mánudagur, 19. mars 2012

sumt getur maður ekki neitað sér um


áðan keypti ég mörg, mörg epli af þeirri ástæðu einni að þau voru svo fullkomlega fagurgræn, annars langaði mig ekkert sérstaklega í epli, úti í heimi sitja menn og erfðabreyta matvælum til að ná til kvenna eins og mín, kvenna sem vilja nærast á litum

þriðjudagur, 13. mars 2012

allt var betra í gamla daga


þegar ég var lítil hafði móðir mín stundum áhyggjur af því að ég væri ekki fyllilega eðlilegt barn, ástæðan var aðallega takmarkaður áhugi minn á samneyti við jafnaldra mína en líka það að ég sá litla sem enga ástæðu til að fara mikið út fyrir götuna sem við bjuggum við, mér nægðu alveg þessir metrar frá húsi eitt til fimmtán – húsnúmerin í götunni voru eingöngu oddatölur milli eitt og fimmtán og húsin því átta – og gat vel gert mér að góðu að hjóla þennan spöl aftur og aftur fram og til baka án þess að verða neitt leið á því að ráði, stöku sinnum splæsti ég kannski í ferð í götuna fyrir ofan en það þýddi að ég varð að fara niður bratta brekku í bakaleiðinni og eftir að hafa einu sinni hafnað illa á grindverkinu neðst í brekkunni ákvað ég að hjól væru best brúkuð á láréttum vegi, hugsanlega skýrir þetta atvik hversu illa mér hefur gengið að ná einhverju sambandi við farartæki knúinn áfram af hjólum, alla vega, mamma sagði stundum eitthvað um „ekki eins og önnur börn“ og ég man að mér fundust þetta helst til öfgakennd viðbrögð, ég veit ekki af hverju ég er að rifja þetta upp, það tengist eitthvað fyrirlestri sem ég sat um helgina um minnið og ljósmyndir, ég hef oft haldið því fram að það sé eitthvað afbrigðilegt við minni mitt – eða öllu heldur skort á minni – því mér finnst ég eiga fáránlega fáar minningar sem snúast um einhvers konar framvindu atburða, minningar mínar eru flestar bundnar í því sem ég kalla leifturmyndasafnið mitt, andartaksmyndbrot sem fylgir sterk tilfinning og gjarnan lykt eða ákveðið veður, ég splæsi í nokkur dæmi þó þetta sé auðvitað afar einkalegt allt saman og ómerkilegt annarsstaðar en í mínu eigin höfði

augun hans pabba römmuð inn í baksýnisspeglinum á trabantinum og ég veit að hann er að brosa til mín þó ég sjái það ekki, mér þykir vænt um pabba

ég sit bakvið lágt barð í móanum við hesthúsið, grasið er hátt og gult og það er rétt að koma vor, mér finnst gott að sitja þarna eins og ég sé ein í heiminum og fylgjast með grasinu hreyfast í golunni

myrkur og ískaldur vetur í hesthúsinu og ég sé pabba ekki vel á bak við hestinn sem stendur á ganginum, ég anda að mér lyktinni frá olíuhitaranum og finnst hún agalega góð

mamma að baka fléttubrauð í eldhúsinu og eldhúsborðið er allt í hveiti, mig hlakkar til að borða brauðið

fléttubrauð með miklu smjöri í nestispakkanum, því er pakkað inní smjörpappír

fram að ákveðnum punkti eru engin myndbrot í leifturmyndasafninu sem ég gæti ekki hugsað mér að hverfa aftur til, dvelja í þessu svífandi tímaleysi þar sem veröldin er lítil og lífið mjög einfalt, mér er alveg sama hvað fólk segir um undur nútímatækni og bætt lífsgæði, það var allt miklu betra þegar maður var lítill, jafnvel þó maður hafi ekki verið fyllilega eðlilegur