.e. að ég þurfi að taka ákvarðanir á fastandi maga, því hér eru ísbúðir á hverju götuhorni og vinnsla mjólkurafurða greinilega mun skilvirkari en starfssemi flugvalla