gleðilega hátíð elsku únivers, afsakaðu hvað kveðjan berst seint en ég hef verið vant við látin, þau auður, bragi og gyrðir ruddust hingað inn til mín á aðfangadagskvöld og höfðu með sér einhverja útlendinga svo líkt og gefur að skilja hef ég varla hvílst neitt að ráði síðustu sólarhringa, ég hef þó reynt að nærast eftir fremsta megni, aðallega á konfekti og mandarínum því slíkt er hægt að borða upp í rúmi án þess að af hljótist neinn teljandi sóðaskapur, í gær tók ég mér reyndar tak, drattaði mér fram í eldhús og hitaði mér vænan skammt af heimagerða rauðkálinu með eplasalati og rjómasósu þó ég þyrfti að sleppa gæsinni því hana fennti í kaf úti á svölum okkur systrum til mikillar mæðu, hin fleyga jólasteik bragðaðist hreint ljómandi þó hún væri nokk seig undir tönn enda augljóslega víðförul og lífsreynd, ég verð að segja að það var afar ánægjulegt að gæða sér á heimsborgara í stað hamborgara yfir hátíðirnar og geri frekar ráð fyrir því en ekki að þetta verði fastur liður héðan í frá, hafðu samt engar áhyggjur af því að ég hlaupi í spik yfir hátíðirnar, ég hef fólk í kringum mig sem sér til þess að ég komi mér ekki undan líkamsæfingunum en mín kæra systir og hennar fyrirtaks ektamaður gáfu mér forláta jógadýnu og æfingabolta í jólagjöf sem ég hef þegar tekið til kostanna á stofugólfinu, bara það eitt og sér að pumpa hinn gríðarstóra bolta upp tók verulega á axlavöðvana og eitthvað vill systir mín meina að ég hafi ekki leyft henni að leggja sig mikið á dýnunni en hún fékk að sjálfsögðu að njóta gjafarinnar með mér, ekki lætur maður herma upp á sig eigingirni í kærleiksmánuðinum, einhverra hluta vegna er ég samt með mun meiri harðsperrur í vinstri rasskinninni (séð mín megin frá) en hinni hægri sem hlýtur að teljast mjög sérkennilegt, ég þarf eitthvað fínstilla tæknina með þennan bolta
föstudagur, 28. desember 2012
sunnudagur, 23. desember 2012
4.
þorláksmessumorgunn og ellibjé klippir rýtinga út úr pappakassanum utan af svínasteikinni sem amman fékk í jólagjöf frá sínum ágæta vinnustað, sláturfélagi suðurlands, þar sem hún gegnir því ábyrgðarhlutverki að (eins og ellibjé orðar það) ráða yfir öllum ss pylsum á landinu, vinsamlegast athugið að þegar ég segi amman á ég ekki við ömmu mína heldur ömmu hans ellabjé, þ.e. systur mína, sem líkt og afinn (aftur ekki minn heldur ella) hefur hætt að svara sínu rétta nafni og ég er ekki að ýkja neitt ofboðslega þegar ég lýg því að hún kvitti núorðið undir vísanóturnar sem „amman“ (hvað það gerir fyrir hjónabandið hjá fjörutíuogfjögurra ára gömlu fólki að kalla hvort annað ömmu og afa er ekki gott að segja og best að sleppa því bara að spyrja), í augnablikinu er amman þreytt enda vaknaði ellibjé og litla músin systir hans klukkan fjögur til að athuga með ferðir jólasveinsins, fjögur að morgni til er auðvitað ekki fótaferðatími fyrir nokkra einustu ömmu og í dag er líkast til ekki hægt skemmta sér við uppnefna konuna sem „ömmu hottie“ eins og stundum er gert (af fleirum en afanum) þó það megi kannski í staðinn notast við það viðurnefni sem hún hefur sjálf nýverið gefið sér: „amma grinch“, okkur systrum hefur gengið takmarkað að koma okkur í jólaskap enda þurftum við báðar að selja húsin okkar á árinu og jafnleiðinlegt og það er að viðurkenna það höfum við eytt megninu af aðventunni í að öfundast út í fólkið sem býr í gömlu húsunum okkar og hefur það mikið jólalegra og meira kósí en við í okkar nýja, þetta er auðvitað hvorki fallegt né kristilegt en okkur er bara alveg skítsama, maður getur ekki alltaf verið allraheilagastur, vonandi lagast þetta eitthvað örlítið á eftir þegar ellibjé dregur afann með sér útí köldugeymslu að sækja jólatréð en það er góður klukkutími frá því drengurinn fór að suða, hann er meira að segja búinn að klæða sig sjálfur og hendist um í sófanum með þennan leiðinda orm í rassinum sem gengur barna á milli á þessum árstíma, afinn aftur á móti er á náttbuxunum og virðist allur hinn pollrólegasti, ekki einn einasti ormur að plaga manninn, litlu músinni virðist standa nokk á sama um jólatréð enda er hún komin í glimmerskóna og sumir þurfa einfaldlega ekki meira, við amman þyrftum eitthvað mun meira en fyrir okkur liggur nú samt það niðurdrepandi verkefni að fara í bónus að versla maltöl og laufabrauð (muna líka eftir tannþræðinum) og já einhvers staðar þurfum við að finna eitt stykki gæs, okkur var bent á það í gær að þvert á það sem við höfðum áður haldið liggi svoleiðis ekki á glámbekk í matvörubúðum, hugsanlega þurfum við að verða okkur út um bráðabyssuleyfi og redda þessu sjálfar, kannski maður myndi hrökkva í jólagírinn við að plaffa niður eins og eina gæs ... nei afsakiði þetta er auðvitað of langt gengið
sunnudagur, 16. desember 2012
3.
jólahlaðborðið hjá magnúsi í hádeginu hafði mig undir það sem eftir lifði dags og nú þegar klukkan er að ganga miðnætti er ég fyrst að koma til sjálfrar mín, samt er ég búin að eyða kvöldinu í að lesa veisla í farángrinum eftir hemingway í hreint undarlegri þýðingu hkl, sú bók er auðvitað mest um andlegt fóður þó nóg sé þar talað um mat og drykk, og parís auðvitað, hvenær ætlum við til parísar?
sunnudagur, 9. desember 2012
2.
ég ætla rétt að minnast á það að ég er að verða óeðlilega hrukkótt á enninu af því að lyfta brúnum í einlægri undrun minni yfir því að mér hefur ekki borist ein einasta samúðarkveðja vegna fráfalls litla spilarans, satt að segja blöskrar mér algjörlega tilfinningakuldi fólks nú til dags, en hvað um það, ég get ekki verið að velta mér upp úr svona hlutum núna þegar ríður á að vera í allraheilagasta skapi og í því samhengi er hugmyndin um þakklætið fyrirferðarmikil, stranglega bannað að gleyma þakklætinu, að því tilefni ætla ég að hafa sérstakt orð á því að ég var svo lygilega heppin í dag að fá að gjöf fulla krukku af nýbökuðum mömmukökum frá mömmu minni sem sjálf angaði eins og nýbakaðar mömmukökur, ég hafði fjársjóðinn með mér á vinnustofuna mína þar sem ég maulaði allt upp til agna og gætti þess vandlega að skilja ekki eftir neina mylsnu á gólfinu fyrir rotturæfilinn sem býr þar milli þylja og neitar að láta fanga sig í gildrur, nokkuð sem getur aðeins þýtt annað af tvennu: kvikindið er (líkt og aðrir leigjendur hússins) bókmenntasinnaður intelettúal sem fellur ekki fyrir heimskulegum brellum vitgrannra manna eða matgæðingur af bestu sort sem finnst það fyrir neðan virðingu sína að leggja sér til munns þennan úrgang sem settur er í gildrur meindýra, sambúð við rottu er kannski ekki það sem maður gæti helst hugsað sér yfir hátíðirnar og ég viðurkenni að hafa einu sinni eða tvisvar hlaupið veinandi út úr húsinu við það að heyra dýrið hlaupa ... höfum þetta nákvæmt og segjum hlussast yfir þylið í loftinu svo ég beið eftir að eitthvað léti undan þunganum og sitthvað miður geðslegt kæmi húrrandi niður á skrifborðið til mín, þetta er auðvitað hálf óyndislegt allt saman en í takt við hið allraheilagasta skap vil ég benda á að jólaljósin á ingólfstorgi – þangað sem ég sé út um skrifstofugluggann minn – eru sérdeilis falleg í ár, stundum held ég jafnvel að ég heyri í kirkjuklukkunum
föstudagur, 7. desember 2012
dauði á aðventu
kæru vinir, hér á síðunni hefur skelfilegur atburður átt sér stað, litli spilarinn er allur, litla bleika krúttið sem hefur tekið á móti hverjum þeim sem í sakleysi sínu hefur rambað inná þessa síðu er horfinn veg allrar veraldar og kemur aldrei aftur, yndislegu tónarnir hans munu ekki hugga okkur oftar á dögum þegar ekkert getur hlúð að viðkvæmum sálum nema tónlist, maður er sleginn og miður sín, hvað veldur? hvers vegna henda vondir hlutir gott fólk? eins og flest sem miður fer í veröldinni má rekja orsakirnar til skammsýni og gróðahyggju andstyggilegra manna, illa innrætt fólk í útlöndum gerði sér lítið fyrir og lokaði mixpod tónlistarsíðunni og samdi í kjölfarið við ónefnt stórfyrirtæki um að aðeins þeir sem eigi tiltekinn (rándýran) staðalbúnað – sem ég ætla ekki að auglýsa hér, það geri ég þessu fólki ekki til geðs – hafi aðgang að lagalistunum þeirra, rétt sí svona, eins og ekkert sé sjálfsagðara en að hafa tónlist af saklausu fólki sem gengur ekki annað til en að gera heiminn að örlítið bærilegri stað ... heimsins ráð sem brugga vondir menn segi ég nú bara og meina, svona fólk ætti að skammast sín
sunnudagur, 2. desember 2012
1.
