laugardagur, 27. ágúst 2011

tilraun til að tjilla


í allan dag hefur mér liðið eins og ég sé að gleyma einhverju, sem kemur líklega fyrst og fremst til vegna þess að ég ákvað að taka daginn frekar rólega og vera ekki að drepa mig með öllum þessum heimatilbúnu skyldum sem plaga mig flesta daga (drulla mér út að hlaupa, lesa eitthvað af viti, skrifa eitthvað af viti, rífa hurðarnar af hjörunum og þrífa fölsin með tannbursta), kæruleysið í mínum kroppi náði meira að segja slíkum hæðum að meirihluta seinni partsins dundaði ég við þá iðju sem hvað gleggst gefur til kynna að maður hafi dáldið af tíma til umráða og sé tilbúin til að fara frjálslega með hann, sumsé að strauja (allir rólegir, ég er heimilistryggð), það er í alvörunni mjög róandi, ég hélt mig samt eingöngu við minn eigin fataskáp og fann ekki til nokkurrar ábyrgðar þegar husband fór í krumpuðu hermannabuxurnar og hvarf svo út um útidyrahurðina á leið á gusgus tónleika sem ég treysti mér ekki með á sökum einhverfutendensa og fylliríisfóbíu, maður er ekki beint gerður til að vera sósíal og stundum er það mér bara algjörlega ofviða að standa of nálægt einhverjum sem ég veit ekkert hvort hefur þvegið sér um hendurnar nýlega, þess í stað hefur maður það eins huggulegt og frekast getur orðið aleinn með sjálfum sér og sínum hundi, étur hnetur í óhóflegu magni og drekkur bjór, spilar músík og hefur ekki fyrir því að klæða sig, gleymir sér við að gleyma einhverju, það rifjast svo kannski upp fyrir mér á morgunn hverju ég er að gleyma, og þá verð ég alveg brjáluð yfir öllu andskotans straujdútlinu 

