föstudagur, 28. október 2011

ég dauðskammast mín

það er eitthvað agalegt við það að annar hver maður sem ratar hingað inn á þessa síðu geri það með því að slá inn leitarorðið "nekt", hvers konar manneskja er ég eiginlega!

miðvikudagur, 26. október 2011

dead woman walking


haustljóð hljóta að vera púkalegust allra ljóða, þau eiga sér vissulega nokkuð harðan keppinaut í öðrum árstíðaljóðum en samt, ég þarf ekki nema renna öðru heilahvelinu í átt að hugmyndinni um haustljóð til að líða hálfilla, ég fer hreinlega hjá mér, núna þegar ég stend frammi fyrir því að eiga að skrifa eitt slíkt ljóð gæti ég vel hugsað mér að grafast undir fjalli af laufum og finnast ekki fyrr en í janúar, þá gæti ég hugsanlega sagt eitthvað innan skammarmarka um kulda og myrkur, kuldi og myrkur eru svo sammannleg fyrirbæri, kannski af því þau eru ekki síður innra með manni en fyrir utan, haustlauf eru ekki eitthvað sammannlegt, haustlauf eiga það sífellt yfir höfði sér að verða plebbaskapur, hversu vont skyldi þetta geta orðið? ég held að möguleikarnir séu óþrjótandi, kannski ætti ég bara að vera dáldið borubrött andspænis öllum þessum óteljandi leiðum til að mistakast, það er óneitanlega ákveðin huggun í því að vita hvernig þetta fer

þriðjudagur, 18. október 2011

maður telur sig þekkja sjálfan sig...


án þess að ég þori að nefna það við nokkurn mann hefur skelfilegur grunur – mér liggur við að segja ótti – hreiðrað um sig djúpt innra með mér, jafnfáránlega og það hljómar þá hef ég fyrir því nokkuð sterkar vísbendingar að ég sé eftir allt saman – þvert á það sem ég hef áður talið – óskaplega ódramatísk og tilfinningalega óspennandi kona, hver hefði trúað þessu, þetta er mikið áfall, en ég er hrædd um að þetta sé samt tilfellið, svona hlutum kemst maður að um sjálfan sig þegar maður stundar nám í ritlist, bekkjarsystkini mín keppast við að skrifa eldheitar ástarsenur og ofsafengnar lýsingar á tilfinningaátökum þar sem fólk týnir á víxl spjörunum og lífinu og guð má vita hvað en ég gott fólk, ég geri ekki annað en að skrifa texta um félagslega vangefið fólk með plastpoka á höfðinu og ónýt talfæri, hjá mér er enginn að kyssast, enginn allsber og alls enginn að hækka róminn, hvað þá að drepa einhvern jesús góður, þetta ætti kannski ekki að koma mér svona á óvart, ég hefði til dæmis átt að geta sagt mér það sjálf að fólk eins og ég sem er með einn í extróvert sé eðli málsins samkvæmt ekki sérlega lúnkið við að skrifa samtöl, aftur á móti tel ég líklegt að ég gæti náð töluverðri færni í að skrifa sögur út frá sjónarhorni innyfla, t.d. miltans, miltað í fólki eyðir ekki tíma í að standa á kjaftasnakki við önnur líffæri, það gerir bara það sem það gerir sem er svona... ja allskyns hlutir sem miltu gera, auðvitað vildi ég óska að ég gæti sagt með algjörri sannfæringu að þetta skipti engu máli því persónulega finnist mér samtöl ofmetin í skáldskap, það sé hvort eð er miklu meira spennandi að glíma við afstöðu og skynjun miltans á umhverfi sínu, en ég er hrædd um að ég geti það ekki, ég er ekki svo gjörsamlega handan við heilbrigða skynsemi (þó maður sé auðvitað alltaf á allra tæpasta vaði þar) að ég sjái ekki í hendi mér að maður verði bara að gjöra svo vel og hlýða kennaranum og æfa sig, æfa sig alveg ofboðslega, satt að segja veit ég ekki hvort mér endist ævin í allar þessar æfingar en maður verður bara að vona, maður getur ekki farið að daga uppi sem kellingin með miltað

þriðjudagur, 11. október 2011

just keep swimming just keep swimming (syngist glaðlega)