og þá er hann genginn í garð þessi indælis árstími þegar mitt helsta áhyggjuefni er hvort það sé örugglega nóg til af smjöri í ísskápnum, maður vaknar jafnvel upp á nóttunni, grípur andann á lofti: ætli mjólkursamsalan sé nokkuð að vanmeta smjörþörf þjóðarinnar yfir hátíðirnar? ætti ég að hamstra? best að hringja í fyrramálið og panta viðtal við framleiðslustjórann, maður verður að leggja sitt af mörkum til að byrgja brunninn, að jafnaði leiðist mér alveg jafnmikið og næsta manni að bíða en aðventan er þessi undantekning sem sannar regluna, aðventan er bið sem maður vill ekki að taki enda, sem betur fer hefur frelsarinn vit fyrir manni í þessu sem öðru og hefur biðina temmilega, mér reiknast svo til að hún mætti ekki vera deginum lengri, þá meina ég uppá smjörbirgðirnar
laugardagur, 24. nóvember 2012
bið - ukolla þrá - ður blek - king
suma daga er hlutskipti manneskjunnar lítið annað en það að undrast hvað jarðaber eru góð með lárperu, kaupa sér lopapeysu til að verja sálina fyrir ágangi veruleikans og velta fyrir sér praktískum hlutum eins og helmingunartíma ástarinnar, einhverra hluta vegna hugsa ég mikið um sirkla upp á síðkastið, mikið vildi ég óska að mín daglegu störf krefðust þess að ég notaði sirkil reglulega, ég hef ekki hugmynd um til hvers ég gæti brúkað slíkt apparat en finnst hugmyndin lokkandi, það er einmitt einn helsti gallinn við hugmyndir, hvað þær geta verið lokkandi
laugardagur, 17. nóvember 2012
andele andele hombre!
andskotinn hvað ég skal drösla þessum svarta hundi út í garð fyrir mánaðarmótin og skjóta hann í hausinn af stuttu færi, fylgjast svo glaðhlakkalega með af svölunum á meðan fennir yfir helvítið, ég nenni ekki einu sinni að taka honum gröf (vinsamlegast athugið að hér er líkingarmál á ferð, í guðs bænum ekki senda mér haturskomment fyrir að vera dýraníðingur og óhæfur hundaeigandi! hundurinn minn er spikfeitur og hrikalega hress, ældi á gólfið í fyrrinótt og guð má vita hvað), ég er svo yfir mig leið á heimsóknum þessa leiðinda kvikindis, hvað maður lætur berja sig til óbóta, liggur í jörðinni og biður auðmjúklega um að það sé barið aðeins fastar, þetta nær engu tali ég get svarið það! þessi uppreisnaryfirlýsing skal skoðuð í því samhengi að magi minn er stútfulllur af bæði rauðvíni og lambakjeti og nokkuð hress eftir vel heppnaðan dag þó hann hafi ekki verið fullkominn í alla staði, mér tókst til dæmis nánast að missa af eiríki guðmundssyni segja ýmislegt merkilegt um íslenskar skáldkonur í ráðhúsinu í dag, maðurinn var svartklæddur og ég veit ekki hvað og hvað og hvað, alltaf eins og rifinn út úr spænskri skáldsögu einhvern veginn, andskotinn hafi það, ég ligg hér í rúminu og horfi á magann á mér skaga út í loftið eftir ofátið og hugsa sem svo að líklegast myndi eiríki ekki finnast þetta þokkafullt, eða hvað ...? hvað veit maður, burt séð frá því þarf ég að klára leikritið mitt, það fjallar um að hafna veruleikanum, vamos amigos vamos!
föstudagur, 9. nóvember 2012
mig dreymdi að ég ætti humar sem gæludýr (sem kemur þessum pósti ekkert við nema hvað dagurinn fer illa af stað)
ég var varla stiginn fram úr rúminu þegar ég flaug á hausinn við að klæða mig í gammosíurnar og rétt í þessu missti ég hálfan kanilbaukinn út í morgunþeytinginn, jæja, ég ætti þá ekki að þurfa að hafa áhyggjur af andremmu næstu dagana, kanill er svo stórhættulegur bakteríum í munni að maður getur víst svo gott sem hætt að bursta í sér tennurnar ef maður er duglegur að borða hann ... líklega samt óþarfi að sannreyna þetta heima hjá sér, jafnvel þó maður sé einhleypur, en aftur að afrekum mínum, næst sulla ég helmingnum af þeytingnum á borðið þegar ég helli honum í glasið af því í eitt sekúndubrot tel ég mér trú um að ég geti gert tvennt í einu: lesa um leið og ég helli í glasi, það verður ekki frá mér tekið að rökhugsun mín er svo sannarlega af slakari sortinni, geri aðrir betur, ég fullvissa mig um að engin sé að horfa og sötra rándýrt ofurfæðið upp af borðinu með óhljóðum, hundurinn hallar undir flatt, hugsanlega skrifast klaufaskapurinn á spenninginn sem greip mig heljartökum þegar ég opnaði blaðið og áttaði mig á að út í næstu bókabúð liggja splunkunýjar bækur frá elskunum mínum tveim þeim auði ólafs og braga ólafs (sem eru ekki systkini að öðru leyti en því að vera bæði óforbetranlega ómótstæðileg) en eyminginn ég hvorki má né hef ráð á að kaupa mér dýrlegheitin, mér líður eins og ég hafi unnið risavaxinn happdrættisvinning sem ég geti ekki leyst út, þetta er agaleg líðan
þriðjudagur, 6. nóvember 2012
ég finn bragð af glimmeri
hef nú pakkað mínum bókum, tónlist, búsáhöldum og ótrúlegu magni af kertastjökum ofan í kassa og komið fyrir í bílskúr móður minnar, afhenti í kjölfarið miðaldra fólki lyklana að sirkustjaldinu mínu (líkurnar á að bleika forstofugólfið lifi eigendaskiptin af eru engar) og flutti líkama minn ásamt einhverjum fataleppum og stórum poka af eyrnalokkum alfarið inná heimili systur minnar og mágs, með í för er heill hundur og hálft barn (snökt), aðlögunin gengur prýðilega ... það er að segja mín, hundurinn aftur á móti mígur stöðugt á gólfið í mótmælaskyni, þó það sé hálf hryssingslegt að vita af jólagersemunum sínum í köldum kassa út í bæ þaðan sem þær eiga ekki afturkvæmt fyrir þessi jól er mér engu að síður að takast að spóla upp í mér desemberspenninginn sem ég held í skefjum ellefu mánuði ársins en fer alltaf að ólmast inní mér eins og lítill trylltur týrólaapi á þessum árstíma, ég veit að það er stranglega bannað að tala um þetta (nema hugsanlega við fólkið í ikea) en ég þarf bara svo agalega á því að halda að hlakka til einhvers að ég lét það eftir mér að kaupa nóa siríus bæklinginn í gær og lesa upphátt úr honum fyrir systur mína – svona rétt til að æra óstöðugan, þegar maður þarf nauðsynlega að hætta að hugsa um eitthvað eru smjör og súkkulaði óbrigðult vopn og ég er að hugsa um að beita þeim óspart næstu vikurnar
miðvikudagur, 31. október 2012
þráður slitnar, að taka upp þráðinn
finnst ykkur líka að nýji bat for lashes diskurinn sé það dásamlegasta sem þið hafið heyrt lengi? meira að segja dóttir mín er sammála, og eins gott að það er til almennileg tónlist á tímum eins og þessum þegar lítil kona hringsnýst í stofunni heima hjá sér sem bráðum verður ekki lengur heima hjá henni heldur heima hjá einhverju ókunnu fólki, hálfur heimurinn kominn ofan í kassa og lífið allt í einhvers konar limbói, ég er eitthvað meyr þessa dagana og þarf stundum að skríða undir sæng, ég ræddi þetta við sálarlækninn í dag og við ákváðum að það sé forgangsatriðið í viðsjárverðum heimi að bera höfuðið hátt og láta ekkert og engan segja sér að það sé neitt minna en stórbrotið að ganga um með ofvaxið hjarta í brjóstholinu, kærleikurinn er aðalatriðið, annað má mæta afgangi
mynd: ditte isager
mánudagur, 29. október 2012
hin klaufalega skepna
einn af kostunum við þá leiðindastöðu sem það annars er að vera afæta á heimili systur minnar (augljós kostur er vitaskuld sú dásemd að vera undir sama þaki og hún, látum það ótalið) er að morgunverðarskálarnar hennar eru töluvert stærri en mínar, ég drekk morgunkaffið mitt alltaf úr skál og nú get ég stækkað skammtinn um að minnsta kosti helming, skálarnar mínar samsvara líklega svona um það bil tveimur kaffibollum en hennar fara örugglega hátt í fjóra, samt segi ég fólki ótrauð að ég drekki bara einn bolla á dag, þetta er sjálfsblekking sem harðasti alkahólisti gæti verið stoltur af, mín elskulega systir og hennar afbragðs maður eru vel gert fólk og láta það vera að hæðast að mér við morgunverðarborðið, þeirra ríka gestgjafalund kemur sömuleiðis í veg fyrir að þau minnist á það sem er óþægilega augljóst, þ.e. að vera mín á heimilinu virðist ætla að hafa ýmislegt amalegt í för með sér fyrir fjölskylduna, hér ríkir einhvers konar þegjandi samkomulag um að líta í aðra átt og láta eins og ekkert sé þó vísbendingarnar séu óyggjandi og beinlínis hrópi nafn mitt á torgum; málið er að án þess að hafa beint ætlað mér það – þetta var í alvöru talað algjörlega ómeðvitað – virðist ég hafa lagt bölvun á sjónvarpið þeirra, í það minnsta gaf tækið upp öndina í fyrradag, algjörlega óforvarendis og án þess að hægt sé að finna á því neina skýringu aðra en þá sem liggur í augum uppi; altso nærvera