mánudagur, 30. maí 2011

umsókn samþykkt

jeeeeeeeesssssssssssssss.............

mynd: girl hula

föstudagur, 27. maí 2011

ever the idiot

af bjánagangi sem einungis er á færi fárra hefur mér tekist að eyða nánast öllum gögnum út af tölvunni minni, þar með talið mínu heittelskaða myndasafni (brothljóð), enn fremur hefur fjölskyldan eyðilagt hleðslutækið fyrir fyrrnefnda tölvu sem er afar óþægilegt fyrir alla aðila, ætli ég sé ekki á leiðinni niður í epli til að sjarmera einhverja sölumenn, það er víst enginn annar hæfur í djobbið

mynd via frolic 

sunnudagur, 22. maí 2011

af illri nauðsyn

ég ætla að segja það eitt að ég hef andstyggð á endurtekningunni, einlæga og algera andstyggð, maður fær sorgarrendur undir neglurnar af því að klóra stöðugt í sama yfirborðið, af þeim sökum er ég á leið út í móa, ég ætla að krjúpa í lyngið með morgunsólina í augunum og biðja guð um að hreyfa líf mitt með sinni síkviku hendi sem gerir alla hluti nýja og stýrir þeim sinn rétta veg, veg sem liggur ekki í beinni línu heldur í fallegum lykkjum ekki ósvipuðum dansi býflugunnar

og fyrst að ég er á annað borð byrjuð vil ég koma á framfæri þökkum til eiríks guðmundssonar sem skrifar skrítinn með einföldu íi sem dregur töluvert úr þeirri tilfinningu minni að ég sé vanviti

miðvikudagur, 18. maí 2011

pendúll

ég bíð frétta og borða mikið af soðnum eggjum og svörtu súkkulaði, vinn mig í gegnum dagana og finn til þreytu, óttast að ég sé að veikjast, sem má ekki gerast því að einhverju leyti er ég haldin þeirri ranghugmynd að ég sé ómissandi, sem ég er auðvitað ekki en maður má hugga sig við svona vitleysu annað slagið, það meiðir engan, á erfitt með að ákveða afstöðu mína til lífsins og skipti um skoðun frá degi til dags, stundum milli klukkutíma, jafnvel kortera, það kallast að vera í lélegu jafnvægi, sem stemmir

