í allan dag hefur mér liðið eins og ég sé að gleyma einhverju, sem kemur líklega fyrst og fremst til vegna þess að ég ákvað að taka daginn frekar rólega og vera ekki að drepa mig með öllum þessum heimatilbúnu skyldum sem plaga mig flesta daga (drulla mér út að hlaupa, lesa eitthvað af viti, skrifa eitthvað af viti, rífa hurðarnar af hjörunum og þrífa fölsin með tannbursta), kæruleysið í mínum kroppi náði meira að segja slíkum hæðum að meirihluta seinni partsins dundaði ég við þá iðju sem hvað gleggst gefur til kynna að maður hafi dáldið af tíma til umráða og sé tilbúin til að fara frjálslega með hann, sumsé að strauja (allir rólegir, ég er heimilistryggð), það er í alvörunni mjög róandi, ég hélt mig samt eingöngu við minn eigin fataskáp og fann ekki til nokkurrar ábyrgðar þegar husband fór í krumpuðu hermannabuxurnar og hvarf svo út um útidyrahurðina á leið á gusgus tónleika sem ég treysti mér ekki með á sökum einhverfutendensa og fylliríisfóbíu, maður er ekki beint gerður til að vera sósíal og stundum er það mér bara algjörlega ofviða að standa of nálægt einhverjum sem ég veit ekkert hvort hefur þvegið sér um hendurnar nýlega, þess í stað hefur maður það eins huggulegt og frekast getur orðið aleinn með sjálfum sér og sínum hundi, étur hnetur í óhóflegu magni og drekkur bjór, spilar músík og hefur ekki fyrir því að klæða sig, gleymir sér við að gleyma einhverju, það rifjast svo kannski upp fyrir mér á morgunn hverju ég er að gleyma, og þá verð ég alveg brjáluð yfir öllu andskotans straujdútlinu
mynd: cannelle-vanille