þriðjudagur, 29. maí 2012
mánudagur, 28. maí 2012
svo maður tali einu sinni um eitthvað sem virkilega skiptir máli
hvernig í veröldinni stendur á því að enginn ratar inná þessa síðu með leitarorðinu tónlist? mér finnst ég stanslaust að gaspra eitthvað um tónlist hérna í tóminu en þrátt fyrir það eru það alltaf tekk skenkurinn og blessuð nektin sem leiða fólk hingað inn, ég er svo sem ekkert rasandi yfir því að fólk gúggli orðið nekt í tíma og ótíma en kommon tekk skenkur! þetta er fáránlegt, og við erum að tala um að ég minntist á þennan tekk skenk einu sinni í einum einasta pósti fyrir einhverjum árum síðan, svona er maður nú hundeltur af sjálfum sér á internetinu, en skítt með það og tölum um tónlist, stundum reyni ég að rifja upp hvort hafi verið mín fyrsta ást, tónlist eða hreyfing, en líklega var þetta tvennt samofið frá upphafi, ég man eftir mér lítilli í bílnum með pabba og james taylor – hver nýlega visíteraði skilst mér – söng handy man mjög innilega úr útvarpinu, ég man hvað mér fannst þetta notalegt, að sitja í bílnum og hlusta á útvarpið, for the record er handy man eina lagið með missjö taylor sem ég virkilega kann að meta enn þann dag í dag, mamma hækkaði alltaf í bítlunum og simon og garfunkel og pabbi spilaði kontrí í stofunni, allt músík sem ég hlusta á ennþá, seinna man ég eftir mér í skotinu undir stiganum heima með kassettutæki og einhverjar spólur, þetta var í þá daga þegar grameðlur reikuðu um göturnar og það var hægt að taka upp úr útvarpinu, sweetness! það var líka hægt að taka upp úr sjónvarpinu, til dæmis fame og skonnrokk, ég meina það af öllu hjarta þegar ég segi að það var allt betra í gamla daga, en sem sagt ég sat þarna undir stiganum og ræktaði minn ofvaxna intróvert í takt við vinsældarlista rásar tvö og annað uppbyggilegt efni, frá herbergi systur minnar (sem í þá daga vildi ekki sjá mig nálægt sér, guði sé lof að það hefur breyst) ómaði ýmislegt sem er sömuleiðis velkomið á mínum playlista hvenær sem er, pink floyd og springsteen og svo auðvitað bob, ó hvað ég elska bob, sér í lagi man ég eftir laginu jokerman sem er alltaf eitt af mínum uppáuppáuppáhalds, ég man líka lygilega vel eftir því þegar ég gerði mér ferð á laugarveginn og keypti mína fyrstu plötu, það var true blue með madonnu og hún var spiluð í drasl enda líklega ein af hennar betri plötum, ég held að ég hafi verið tíu eða ellefu ára og duran biðu handan við hornið, það erfiða við duran tímann var auðvitað að maður gat aldrei gert það almennilega upp við sig hverjum maður ætlaði að giftast, ég fór þá leið að skipta þeim niður á vikur til að gera þetta auðveldara, merkilegt hvernig þetta erfiða vandamál leystist svo gott sem af sjálfu sér, en ég var orðin tólf ára held ég þegar stóra ástin kom inní líf mitt, alla vega var það árið 1987 sem fleetwood mac gaf út tango in the night og hjarta mitt var gefið hæstbjóðanda, ég sankaði að mér öllum plötunum þeirra og elska þær allar út af lífinu en tusk mest af öllu, hún var ófáanleg á þessum tíma en ég fann hana loks í plötubúð í þýskalandi þegar ég var fimmtán sextán ára og búin að þrá hana í öll þessi ár, ég man ennþá hvað ég var glöð, svo kom auðvitað tiltekinn maður hingað til lands um svipað leyti, vatnsgreiddur maður í armani jakkafötum, dökkur og fagur og raulandi þessi guðdómlegu ljóð, það var sýndur þáttur um hann í sjónvarpinu og ég var ekki alveg að kveikja á þessu öllu, gat þessi maður eitthvað sungið? en mamma vissi sínu viti og keypti i´m