ég hef aldrei getað tileinkað mér almennilega hugmyndina um markmið, ég er ekki góð í markmiðum, til þess er ég bæði full hvatvís og alltof hrifnæm, berst of auðveldlega af braut, læt glepjast, gleymi mér, þetta eru örlög okkar sem látum stjórnast af skynfærunum en erum öllu blankari af rökhugsuninni, ef ég má tala alveg opinskátt (sem ég hlýt fjandakornið að mega, þetta er mitt andskotans blogg) þá held ég að það geti verið stórhættulegt að einblína á eitthvert markmið, ég held að maður geti hreinlega misst af lífinu á meðan, ég er veikari fyrir hugmyndinni um að halda þræði, grípa í spotta sem skyndilega stingur sér upp á milli laufblaða eða fellur niður af himininum án sýnilegrar skýringar og rekja sig svo áfram, eins og úlfur sem fylgir slóð og ætlar sér ekki annað en að komast að því hvert hún leiði hann, ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að þetta er það sem hinn skynsami maður kallar að vera stefnulaust rekald í eigin lífi, slíkt hlutskipti þykir ekki eftirsóknarvert og í sumum tilvikum jafnvel refsivert, en ég vil samt frekar vera slíkt rekald heldur en að róa að því öllum árum að koma mér nær einhverju markmiði sem ég veit ekki einu sinni hvort að er eftirsóknarvert fyrr en ég næ því, kannski mun mér meira að segja finnast það hundleiðinlegt og heimskulegt, margt sem mér fannst frábært fyrir fimm árum finnst mér ömurlegt í dag, eins og til dæmis ofvaxnir tvíhöfðar, hvers konar úrkynjun er það? og ég get ekki hugsað mér að vita með vissu hvar ég verði eftir fimm ár, það væri hræðilegt, eina markmiðið sem ég er tilbúin að helga mig af heilum hug er að vera skapara mínum til sæmilegs sóma, en það geri ég ekki með einhverju vel skilgreindu langtímamarkmiði heldur með hænuskrefunum, halda áfram að rekja spottann, stíga varlega til jarðar og leggja við hlustir, anda djúpt og horfa vel í kringum sig, svo allt í einu gengur maður kannski í fangið á einhverju alveg óvæntu, spennandi

laugardagur, 8. október 2011

gottneski geðsjúklingurinn


á meðan smábylurinn sigríður gekk yfir landið í nótt lá ég hálfvitstola af ótta upp í rúmi og beið eftir að gasgrillið kæmi æðandi innum svefnherbergisgluggann, það er eitthvað við það að liggja andvaka sem virðist sjálfkrafa hafa þau áhrif að einhver ofvöxtur hlaupi í taugakerfið og maður verði heltekinn af alls kyns ímyndunarsýki, sem endranær var lítil stoð í eiginmanni mínum sem hafði drukkið töluvert meira af slökunarmeðali fyrir háttinn en ég og hraut friðsælt upp í eyrað á mér, ég dró sængina betur upp fyrir haus og reyndi að róa mig niður, hugsaði með mér að þetta gæti verið verra, til dæmis ef ég væri nítjándualdarmanneskja, þá væri ég svo gott sem dauð, í nítjándualdar skáldsögum má ekki hreyfa vind án þess að eitthvað ægilegt gerist, ég tala nú ekki um ef maður er svo óheppinn að vera persóna í sögu eftir poe, hefði ég verið ein slík í nótt og til dæmis hætt mér fram á klósett er gefið mál að ég hefði gengið beint í fangið á minni eigin vofu eða fundið hundinn minn sundurristann á eldhúsborðinu og öll vegsummerki bentu til þess að ég hefði sjálf framið glæpinn þó ég myndi ekkert eftir því, í framhaldinu myndi ég svo að sjálfsögðu missa vitið, fólk er dáldið í því hjá poe að missa vitið, ekki síst í óveðri, þannig að maður má víst bara prísa sig sælan að vera nútímamanneskja og eiga ekki alvarlegri hluti yfir höfði sér þegar maður leggst til svefns í vondu veðri en að vera kramin til dauða af gasgrilli, ég er svo sannarlega heppin

sunnudagur, 2. október 2011

í huga þess sem hefur fullkomna stjórn á sínu innra lífi


ef þetta verður mikið flóknara er ég hrædd um að afleiðingarnar gætu orðið aðrar en maður ætlaði sér í upphafi, ég sé fyrir mér eitthvað sem hefur fuðrar upp, en ég ætla ekki að hugsa um það núna, núna hef ég þetta allt í hendi mér, núna ætla ég bara að hugsa um að það er ekki til siðs að sleikja kaffibollann þó hann bragðast vel, svo ætla ég sjá möguleikana í þessu veðri og hvað ég sé heppin að vera réttu megin við eldhúsgluggann minn, ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að hugsa eftir það en mér dettur örugglega eitthvað í hug, það gæti hugsanlega haft eitthvað með eirík guðmundsson að gera en ég ætla samt að forðast hugsunina um að hann sé afar vörpulegur karlmaður, aðallega af því að mér líkar illa að beygja mig að almannaálitinu, það sem eftir lifir dags mun ég velta öllu mögulegu fyrir mér, bæði hlutum sem snerta mig beint akkúrat núna en líka óteljandi atriðum sem munu aldrei hafa nein áhrif á líf mitt, eða alla vega ekki þannig að ég geti séð það fyrir núna, en ég ætla ekki að hugsa um það strax, allt verður að hafa sinn tíma og maður verður að hafa stjórn á höfðinu á sér, ég er mjög góð í því, fipast nánast aldrei, í alvöru talað