miðvikudagur, 28. september 2011
mánudagur, 26. september 2011
í dag er oss frelsari fæddur...sem er til lítils þegar fólk vill ekki frelsast
vonbrigði mín eru algör, ég er gersigruð, í barnaskap mínum og einfeldni (og guð veit að af hvoru tveggja á ég nóg) hélt ég að nýhafið háskólanám mitt og sú massíva tölvunotkun sem það útheimtir yrði til þess að eiginmaður minn hyrfi frá villu síns vegar og læknaðist af tölvufíkninni sem er hann lifandi að drepa, ég gekk að því sem gefnu að þegar talvan væri meira og minna "ekki í boði" myndi maðurinn neyðast til að finna sér eitthvað annað að gera - til dæmis hjólreiðar eða leirkeragerð svo eitthvað sé nefnt - og þannig myndi ég (halelújah) ósjálfrátt beina manninum á rétta braut og stuðla að einhvers konar andlegri endurfæðingu (það dylst vonandi engum hvernig ég kristgeri sjálfa mig hér alveg skammlaust), þetta yrði eins og það sem í heimi viðskipta og stjórnmála kallast "a benevolent takeover" og á að ganga tiltölulega átakalaust fyrir sig, en herra minn herra minn himinhár, bjartýni mín og bjargföst trú á eigin umbreytingarmátt er augljóslega byggð á algerri óskhyggju þess sem vill vel en veit ekki betur því þessi maður er greinilega af þeim slóttuga meiði manna sem lætur ekkert stöðva sig hafi hann einu sinni fengið augastað á einhverju, það fékk ég vottað og skjalfest seinni partinn í gær þegar leiðindi hins aðgerðalausa manns náðu slíkum botni að hann brunaði niður í bæ - sjálfsagt með báða fætur á bensíngjöfinni - og festi kaup á... ég veit ekki hvernig ég á að koma orðum að þessu öðurvísi en beint, tölvuleik, í algjörum leiðindum sínum og örvæntingu mundi eiginmaðurinn ístöðulausi nefninlega að í herbergi unglingsins er talva af gerðinni playstation 2 og sá í hendi sér að þarna væri rifa á glugga út úr þeim vistarverum tómleikans sem hann hafði svo miskunnarlaust verið læstur inní, og af því að maðurinn hefur að undanförnu ekki einungis þurft að horfa á eftir sinni heittelskuðu tölvu inní handanheiminn heldur eiginkonunni líka varð valið á leiknum eins agalegt og það frekast getur orðið - alla vega í augum okkar kvenna sem er naumt skammtaður barmurinn - því maðurinn sneri heim í fylgd konu með hreint undarlega samsettan skrokk og engu betri samvisku, nefninlega hins alræmda og íðilfagra grafarræningja löru croft (ath ég gef mér hér þá forsendu að valið á leiknum megi rekja til þess að eiginmaður minn sé bugaður af söknuði eftir mér, forsendan á kannski ekki við nein rök að styðjast), en ekki nóg með það, eiginmaður minn er langt frá því að vera sá tornæmi þumbi sem maður vill gjarnan gefa sér að tölvufíklar séu og hann hefur greinilega áttað sig á hvers konar kenndir kaup hans á leiknum myndu vekja hjá mér, en í stað þess að ræða málin eins og maður þegar hann kom heim og viðurkenna vanmátt sinn og vanda, greip hann til slíks neðanbeltisbragðs að helst mætti við líkja að stinga sleikipinna uppí barn sem gólar á almannafæri til að fá það til að þegja, þ.e. hann færði mér tónlist, þið sjáið að ég fór engu offari í orðanotkun þegar ég kallaði manninn slóttugan, en það versta er enn eftir því maður má ekki gleyma því að vont vill alltaf versna og verða verra en mann gat nokkru sinni órað fyrir, fólki finnst það líklega nógu slæmt að fullorðinn karlmaðurinn liggi þarna inni hjá unglingnum og djönki sig með innihaldslausri afþreyingu á meðan leirtauið myglar í vaskinum, en öllu agalegra er að hann hefur náð að smita yngra barnið af sinni sjúku fíkn og berskjaldaður sakleysinginn ætlaði aldrei að ná sér niður fyrir svefninn í gærkvöldi og neitaði svo að fara í skólann í morgun því hún vildi vera heima að spila tölvuleik með föður sínum, eðlilega engist ég ábyrg móðirin nú af ótta yfir því að dóttir mín verði einn af þessum einstaklingum með enga félagsfærni og muni auk þess aldrei komast yfir þær fáránlegu ranghugmyndir sem leikurinn gefur um líkama kvenna, þið afsakið hvað maður er óðamála en ég er bara svo miður mín, þetta átti ekki að fara svona, það var eitthvað allt annað sem ég hafði í huga, en ég veit svo sem ekki af hverju ég er svona vonsvikin, þrjátíu og sex ára gamalli konu ætti að vera orðið það fullljóst að það er jú biturt hlutskipti karlmanna að valda konum vonbrigðum