your man sem ég hlustaði á fram og til baka og ákvað að taka titilinn bókstaflega, þetta væri maðurinn minn, og það hefur hann verið allar götur síðan, ég þarf auðvitað ekki að taka fram um hvern er rætt, fyrir nokkrum árum var ég svo heppin að fá að gjöf geisladisk með upptöku af þessum tónleikum sem hann hélt í laugardalshöll, það er pínu sárabót fyrir að hafa misst af hinum raunverulega atburði sem er auðvitað sárara en tárum taki, en svo hlustaði maður á alls konar og alls konar þarna á unglingsárunum, margt sem skiptir mann engu máli í dag en það sem sat eftir voru cure, depeche mode, pixies, sade og auðvitað sinéad, elsku æðislega sinéad, sjúklega dásamlega sinéad sem ég sá á tónleikum í haust og langaði hreinlega að hlaupa yfir bekkina í fríkirkjunni til að kyssa á skallann, það var vel við hæfi að horfa á hana spila uppi við altarið enda rakaði ég af mér hárið þessari konu til heiðurs, sem á þeim tíma var í sjálfu sér ágætt því stuttu áður í einhverju bríaríi inná hárgreiðslustofu hafði ég fengið mér permanent og það er nú bara sama hvernig maður snýr því dæmi permanent er alltaf vond hugmynd, sem betur fer lærði ég þá lexíu hratt og vel og hef aldrei drýgt þann glæp eftir þetta og ef mér verður það á úr þessu er hverjum sem er frjálst að binda mig niður og raka af mér hárið, ég er bara orðin sautján ára í þessum pistli og samt er hann orðinn fáránlega langur og það hefur ekki verið minnst einu orði á rufus wainwright eða arethu franklin eða cat power eða beth orton eða – þarf ég að segja það – nick cave, ég meina það hefur ekki einu sinni verið minnst á hárið hans rufus wainwright, eða hárið á nick cave ef því er að skipta, þetta er náttúrulega eins og að skrifa bókmenntapistil án þess að tala um braga ólafsson, þetta er glataður pistill, upphaflega átti þetta að vera smá inngangur að því sem átti að vera umfjöllunarefni dagsins en það er nýji diskurinn hans jack white, en ég get líklega ekki misboðið fólki mikið lengur með þessu röfli, ég verð bara að skrifa annan pistil á morgun um jack og hans sjúklega blunderbuss, í millitíðinni geti þið þá skottast niður í smekkleysu og keypt ykkur eintak ef þið eruð ekki búin að því, ég lýk þessu með því að játa að ég er auðvitað skelfilega illa menntuð í klassík en ég skoða það í ellinni, það verður huggó, alla vega, það sem átti að vera niðurstaðan hér er að á tímum eins og þessum þegar mér líður eins og ég hafi orðið undir vörubíl er lífsins ómögulegt að komast í gegnum dagana án tónlistar, ég get alveg lokað öllum bókum og gleymt öllum bíómyndum og myndlist og já jafnvel mat en án tónlistar er ekkert líf, bara hreint ekki
en í augnablikinu er ég brunnin á bringunni og með ost undir nöglunum eftir eldamennskuna ... eða sko osturinn undir nöglunum er eftir eldamennskuna, ég brann á bringunni í sundi, svo las ég lengi í hengirúminu í dag og sleikti sárin mín stór og smá, það er full vinna og meira til þessa dagana fyrir meðalháa konu þó hún sé nokkuð undir kjörþyngd eftir átök vetrarins, kannski eitthvað um það síðar líka
sunnudagur, 20. maí 2012
ég hef enga áhuga á forboðnum ávöxtum
