laugardagur, 28. apríl 2012

síðasta sýning


enn og aftur hefur sirkusstelpan látið hafa sig niður úr rólunni og tekið að sér hlutverk trúðsins, enn og aftur hefur hún dansað sig svo gott sem dauða öðrum til heiðurs, enn og aftur hefur hún leyft úlfum að teyma sig á asnaaugunum um formfögur völundarhús full af villuljósum og sprautunálum, enn og aftur hefur hún trúað sögusögnum um indígóbláa hesta, hnén eru hrufluð og það kurrar í áhorfendum, farðu varlega, hégóminn er lævís og allt um kring og villidýrin eru laus úr búrunum

sunnudagur, 22. apríl 2012

upprifjun á eldra efni (til prófs)



þú skalt muna að þú ert hversdagsengill

þú skalt forðast tálsýnina

þú skalt hafa hemil á svartsýni þinni

þú skalt treysta á mátt góðseminnar

þú skalt ástunda glaðværð

þú skalt gera þitt besta

þú skalt trúa sannfæringu þinni

þú skalt halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram

fimmtudagur, 19. apríl 2012

Lygar



Það er lygi sem ég skrifaði 
í bréfinu sem ég brenndi 
að ég sé alltaf að hugsa um þig.
En ég hugsa oftast nær um þig.

Það er sömuleiðis lygi að ég geti 
ekki sofið.
Ég sef ágætlega og mig dreymir að auki
um aðrar konur.

En þegar ég vakna er hugurinn
strax hjá þér.

Konurnar fögru sem ég sé á förnum vegi
afklæði ég með augunum og reyni að
hugsa ekki um þig.

Og ég anda að mér ilmi þeirra 
uns mig svimar.

En allur samanburðurinn er þér í hag
og einmanaleik mínum.



Henrik Nordbrandt
Þýð: Jóhann Hjálmarsson
Orðræða um skuggann (2004)


föstudagur, 13. apríl 2012

líkaminn mun gera mig frjálsa

í dag – eftir að hafa svitnaði mun meira en góðu hófi gegnir við hlaup og aðra hressilega líkamsiðju – hugsaði ég lengi um að það sé farsælast að reiða sig sem mest á minni vöðvafrumna og viðbragð taugafrumna en ekki á hugsunina, mér finnst ég í alvöru talað aldrei hugsa neitt af viti og það rann upp fyrir mér að ástæðan fyrir því að ég er háð því að hreyfa mig – og get hreinlega ekki án hreyfingar verið –  er nákvæmlega sú að hreyfing frelsar mig frá því að hugsa, og tala

því sé dýrð og lof!

miðvikudagur, 11. apríl 2012

ekki það sem ég hafði hugsað mér en ...


mér tókst að kveikja í tölvunni minni í dag, já einmitt, ekki á henni heldur í henni! fyrir vikið líkist litla eplið mitt núna einna mest grilluðum sykurpúða, það verður að segjast eins og er að þetta er allt mjög mikið ... ja í mínum anda einhvern veginn, sumsé algjört klúður og ég skal vera fyrst til samþykkja að það eigi að banna mér að umgangast tæki, í gær tókst mér líka að eyða öllum ljóðunum mínum út úr þessari sömu tölvu (þeirri sömu og ég eyddi öllum myndunum mínum út af fyrir nokkrum mánuðum, ég veit ég veit, meistari hörmunganna og allt það), ég varð eiginlega meira miður mín yfir því en þessu slysalega grillpartýi því þó mér detti ekki til hugar að halda því fram að ljóðasafnið mitt hafi verið eitthvert skáldskaparlegt undur var það engu að síður ákaflega persónulegur vitnisburður um ansi hreint törbjúlant tíma í mínu lífi skulum við segja, en gott og vel, kannski fauk eitthvað annað með útí tómið sem mátti missa sín, dáldill skammtur af sálarangist til dæmis, kannski ég sé komin með titil á ljóðabók; flamberuð þjáning ... hljómar alla vega nógu tilgerðarlega, verst að ég á engin ljóð í hana lengur

sunnudagur, 8. apríl 2012

æ þetta er bara glatað

klukkan ekki níu á páskadagsmorgni og mér strax orðið svo flökurt af súkkulaðiáti að ég veit ekki hvernig ég á að komast í gegnum daginn, af hverju er ekki talað um páskadaginn langa? ég sem yfirleitt er svo lélegt hjarðdýr lét hrífast með í múgæsingunni úti í krónu í gær og keypti mér svo stórt páskaegg að ég hálfskammaðist mín á kassanum, rökin voru þau að mér veiti ekkert af auknu seratónínflæði þessa dagana og auk þess sé alltaf svo gaman að lesa málsháttinn og maula þetta með barninu í morgnunsárið, þetta gekk ekki betur eftir en svo að barnið vill fá að horfa á skrípóið í friði og málshátturinn reyndist hundleiðinlegur svo nú langar mig bara til að gleyma þessu öllu, sem er auðvitað of seint og ég verð að gjöra svo vel og láta mig hafa það að engjast næstu klukkutímana með alla þessa leðju í meltingarveginum og blóðsykurinn rokkandi út um allar trissur, mátulegt á mig, best að bursta samt tennurnar, mér líður eins og ég sé með míníútgáfu af ógeðslegri ullarverksmiðju upp í mér 

föstudagur, 6. apríl 2012

muna: súkkulaðið er aukaatriði


ég hef tilhneygingu til að taka kristilegar hátíðir mjög persónulega, ég get ekki neitað því að ég lít upp til bróður míns jesú og reyni að taka hann mér til fyrirmyndar, af afar veikum mætti auðvitað en stundum spyr ég mig samt – þegar allt er einhvern veginn á vonarvöl – „hvað myndi jesú gera?“, í alvöru, hvað get ég sagt, ég hef einfaldlega ekkert upp á manninn að klaga og svoleiðis fólk er af skornum skammti í veröldinni, núna til dæmis þegar nóg er af þjáningunni og gnægt af opnum sárum að gera að er svo huggandi að muna eftir æðruleysinu og líkninni og upprisunni, það kemur allt til manns að lokum, kannski ekki á næstu þrem dögum en það kemur, ég er sannfærð um það, það er annað mál með andskotans peningana, jesú þurfti náttúrulega ekki að díla við hið sataníska fyrirbæri lánasjóð íslenskra námsmanna, heppinn hann, en maður má ekki vera bitur, vatnið er jú alltaf ókeypis og það má þakka fyrir það, sérstaklega þegar maður þarf – eins og ég í augnablikinu – að þvo sér um hárið, maður hlýtur svo að venjast hungurtilfinningunni