langt í burtu í útlöndum ligg ég á dýnu undir súð og fylgist með kónguló sem fikrar sig innum opinn glugga og lætur sig síga hægt niður til mín, bráðum deyr hún, en hún veit það ekki, það er best þannig, stundum skellur ógæfan á manni í heilu lagi eins og bjarg, óvænt og hreint svo maður finnur samstundis til, eða finnur alls ekki til og veit þá ekki af sér, stundum aftur á móti seytlar eitthvað hljóðlaust inní líf manns, hægt hægt, úr engri sérstakri átt, eins og litur útí vatn, af tvennu illu er bjargið líklega betri kostur, það fer þá ekki á milli mála hvað hefur gerst
þriðjudagur, 28. ágúst 2012
mánudagur, 13. ágúst 2012
kæra afmælisbarn
þú ert nú meiri manneskjan! það er svo sem ekkert nýtt að þú sveiflir þér nokkra glannalega hringi í sirkusrólunni og hangir niður úr henni öfug, jafnvel á einum fæti með pilsið allt upp um þig og stundum hefðirðu mátt vaxa þig betur undir höndunum, en að hrapa til jarðar og merja í þér brjóstbeinin og hnéskeljarnar og guð má vita hvað og liggja svo snöktandi þarna á gólfinu fyrir allra augum með maskaraklíning um allt andlit og tútúpilsið gauðrifið og skítugt, sofa í pardusbúrinu og éta með górillunni á meðan aparnir djöflast í rólunni þinni og hæðast að sýningunni þinni, ertu ekki í lagi kona! viltu rífa þig upp á rassgatinu og koma þér upp í róluna þína aftur, þú varst ekki ráðinn hingað sem svínahirðir, ég hef fullan skilning á því að þessir þrjúhundruðsextíu og fimm dagar frá þínum síðustu persónulegu áramótum hafa verið ... ja hvað á ég að segja ... hreint helvíti á köflum og það var náttúrulega boðflenna í salnum og allt það, ég veit ekki hver hleypti andskotans þunglyndinu inn en ég mun fara gaumgæfilega yfir það með þeim í miðasölunni og sá hinn sami verður rekinn á staðnum, en nú ætlar þú að finna pípuhattinn þinn og fjaðrirnar og skera afmælistertuna eins og manneskja, mér er alveg sama þó þú hafir vaknað ein og það sé alveg nýtt fyrir þér svona á afmælisdaginn og bla bla bla, drullastu bara í afmæliskjólinn og komdu þér út í búð að kaupa kampavín, ég get ekki haft fólk í vinnu sem veit ekki hvert hlutverk þess er!
föstudagur, 10. ágúst 2012
fram og tilbaka
síðasti vinnudagurinn minn og úniversið sendir mér óþægilega fölskvalausa áminningu um að haustið hangir í skýjunum, eitt af undarlegri sumrum ævi minnar er næstum að baki, ég hef átt þau betri, ég er að verða þrjátíuogsjö ára á mánudaginn og þetta sumar minnir mest af öllu á sumarið fyrir tuttugu árum þegar ég var sautján ára og bjó ein, lá í einhverri ömurlegustu ástarsorg sem höfð er í manna minnum og komst að því að ég bý yfir óviðjafnanlegri getu til einveru, eini félagsskapurinn sem ég get alls ekki verið án er tónlist, ég og tónlistin og stöku skál af góðu salati eða einföldu pasta og þar með eru stoðirnar í mínum microcosmos upptaldar, breytist maður í rauninni eitthvað með árunum? verður lífsreyndari jú og sýnin breytist en eru frumefnin ekki alltaf þau sömu? þegar ég blaða í gegnum spjaldskrá minninganna allt aftur í barnæsku rekst ég alla vega aftur og aftur á sömu orðin
þrá
eirðarleysi
ástríða
depurð
leit
er hægt að búa til ný frumefni?
föstudagur, 3. ágúst 2012
gult
ég varð bara að sjá eitthvað gult, þetta hellist yfir mig stundum, gulur er einhver alfallegasti litur sem ég get hugsað mér, ég tala nú ekki um ef hann er í kombói við fjólublátt, ég klæði mig samt auðvitað aldrei í gult enda líta næstum allir nema dóttir mín út fyrir að vera langt leyddir af sjaldgæfum banvænum sjúkdómi ef þeir klæðast gulu, í trássi við sumarið klæði ég mig alla daga eins og sikileysk ekkja, svart yst sem innst, mér finnst þetta dáldið fallegt, ég er rómantískt fífl, það verður mitt banamein, það eða dagdrykkjan
af allt öðrum toga er sú frétt að það eru aðeins ellefu dagar í afmælið mitt sem í ár kemur því miður upp á lúðalegasta degi vikunnar, hinum óvinsæla mánudegi, kannski hann verði gulur
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)