á meðan ég stóð undir útisturtunni og lét hitann rjúka úr líkamanum eftir gufubaðið velti ég því fyrir mér hvort það væri ekki farsælast fyrir mig að ganga í klaustur, eini gallinn við þetta plan er að þar væri engin útisturta, og þó, kannski eru einmitt útisturtur í klaustrum, jökulkaldar auðvitað en það myndi venjast, það væri samt pottþétt engin þurrgufa, en kannski gæti ég fundið mér hlutverk í klaustrinu við að byggja þurrgufubað, nokkurs konar samfélagsþjónusta, það er víst mjög hollt að vinna í þágu annarra (nema auðvitað í vændi, drottinn minn dýri ekki misskilja mig), ég myndi vanda mig svakalega við vinnuna stöðugt minnug þess að jesú var smiðssonur og þó litla gufubaðið mitt yrði líklega ekki alveg hornrétt – maður er ekki sterkur í nákvæmninni – myndi ég passa hundrað prósent uppá fíniseringuna og pússa og pússa svo ekki nokkur hætta væri á slysum á borð við flísar í helgum bossum, skyldu nunnur annars mega ganga í baðfötum? kannski svona heilgalla eins og landsliðið í sundi notar, en nunnubúningurinn væri auðvitað eini mínusinn við klausturdvölina (þ.e. þegar ég væri búin að leysa þetta með þurrgufuleysið) því þessi kjólalíki þeirra eru mjög illa sniðin og virðast vera úr mjög stífu og óþægilegu efni, svo klæði ég mig aldrei í hvítt og svart, enda engin leið að komast hjá því að líða eins og gengilbeinu í þeirri litasamsetningu og ég er ekki sérlega þjónustulunduð, á milli þess sem ég væri að vinna við gufubaðið og eiga löng innihaldsrík samtöl við guð myndi ég nýta tímann til að rækta grænmeti og sinna landnámshænunum mínum, ég er brjáluð í egg og ég held sem betur fer að það séu engar klausur í nunnueiðnum um bann við eggjaáti, þetta er það frábæra við klaustur, það er beinlínis ætlast til þess að maður sinni öllum þessum hlutum sem hér utan veggja teljast dútl og lúxusspandering á tíma, í klaustri væri ég til dæmis löngu búin að setja niður kryddjurtirnar sem ég hef enn ekki potað niður í pottana sem standa eins og daprir smádýragrafreitir úti á palli hjá mér, þetta er frekar ömurleg sjón, þegar þess væri krafist að við – þ.e. ég og my fellow nuns, ekki ég og kryddjurtirnar – sinntum góðgerðarstarfi í heiminum utan veggja myndi ég velja mér að sinna heimilislausum dýrum og finna þeim nýja eigendur, fólk yrði svo ótrúlega glatt og þakklátt fyrir að fá gæludýr að gjöf svona alveg óvænt og algjörlega endurgjaldslaust að það myndi gauka að mér almennilegu súkkulaði og stöku hnetusmjörskrukku og öðru sem ég sé fram á að mér myndi veitast erfitt að vera án í nýja lífinu með landnámshænunum og jesú, ég myndi stinga góðgætinu í vasann (það ætti að vera hægt að fela heilan kóksjálfsala undir þessu dressi hefði maður áhuga á slíku en ég drekk auðvitað ekki kók svo það kæmi aldrei til þess) og fela svo góssið undir dýnunni í klefanum mínum, ég myndi alltaf vakna extra snemma (jafnvel af nunnu að vera) til að skokka í klausturgarðinum og fara í gegnum stíft prógram af kraftjógastöðum og tai chi æfingum (einhvern veginn er ég farin að minna meira á kung fu pönduna en nunnu), engin ástæða til að hunsa gömul og góð gildi eins og „heilbrigð sál í hraustum líkama“ þó maður sé giftur guði sem elskar mann nákvæmlega eins og maður er – með eða án appelsínuhúðar á ég þá við, svona myndu dagarnir líða í kyrrð og sæld og sálarró enda væru töluvert færri vindmyllur að slást við, ég á það til að finna mér tilgang í því að slást við vindmyllur (að slást við vindmyllur er hér skáldamál yfir það að vera með erfiðar þráhyggjur og þunglyndistendensa, en það náðu því auðvitað allir, maður vill ekki tala við fólk eins og það séu hálfvitar), en sem sagt, einhvern veginn svona sá ég þetta fyrir mér þarna í útisturtunni í dag ... þessi klausturfantasía er kannski dáldið idealísk, ég veit það ekki
þriðjudagur, 15. maí 2012
sá sem lærir ekki af reynslunni situr eftir
