laugardagur, 28. júlí 2012

laugardagur til langana

laugardagur og ég sef til hálfellefu sem hefur varla gerst frá því ég var unglingur, ég skammast mín en ákveð að ég hljóti einfaldlega að vera mjög þreytt, kaupi mér fallega tréliti og mjúkan pappír, teikna þó ég kunni það ekki og hlusta á tónlist, les umfjöllun í sunnudagsmogganum um kristján davíðsson og verð þakklát fyrir að vera minnt á þennan dásamlega málara, borða kirsuber, er eitthvað betra en kirsuber? ég vil vera ærleg manneskja, þetta er það sem sækir mest á huga minn þessa dagana, vera ærleg, segja satt, „þitt hjarta bar frið, það var heilög örk“ skrifaði einar ben, ég vil vera slíkt hjarta, ég vil vera guði til sóma, vera frjáls undan hugsuninni sem skapar efann og nærir óttann og segir alltof margt ljótt, ég vil frelsi til að krjúpa fyrir því sem er raunverulega fagurt og rétt og satt, því sem færir mér vissu um að ég sé hluti af undrinu eina um leið og það minnir mig á smæð mína og hverfulleika, vissu sem maður finnur aðeins í listinni og kærleikanum og náttúrunni og hversdagslegum augnablikum, amen  

þriðjudagur, 24. júlí 2012

húsamúsin verður brátt heimilislaus


það er ömurlega asnalegt að skoða myndir af heimili sínu inná heimasíðum fasteignasala, sérstaklega þegar mann langar ekkert að selja húsið sitt en þeim mun meira til að garga á alla sem koma að skoða: "farðu heim til þín, þú mátt ekki eiga heima hérna!", ég gnísti tönnum við tilhugsunina um að einhver plebbi kaupi litla sirkustjaldið mitt og máli yfir skærbleika forstofugólfið og rífi brjóstsykurshöldurnar af eldhúsinnréttingunni, kannski á þetta fólk engin blóm og engar bækur og fullt af risavöxnum fokljótum amerískum húsgögnum, mig langar að grenja (lesist: ég er að grenja), ég er svo döpur yfir þessu, því miður virðast aðrir íbúar mosfellsbæjar jafntregir til að selja heimili sín og ég því það eru nákvæmlega engar íbúðir til sölu í þessum fjandans bæ, ekki svo að skilja að ég sé sjúk á sál og búk að búa hérna áfram, þvert á móti, barnið aftur á móti spyrnir niður fótum við bæjarmörkin og hótar öllu illu ef ég svo mikið sem rétt minnist á að beina flutningabílnum upp á vesturlandsveg og áleiðis til reykjavíkur, hún muni aldrei flytja með mér þarna niður í bæ þar sem búa eintómir misyndismenn og geðsjúklingar, hún muni flytja til ömmu og afa og ekki yrða á mig meir, maður má sín lítils

laugardagur, 21. júlí 2012

í dag var spáð stormi og ég hætti mér út fyrir hússins dyr


ég sakna hundsins míns, hundurinn minn hefur átt erfitt með að aðlagast því að vera skilnaðarbarn, hann pissar á gólfið þegar ég er ekki á heimilinu og stelur öllu ætu sem hann kemst í, þegar ég kem heim á mánudagsmorgnum til að taka við heimili barni og fyrrnefndum hundi mænir hann á mig með döprustu augum sem hægt er að hugsa sér, spyr: af hverju varstu svona lengi í burtu? er það af því ég er óþekkur og get ekki lært að ganga við hæl? ég fæ kökk í hálsinn, ég elska hundinn minn, í dag sat ég í strætó með munninn fullan af tutti frutti tyggjói og horfði inní bíl sem beið á rauðu ljósi við hliðina á strætisvagninum, í bílnum sat hundur ekki ósvipaður mínum, sömu döpru augun, kannski er hann skilnaðarbarn líka, ég reyndi að fara ekki að skæla og hamaðist á tyggjóinu eins og maníusjúk, að kaupa mér tutti frutti tyggjó og troða fimm sex stykkjum uppí mig í einu er eitt af því sem mér tekst  ekki að vaxa upp úr (vá fyrst skrifaði ég tekst með x-i, ertu ekki í lagi kona?!), það er svo margt sem mér tekst ekki að vaxa upp úr, eins og til dæmis að hafa alltof mikinn kraft á vatninu þegar ég vaska upp og nota yfsilon eins og það sé krydd en ekki fyrirbæri sem lúti stafsetningarreglum og vera óforbetranlega rómantísk og brúka hnútasvipuna eins og hún sé skilvirkasta uppfinning mannskynssögunnar, manneskjan er breisk, ég er manneskja, ergo: ég breisk, þegar ég brölti inn til systur minnar eftir strætóferðina spýti ég út úr mér tyggjóinu og hefst handa við að útbúa salat með granateplum og osti sem ég keypti fyrir hreint undarlega mikla peninga í ostabúðinni á skólavörðustígnum, ég hef vit fyrir sjálfri mér (þó ótrúlegt megi virðast) og næri ekki bara efnið heldur andann líka og spila fleetwood mac á miklum styrk á meðan ég borða salatið og drekk hvítvín sem ég faktíst hef ekki efni á (ekki frekar en ostinum) og  reyni að hugsa ekki um að það er til fólk í þessum heimi sem er indígóbláir hestar, slíkt fólk gengur um með ljósið upp úr hnakkanum þó það hvíli fæturna á sömu jörð og við hin og andi að sér sama loftinu, drekki sama vatnið og taki bensín á bílinn sinn á þriðjudögum (eða hvenær sem það er sem fólk tekur bensín, ég á ekki bíl, ekki einu sinni bílpróf), það er engin leið að skilja þetta, ég ætla að fá mér annað hvítvínsglas   