laugardagur, 20. ágúst 2011

einfaldir eru ekki alltaf sælir, stundum eru þeir bara asnalegir

þó það þyki ekki smart á þessum tímum sjálfsánægjunnar þá mun ég aldrei reyna að halda öðru fram en að ég sé ákaflega einföld sál, og þó ég spretti á fætur á hverjum morgni og gaumgæfi huga minn í von um að komast að því að ég hafi loksins tekið út síðbæran andlega þroska og finni innra með mér himinn og haf alvöruþrunginnar djúphygli og óskeikullar dómgreindar þá er spurning hvort ég þurfi ekki að fara að sætta mig við að þetta muni aldrei verða að veruleika og gera þess í stað viðeigandi ráðstafanir til að forða mér og öðrum frá þeim óþægindum sem reglulega hljótast af mínum eðlislæga aulaskap, eitt af því sem hendir einfeldninga eins og mig er að lenda í aðstæðum sem maður sá ekki fyrir og átti engan veginn von á vegna þess að maður hrapar fullhratt að niðurstöðu og á það til að hugsa um of í staðalmyndum, þetta getur komið í bakið á manni.......... ja eða komið við bakið á manni eins og ég lenti í í gær þegar ég lagði leið mína á eina fínustu heilsulind bæjarins til að leysa út tíma í nuddi sem elskulegu bestuvinkonur mínar gáfu mér í ammælisgjöf nýverið, ég nota minn skrokk mikið og er oft aum í vöðvunum í samræmi við það svo eðlilega elska ég svona olíuborin hnoðsessjón með kertaljósum og slökunarmúsík og öllu og var vægast sagt full tilhlökkunar fyrir tímann, við komuna var mér afhentur risavaxinn baðsloppur, handklæði og inniskór og var tilkynnt að......... við skulum bara kalla hann valgarð (hann hét það samt alls ekki) myndi sækja mig innan skamms, hafðu það kynímyndakreddukelling, karlmenn geta líka verið nuddarar, gott og vel, ég fór í gufuna og á meðan svitaholurnar hömuðust við að spýta út óhreinindum og salti reyndi ég að gera það upp við mig hvort ég ætti að láta þetta koma mér úr jafnvægi, þetta væri óneitanlega dáldið undarlegt að vera svona berrassaður fyrir framan ókunnugan mann, ég var samt fljót að hrista af mér tepruskapinn þegar ég hugsaði málið betur því auðvitað eru allir karlkyns nuddarar þessar gandhi-týpur, svona guðni í rope-yoga gaurar sem virðast nánast algjörlega andlegar verur og sjá líkama fólks eingöngu sem mjög flókið orkustöðva- og punktakerfi gert til tæknilegrar meðhöndlunar, ég klæddi mig því í sloppinn og hlammaði mér niður í setustofunni og hætti að spá í að ég væri að striplast þetta á pjásunni annars staðar en heima hjá mér, ég var niðursokkinn í að fletta vogue og ergja mig á öllu kjaftæðinu sem er skrifað í það blað þegar valgarð kom að sækja mig og ég fékk hressilega á baukinn, hann var ekki vitund líkur guðna í rope-yoga og ekki gandhi heldur, hann leit eiginlega frekar út fyrir að vera í unglingalandsliðinu í fótbolta og vinna við módelstörf í hjáverkum, andskotinn, ég kom mér fyrir á nuddbekknum og snarhætti við að biðja um öflugt mjaðmanudd eins og ég hafði hugsað mér, "bara herðar og bak takk", næstu þrjátíu mínútunum eyddi ég svo í að reyna að líta fram hjá því að ég væri stödd allsber í mjög litlu kertalýstu rými með bláókunnugum karlmanni og hann væri með rakspýra, fljótlega varð alvara málsins mjög alvarleg þegar valgarð byrjaði að nudda og það rann upp fyrir mér að nuddarar snerta mann mjög mikið, sem er mjög undarlegt þegar maður hefur verið giftur lengi og ég gat ekki annað en spurt sjálfa mig í sífellu "fokk! má þetta?", í gegnum gatið á nuddbekknum þar sem ég hvíldi andlitið sá ég að valgarð stundar sína vinnu berfættur og hugsar greinilega vel um sínar tær, þar sem ég hafði þegar gerst sek um alls konar sleggjudóma þennan daginn ákvað ég að gefa mér það að einhver sem hugsi svona vel um fæturna á sér hljóti að vera gay, þetta gerði sitt til að draga úr þeirri tilfinningu að ég væri alveg óvart "lent í" framhjáhaldi og hefði án þess að ætla mér það brotið neðanmálsgrein í hjúskaparsáttmálanum um að maður eigi aldrei að vera allsber og olíuborinn með öðrum en maka sínum, það hjálpaði enn frekar þegar valgarð tók óvænt tvist í nuddinu og fór að losa upp á mér herðablöðin og þrýsta á svo helauma punkta í mjóbakinu að það var engu líkara en hann væri að dunda sér við að tína úr mér taugarnar og gera úr þeim teygjubyssu, "fínt" hugsaði ég og þegar hann svo spurði hvort hann væri alveg að drepa mig svaraði ég hratt "nei alls ekki, endilega meira svona" og lá svo og svitnaði af sársauka dauðfeginn yfir því að maðurinn væri hættur að strjúka mig þetta hátt og lágt, valgarð fékk eftir þetta mörg prik fyrir að hafa afar sterka þumalfingur en það þykir mér mikill kostur í fari nuddara og ég er ekki frá því að það hjálpi mér við að horfa fram hjá kynferði hans, þegar heim kom fannst mér ég knúin til að játa hinn slysalega glæp fyrir husband sem tók þessu furðu fálega, svo fálega að ég velti því fyrir mér hvort að hann sé í raun alveg sjóðandi illur og sé að leggja á ráðin um að panta sér sjálfur tíma í nuddi og taka sérstaklega fram að hann vilji að nuddarinn sé kvenkyns, og með ilmvatn, og mjög sæt.........nei ég veit það ekki ég er kannski að gera aðeins of mikið úr þessu,                     