mín, ég veit að ég þarf ekki að fjölyrða um hatur mitt á sjónvarpi, hér á síðunni má finna marga ljóta pósta um það samfélagsmein og öllum ætti að vera fullljóst hvaða kenndir bærast með mér gagnvart fjölmiðlum, sekt mín fer þannig ekki milli mála, mér þykir þetta leiðinlegt, þetta fer svo illa af stað að ég veit ekki hversu lengi mér verður stætt á að búa hérna, reyndar virðast allir tilbúnir til að gera gott úr þessu, svona er maður lánsamur, barnabörnin sættast á að leigja spólu fyrst enginn er barnatíminn og feðgarnir á heimilinu sjá ákveðna möguleika í þessu, elsku hjörtun hafa tekið upp þráðinn við að horfa á öll landsmót hestamanna frá upphafi veraldar til dagsins í dag en það þykir þeim einhver sú albesta afþreying sem hægt er að hugsa sér, það er ekki á færi leikra að skilja þetta, fjölskylda mín er afbrigðilega elsk að ferfættlingum og gildir þá sú regla að því stærri sem skepnan er því betra, gróflega mætti setja þetta þannig fram að velvild í garð dýra vaxi í beinu hlutfalli við ummál hægða þeirra og fyrirhafnarinnar sem það útheimtir að þrýfa í kringum þau ... kannski þetta skýri hvers vegna þau umbera mig, ég hafði ekki velt þessu fyrir mér, ég held alla vega að við munum komast í gegnum þetta
sunnudagur, 28. október 2012
stundum uppsker maður alls ekki því sem maður sáir heldur eitthvað allt annað
sunnudagur og ég er timbruð, sem er ömurlega ósanngjarnt því ég drakk mjög hóflega í gær, „best að fara varlega í vínið“ hugsaði ég, „ég þarf að gera svo mikið á morgun, verð að hafa hausinn í lagi,“ umræddur haus er ekki í lagi, ég hefði allt eins getað verið haugdrukkin, andskotinn, systir mín gerir sitt besta til að koma í mig verkjalyfjum en ég neita mér yfirleitt staðfastlega um pillur, þegar ég þjáist af líkamlegum verkjum sannfærir masókistinn í mér mig oftast um að ég eigi þá skilið og skuli þar af leiðandi bara láta mig hafa þetta, núna á ég þetta samt alls ekki skilið, hafði af mér þetta fína fyllerí og fæ það svona líka hressilega í hausinn, spurning um að svindla á þessu pillumottói
sunnudagur, 21. október 2012
léttskýjað á köflum, hitastig stöðugt
var ég búin að minnast á að ég keypti mér nýja tölvu? ekki? nú jæja, ég keypti mér sem sagt nýja tölvu, og hún er dásemd, blaðþunn og lauflétt og herra minn það er sko hægt að spila músík í henni, og svo nægir næstum að hugsa m og þá skrifar hún m, dásemmmmmd segi ég! nú gæti ég auðvitað gert það sem flestir myndu gera sem er að fara mörgum fögrum orðum um upplausnina í skjánum og hratt vinnsluminni og eitthvað þess háttar sem ég veit ekki einu sinni almennilega hvað þýðir en ég ætla að láta mér nægja að koma sérstaklega inná þann fítus sem mér þykir hvað skemmtilegastur svo ekki sé minnst á hið hagnýta gildi, þ.e. fyrirbærið notes, ég veit að þetta notes er sjálfsagt algjört no news fyrir flesta en fyrir mig er þetta algjör bylting og ég nota það óspart, ekki til að minna mig á að kaupa hundamat eða annað í þá veruna, nei, heldur eingöngu til að punkta hjá mér ofurmikilvæg atriði, þið vitið, þetta sem skilur á milli lífs og ólífs, eins og „muna að vera almennileg manneskja“ og „beina ástinni inná við“ og „loka hinn stóra svarta hund út á palli og ekki opna þó hann gelti“, gott gott, annars hef ég verið svo hress síðastliðna viku að ég hef af því töluverðar áhyggjur, í mínum líkama er það að vera mjög hress líka ávísun á að vera allur uppí loft svona taugakerfislega séð og sofa lítið í samræmi við það sem undantekningarlaust endar með því að maður rennur all hressilega á rassgatið með allt heila klabbið (inn kemur hinn svarti hundur), best að reyna að hafa ekki af þessu of miklar áhyggjur, er meðan er og allt það, og það er hellingur að gleðjast yfir, til dæmis sú staðreynd að ég á svo gáfað og vel heppnað barn að ég verð kjaftstopp nánast í hvert skipti sem við tölum saman, ég er að lesa life of hunger eftir amelie nothomb sem mig er búið að langa svo lengi til að lesa og er algjörlega að standa undir væntingum, er ekki yndislegt þegar eitthvað stendur undir væntingum? ég er byrjuð að leigja mér dásamlegt vinnurými með elskulegu bekkjarfélögunum og líður eins og ég hafi eignast nýtt heimili, bekkjarfélagarnir gera að vísu óspart grín af blúndudúkunum og ilmkertunum og pottaplöntunum sem ég er búin að þekja skrifborðið mitt með en ég læt það sem vind um eyru þjóta, ég er pjattrófa og tildurdrós og fyrr skal ég dauð liggja en að hafa ljótt í kringum mig! það er svo aftur ákveðið áhyggjuefni að ég lét nýlega undan þrýstingi frá kröfuhörðu röddinni í höfðinu á mér sem sífrar stöðugt um að ég kynni mér möguleika vefsins tónlist.is, þetta gæti endað með gjaldþroti
laugardagur, 13. október 2012
hvað kom fyrir þetta blogg?
líkast til það sama og henti höfundinn, er eitthvað verra en að missa húmorinn? ég held ekki, húmorslaust fólk er beinlínis hættulegt, bæði sjálfu sér og öðrum, eðlilega vekur það mér því ugg í brjósti að heimsóknartíðnin hingað á síðuna hefur sjaldan verið meiri, það lítur út fyrir að fólk sé sjúkt í depurð og leiðindi og húmorsleysi, þetta er áhyggjuefni, ég sat í strætisvagninum í gærkvöldi eftir að hafa drukkið dáldið rauðvín á mímisbar með bekkjarfélögum mínum – en eftir þá fundi er fólk gjarnan ansi hátt uppi og þá meina ég ekki eingöngu sökum ölvunar – og hugsaði með mér að ef hægt væri að umbreyta átökunum sem eiga sér stað innra með manneskjunni í nýtilega orku – til dæmis rafmagn, það er alls ekki svo fjarstæðukennt – væri ég að öllum líkindum gífurlega eftirsótt uppspretta, ég hefði hreinlega ekki undan að svara símanum og láta tappa af mér, hugsa sér hvað það væri dásamlegt að geta fengið útrás fyrir alla togstreituna og sorgina og óuppfylltu langanirnar sem liggja eins og klístur innan á brjóstholinu og gera eitthvað virkilega praktíst í leiðinni; veita þúsundum manna ljós og yl, meira að segja jesú myndi leggja blessun sína yfir svona starfssemi, sem væri auðvitað ríkisrekin – ég er kommúnisti í hjarta mér, ég er að hugsa um að gauka þessari hugmynd að einhverjum hjá nýsköpunarmiðstöðinni eða einhverjum brjálæðislega gáfuðum eðlisfræðistúdent í háskólanum, hver veit kannski yrði ég tilnefnd til samfélagsverðlauna fréttablaðsins eða kosin mosfellingur ársins ef þetta gengi vel, mér er samt meinilla við fréttablaðið og hef faktíst ekki áhuga á að vera mosfellingur lengur þannig að ... æ ég veit það ekki, þetta er fyrst og fremst örvænting, gleymum þessu bara
miðvikudagur, 3. október 2012
113 vælubíllinn (samt í einlægni)
ég sagði það við sálarlækninn nýlega að það eina sem ég þrái sé að vera raunverulega og algjörlega gagntekin af einhverju, að festa athyglina á það sem færir mig frá einum punkti til annars, athygli mín vill festast í hringskýringum og spóla þar til eilífðarnóns, virkilega vont, ekki reyna þetta heima hjá ykkur, að vísu er geðheilbrigðið eitthvað að nálgast það ástand sem mér er kunnuglegt, þ.e. einhvers konar vasaútgáfu af maníudepressjón, að sveiflast – jafnvel milli klukkutíma – frá hörmulegri depurð og sorg yfir í glimrandi orku og gleði, ekki ákjósanlegt en þó skárra en þessi flata depurð sem hefur elt mig á röndum í marga mánuði og var að svipta mig þessum litlu geðsmunum sem ég hafði úr að spila, ég viðurkenni fúslega að ég hef eins ríka tilhneygingu til sjálfsvorkunar og næsti maður í röðinni við kassann í bónus, ég stend mig að því að spyrja drottinn (eins og heimtufrekur krakki í hagkaup á laugardegi): „af hverju ertu að senda mér allt þetta drasl þegar það er fyrirséð að mér mun ekki takast að flokka þetta almennilega (og mér er illa við drasl), ég er kennaramenntuð og veit að vænlegast er að kenna nemendum hlutina í smáskömmtum svo þeim finnist þeir ráða við verkefni sín, ekki slengja þeim á hnén í drullu og for og fylgjast svo með þeim brölta eins og afvelta pöddur í kviksyndinu,“ svona vælir maður, stundum alveg án þess að skammast sín, en satt að segja er auðvelt að tapa voninni þegar manni finnst maður vera að gera svo gott sem eins og maður getur, reynir að vera almennileg manneskja, stundar loftfirrta lotuþjálfum eins og sá vitfirrti hamstur sem maður er, étur ekkert nema morðdýrt ofurfæði, reynir að passa svefninn eftir bestu getu, hittir sálarlækninn, biður til guðs, und so weiter og ekkert gerist, vitundin er eilíflega klofin, hjartað marið og efinn lúrir við gagnaugað, ég bið um krít til að draga skýra línu, ekki hring, línu