föstudagur, 13. júlí 2012

grýtt

haltu áfram, eins og vatnið, finndu jörðina undir fótunum, hreyfðu þá áfram yfir blágrýtið og klettanibburnar, varlega, vertu vatn, seytlaðu áfram, smjúgðu á milli, ekki stoppa, hreyfðu fingurna yfir hrjúft grjótið, ekki hætta, finndu áferðina, hörkuna, láttu lófann ljúkast um, mjúklega, eins og vatn, finndu lófann móta grjótið, finndu það sverfast og sléttast, vertu vatn, mjúkt og þolinmótt, iðandi og síkvikt, óþreytandi og langlundað, haltu áfram

laugardagur, 7. júlí 2012

augnablik, ég þarf aðeins að bregða mér afsíðis

þessi sneið af bananabrauði sem ég var rétt í þessu að kyngja var eins og dropi í hafið, ég nenni bara ekki fá mér aðra, ég er heldur ekkert svöng í mat, ég er aftur á móti nær dauða en lífi úr hungri í nýja tónlist, ekki svo að skilja að ég sé búin að vera í stífu plötubúðaaðhaldi, sumt má maður bara ekki neita sér um, það gæti endað með ósköpum, sérstaklega þegar maður þarf eins og ég þessa dagana að halda sig mikið fjarri öðru fólki vegna þess að maður er svo leiðinlegur að það gæti hæglega banað grandalausum að vera í kringum mann, þegar þunglyndið liggur bak við augun og stífar á manni andlitsvöðvana svo maður minnir helst á stjarfaklofasjúkling er vænlegast að hafa vit fyrir sjálfum sér og öðrum og svara helst ekki í símann, ég réttlæti plötukaupin með því að símareikningurinn sé í svo sögulegu lágmarki að í raun sé ég að koma út á sléttu en samt að græða alveg rosalega af því músík er svo miklu eigulegri en reikningar, á einhvern hátt sem ég ætlast ekki til að aðrir skilji meikar þetta fullkominn sens í mínum huga, fólkið streymir framhjá mér á laugarveginum, sleikir ís, ýtir á undan sér barnakerru, drekkur kaffi úr pappamálum, stundum finnst mér eins og ég sé á öðrum hraða en lífið í kringum mig, eins og ég horfi á fólkið umhverfis mig hreyfa sig ýmist svo leifturhratt eða löturhægt að ég nái aldrei að fylgja eftir, að ég sé alltaf aðeins of sein eða áður en ég veit af einhvern veginn hlaupin á mig, ég fletti í gegnum playlistana í ipoddinum og finn mér eitthvað sem ég get haldið takti við, van morrison er maður dagsins og ég kinka kolli þegar hann syngur um ástina sem elskar að elska ástina sem elskar að elska, það er kannski sumt í lífinu sem maður fær ekki hnikað en maður getur alla vega valið dögunum soundtrack, takk fyrir það herra minn

fimmtudagur, 5. júlí 2012

mantra dagsins

ég hafna hugsuninni
snerting er skilningur