mér var sagt í dag að mikilvægasta verkefni mitt í lífinu sé að trúa því að sá sem sé ástríkur verðskuldi ást, þetta er erfitt verkefni sem mér hefur ekki tekist að leysa, mig vantar margar stílabækur, en ég lofa að æfa mig, á hverjum degi
mánudagur, 14. maí 2012
á tíma trésins (skrásettur titill)
ég hef verið að hugsa svo mikið um ljóðið hans sigurðar pálssonar um trén og klukkurnar, um það að hringirnir í trjánum séu eins og klukkur, ég myndi vilja eiga svoleiðis klukku, hún gengi hægar og tæki betur eftir en þessar venjulegu, ef heimurinn gengi á tíma trésins væru speglarnir í kringum mig kannski ekki svona margir, í augnablikinu er eins og þeir verði fleiri og fleiri með hverri mínútunni og þeir hlífa engu þegar þeir kasta á milli sín háværu eftirlætisbörnunum efanum og óttanum, þvert á móti kasta þeir af æ meiri hörku og hraða svo það er engin leið lengur að greina hvar maður sjálfur byrjar og hvar hugarburðurinn tekur við, en maður má ekki gefa sig efanum, má ekki trúa speglum, manneskjan verður að krjúpa og trúa á kraftaverkið, trúa því að það sé hér, að það sindri á milli fingurgómanna, að það leiftri í hvert einasta skipti sem tábergið snertir gólfið þegar maður fer fram úr á morgnana, að það syndi um í munninum þegar maður bítur í appelsínu, kraftaverkið er að geta farið á fætur á morgnana og bragðað á appelsínu, ég þarf að tattúera þessa setningu í vitundina, það er svo auðvelt að gleyma því að galdurinn er að taka eftir, ég tek ekki vel eftir núna, það eru allir þessir speglar, og ég er ekki með neinar steinvölur í vösunum
og hvað er það sem tifar þegar við leggjum við hlustir, er það yfir höfuð eitthvað?
fimmtudagur, 3. maí 2012
konur sem horfa mikið til himins eru með bólgna ökkla – af því þær misstíga sig oft
kannski hefur maður yfir höfuð of miklar áhyggjur, sérstaklega af orðum, alla vega manns eigin, hvort þau hafi fallið á röngum tíma og í röngu samhengi og skilist á annan veg en maður ætlaði sér, kallast klaufaskapur, af honum á ég einhver reiðinnar býsn ef einhver er uppiskroppa, kannski er maður líka vænisjúkur, það væri ekki algjörlega úr karakter miðað við sjúkrasöguna og það sem í daglegu máli kallast afstaða stjarnanna við fyrsta andardrátt, og kannski er maður líka örmagna af vanmætti, það er ekkert skrítið þegar maður stendur frammi fyrir því að þurfa að játa sig sigraðan fyrir ótrúlegustu hlutum, til dæmis ljósritunarvélum háskóla íslands, ekki benda mér á að ég sé kennaramenntuð, það var enginn tæknikúrs í kennslufræðunum, eins og fór ekki á milli mála í dag þegar ég reyndi að ljósrita örfáar síður og heyrði trén falla í tugavís í kringum mig, ég er með heilu skógarbeltin á samviskunni, er að undra að maður sé deprímeraður? og óttinn, herra minn hátt á himnum, kannski maður ætti ekki að hleypa því orði undir bert loft, það hefur tilhneygingu til að magnast upp í bæði vindi og logni, óttinn við sjálfan sig er auðvitað verstur og grunurinn um að þegar ég fari í stjörnukortalestur í næstu viku fái ég það í andlitið að ég sé með venus í öllum húsum og híbýlum og hundakofum og hjartahólfum, hugsanlega vappar mars svo þarna í kring og brýtur hluti, bara svona til gamans, ég veit það eitt að mér finnst eins og ég hafi í sakleysi mínu lagt frá mér eitthvað afar lítið og viðkvæmt og í framhaldinu hafi verið tekið á því með afar stórum verkfærum, var það ég sem skrapp svona saman eða þandist veröldin skyndilega út?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)