laugardagur, 22. september 2012
(r)ugla
ég get ekki sofið, um leið og ég dett út af dreymir mig brjálaðan mann sem æðir um og æpir eitthvað sem ég fæ engan botn í af því hann talar svo hratt, ég held að þetta sé taugakerfið, altso maðurinn, einhvers konar táknmynd taugakerfisins, svo hrekk ég upp, það er sem sé trylltur maður inni í mér sem heldur fyrir mér vöku, mér leiðist fólk sem æpir og þó ljóðameistari minn sigurður pálsson hafi einhverju sinni haldið því fram við mig að svefnleysi sé mjög örvandi fyrir skrif get ég ekki sagt að ég finni fyrir því, alla vega er mér ekki að takast að láta fólkið í leikritinu mínu tala saman, það þegir bara, mögulega verður þetta mjög leiðinlegt leikrit
þriðjudagur, 18. september 2012
laugardagur, 15. september 2012
dveljandi hlustun
má ég minnast á það einu sinni enn að tónlist bjargar mannslífum, keyptu þér nýja diskinn hennar fionu apple, keyptu þér líka nýja diskinn hans cohen sem er yndislegt afturhvarf til einhvers sem ég veit ekki alveg hvað er en mig langar að dvelja þar á meðan ég fer í hænuskrefum í gegnum dagana og leyfi tímanum að vinna sitt verk í hljóði, allt gerist mjög mjög hægt, ég hugsa hægt, ég les hægt, ég skrifa hægt, sárin gróa hægt og depurðin fjarlægist mig hægt, ég er eilíflega annars staðar, á þeim stað er ekkert nema tónlist og stundum finnst mér það alls ekki svo fjarstæðukennt að ég muni aldrei mæla eitt aukatekið orð upphátt framar, sem væri kannski allt í lagi ef ég gæti komið þeim í blek en staðurinn innra með mér þar sem orðin verða til virðist hjúpaður þykku slími, svo ég hlusta, hlusta hlusta hlusta
þriðjudagur, 11. september 2012
rof
í haustsólinni í dag fannst mér allt í einu eins og ég væri stödd á nýjum stað, tilfinningin var svo sterk að það var engu líkara en skipt hefði verið um æðar og augu í mér, eins og ég væri loksins að ganga úr þykkum og þungum ham, ég man þessa sömu haustsól fyrir nákvæmlega ári síðan, hvernig hún skein í augun á mér, kveikti glóð sem vill ekki slokkna og heldur stundum ennþá fyrir mér vöku, ég vissi strax þá það sem ég hef fullreynt núna; að eitthvað yrði ekki umflúið, ég væri lent á leið sem lægi aðeins í eina átt og ég yrði að ganga til enda, bróðurpartinn í tryggum félagsskap ferðafélaganna örvæntingu og depurðar, mér hefur veist erfitt að ganga þá af mér, það er ekki lengra en vika síðan ég hélt að þeir ætluðu að fylgja mér drjúgan spöl í viðbót, ævina út jafnvel, en í dag var eins og þeir hefðu dregist aðeins aftur úr, í dag fannst mér ég sjá handa minna skil
sunnudagur, 9. september 2012
ólaghenti vinnumaðurinn
ég er að verða dáldið örvæntingarfull við að koma innviðum sálarinnar í skikkanlegt horf, hvað sem það nú þýðir, alla vega ekki í eitthvert upprunalegt horf, það er ekkert upprunalegt horf, þess vegna eru engar teikningar að styðjast við, sem er slæmt, þetta gengur hvorki né rekur, samt er maður alltaf að og ekkert nema vinnusemin, bjástrar eitthvað við verkið alla daga eftir bestu getu, skjálfhentur reyndar en reynir samt, ég heimsæki stundum smið sem gefur mér góð ráð en þetta virðist engu að síður ætla að taka einhvern heljarinnar tíma, ég er ekki handlaginn, fínhreyfingarnar eru ekki mín sterkasta hlið og fyrir vikið hef ég lítið átt við áhöldin í verkfærakassanum sem kalla á mikla natni og nærgætni, bestur er maður með sleggjuna, í að kenna sjálfum sér um og beina öllu lauslegu gegn sér – það er að segja svo lengi sem það er nógu oddhvasst og heppilegt til að valda sem mestum skaða, óskaplega lýjandi iðja en maður lætur sig hafa það, það er sjálfsaginn sjáiði til, leiðinlegt hvað rýmisgreindin virðist vera miklu slakari í vinnu með innra rýmið heldur en hið ytra, ég á ekki í neinum vandræðum með að hafa fallegt í kringum mig en svo er allt í vitleysu þarna fyrir innan, stærðarhlutföllin öll bjöguð og allt fullt af einhverju drasli sem hvorki fegrar né nýtist að neinu viti, sumt hreinlega alveg út úr öllu korti, og ég sem hef ekkert umburðalyndi fyrir sóðaskap, við smiðurinn ræddum það nýlega að eina færa leiðin sé í gegnum æðruleysið, það er bara eina slóð að feta, hún liggur ekki til baka og því engin leið að láta sjást undir iljarnar aftan frá, maður verður að halda áfram, þræða brekkuslóðann, hlykkjóttann og allan uppá við svo maður mæðist og finnur til örmögnunar, verkfærakassinn sígur í svona fullur af sleggjum og hefilbekkjum og múrbrjótum, hjartað lemur frá sér undir húðinni og munnurinn er skraufþurr enda fer megnið af vökvamagni líkamans út með tárum og í þokkabót er maður lofthræddur, en maður verður að halda ró sinni og halda áfram, muna að allt fer á einhvern veg og syngja til að halda fókus; á bjargi byggði ... þið kunnið rest
sunnudagur, 2. september 2012
í núllta bekk
ég er yfirleitt vöknuð fyrir allar aldir, einbeitingin er af svo skornum skammti að hún dugir ekki einu sinni til þess að halda mér sofandi, líkaminn þaninn af eirðarleysi og kvíða, ég næ ekki að lesa nokkurn skapaðan hlut sem er ekki uppörvandi þegar leslistar haustsins blasa við manni í allri sinni lengd, löngun er sömuleiðis eitthvað sem mér er úthlutað í svo litlu magni þessa dagana að það mætti ætla að hún væri gríðarlega takmörkuð auðlind og því verði að skammta mjög mjög naumt, rétt svo hún dugi til að maður næri sig og fari á klósett þegar ekki verður hjá því komist, skringilegt þegar líkaminn er svona undirlagður af bæði óþreyju og doða nánast á sama tíma, ég hef andstyggð á því ástandi að langa ekki á fætur á morgnana, svo ekki sé minnst á þá svívirðu að gráta líkamsþyngd sinni af tárum fyrir morgunmat, það er móðgun við guð og algjörlega ólíðandi, og svo sem ekki undarlegt að almættið sé ekki að gera sér ferð neðan af himnum til að dýfa slíku fólki í glimmer og skíra það til gleði, eins og allir sæmilega hæfir foreldrar ætlast guð líklega til þess að maður hætti þessu væli og vinni heimavinnuna sína, ég finn bara enga blýanta, og það sem verra er; ekki heldur strokleðrið
þriðjudagur, 28. ágúst 2012
þykjustu póstkort (viðtakandi: allir og enginn)
langt í burtu í útlöndum ligg ég á dýnu undir súð og fylgist með kónguló sem fikrar sig innum opinn glugga og lætur sig síga hægt niður til mín, bráðum deyr hún, en hún veit það ekki, það er best þannig, stundum skellur ógæfan á manni í heilu lagi eins og bjarg, óvænt og hreint svo maður finnur samstundis til, eða finnur alls ekki til og veit þá ekki af sér, stundum aftur á móti seytlar eitthvað hljóðlaust inní líf manns, hægt hægt, úr engri sérstakri átt, eins og litur útí vatn, af tvennu illu er bjargið líklega betri kostur, það fer þá ekki á milli mála hvað hefur gerst
mánudagur, 13. ágúst 2012
kæra afmælisbarn
þú ert nú meiri manneskjan! það er svo sem ekkert nýtt að þú sveiflir þér nokkra glannalega hringi í sirkusrólunni og hangir niður úr henni öfug, jafnvel á einum fæti með pilsið allt upp um þig og stundum hefðirðu mátt vaxa þig betur undir höndunum, en að hrapa til jarðar og merja í þér brjóstbeinin og hnéskeljarnar og guð má vita hvað og liggja svo snöktandi þarna á gólfinu fyrir allra augum með maskaraklíning um allt andlit og tútúpilsið gauðrifið og skítugt, sofa í pardusbúrinu og éta með górillunni á meðan aparnir djöflast í rólunni þinni og hæðast að sýningunni þinni, ertu ekki í lagi kona! viltu rífa þig upp á rassgatinu og koma þér upp í róluna þína aftur, þú varst ekki ráðinn hingað sem svínahirðir, ég hef fullan skilning á því að þessir þrjúhundruðsextíu og fimm dagar frá þínum síðustu persónulegu áramótum hafa verið ... ja hvað á ég að segja ... hreint helvíti á köflum og það var náttúrulega boðflenna í salnum og allt það, ég veit ekki hver hleypti andskotans þunglyndinu inn en ég mun fara gaumgæfilega yfir það með þeim í miðasölunni og sá hinn sami verður rekinn á staðnum, en nú ætlar þú að finna pípuhattinn þinn og fjaðrirnar og skera afmælistertuna eins og manneskja, mér er alveg sama þó þú hafir vaknað ein og það sé alveg nýtt fyrir þér svona á afmælisdaginn og bla bla bla, drullastu bara í afmæliskjólinn og komdu þér út í búð að kaupa kampavín, ég get ekki haft fólk í vinnu sem veit ekki hvert hlutverk þess er!