laugardagur, 24. september 2011
eintal þess sem er fullviss um að enginn sé að hlusta
eitt er að ætla þrátt fyrir ótrúlegar annir að leyfa sér munað á borð við þann að raða saman stöfum og koma þeim fyrir hér fyrir framan sig svo úr megi lesa eitthvert lítilræði sem hugsanlega væri ekki algjör tímaeyðsla, að ná í það sem mann langar til að segja þarna niður í ystu myrkur þar sem það lúrir líkt og dreki í djúpu lyfjamóki er svo eitthvað allt annað, við skulum gefa okkur það strax að það muni ekki takast og þá um leið ákveða að það sé ekkert kosmískt stórslys þó skepnan sofi áfram og stafrófið hangi ósamsett í lausu lofti, heimurinn sé ekki að fara á mis við neitt óumræðanlega mikilvægt, þetta muni allt bjargast án manns, mesta hættan er alltaf sú að maður fari að ímynda sér einhverja vitleysu eins og að auð síða jafngildi glötuðum hugmyndum, glötuðum í merkingunni týndum, horfnum, dánum jafnvel, því ef maður sé ekki stöðugt að festa lífið á blað sé maður að týna alls kyns góssi sem maður vissi ekki einu sinni að maður ætti í fórum sínum, þetta ástand er fullkominn andstæða þess sem uppá engilsaxnesku kallast að vera "blissfully unaware" og ég ætla hér að þýða sem að vera uppljómaður af meðvitundarleysi, þetta er auðvitað ranghugmynd en ég er veik fyrir ranghugmyndum, þær eru alla vega hugmyndir, í augnablikinu er minn dýpsti ótti hugmyndaleysi, hugmyndaleysi og tilgerð, líklega er rótin að þessum ótta grunurinn um að einn daginn eigi áhugaleysi mitt á veruleikanum eftir að koma mjög illilega í hausinn á mér, beðið eftir boomeranginu og neglurnar komnar niður í kviku
laugardagur, 17. september 2011
somethings gotta give!
að því undanskildu að mig vantar nauðsynlega tíu klukkutíma í sólarhringinn er lífið afbragð, bekkjarfélagarnir eru smám saman að skríða út úr skelinni og ég sé glitta í fólk sem ég held að eigi eftir að verða vinir mínir, ljúfi kennarinn veit upp á hár hvað hann er að gera og hefur lag á að róa titrandi taugar og sjálf sýni ég fordæmalausa óvægð í framgöngu minni gegn mínum innri aumingja, sá ömurlegi úrtölumaður er bæði hávaðasamur og dónalegur eins og illa drukkinn maður á bar sem hefur algjörlega misst sansinn fyrir því hvað er viðeigandi að segja við fólk, ég hef í gegnum tíðina brugðist við blammeringum þessa hálfvita með misgáfulegum hætti, allt frá því að hengja haus og leifa honum að ausa yfir mig alls kyns óhæfu til þess að slá hann full kellingalega utan undir og fá svo húrrandi móral á eftir, uppá síðkastið hef ég aftur á móti hrækt í andlitið á honum og sagt honum að drullast til að káfa á einhverjum öðrum rassi, minn sé í ofurstelpunærbuxunum með sjálfvirka raflostbúnaðinum sem drepur menn eins og hann, vandinn við að vera í ofurstelpunærbuxum er að maður strikar aldrei neitt út af verkefnalistanum sem verður hreint ógnarlangur þegar maður skráir sig í mastersnám og það er nú ekki eins og hann hafi verið neitt stikkorðaplagg fyrir, þar af leiðandi ligg ég andvaka flestar nætur eins og vandlega upptrekkt apparat sem um leið og maður sleppir takinu af því tryllist algjörlega og skoppar af stað yfir borðplötuna í æðisgengnum tripphopp takti, það leiðinlega við svona apparöt er að nánast undantekningalaust hendast þau fram af borðinu og missa útlim, jafnvel höfuð, titra svo krampakennt í smá stund áður en þau stöðvast fyrir fullt og allt, komin veg allrar veraldar þar sem engar endurlífgunaraðferðir duga til að koma þeim í sitt fyrra æsta form, sem eru kannski ekki endilega þau örlög sem maður getur helst hugsað sér
