sveikst um að gera aðventukrans á tilhlýðilegum tíma og kveikti þar af leiðandi ekki á fyrsta kertinu í gær, ábyrgðin skrifast alfarið á háskóla íslands, líður mjög illa og finnst ég hafa gert eitthvað virkilega ljótt af mér, mun sýna einlæga iðrun og yfirbót um leið og þýðingin á hinum hættulega fyndna david sedaris er orðin læsileg, þangað til verður fjólubláa aðventunaglalakkið að duga
mánudagur, 28. nóvember 2011
laugardagur, 26. nóvember 2011
nú skal staðar numið
ég gengst möglunarlaust við því að leggja fullmikla rækt við þessa pocket-útgáfu af geðhvarfasjúklingi sem býr þarna innra með mér, ég veit alveg að maður á ekki að gera svona hluti en ég hef bara enga stjórn á þessu, lífið er okkur komplexeraða fólkinu einfaldlega stundum dáldið ofviða og í ofanálag er maður hallur undir þá hugmynd að gera sér erfitt fyrir, maður þarf auðvitað ekkert að gera svona hluti eins og að segja upp vinnunni og henda sér út í krefjandi listnám þar sem maður er einhvern veginn alltaf í frjálsu falli og stöðugt að ganga í fangið á sjálfum sér hvort sem maður hefur áhuga á því eða ekki, maður kann ekki endilega við það sem mætir manni enda getur maður verið alla vega fyrir kallaður og misþægilegur í viðkynningu, verst þykir mér þegar ég hitti fyrir konuna með krumpuðu sjálfsmyndina, ég verð alltaf jafn rasandi yfir því hvað ein manneskja getur verið hryllilega uppáþrengjandi og taktlaus í samskiptum, ein af þessum týpum sem talar og talar og engin leið er að losna við jafnvel þó maður loki sig inn á klósetti og segist ekki mega vera að þessu, ég kann þá betur við þessa sem á það til að vera á himnaskautum og sprengja partýbombur, hún segir líka betri sögur en hin sem er með dauðann á heilanum, svoleiðis tal getur orðið þreytandi til lengdar, þar sem það er fyrsti í aðventu á morgun og glitrandi jólaskraut og greniilmur handan við hornið vona ég innilega að miss melankólía sé löggst í dvala og leyfi okkur himnaskautastelpunni að þeysast í gegnum þennan bjútíblossa sem desembermánuður er - hlægjandi klukknahlátri og algjörlega utan við okkur yfir því að geta verið að grípa glimmer og kveikja á kertum alla daga, besti tími ársins stendur við þröskuldinn og ég er að pissa í mig af spenningi, helvíts melankólían getur norpað þarna úti í garði fram yfir þrettándann, ég ætla ekki einu sinni að yrða á hana
fimmtudagur, 17. nóvember 2011
lífið er diskódrama
skál, skál fyrir klassíkinni, hégómanum og tilgerðinni, hækkum í carly simon og leggjumst í spegilinn, mæmum með, inn með maga út með rass, allt sem máli skiptir er yfirborðið, annað er tímasóun og vitleysa og leiðir ekki til neins, aldrei að gleyma því, áfram með diskóið, áfram með dívuköstin og yfirdrifnu mónólógana, föllum í öngvit, ekki of lengi samt, fólk gæti fengið leið, höldum dampi og verum intressant og sjarmerandi, ekki klikka á skemmtanagildinu, vertu þá frekar bara heima hjá þér
mynd via bando
laugardagur, 12. nóvember 2011
í sumu fer manni bara aftur
í gær gleymdi ég handtöskunni minni í strætó, ég fattaði það ekki fyrr en í hádeginu eftir að hafa snúið íbúðinni við og ásakað alla nema hundinn um að hafa tekið hana, ég sá fyrir mér að liðið hjá strætó hefði pantað sér pizzu fyrir síðasta tvöþúsundkallinn minn og keypt milljón strætókort út á vísakortið til að stinga í jólapakkana hjá "erfiða" liðinu, þessum sem maður veit aldrei hvað maður á að gefa, áhyggjur mínar reyndust dáldið í yfirdrifnari kanntinum, ég er búin að fara í gegnum veskið og ég get ekki betur séð en þeir hafi ekki einu sinni notað varasalvann, fyrir ekki svo löngu síðan gleymdi ég tölvunni minni í þessum sama strætisvagni – ég er að verða mjög náin fólkinu í óskilamunadeild strætisvagnaþjónustunnar – og var nær dauða en lífi af angist þangað til ég endurheimti hana með erfiðismunum því indæli bílstjórinn ætlaði aldrei að geta látið hana af hendi, hann ætlaði að vera handviss um að hann væri að afhenda réttri manneskju tölvuna, "þú ert alveg með það á hreinu að þetta sé þín talva" þráspurði maðurinn með svo rannsakandi augnaráði að ég hálfpartinn hætti að vera viss um að þetta væri eftir allt saman mín talva, kannski ætti ég bara ekkert í þessari tölvu eftir allt saman, eðlilega hefur barnið hrikalegar áhyggjur af minnisglöpum og afglöpum móður sinnar, hún messar yfir mér, hvernig ég geti verið svona utan við mig, þetta sé stórhættulegt að vera svona ruglaður, það sé ekki í lagi með mig og mér væri hollast að halda mig heima, "þú verður að setja ólina á töskunni yfir öxlina mamma! og ekki sleppa tölvunni, og ekki hlusta á ipoddinn, þú ruglast alveg þegar þú ert bara að hlusta á músík og glápa út um gluggann!" barnið sér fyrir sér að einn daginn gleymi ég mér algjörlega og fari ekki út úr vagninum, verði farþeginn sem festist í leið fimmtán og komst ekki heim til sín, svo verði hringt frá strætó og hún vinsamlegast beðin um að koma að sækja mig, er ekki eitthvað bogið við hlutverkaskiptinguna á þessu heimili?
laugardagur, 5. nóvember 2011
enn af histeríu
taugaveiklun mín og ímyndunarsýki hefur svo sannarlega náð nýjum hæðum, undanfarið þegar ég sit hér í eldhúsinu og horfi inní myrkvað herbergi dóttur minnar sé ég allt mögulegt fara á stjá og gardínur blakta þó hvergi sé rifa á glugga, í morgun rauk ég á fætur sannfærð um að ég heyrði barnaraddir í forstofunni, þar var að sjálfsögðu enginn en ég gat ekki annað en sett þetta í samhengi við það að oftar en einu sinni þessa vikuna hefur mér sýnst rugguhesturinn vagga þó enginn sé nálægt honum, ég óttast að það styttist í hælisvistina, ég róa mig með því að þetta hljóti að tengjast því hvað maður dvelur mikið í ímyndunaraflinu þessa dagana við að spinna upp sögur um fólk sem er ekki til og ekki allt lifandi heldur, þetta hefur örugglega einhver undarleg áhrif á taugakerfið sem skilar sér í mildum ofskynjunum, maður er ekki með sjálfum sér
miðvikudagur, 2. nóvember 2011
þeir síðustu verða fyrstir
ég veit að það hljómar asnalega en ég hálf klökknaði rétt áðan þegar mér varð litið inn á vef ríkisútvarpsins og sá myndir af gyrði elíassyni að taka við norrænu bókmenntaverðlaununum, eins og hann væri frændi minn eða eitthvað þess háttar, sem hann er ekki, því miður
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)