föstudagur, 10. ágúst 2012
fram og tilbaka
síðasti vinnudagurinn minn og úniversið sendir mér óþægilega fölskvalausa áminningu um að haustið hangir í skýjunum, eitt af undarlegri sumrum ævi minnar er næstum að baki, ég hef átt þau betri, ég er að verða þrjátíuogsjö ára á mánudaginn og þetta sumar minnir mest af öllu á sumarið fyrir tuttugu árum þegar ég var sautján ára og bjó ein, lá í einhverri ömurlegustu ástarsorg sem höfð er í manna minnum og komst að því að ég bý yfir óviðjafnanlegri getu til einveru, eini félagsskapurinn sem ég get alls ekki verið án er tónlist, ég og tónlistin og stöku skál af góðu salati eða einföldu pasta og þar með eru stoðirnar í mínum microcosmos upptaldar, breytist maður í rauninni eitthvað með árunum? verður lífsreyndari jú og sýnin breytist en eru frumefnin ekki alltaf þau sömu? þegar ég blaða í gegnum spjaldskrá minninganna allt aftur í barnæsku rekst ég alla vega aftur og aftur á sömu orðin
þrá
eirðarleysi
ástríða
depurð
leit
er hægt að búa til ný frumefni?
föstudagur, 3. ágúst 2012
gult
ég varð bara að sjá eitthvað gult, þetta hellist yfir mig stundum, gulur er einhver alfallegasti litur sem ég get hugsað mér, ég tala nú ekki um ef hann er í kombói við fjólublátt, ég klæði mig samt auðvitað aldrei í gult enda líta næstum allir nema dóttir mín út fyrir að vera langt leyddir af sjaldgæfum banvænum sjúkdómi ef þeir klæðast gulu, í trássi við sumarið klæði ég mig alla daga eins og sikileysk ekkja, svart yst sem innst, mér finnst þetta dáldið fallegt, ég er rómantískt fífl, það verður mitt banamein, það eða dagdrykkjan
af allt öðrum toga er sú frétt að það eru aðeins ellefu dagar í afmælið mitt sem í ár kemur því miður upp á lúðalegasta degi vikunnar, hinum óvinsæla mánudegi, kannski hann verði gulur
laugardagur, 28. júlí 2012
laugardagur til langana
laugardagur og ég sef til hálfellefu sem hefur varla gerst frá því ég var unglingur, ég skammast mín en ákveð að ég hljóti einfaldlega að vera mjög þreytt, kaupi mér fallega tréliti og mjúkan pappír, teikna þó ég kunni það ekki og hlusta á tónlist, les umfjöllun í sunnudagsmogganum um kristján davíðsson og verð þakklát fyrir að vera minnt á þennan dásamlega málara, borða kirsuber, er eitthvað betra en kirsuber? ég vil vera ærleg manneskja, þetta er það sem sækir mest á huga minn þessa dagana, vera ærleg, segja satt, „þitt hjarta bar frið, það var heilög örk“ skrifaði einar ben, ég vil vera slíkt hjarta, ég vil vera guði til sóma, vera frjáls undan hugsuninni sem skapar efann og nærir óttann og segir alltof margt ljótt, ég vil frelsi til að krjúpa fyrir því sem er raunverulega fagurt og rétt og satt, því sem færir mér vissu um að ég sé hluti af undrinu eina um leið og það minnir mig á smæð mína og hverfulleika, vissu sem maður finnur aðeins í listinni og kærleikanum og náttúrunni og hversdagslegum augnablikum, amen
þriðjudagur, 24. júlí 2012
húsamúsin verður brátt heimilislaus
það er ömurlega asnalegt að skoða myndir af heimili sínu inná heimasíðum fasteignasala, sérstaklega þegar mann langar ekkert að selja húsið sitt en þeim mun meira til að garga á alla sem koma að skoða: "farðu heim til þín, þú mátt ekki eiga heima hérna!", ég gnísti tönnum við tilhugsunina um að einhver plebbi kaupi litla sirkustjaldið mitt og máli yfir skærbleika forstofugólfið og rífi brjóstsykurshöldurnar af eldhúsinnréttingunni, kannski á þetta fólk engin blóm og engar bækur og fullt af risavöxnum fokljótum amerískum húsgögnum, mig langar að grenja (lesist: ég er að grenja), ég er svo döpur yfir þessu, því miður virðast aðrir íbúar mosfellsbæjar jafntregir til að selja heimili sín og ég því það eru nákvæmlega engar íbúðir til sölu í þessum fjandans bæ, ekki svo að skilja að ég sé sjúk á sál og búk að búa hérna áfram, þvert á móti, barnið aftur á móti spyrnir niður fótum við bæjarmörkin og hótar öllu illu ef ég svo mikið sem rétt minnist á að beina flutningabílnum upp á vesturlandsveg og áleiðis til reykjavíkur, hún muni aldrei flytja með mér þarna niður í bæ þar sem búa eintómir misyndismenn og geðsjúklingar, hún muni flytja til ömmu og afa og ekki yrða á mig meir, maður má sín lítils
laugardagur, 21. júlí 2012
í dag var spáð stormi og ég hætti mér út fyrir hússins dyr
ég sakna hundsins míns, hundurinn minn hefur átt erfitt með að aðlagast því að vera skilnaðarbarn, hann pissar á gólfið þegar ég er ekki á heimilinu og stelur öllu ætu sem hann kemst í, þegar ég kem heim á mánudagsmorgnum til að taka við heimili barni og fyrrnefndum hundi mænir hann á mig með döprustu augum sem hægt er að hugsa sér, spyr: af hverju varstu svona lengi í burtu? er það af því ég er óþekkur og get ekki lært að ganga við hæl? ég fæ kökk í hálsinn, ég elska hundinn minn, í dag sat ég í strætó með munninn fullan af tutti frutti tyggjói og horfði inní bíl sem beið á rauðu ljósi við hliðina á strætisvagninum, í bílnum sat hundur ekki ósvipaður mínum, sömu döpru augun, kannski er hann skilnaðarbarn líka, ég reyndi að fara ekki að skæla og hamaðist á tyggjóinu eins og maníusjúk, að kaupa mér tutti frutti tyggjó og troða fimm sex stykkjum uppí mig í einu er eitt af því sem mér tekst ekki að vaxa upp úr (vá fyrst skrifaði ég tekst með x-i, ertu ekki í lagi kona?!), það er svo margt sem mér tekst ekki að vaxa upp úr, eins og til dæmis að hafa alltof mikinn kraft á vatninu þegar ég vaska upp og nota yfsilon eins og það sé krydd en ekki fyrirbæri sem lúti stafsetningarreglum og vera óforbetranlega rómantísk og brúka hnútasvipuna eins og hún sé skilvirkasta uppfinning mannskynssögunnar, manneskjan er breisk, ég er manneskja, ergo: ég breisk, þegar ég brölti inn til systur minnar eftir strætóferðina spýti ég út úr mér tyggjóinu og hefst handa við að útbúa salat með granateplum og osti sem ég keypti fyrir hreint undarlega mikla peninga í ostabúðinni á skólavörðustígnum, ég hef vit fyrir sjálfri mér (þó ótrúlegt megi virðast) og næri ekki bara efnið heldur andann líka og spila fleetwood mac á miklum styrk á meðan ég borða salatið og drekk hvítvín sem ég faktíst hef ekki efni á (ekki frekar en ostinum) og reyni að hugsa ekki um að það er til fólk í þessum heimi sem er indígóbláir hestar, slíkt fólk gengur um með ljósið upp úr hnakkanum þó það hvíli fæturna á sömu jörð og við hin og andi að sér sama loftinu, drekki sama vatnið og taki bensín á bílinn sinn á þriðjudögum (eða hvenær sem það er sem fólk tekur bensín, ég á ekki bíl, ekki einu sinni bílpróf), það er engin leið að skilja þetta, ég ætla að fá mér annað hvítvínsglas
föstudagur, 13. júlí 2012
grýtt
haltu áfram, eins og vatnið, finndu jörðina undir fótunum, hreyfðu þá áfram yfir blágrýtið og klettanibburnar, varlega, vertu vatn, seytlaðu áfram, smjúgðu á milli, ekki stoppa, hreyfðu fingurna yfir hrjúft grjótið, ekki hætta, finndu áferðina, hörkuna, láttu lófann ljúkast um, mjúklega, eins og vatn, finndu lófann móta grjótið, finndu það sverfast og sléttast, vertu vatn, mjúkt og þolinmótt, iðandi og síkvikt, óþreytandi og langlundað, haltu áfram
laugardagur, 7. júlí 2012
augnablik, ég þarf aðeins að bregða mér afsíðis
þessi sneið af bananabrauði sem ég var rétt í þessu að kyngja var eins og dropi í hafið, ég nenni bara ekki fá mér aðra, ég er heldur ekkert svöng í mat, ég er aftur á móti nær dauða en lífi úr hungri í nýja tónlist, ekki svo að skilja að ég sé búin að vera í stífu plötubúðaaðhaldi, sumt má maður bara ekki neita sér um, það gæti endað með ósköpum, sérstaklega þegar maður þarf eins og ég þessa dagana að halda sig mikið fjarri öðru fólki vegna þess að maður er svo leiðinlegur að það gæti hæglega banað grandalausum að vera í kringum mann, þegar þunglyndið liggur bak við augun og stífar á manni andlitsvöðvana svo maður minnir helst á stjarfaklofasjúkling er vænlegast að hafa vit fyrir sjálfum sér og öðrum og svara helst ekki í símann, ég réttlæti plötukaupin með því að símareikningurinn sé í svo sögulegu lágmarki að í raun sé ég að koma út á sléttu en samt að græða alveg rosalega af því músík er svo miklu eigulegri en reikningar, á einhvern hátt sem ég ætlast ekki til að aðrir skilji meikar þetta fullkominn sens í mínum huga, fólkið streymir framhjá mér á laugarveginum, sleikir ís, ýtir á undan sér barnakerru, drekkur kaffi úr pappamálum, stundum finnst mér eins og ég sé á öðrum hraða en lífið í kringum mig, eins og ég horfi á fólkið umhverfis mig hreyfa sig ýmist svo leifturhratt eða löturhægt að ég nái aldrei að fylgja eftir, að ég sé alltaf aðeins of sein eða áður en ég veit af einhvern veginn hlaupin á mig, ég fletti í gegnum playlistana í ipoddinum og finn mér eitthvað sem ég get haldið takti við, van morrison er maður dagsins og ég kinka kolli þegar hann syngur um ástina sem elskar að elska ástina sem elskar að elska, það er kannski sumt í lífinu sem maður fær ekki hnikað en maður getur alla vega valið dögunum soundtrack, takk fyrir það herra minn