það er svo allt annað mál að það er óralangt síðan ég hef séð minn yndisljúf ellabjé dásemdardreng og litlu músina systur hans og óttast stórlega að staða mín sem uppáhaldsfrænka sé í hættu, slíkt má ekki henda, best að kaupa stóran poka af haribo hlaupi og sleikja litla fólkið upp
miðvikudagur, 14. september 2011
örmagna
mig langar til að segja eitthvað fallegt en er hálfuppiskroppa með fegurð í augnablikinu, ég er búin að vera með kökk í hálsinum bróðurpartinn af deginum og nú er höfuðverkurinn að rífa úr mér augun, ég ætla að finna koddann minn og biðja guð að endurnýja mig í nótt
fimmtudagur, 8. september 2011
skáldið og smáborgarinn
með yfirbragði þess sem er eilítið villtur og að frjósa úr kulda í þokkabót arkar nóbelskáldið herta müller í gegnum austurstrætið í fylgd einhvers sem ég gef mér að sé eiginmaður hennar, þau ganga hratt framhjá tíu ellefu, nema svo snöggt staðar og benda í átt að búðinni eins og þau hafi skyndilega áttað sig á að þetta sé matvörubúð og það sé einmitt það sem þeim vanti í augnablikinu, þaðan sem ég sit á annarri hæð bókabúðarinnar eymundsson get ég ekki annað en dáðst að glöggskyggni nóbelskáldsins því gluggar matvörubúðarinnar eru þaktir risavöxnum límmiðum af pilsnerflöskum ásamt stuttum texta um "sögu pilsnersins á íslandi" (jafn fáránlega og það hljómar, í hljóði þakka ég guði fyrir að herta lesi ekki íslensku) og því hægara sagt en gert að átta sig á að þarna sé selt eitthvað sem yfir höfuð sé hægt að tyggja, hjónin verða svo greinilega sammála um að láta reyna á vöruframboðið í hinni torkennilegu búð og drífa sig inn fyrir, þegar inn er komið sé ég að þau staðnæmast strax við goskælinn og eiginmaðurinn teygir sig í hálfslíters flösku af því sem ég get ekki betur séð en að sé egils sódavatn með sítrónubragði (hér hlýtur fólk að staldra við og undra sig á ótrúlegri skerpu augna minna en þetta uppsker maður af því að éta svona mikið af ólífum og auk þess gerir sjúkleg forvitni auðvitað magnaða hluti fyrir athyglisgáfuna), einhverra hluta vegna skilar maðurinn flöskunni og þau fara lengra inn í búðina svo þau hverfa úr augsýn, í sama bili kemur maður út úr búðinni sem ég ákveð samstundis að sé einnig ferðamaður, aðallega vegna þess að hann er með stóran fjallabakpoka og heldur á plastboxi sem hann hefur greinilega fyllt á salatbar búðarinnar (þó persónulega finnist mér umdeilanlegt hvort fyrirbærið geti staðið undir því að geta kallast jafn háleitu nafni og salatbar) og nú stendur hann í miðju austurstrætinu og mokar innihaldinu upp í sig með þar til gerðum plastgaffli og "borðsiðum" þess sem er of svangur til að hafa áhyggjur af því hvað fólki finnist um háttalag hans, maðurinn sem er vel yfir miðjan aldur, hálf illa til fara og með sítt og mikið skítugt hár hefur á sér eitthvert flækingsyfirbragð og það sem stingur mig sérstaklega er að þrátt fyrir að vera þokkalega hlýlega búinn er hann berfættur í svokölluðum krokks-skóm, berir fætur mannsins í bláum skónum kalla samstundis fram í huga mér mynd af gæs sem ég gekk framhjá fyrr um daginn og spígsporaði í vatninu við ráðhús reykjavíkur, til merkis um það hvað maður er ömurlega fastur með höfuðið upp í eigin rassi þá helltust yfir mig áhyggjur af því hvort dýrinu væri ekki agalega kalt á fótunum, nokkuð sem hlýtur að teljast fáránleg hugmynd gagnvart gæs en töluvert meira viðeigandi gagnvart hinum sokkalausa útlendingi, ég er niðursokkinn í að velta upp hugsanlegum skýringum á sokkaleysi mannsins þegar herta og eiginmaður koma strollandi út úr búðinni með plastpoka í þessum viðurstyggilega græna lit sem eitthvert markaðsviðrinið ákvað að væri best til þess fallinn að skapa trausta