sunnudagur, 14. ágúst 2011

talnaspeki og ársuppgjör á öðrum í ammæli

þrjátíu og sex, þrír plús sex gera níu (er það ekki.......) og kettir hafa níu líf, ljón eru kettir, ég er ljón, þrisvar sinnum sex eru...........átján, níu plús níu eru líka átján (hér varð ég að telja á fingrunum), talan níu sækir sem sagt að mér úr öllum áttum nú þegar ég legg af stað inní þrítugasta og sjöunda árið í æfingabúðunum "tilraun til að verða betri manneskja en ekki svona viðbjóðslega komplexeraður", þrjátíu og sex að baki og maður hefur staðið sig misvel í verkefnunum, stundum afleitlega, stundum hefur maður meira að segja klárað heilt ár og eiginlega ekki fengið nein stig nema rétt þetta eina sem maður fær fyrir lágmarksviðleitni til að draga andann, verið heilsuveill og deprímeraður og með alltof mikið af eldgömlum verkefnabókum í bakpokanum, mörgum ókláruðum og sumstaðar búið að krota svo mikið yfir að það er ekki einu sinni hægt að rifja upp það sem var verið að reyna að kenna manni, en stundum hefur maður líka staðið sig prýðilega og gott ef maður er ekki að sækja í sig veðrið núna á allra síðustu árum, ég þori meira að segja að fullyrða að þrítugasta og sjötta árið hafi verið það besta til þessa, ég er búin að hugsa þetta vel og vandlega og ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það að maður er náttúrulega fáránlega seinþroska en síðasta ár var klárlega best af þeim árum sem minni mitt nær yfir og ég þori að veðja ýmsu uppá að á hamingjumælikvarða meðalmanneskjunnar hafi það verið töluvert fyrir ofan meðallag, ekki það að maður ætli að ofmetnast, framundan eru endalausar þrautabrautir og margar af manns verstu greinum eru eftir, eins og til dæmis að finna sálarró í frjálsu falli og fyrirgefa sjálfum sér hvað maður er umhleypingasamur og ófullkominn, þar er maður heldur betur lélegur, erfiðast verður þó að leggja að velli sína fornu fjendur óttann og efann, ég vildi óska þess að það gæti gengið kalt og hratt fyrir sig, skilja höfuð frá búk með einu höggi og brenna hræin með logum hugrekkisins, en að öllum líkindum verður sú viðureign töluvert meiri splatter, níu sinnum níu meiri splatter

föstudagur, 12. ágúst 2011

að taka hluti alvarlega

bleik fjaðrakóróna
bleikar kökur
bleikur kjóll
bleikir diskar
bleik blóm
bleikur varalitur
bleik kerti
bleikur drykkur
bleik pom poms

barnið smyr sér samloku með pepperoni og majónesi og fer í ljótu sokkana með gatinu

ég lít bara undan

þriðjudagur, 9. ágúst 2011

muna

verð að rífa mig upp úr hneykslanlegu kæruleysi við skipulagningu ammælis, must get organized, to be disorganized is to fail! verð að muna að kaupa meira af bleikum matarlit, kaupa mér kórónu og taka ákvörðun um hvort heimatilbúnir afar bleikir og aaaaafar áfengir frostpinnar og trampólín séu málið, já og bjóða fólki, kannski það borgi sig að setja það efst á listann, b j ó ð a   f ó l k i

sunnudagur, 7. ágúst 2011

enn af mat (maður er náttúrulega ekki alveg heill í höfðinu)


það verður að segjast eins og er að maður er óþarflega oft helvíti timbraður þessa dagana, í dag er samt svo ofboðslega góð ástæða fyrir timburmönnunum að ég er næstum því þakklát fyrir þá og væri til í að umbera þá alla daga ef það þýddi að allir dagar yrðu eitthvað í líkingu við daginn í gær, í gær skópum við systir mín nefninlega hreint undur af kosmískri stærðargráðu hérna í eldhúsinu mínu, ég sé enga ástæðu til að gera mér upp lítillæti, þetta var goðsagnakennt, einhver (þessi einhver gæti verið um það bil allir) gæti haldið því fram að við systir mín séum óeðlilega uppteknar af ítölsku eldhúsi og ég viðurkenni að sjálfsagt væri sá hinn sami ekki að fara neitt agalega rangt með staðreyndir, því til staðfestingar höfum til dæmis gengið með þá veiru í maganum lengi að elda alvöru ósvikið ragú, við höfum vitaskuld oft og mörgum sinnum eldað hinn fjarskylda ljóta frænda ragúsins hið fræga meðalmenni spaghetti bolognes og meira að segja náð í því töluverðri leikni en þar til nýlega höfðum við ekki haft undir höndum nægilega krassandi uppskrift af hinni einu sönnu ítölsku kjötsósu til að takast verkið á hendur, þegar okkur hafði áskotnast slík uppskrift var okkur því ekkert að vanbúnaði og af þeim sökum vorum við staddar í himnaríkinu kjötbúðinni á grensásvegi laust eftir hádegi í gær að biðja um nautaskanka, nú höfum við báðar margoft séð naut og gerum okkur grein fyrir því að þau eru ekki smáar skepnur svo ég veit ekki hvers vegna það var slíkt sjokk þegar kjötmeistarinn kom fram með það sem verður helst líst sem...... ja  stærðar fótlegg, við ákváðum að láta skrímslalega ásjónu skankans ekki draga úr okkur kjark og roguðums heim með dýrið, næstu sex klukkutímunum eyddum við svo í að umbreyta þessari löpp ásamt fjalli af hvítlauk og grænmeti í guðdómlega kjötsósu eftir kúnstarinnar reglum, þegar ég horfði á systu hella heilli rauðvínsflösku á pönnuna ákvað ég samt að bæta því inní uppskriftina að æskilegt sé að margfalda það vínmagn sem fer í pottinn með alla vega þrem til að fá út það magn sem maður ætlar sjálfur að drekka á meðan rétturinn eldast, ég ákvað líka að það sé best að hafa vínið dýrt, trúið mér þetta er dásamleg uppskrift en þetta smávægilega innskot mitt dúndrar henni alveg í gegnum þakið, prófiði bara