fimmtudagur, 5. júlí 2012
laugardagur, 30. júní 2012
þegar maður heldur í hesta
hægri handar baugfingurinn minn er ógeðslega ljótur, stokkbólginn og marinn og pinnstífur og grænblár, að jafnaði þykir mér grænblár mjög fallegur litur, bara ekki á minni eigin húð, puttinn minn lítur út eins og eitthvað sem er dáið og er rétt að byrja að rotna, ég var svo leið yfir þessu í dag að ég keypti mér nýja eyrnalokka og fékk mér meira að segja auka gat í eyrað til að geta hengt á mig meira glingur, það lagaði lítið sem ekkert, puttinn er ennþá viðbjóðslegur, svona fer fyrir konum sem slást við hross, ég treysti mér ekki til að segja þá sögu, hún fjallar um börn og rennandi blautan regnfatnað og hesta sem eiga ekki að geta blindrokið en gera það samt, ég er ennþá að fá martraðir
sunnudagur, 24. júní 2012
aðskotahlutur í hálsi raporterar
sumt fær maður alltaf í hausinn, til dæmis vísareikninga og óhóflega hvítvínsdrykkju, yfirleitt á maður hausverkinn skilið og sættir sig þegjandi við óþægindin af því maður kallaði þau yfir sig sjálfur (það er ekki þar með sagt að maður læri eitthvað á þeim), því miður lenda systir mín og hennar elskulegi eiginmaður reglulega í þessu, þ.e. að fá eitthvað í hausinn, nefninlega mig, hvað fólkið hefur aftur á móti gert til að verðskulda þetta afleita karma er algjörlega óskiljanlegt, það er samt sem áður afar raunveruleg (og dapurleg) staðreynd að með reglulegu millibili gerist ég hústökukona á heimili þeirra, eins og ekkert sé eðlilegra kem ég mér fyrir með tannbursta og öllu í gestaherberginu og spranga svo um á brókinni og náttkjólnum heimtandi að það sé hellt uppá með pressukönnunni en ekki rafmagnsviðbjóðnum sem býður uppá gamaldags uppáhellingu og þykjustuespressó, ég veit, þetta er hryllilegt, þó ég reyni að haga mér skikkanlega og setja í uppþvottavélina er ekkert sem breytir því að ég er glataðasta tegund sambýlings sem hugsast getur, þið vitið þessi sem borgar enga leigu, rétt áðan kláraði ég meira að segja sjampóið, aumingja fólkið, þetta kallast að hljóta hörmuleg örlög, en sum sé í minni sjálfskipuðu útlegð frá mínu eigin heimili sem alla jafna hefst á fimmtudegi og varir til mánudags drekk ég mikið sodastream og ven mig við þá hugmynd að ég sé fráskilin og einstætt foreldri, ég hugsa líka um að ég verði að finna mér nýtt húsnæði en slíkt virðist ekki liggja á glámbekk hér í bæ, vissulega óþolandi og á meðan fasteignamarkaðurinn hagar sér eins og tom cruise (þ.e. heimskulega og nákvæmlega eins og honum sýnist) neyðist maður til að níðast á góðmennsku sinna nánustu og skammast sín fyrir að vera þessi niðursetningur sem maður svo sannarlega er, ekki skrítið að ég sé að veikjast, ég á það skilið
fimmtudagur, 21. júní 2012
maður lúsast þetta í gegnum dagana
hér í gluggakistunni blómstrar plantan sem ég veit ekki hvað heitir yndislegum hvítum blómum, flati kaktusinn stækkar eins og eitthvað á vaxtarörvandi hormónum og elsti pálminn minn bætir við sig nýjum blöðum í staðinn fyrir þessi sölnuðu og lúnu, ástareldurinn virðist liggja fyrir dauðanum en það er örugglega að mestu metafórískt ástand, ég tala mikið þegar ég vökva blómin og verð glöð á einhvern mjög raunverulegan hátt þegar þau dafna vel, líklega verð ég alltaf fyrst og síðast húsamús, mér líkar heimilisdútl og ég þoli illa að hafa ljótt í kringum mig, enn síður þoli ég plebbalegan mat í mínu eldhúsi og því til sönnunar var ég rétt í þessu að kyngja síðasta bitanum af smjörmjúkum laxi og salati með grænum eplum, karamelluseruðum hnetum og trönuberjum, agalegt hreint hvað maður verður svangur af því að vera útivinnandi, þegar ég segi útivinnandi meina ég það ekki í merkingunni „á vinnumarkaði“ heldur bókstaflega, þ.e. að vinna undir berum himni, ég teymi hamingjusöm börn á hestbaki fleiri kílómetra á dag innan um lúpínubreiður og biðukollur og vona að garnagaulið í mér skemmi ekki upplifunina fyrir smáfólkinu, á hestbaki vill maður heyra í lóunni, ekki meltingarfærum annarra, á kvöldin er ég svo örmagna í litlu fótunum mínum að ég ligg að mestu fyrir og les, að meðaltali held ég lesturinn út í 12.23 mínútur áður en ég sofna svefni sem ekkert gæti vakið mig af, eðlilega kemst ég því ekkert áfram í bókinni minni, það er aðeins eitt sem ég geri hægar þessa dagana en að lesa og það er að skrifa, annars hreyfi ég mig yfirleitt frekar hratt, og mikið
mánudagur, 11. júní 2012
hvað gengur manni eiginlega til?
stundum velti ég því fyrir mér að eyða þessu bloggi, sér í lagi þegar ég heyri fólk úthúða bloggum sem innantómri sjálfsdýrkun og upphafningu á eigin persónu og lífi, maður fer hjá sér, er ég virkilega svona sjálfssjúk, svona uppnuminn yfir minni eigin tilvist og hlutverki, svona sannfærð um að líf mitt sé svo gríðarlega merkilegt að það hreinlega verði að vera fyrir allra augum (til glöggvunar eru heimsóknir á þessa síðu í kringum þrjátíu á dag, sjálfsagt öll frá fjölskyldumeðlimum, það eru nú öll svakalegheitin, öll tryllingslega athyglin fyrir mig að baða mig í), en gott og vel, auðvitað eru öll skrif af þeim toga sem hér fara fram einhvers konar sviðsetning á eigin lífi, rétt eins og þegar við förum út í búð eða kynnum okkur fyrir öðru fólki í afmælisveislu hjá kunningja, allt er einhvers konar sviðsetning, við veljum hvað við sýnum af sjálfum okkur í hvert skipti sem við mætum öðru fólki, þegar ég heyri hneykslast á þeirri gervimennsku sem það sé að skrifa um eigið líf spyr ég mig iðulega hvers vegna ég sé að dedúa við þessa síðu, hver sé eiginlega tilgangurinn? í upphafi var þetta auðvitað slys, ég bjó þessa síðu til fyrir slysni af því ég er svo ótrúlega léleg í öllu sem viðkemur tölvum, ég ætlaði bara að skrifa komment á bloggið hennar fíu en bjó óvart til þennan litla frankenstein, í framhaldinu hafði þetta meira með það að gera að búa til boðlega litapallettu, linkarnir gátu til dæmis alls ekki verið í þessum ljóta bláa lit sem þeir voru upphaflega í, svo lærðist mér að maður gæti sett hér inn myndir, ég borða með augunum jafnt sem munninum og gat ekki staðist það að fara að sanka að mér myndum sem svöluðu minni sjúklegu fíkn í fegurð, lengi vel skipti þetta meira máli en það sem hér var bullað í orðum, seinna fór ég að finna skrifunum rödd, og já hún liggur nálægt minni eigin, stundum finnst mér hún meira mín eigin en sú sem heyrist þegar ég opna munninn, mér líkar illa að opna munninn innan um fólk og tala um sjálfa mig líkt og ég geri hér, almennt líkar mér ekki athygli, mér líkar ekki að láta horfa á mig, mér líkar ekki að vera krafin svara, mér líka ekki að vera í kastljósi af neinum toga, ég hef gengist við því á fullorðinsárum að vera feimin, ég ber það kannski ekki alltaf með mér og maður kemur sér upp ákveðnum leiðum til að fela slíkt, skrif eru ágæt leið til að nálgast sjálfan sig og opinberast öðrum en dyljast um leið, allt sem ég skrifa á þessa síðu segir mér eitthvað um mig sem manneskju, og já mér finnst oft ákveðin líkn í því að annað fólk lesi það og finni kannski til samsömunar, nú eða finnist þetta allt bara fyndið og fáránlegt, ég myndi aldrei telja það eftir mér að skemmta fólki með mínum eigin plebbaskap, það er heiður og oft eru þessi skrif ágæt leið til að taka lífið ekki eins alvarlega, stundum les ég yfir gamlar færslur og finnst þær hreinasta hörmung, hvað í veröldinni var ég að hugsa þegar ég sendi þetta frá mér segi ég stundum, en þetta blogg er ekki staður til að taka hluti of alvarlega, þetta blogg er hversdagshjal, ég er veik fyrir fegurðinni í hversdagsleikanum þó á köflum þrái ég sirkuslíf í fjarlægum löndum á fjarlægum tíma, og rétt eins og dagarnir er það sem fer hingað inn bæði gott og vont og allt þar á milli, við þráum öll að framkallast, að færa hið innra út, koma við heiminn, og stundum er það að skrifa miða leið til að framkallast, eru blogg ekki einhvers konar flöskuskeyti? ... en kannski er þetta tóm athyglissýki líka, kannski er ég bara óseðjandi athyglissjúk, það skildi þó ekki vera
sunnudagur, 10. júní 2012
maður er svo umhleypingasamur
