aukadagur, heill aukadagur við þessa 365 sem maður fær vanalega, smá bónus frá tímanum fyrir skilyrðislausa hlíðni við klukkuna og lágmarksnöldur yfir því að við munum öll deyja, við erum búin að safna fyrir honum í heil þrjú ár og fengum töluverða sólarglætu í verðlaun þó hún hafi ekki alveg náð inn að beini, á maður ekki að gera eitthvað brjálað á svona degi? tryllast einhvern veginn, segja veruleikanum upp, kyssa fólk upp úr þurru og drekka lífið í sig í gegnum húðina, ætti þetta ekki að vera rauður dagur fyrst hann er svona úr karakter við almanakið? synd að hafa ekki staðið sig betur þegar úniversið tekur sig til af valinkunnum rausnaskap og stórmennsku og splæsir rétt sísvona í tuttuguogfjóra klukkutíma alveg ókeypis, ég þrammaði að vísu töluverðar vegalengdir undir berum himni og dáðist að (marvelled at) laufásveginum en andinn var engan veginn í hæstu hæðum, ég stend mig illa í að fagna lífinu (marvel at) þessa dagana og ég skammast mín, skammast mín virkilega, þetta tekur auðvitað engu tali og er engin hemja, óleyfilegt, verst að það er farið að snjóa, annars myndi ég fara út með stjörnukíkinn, mæna á tunglið og spyrja ráða, það myndi svara mér með stóískri og óskiljanlegri djúphygli, eða kannski var það að tala til mín í morgun þegar ég var minnt á að aukreitis við grunntilfinningarnar sex: ást, ótta, sorg, reiði, andstyggð og hamingju býr maðurinn yfir þeirri sjöundu sem trónir hugsanlega (að mínu mati) ofar öllu öðru; löngun, ekkert er mannlegu ástandi jafnmikilvægt og löngun, ef maður finnur ekki til löngunar er maður dauður, ég var sömuleiðis minnt á ensku sögnina to marvel sem er algjörlega mín uppáhalds ásamt systurorði hennar the marvellous, hvað ef ekki hið undursamlega? hvað ef ekki að dást að hinu undursamlega? hvað þá? hefur maður þá ekki tapað allri löngun? og er þá andlega dauður ...