steiktu 200 gr af fleski á pönnu með engri olíu
veiddu fleskið upp og steiktu nautaskankana dökkbrúna í fitunni
settu skankana til hliðar og steiktu sellerí, lauk og gulrætur í fitunni
bættu útí fimm hvítlauksgeirum
helltu heilli rauðvín útí og láttu sjóða niður
bættu útí fimm dósum af niðursoðnum plómutómötum 
bættu fleskinu og lárviðralaufi útí
láttu sjóða í nokkrar mínútur
settu skankana í steikarpott og helltu sósunni yfir
settu pottinn inní 100°heitan ofn og láttu malli í fimm, sex tíma
drekktu mikið af dýru víni
taktu pottinn út, rífðu kjötið af beinunum og passaðu að mergurinn fari líka útí
bættu útí fersku oregano og láttu malla áfram inní ofni á meðan þú sýður ferskt spaghetti
berðu á borð og búðu þig undir að vilja aldrei framar borða spaghetti bolognes

þriðjudagur, 2. ágúst 2011

andskotans ástin

husband bauð mér á tónlistarmarkað í dag af því hann er velktur maður eftir tólf ár í þessu sambandi og þekkir uppá sína tíu fingur stystu leiðin að all that sweet wonderous bootie lovin a man wants, og nú syngur hún frú franklin með risalungun úr hátölurunum mínum í stofunni og ég get sagt ykkur það að henni er ekki skemmt, ó nei ekki vitund, því hann er svikari og lygari og það er til skammar hvernig hann kemur fram við hana! (ekki husband sko heldur gæinn sem hún er að syngja um, hún myndi aldrei þurfa að syngja neitt í líkingu við þetta um husband, í mesta lagi að hann eigi það til að drekka of mikinn bjór og kunni ekki að þrífa baðkar), og ekki skánar það maður minn, vinir hennar segja henni að hann sé hinn mesti hjartabrjótur og einskis nýtur í alla staði, og af því þessi maður er enginn venjulegur drullusokkur heldur eitthvað agalegt afbrigði af slíkum manni þá getur hún ekki sofið, og ekki komið niður bita heldur (nei nú er mér nóg boðið! hún þyrfti að komast í mat til magnúsar.......annars hefur þetta ástand varla varað lengi, konan hefur nú aldrei verið neitt sérlega mjó um sig miðja) en þrátt fyrir þetta allt saman, þrátt fyrir það að hún sé aðframkomin á sál og búk eftir meðferð þessa manns er hún samt föst við hann, föst eins og lím og vill að hann kyssi sig aftur og segi að þau verði alltaf saman, því guð minn hún elskar hann, elskar hann eins og hún hefur aaaaaaldrei elskað mann áður (hvur andskotinn hangir eiginlega á spýtunni á þessum manni!), og hún vill engan nema hann, bara hann og hann einan, hverja einustu einskis nýta skítafrumu í hans einskis nýta skítaskrokki.................. ég veit það ekki fólk, er þetta ekki dáldið sjúkt