áður fyrr tók ég allt sem ég skrifaði með blýanti í minnisbók svo alvarlega að ég skrifaði helst ekki neitt, aftur á móti gat ég skrifað hvað sem er í tölvuna með delete takkann innan seilingar, einhverra hluta vegna hefur þetta snúist við, nú æli ég hverju sem er í minnisbókina mína (skammarlegt frá að segja þar sem hún er fáránlega falleg, skreytt skrautlegum þykkblöðungum og á allt það besta skilið) en set ekki niður staf í tölvunni nema ég meini það algjörlega, það þarf auðvitað ekki að taka það fram að þetta gildir ekki um þetta blogg, það er áfram sá óritskoðaði tilfinningalegi ælupoki sem það hefur alltaf verið, ágætt, annars er ég öll út úr korti í dag ... sem og aðra daga, ást út í úniversið
miðvikudagur, 6. júní 2012
hér er hugsað upphátt
er eitthvað betra en þorskur í lime og kóriander? ég reyni að borða ekki yfir mig, drekk hvítvín með sólberjum og vanillu og fæ mér dáldið af svörtu súkkulaði með kirsuberjum á eftir, hundurinn grenjar, barnið sullar kokteilsósu yfir fiskinn og ég reyni að láta á engu bera, velti því fyrir mér hvort ég eigi að innleiða punktinn á þetta blogg (það má greiða atkvæði hér), ég drekk mikið d-vítamín í gegnum húðina, sólbrúnn kroppur, deprímeruð sál, hamingjan hleðst ekki jafn hratt upp í líkamanum og melantóníið í húðinni, hvað er það sem maður raunverulega þráir? að vera glöð svara ég alltaf þegar sálarlæknirinn spyr, en af hverju er maður alltaf svona svangur? svangur í lífið, svangur í fegurð, svangur í ást og guð og tilgang, ég trúi á guð, en stundum á ég svo erfitt með að treysta honum, treysta því að hann sjái um mig, treysta því að hann hafi hugsað fyrir öllu og ekki gleymt neinu, ekki heldur mér, stundum er eins og fjarlægðin milli þess sem er innra með manni og þess sem er þarna úti sé svo endalaus og ófær að það taki því ekki einu sinni að reyna, til hvers að synda yfir ólgusjó og opið haf? til hvers að opna hjarta sitt þegar veröldin virðist full af þungavinnuvélum og vörubílum? til hvers að trúa á ástina? ég maka kókosolíu í hárið og ligg í gufubaðinu, hugsa um líkamann, líkami minn er allt sem ég er, allt rúmast innan hans, samt hjarnar sálin ekki við þó ég hlúi svona vel að honum, sannar það mál þeirra sem boða aðskilnað sálar og líkama, ég á erfitt með þá tvenndar hugsun, efni og andi, stenst það? ... þetta er ekki mjög fókuseruð færsla, en þær eru það svo sem sjaldnast
þriðjudagur, 29. maí 2012
mánudagur, 28. maí 2012
svo maður tali einu sinni um eitthvað sem virkilega skiptir máli
hvernig í veröldinni stendur á því að enginn ratar inná þessa síðu með leitarorðinu tónlist? mér finnst ég stanslaust að gaspra eitthvað um tónlist hérna í tóminu en þrátt fyrir það eru það alltaf tekk skenkurinn og blessuð nektin sem leiða fólk hingað inn, ég er svo sem ekkert rasandi yfir því að fólk gúggli orðið nekt í tíma og ótíma en kommon tekk skenkur! þetta er fáránlegt, og við erum að tala um að ég minntist á þennan tekk skenk einu sinni í einum einasta pósti fyrir einhverjum árum síðan, svona er maður nú hundeltur af sjálfum sér á internetinu, en skítt með það og tölum um tónlist, stundum reyni ég að rifja upp hvort hafi verið mín fyrsta ást, tónlist eða hreyfing, en líklega var þetta tvennt samofið frá upphafi, ég man eftir mér lítilli í bílnum með pabba og james taylor – hver nýlega visíteraði skilst mér – söng handy man mjög innilega úr útvarpinu, ég man hvað mér fannst þetta notalegt, að sitja í bílnum og hlusta á útvarpið, for the record er handy man eina lagið með missjö taylor sem ég virkilega kann að meta enn þann dag í dag, mamma hækkaði alltaf í bítlunum og simon og garfunkel og pabbi spilaði kontrí í stofunni, allt músík sem ég hlusta á ennþá, seinna man ég eftir mér í skotinu undir stiganum heima með kassettutæki og einhverjar spólur, þetta var í þá daga þegar grameðlur reikuðu um göturnar og það var hægt að taka upp úr útvarpinu, sweetness! það var líka hægt að taka upp úr sjónvarpinu, til dæmis fame og skonnrokk, ég meina það af öllu hjarta þegar ég segi að það var allt betra í gamla daga, en sem sagt ég sat þarna undir stiganum og ræktaði minn ofvaxna intróvert í takt við vinsældarlista rásar tvö og annað uppbyggilegt efni, frá herbergi systur minnar (sem í þá daga vildi ekki sjá mig nálægt sér, guði sé lof að það hefur breyst) ómaði ýmislegt sem er sömuleiðis velkomið á mínum playlista hvenær sem er, pink floyd og springsteen og svo auðvitað bob, ó hvað ég elska bob, sér í lagi man ég eftir laginu jokerman sem er alltaf eitt af mínum uppáuppáuppáhalds, ég man líka lygilega vel eftir því þegar ég gerði mér ferð á laugarveginn og keypti mína fyrstu plötu, það var true blue með madonnu og hún var spiluð í drasl enda líklega ein af hennar betri plötum, ég held að ég hafi verið tíu eða ellefu ára og duran biðu handan við hornið, það erfiða við duran tímann var auðvitað að maður gat aldrei gert það almennilega upp við sig hverjum maður ætlaði að giftast, ég fór þá leið að skipta þeim niður á vikur til að gera þetta auðveldara, merkilegt hvernig þetta erfiða vandamál leystist svo gott sem af sjálfu sér, en ég var orðin tólf ára held ég þegar stóra ástin kom inní líf mitt, alla vega var það árið 1987 sem fleetwood mac gaf út tango in the night og hjarta mitt var gefið hæstbjóðanda, ég sankaði að mér öllum plötunum þeirra og elska þær allar út af lífinu en tusk mest af öllu, hún var ófáanleg á þessum tíma en ég fann hana loks í plötubúð í þýskalandi þegar ég var fimmtán sextán ára og búin að þrá hana í öll þessi ár, ég man ennþá hvað ég var glöð, svo kom auðvitað tiltekinn maður hingað til lands um svipað leyti, vatnsgreiddur maður í armani jakkafötum, dökkur og fagur og raulandi þessi guðdómlegu ljóð, það var sýndur þáttur um hann í sjónvarpinu og ég var ekki alveg að kveikja á þessu öllu, gat þessi maður eitthvað sungið? en mamma vissi sínu viti og keypti i´m your man sem ég hlustaði á fram og til baka og ákvað að taka titilinn bókstaflega, þetta væri maðurinn minn, og það hefur hann verið allar götur síðan, ég þarf auðvitað ekki að taka fram um hvern er rætt, fyrir nokkrum árum var ég svo heppin að fá að gjöf geisladisk með upptöku af þessum tónleikum sem hann hélt í laugardalshöll, það er pínu sárabót fyrir að hafa misst af hinum raunverulega atburði sem er auðvitað sárara en tárum taki, en svo hlustaði maður á alls konar og alls konar þarna á unglingsárunum, margt sem skiptir mann engu máli í dag en það sem sat eftir voru cure, depeche mode, pixies, sade og auðvitað sinéad, elsku æðislega sinéad, sjúklega dásamlega sinéad sem ég sá á tónleikum í haust og langaði hreinlega að hlaupa yfir bekkina í fríkirkjunni til að kyssa á skallann, það var vel við hæfi að horfa á hana spila uppi við altarið enda rakaði ég af mér hárið þessari konu til heiðurs, sem á þeim tíma var í sjálfu sér ágætt því stuttu áður í einhverju bríaríi inná hárgreiðslustofu hafði ég fengið mér permanent og það er nú bara sama hvernig maður snýr því dæmi permanent er alltaf vond hugmynd, sem betur fer lærði ég þá lexíu hratt og vel og hef aldrei drýgt þann glæp eftir þetta og ef mér verður það á úr þessu er hverjum sem er frjálst að binda mig niður og raka af mér hárið, ég er bara orðin sautján ára í þessum pistli og samt er hann orðinn fáránlega langur og það hefur ekki verið minnst einu orði á rufus wainwright eða arethu franklin eða cat power eða beth orton eða – þarf ég að segja það – nick cave, ég meina það hefur ekki einu sinni verið minnst á hárið hans rufus wainwright, eða hárið á nick cave ef því er að skipta, þetta er náttúrulega eins og að skrifa bókmenntapistil án þess að tala um braga ólafsson, þetta er glataður pistill, upphaflega átti þetta að vera smá inngangur að því sem átti að vera umfjöllunarefni dagsins en það er nýji diskurinn hans jack white, en ég get líklega ekki misboðið fólki mikið lengur með þessu röfli, ég verð bara að skrifa annan pistil á morgun um jack og hans sjúklega blunderbuss, í millitíðinni geti þið þá skottast niður í smekkleysu og keypt ykkur eintak ef þið eruð ekki búin að því, ég lýk þessu með því að játa að ég er auðvitað skelfilega illa menntuð í klassík en ég skoða það í ellinni, það verður huggó, alla vega, það sem átti að vera niðurstaðan hér er að á tímum eins og þessum þegar mér líður eins og ég hafi orðið undir vörubíl er lífsins ómögulegt að komast í gegnum dagana án tónlistar, ég get alveg lokað öllum bókum og gleymt öllum bíómyndum og myndlist og já jafnvel mat en án tónlistar er ekkert líf, bara hreint ekki