viðskiptavild í brjósti fólks í garð þessa glæpaapparats í búðarbúningi, verandi sá smáborgaralegi plebbi sem ég svo sannarlega er halla ég mér nær glerinu og reyni að greina innihald pokans, þrátt fyrir mín haukfráu augu - sem mig er á þessum tímapunkti reyndar farið að verkja all verulega í - þori ég að fullyrða það eitt um verslunarferð þeirra herr und frau müller að þau hafi greinilega komist að því að það séu betri kaup í tveggja lítra flösku af egils sódavatni heldur en smærri flöskunum, nokkuð sem ég held að hljóti að teljast hárrétt niðurstaða í málinu og sjálf hefði ég aldrei látið mér detta annað til hugar, ég tek eftir að það er merkilega lítið í pokanum miðað við allan tímann sem hjónin eyddu inn í búðinni og hugsa með mér að þrátt fyrir smæð hennar hafi lélegt skipulagið og bjánaleg breidd í vöruúrvali líklega borið þau ofurliði og því hafi þau ákveðið að gera sér sódavatnið að góðu, það sé einfaldara að nota minibarinn og herbergisþjónustuna á hótelinu, ákvörðun sem ég get ekki annað en haft fullan skilning á því sjálfri þykir mér óþolandi að versla í ókunnugum stórmörkuðum og hafa ekki græna glóru um hvar ég finni hinar sjálfsögðustu nauðsynjar svo ekki sé minnst á hvað það er óviðeigandi að hrasa um nærbuxur og ullarsokka í næsta rekka við mjólkurkælinn og áleggið, þegar hjónin hverfa fyrir hornið á pósthússtrætinu get ég ekki annað en hugsað um það sem ég heyrði skáldkonuna segja í viðtali fyrr um daginn þegar hún lýsti reynslu sinni af ógnarstjórn og ofsóknum og ekki síst hungri á tímum einræðisins í rúmeníu
"sá sem hefur næstum dáið úr hungri borðar alltaf öðruvísi en hinir"
mánudagur, 5. september 2011
mig dreymir, þess vegna er ég
barnið er í uppnámi, þrátt fyrr yfirmáta ríkt ímyndurafl og góðan vilja er það smám saman að renna upp fyrir henni að hún muni aldrei verða hafmeyja, ég bít í tunguna og hem mig um að benda á að margt annað sem mann dreymir um verði ekki að veruleika, eins og til dæmis að verða rokksöngkona eða höfrungatemjari (það voru ljótu vonbrigðin maður), en ég þegi bara, draumar eru nefninlega nauðsynlegir, það eru draumar en ekki rökhugsunin sem greina manninn frá dýrunum, já og auðvitað sjálfsvorkunin, en hún er reyndar náskyld brostnum draumum
laugardagur, 3. september 2011
hamingjuhamfarir
það er í alvöru talað með algjörum ólíkindum hvað ein kona getur verið hamingjusöm, orðið hamingja nær auðvitað engan veginn utan um mitt andlega ástand, ég er aðalsöguhetjan í litríkri dans og söngvamynd þar sem göturnar glitra í hlýrri haustbirtunni og fuglarnir blístra óðinn til gleðinnar, glaðasta barnið á trampólíninu með búnt af skærgulum gasblöðrum í hendinni, sirkustelpan í rólunni sem svífur í þokkafullum boga yfir áhorfendapöllum fullum af hlæjandi fólki með poppkorn og sleikipinna, stóreyga skólastelpan sem tekur strætisvagninn á hverjum morgni með nýja blýanta í töskunni og stílabók með dásamlegum teikningum af þykkblöðungum sem bíður eftir að fyllast af orðum, indian summer í reykjavík og ævintýrið er hér, staðan í netbankanum er að vísu með allra daprasta móti og eiginlega alveg ævintýralega slæm en það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina í því samhengi, að einhver sé hreinlega tilbúinn til að lána manni peninga til að maður geti skottast um innviði háskóla íslands með bestuvinkonu sinni og velt sér upp úr því sem manni þykir skemmtilegast og fegurst í veröldinni er svo fáránlegur rausnaskapur að maður veit varla hvert maður á að horfa, svo maður horfir bara til himins og segir takk góði guð, hugsar svo um mömmu sína sem gerir allt fyrir mann og veit að maður er ótrúlega heppin, eins gott að fínstilla athyglisgáfuna og depla ekki auga svo maður missi ekki af einu einasta augnabliki, hamingja
mynd: jen gotch
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)