fyrir því hafa fundist óyggjandi sannanir að lífið er flókið og maðurinn er komplexeraður, það hefur jafnframt verið staðfest að við þessu er ekkert að gera, við erum öll strá í vindi, um heim allan reynir fólk að jafna sig á fréttunum og setja í sig kjark til að takast á við tilveruna á nýjan leik
sunnudagur, 29. janúar 2012
föstudagur, 27. janúar 2012
þegar maður hefur gengið í hring
það eina sem heiminn vantar í augnablikinu er aðeins meiri snjór, ja, fyrir utan það að maður mætti auðvitað alltaf við örlítið meiru af persónutöfrum, guð minn hvað maður getur verið ósjarmerandi og þvalur í lófunum, yfirleitt langar mig alltaf til að svara fólki sem hrósar mér fyrir að líta vel út í dag á þann veg að já þetta sé ágætt en ég þoli bara ekki hvað ég sé með ömurlegan persónuleika, ég segi þetta auðvitað ekki, fólk yrði alveg miður sín, en burtséð frá sjarmaleysinu (nema það sé kannski einmitt vegna skorts á sjarma) langar mig mest af öllu þessa dagana til að eyða öllum stundum inní myrkvuðum bíósölum og belgja mig út af poppkorni og sódavatni (helst samt með lítið ferðaklósett við hliðina á mér) og koma aldrei út, flestar bíómyndir fela jú í sér einhvers konar þroskasögu og það væri svo huggandi að sitja á öruggum stað og fylgjast með lífi fólks sem lærir af mistökum sínum og vex aðeins fyrir vikið en er ekki þessi skelfdi hamstur á hlaupum undan einhverju sem hann veit eiginlega ekki hvað er, stekkur svo út annað veifið og svimar svo ofboðslega að hann stendur varla í lappirnar, æhh þetta skrípildi sem maður er, þetta glórulausa gerpi og furðulegi flækjufótur, hvað er til ráða? ætli maður eigi einhverja möguleika í hreinsunareldinum? og endurfæðast þá sem fönix en ekki hamstur? ég veit það ekki, svei mér þá ég bara veit það ekki
föstudagur, 20. janúar 2012
kæri merkúr
núllpunktur óskast
einhverra hluta vegna er þessi dagur einhvern veginn engan veginn, hvað skal gera við tvístraðan huga hins ófókuseraða? (sem í þessu tilviki er því miður minn eigin), hvernig skal beisla þráhyggjuhugsanirnar og banalítetið? hvað er til ráða í baráttunni gegn yfirgangi og drottnunartilburðum ósjálfráða taugakerfisins? sjálf hallast ég æ meira að þeirri hugmynd að líf mitt sé að mestu hugarburður og fyrir vikið líður mér stundum eins og þarna úti í hinum sýnilega veruleika gangi laus einhver líkami sem notar nafnið mitt og þykist starfa í mínu umboði í heiminum þó ég sé alls ekki viss um að við þekkjumst neitt að ráði, en maður á auðvitað ekki að láta hafa svona lagað eftir sér, fólk gæti alveg hætt að hringja og heilsa manni á götu, en hvað um það, hvað um það þó maður iðki það eins og spennandi jaðarsport að skjóta sjálfan sig endurtekið í fæturna af stuttu færi, hvað um það þó að maður sé alls ekki alltaf viss um veruleikann og greini ekki alltaf muninn á draumi og ljóði, eða var kannski búið að gefa það út að það væri enginn munur þar á, ég man það satt að segja ekki
fimmtudagur, 12. janúar 2012
endurkoma sírenunnar
ég er að hugsa um að draga ástina á tálar með orðum, ekki augunum, bara orðum, svona svipað og þegar fólk talar í sig kjark, ég er eiginlega viss um að hún geti ekki staðist mig
föstudagur, 6. janúar 2012
ef eitthvað er verð ég leiðinlegri með árunum
mest af öllu er ég að reyna að koma mér hjá því að minnast á áramót, ég nenni ekki þessu þvaðri um áramótaheit, nenni ekki þessum endalausu andskotans froðugreinum um nýjan lífsstíl á nýju ári sem smekkfylla aðra hverja síðu í þessu drasli sem kallast dagblöð, nenni ekki að sökkva mér í að endurhugsa sjálfa mig og líf mitt út frá einhverjum ákvæðum í almanakinu, líf mitt er hversdagsverk, að lifa því almennilega er hversdagsverk, að sverfa af mér hornin og klærnar er hversdagsverk og að leifa sér að drukkna í algeru áhugaleysi á áliti annarra og algleymi þess að gera það sem mann þyrstir og lystir er hversdagsverk, því sé dýrð og lof
ó þú skáldlega nautn
guðdómuleg sem hún er hún maddama vigdís gríms, svo guðdómleg og mikið gúmmilaði að ég – sem annars er með höfuðverk og alls ekki vel stemmd, alls ekki í stuði fyrir sprengingar og flugelda og alls alls ekki í neinu stuði til að kveðja jólaskrautið og dúnmjúkan desember – kuðla mig saman og sleiki klístraða fingurna í hvert skipti sem ég fletti blaðsíðunum og finn af þeim kúnstugt bragðið, svo djúpsætt, þykkdrjúpandi og blóðvolgt að mest langar mig að borða orð það sem eftir er og skeyta engu um hvort þau skili sér upp úr mér aftur, háma bara og háma í mig af hamslausri græðgi, maður missir aldrei listina á svona fullkomlega flamberuðu tungumáli, spikfeitu sörurnar sem ég sótti í frystinn og dró undir sæng til mín smakkast aftur á móti einhvern veginn engan veginn í samanburðinum, og ég sem var búin að spara þær fyrir eitthvert afar sérstakt tækifæri
sunnudagur, 1. janúar 2012
Velkomið 2012
Ár upphafs og endaloka að baki, árið sem fór í tvennt, klippt á haldreipið og gripið í lausan enda, hangið í lausu lofti, stefnan hefur verið tekin þangað sem hún mia litla bendir, upp í himininn og fegurðina
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)