en í augnablikinu er ég brunnin á bringunni og með ost undir nöglunum eftir eldamennskuna ... eða sko osturinn undir nöglunum er eftir eldamennskuna, ég brann á bringunni í sundi, svo las ég lengi í hengirúminu í dag og sleikti sárin mín stór og smá, það er full vinna og meira til þessa dagana fyrir meðalháa konu þó hún sé nokkuð undir kjörþyngd eftir átök vetrarins, kannski eitthvað um það síðar líka
sunnudagur, 20. maí 2012
ég hef enga áhuga á forboðnum ávöxtum
á meðan ég stóð undir útisturtunni og lét hitann rjúka úr líkamanum eftir gufubaðið velti ég því fyrir mér hvort það væri ekki farsælast fyrir mig að ganga í klaustur, eini gallinn við þetta plan er að þar væri engin útisturta, og þó, kannski eru einmitt útisturtur í klaustrum, jökulkaldar auðvitað en það myndi venjast, það væri samt pottþétt engin þurrgufa, en kannski gæti ég fundið mér hlutverk í klaustrinu við að byggja þurrgufubað, nokkurs konar samfélagsþjónusta, það er víst mjög hollt að vinna í þágu annarra (nema auðvitað í vændi, drottinn minn dýri ekki misskilja mig), ég myndi vanda mig svakalega við vinnuna stöðugt minnug þess að jesú var smiðssonur og þó litla gufubaðið mitt yrði líklega ekki alveg hornrétt – maður er ekki sterkur í nákvæmninni – myndi ég passa hundrað prósent uppá fíniseringuna og pússa og pússa svo ekki nokkur hætta væri á slysum á borð við flísar í helgum bossum, skyldu nunnur annars mega ganga í baðfötum? kannski svona heilgalla eins og landsliðið í sundi notar, en nunnubúningurinn væri auðvitað eini mínusinn við klausturdvölina (þ.e. þegar ég væri búin að leysa þetta með þurrgufuleysið) því þessi kjólalíki þeirra eru mjög illa sniðin og virðast vera úr mjög stífu og óþægilegu efni, svo klæði ég mig aldrei í hvítt og svart, enda engin leið að komast hjá því að líða eins og gengilbeinu í þeirri litasamsetningu og ég er ekki sérlega þjónustulunduð, á milli þess sem ég væri að vinna við gufubaðið og eiga löng innihaldsrík samtöl við guð myndi ég nýta tímann til að rækta grænmeti og sinna landnámshænunum mínum, ég er brjáluð í egg og ég held sem betur fer að það séu engar klausur í nunnueiðnum um bann við eggjaáti, þetta er það frábæra við klaustur, það er beinlínis ætlast til þess að maður sinni öllum þessum hlutum sem hér utan veggja teljast dútl og lúxusspandering á tíma, í klaustri væri ég til dæmis löngu búin að setja niður kryddjurtirnar sem ég hef enn ekki potað niður í pottana sem standa eins og daprir smádýragrafreitir úti á palli hjá mér, þetta er frekar ömurleg sjón, þegar þess væri krafist að við – þ.e. ég og my fellow nuns, ekki ég og kryddjurtirnar – sinntum góðgerðarstarfi í heiminum utan veggja myndi ég velja mér að sinna heimilislausum dýrum og finna þeim nýja eigendur, fólk yrði svo ótrúlega glatt og þakklátt fyrir að fá gæludýr að gjöf svona alveg óvænt og algjörlega endurgjaldslaust að það myndi gauka að mér almennilegu súkkulaði og stöku hnetusmjörskrukku og öðru sem ég sé fram á að mér myndi veitast erfitt að vera án í nýja lífinu með landnámshænunum og jesú, ég myndi stinga góðgætinu í vasann (það ætti að vera hægt að fela heilan kóksjálfsala undir þessu dressi hefði maður áhuga á slíku en ég drekk auðvitað ekki kók svo það kæmi aldrei til þess) og fela svo góssið undir dýnunni í klefanum mínum, ég myndi alltaf vakna extra snemma (jafnvel af nunnu að vera) til að skokka í klausturgarðinum og fara í gegnum stíft prógram af kraftjógastöðum og tai chi æfingum (einhvern veginn er ég farin að minna meira á kung fu pönduna en nunnu), engin ástæða til að hunsa gömul og góð gildi eins og „heilbrigð sál í hraustum líkama“ þó maður sé giftur guði sem elskar mann nákvæmlega eins og maður er – með eða án appelsínuhúðar á ég þá við, svona myndu dagarnir líða í kyrrð og sæld og sálarró enda væru töluvert færri vindmyllur að slást við, ég á það til að finna mér tilgang í því að slást við vindmyllur (að slást við vindmyllur er hér skáldamál yfir það að vera með erfiðar þráhyggjur og þunglyndistendensa, en það náðu því auðvitað allir, maður vill ekki tala við fólk eins og það séu hálfvitar), en sem sagt, einhvern veginn svona sá ég þetta fyrir mér þarna í útisturtunni í dag ... þessi klausturfantasía er kannski dáldið idealísk, ég veit það ekki
þriðjudagur, 15. maí 2012
sá sem lærir ekki af reynslunni situr eftir
mér var sagt í dag að mikilvægasta verkefni mitt í lífinu sé að trúa því að sá sem sé ástríkur verðskuldi ást, þetta er erfitt verkefni sem mér hefur ekki tekist að leysa, mig vantar margar stílabækur, en ég lofa að æfa mig, á hverjum degi
mánudagur, 14. maí 2012
á tíma trésins (skrásettur titill)
ég hef verið að hugsa svo mikið um ljóðið hans sigurðar pálssonar um trén og klukkurnar, um það að hringirnir í trjánum séu eins og klukkur, ég myndi vilja eiga svoleiðis klukku, hún gengi hægar og tæki betur eftir en þessar venjulegu, ef heimurinn gengi á tíma trésins væru speglarnir í kringum mig kannski ekki svona margir, í augnablikinu er eins og þeir verði fleiri og fleiri með hverri mínútunni og þeir hlífa engu þegar þeir kasta á milli sín háværu eftirlætisbörnunum efanum og óttanum, þvert á móti kasta þeir af æ meiri hörku og hraða svo það er engin leið lengur að greina hvar maður sjálfur byrjar og hvar hugarburðurinn tekur við, en maður má ekki gefa sig efanum, má ekki trúa speglum, manneskjan verður að krjúpa og trúa á kraftaverkið, trúa því að það sé hér, að það sindri á milli fingurgómanna, að það leiftri í hvert einasta skipti sem tábergið snertir gólfið þegar maður fer fram úr á morgnana, að það syndi um í munninum þegar maður bítur í appelsínu, kraftaverkið er að geta farið á fætur á morgnana og bragðað á appelsínu, ég þarf að tattúera þessa setningu í vitundina, það er svo auðvelt að gleyma því að galdurinn er að taka eftir, ég tek ekki vel eftir núna, það eru allir þessir speglar, og ég er ekki með neinar steinvölur í vösunum
og hvað er það sem tifar þegar við leggjum við hlustir, er það yfir höfuð eitthvað?
fimmtudagur, 3. maí 2012
konur sem horfa mikið til himins eru með bólgna ökkla – af því þær misstíga sig oft
kannski hefur maður yfir höfuð of miklar áhyggjur, sérstaklega af orðum, alla vega manns eigin, hvort þau hafi fallið á röngum tíma og í röngu samhengi og skilist á annan veg en maður ætlaði sér, kallast klaufaskapur, af honum á ég einhver reiðinnar býsn ef einhver er uppiskroppa, kannski er maður líka vænisjúkur, það væri ekki algjörlega úr karakter miðað við sjúkrasöguna og það sem í daglegu máli kallast afstaða stjarnanna við fyrsta andardrátt, og kannski er maður líka örmagna af vanmætti, það er ekkert skrítið þegar maður stendur frammi fyrir því að þurfa að játa sig sigraðan fyrir ótrúlegustu hlutum, til dæmis ljósritunarvélum háskóla íslands, ekki benda mér á að ég sé kennaramenntuð, það var enginn tæknikúrs í kennslufræðunum, eins og fór ekki á milli mála í dag þegar ég reyndi að ljósrita örfáar síður og heyrði trén falla í tugavís í kringum mig, ég er með heilu skógarbeltin á samviskunni, er að undra að maður sé deprímeraður? og óttinn, herra minn hátt á himnum, kannski maður ætti ekki að hleypa því orði undir bert loft, það hefur tilhneygingu til að magnast upp í bæði vindi og logni, óttinn við sjálfan sig er auðvitað verstur og grunurinn um að þegar ég fari í stjörnukortalestur í næstu viku fái ég það í andlitið að ég sé með venus í öllum húsum og híbýlum og hundakofum og hjartahólfum, hugsanlega vappar mars svo þarna í kring og brýtur hluti, bara svona til gamans, ég veit það eitt að mér finnst eins og ég hafi í sakleysi mínu lagt frá mér eitthvað afar lítið og viðkvæmt og í framhaldinu hafi verið tekið á því með afar stórum verkfærum, var það ég sem skrapp svona saman eða þandist veröldin skyndilega út?
laugardagur, 28. apríl 2012
síðasta sýning
enn og aftur hefur sirkusstelpan látið hafa sig niður úr rólunni og tekið að sér hlutverk trúðsins, enn og aftur hefur hún dansað sig svo gott sem dauða öðrum til heiðurs, enn og aftur hefur hún leyft úlfum að teyma sig á asnaaugunum um formfögur völundarhús full af villuljósum og sprautunálum, enn og aftur hefur hún trúað sögusögnum um indígóbláa hesta, hnén eru hrufluð og það kurrar í áhorfendum, farðu varlega, hégóminn er lævís og allt um kring og villidýrin eru laus úr búrunum
sunnudagur, 22. apríl 2012
upprifjun á eldra efni (til prófs)
þú skalt muna að þú ert hversdagsengill
þú skalt forðast tálsýnina
þú skalt hafa hemil á svartsýni þinni
þú skalt treysta á mátt góðseminnar
þú skalt ástunda glaðværð
þú skalt gera þitt besta
þú skalt trúa sannfæringu þinni
þú skalt halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)