ég sagði það við sálarlækninn nýlega að það eina sem ég þrái sé að vera raunverulega og algjörlega gagntekin af einhverju, að festa athyglina á það sem færir mig frá einum punkti til annars, athygli mín vill festast í hringskýringum og spóla þar til eilífðarnóns, virkilega vont, ekki reyna þetta heima hjá ykkur, að vísu er geðheilbrigðið eitthvað að nálgast það ástand sem mér er kunnuglegt, þ.e. einhvers konar vasaútgáfu af maníudepressjón, að sveiflast – jafnvel milli klukkutíma – frá hörmulegri depurð og sorg yfir í glimrandi orku og gleði, ekki ákjósanlegt en þó skárra en þessi flata depurð sem hefur elt mig á röndum í marga mánuði og var að svipta mig þessum litlu geðsmunum sem ég hafði úr að spila, ég viðurkenni fúslega að ég hef eins ríka tilhneygingu til sjálfsvorkunar og næsti maður í röðinni við kassann í bónus, ég stend mig að því að spyrja drottinn (eins og heimtufrekur krakki í hagkaup á laugardegi): „af hverju ertu að senda mér allt þetta drasl þegar það er fyrirséð að mér mun ekki takast að flokka þetta almennilega (og mér er illa við drasl), ég er kennaramenntuð og veit að vænlegast er að kenna nemendum hlutina í smáskömmtum svo þeim finnist þeir ráða við verkefni sín, ekki slengja þeim á hnén í drullu og for og fylgjast svo með þeim brölta eins og afvelta pöddur í kviksyndinu,“ svona vælir maður, stundum alveg án þess að skammast sín, en satt að segja er auðvelt að tapa voninni þegar manni finnst maður vera að gera svo gott sem eins og maður getur, reynir að vera almennileg manneskja, stundar loftfirrta lotuþjálfum eins og sá vitfirrti hamstur sem maður er, étur ekkert nema morðdýrt ofurfæði, reynir að passa svefninn eftir bestu getu, hittir sálarlækninn, biður til guðs, und so weiter og ekkert gerist, vitundin er eilíflega klofin, hjartað marið og efinn lúrir við gagnaugað, ég bið um krít til að draga skýra línu, ekki hring, línu