laugardagur, 14. maí 2011

um guðfræðileg álitamál og annað minna umdeilanlegt

ekki það að ég sé mikill þeólógisti eða víðáttu biblíulesin en ég verði þó að viðurkenna að eitt og annað í þeirri ágætu en gloppóttu og mistæku bók veldur mér heilabrotum, á meðan ég skúraði gólfið í morgun - á fastandi  maga og klukkan ekki orðin hálfátta á laugardegi - velti ég því til dæmis fyrir mér hvort það fái staðist eins og heilög ritning heldur fram að skaparinn hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut (orðaleikur minn) og hvílst á sjöunda degi (ég bið fólk um að taka þessu innskoti um skúringarnar ekki sem svo að ég sé að draga upp einhver líkindi með okkur almættinu, slíkt myndi mér aldrei detta til hugar), ekki það að ég geti ekki unnt manninum hvíldar og ætli að fara að amast út í það að hann hafi pústað aðeins eftir grettistakið, hann var nú alveg búinn að vinna sér inn fyrir pásunni, en ég verð samt að segja að ég legg frekar lítinn trúnað á þennan hluta sköpunarsögunnar og er jafnvel tilbúin að ganga svo langt að telja hann sögufölsun, ég kaupi alveg allt hitt um verði ljós og vatnið hér og löndin þarna og allt það en ég verð að segja að mér hefur alltaf fundist þetta óvænta letikast hins almáttuga í hæsta máta ósennilegt og einhvern veginn alveg úr karakter, líkurnar á því að sá sem er svona drífandi og mikill athafnamaður skuli bara leggja sig heilan dag og gera ekki neitt hljóta að teljast hverfandi litlar ef einhverjar yfir höfuð, svona týpur hafa einfaldlega enga eyrð í sér í hangs og slugs jafnvel þó dagurinn heiti sunnudagur og maður geti út frá því gefið sér að það hafi verið glampandi sól og heiður himinn, ég hef því verið að reyna að gera mér í hugarlund hvað herrann hafi verið að gera allan sunnudaginn í þessari meintu slökun og afslappelsi, það er nefninlega þannig að þó að fólk liggi út af þarf það ekki að þýða að það sé ekki að gera neitt, fólk ásakaði til dæmis víst jónas hallgrímsson oft um leti á sínum tíma því hann á að hafa legið svo mikið út af, við vitum auðvitað alveg í dag hvað jónas var að gera, ekki var það nú allt nauðaómerkilegt og ég ætla ekki einu sinni að fara útí það sem þorgeir ljósvetningagoði dró undan feldinum þarna um árið, það er einfaldlega staðreynd að sumum gengur  betur að hugsa í láréttri stöðu - þó ég sé alveg ómöguleg í því, ég verð að hreyfa mig til að hugsa, sbr. skúringarnar - og mér finnast allar líkur á því að svo hafi verið með drottinn guð almáttugan á sjöunda degi sköpunarinnar, hann var bara að hugsa í láréttri stöðu, ég er líka næstum viss um að það sem herrann hafi brotið sinn almáttuga heila svo einbeitt um þennan sunnudag - á meðan hann horfði yfir sköpunarverkið - hafi verið hvað fleira hann þyrfti að búa til svo heimurinn yrði sá staður fegurðar og lystisemda sem hann ætlaði sér að hann yrði, guð er nefnilega perfeksjónisti og mér finnst ólíklegt að hann hafi verið fyllilega ánægður með afraksturinn og ekki fundist neitt uppá vanta, ég er líka næstum viss um að eitt af því sem hann sá samstundis að nauðsynlega yrði að fyrirfinnast í hinum fullkomna heimi væri lífrænt hnetusmjör, hann sá að ef hann kæmi fyrir í höfði mannsins hugmyndinni um að gera smjör úr hnetum myndi hann með tímanum finna út að hið sama smjör gengi ljúflega í samband við bæði bananann og eplið sem drottinn hafði þegar séð fyrir sér að láta vaxa á trjám jarðarinnar (alltaf skrefi á undan), maðurinn myndi fljótt finna að þetta gerir honum gott og gleðjast mjög, hann myndi þakka guði hugmyndaauðgið og gjafmildina og lofa hans fyrirhyggjusemi, allt gott og allir glaðir, líka guð sem aldrei lætur staðar numið heldur sýslar stöðugt á sínu kraftaverkaverkstæði og leifir sinni óendanlega visku og sköpunargleði að sáldrast milli fingra sinna og dreifast glitrandi eins og guðlegt konfettí yfir mennina sem horfa annars hugar á, fá stundum glampa í augun og nema sumt en annað fer framhjá þeim því þeir eru uppteknir við skúringar, maður er eilíflega skrefi á eftir..........en maður reynir


í sjónvarpinu er múmínsnáðinn algjörlega í öngum sínum yfir því að hafa týnt splunkunýja tannburstanum sínum, ég lifi mig inn í atriðið og finn til sterkrar samkenndar, svona hlutir geta virkilega komið manni úr jafnvægi

mánudagur, 9. maí 2011

og svo sveiflast sálin og sálin sveiflast svo......

ég leyfi mér að setja niður staf þó ég sé að lesa síðustu bókina sem ég átti eftir að lesa eftir braga ólafsson, gæludýrin, og sé auk þess nýbúin að lesa upphækkuð jörð eftir auði ólafs, eins og alltaf þegar ég les eitthvað eftir þessi tvö finnst mér ekki taka því að skrifa nokkurn skapaðan hlut og að manni væri nær að snúa sér að einhverju allt öðru, t.d. flokkun sandkorna, braga hef ég aldrei hitt en auður aftur á móti kenndi mér listasögu í háskólanum, hún gekk alltaf í leðurbuxum og hafði hárið allt í rúst, þar að auki var hún ógeðslega klár og yndislegur kennari og einhverra hluta vegna var fremsta sætaröð alltaf undirlögð af karlkyns nemendum, töff, ég aftur á móti heyri ekki boffs ofan úr háskóla og það verður að viðurkennast að virkni svitakirtla minna er með ótrúlegasta móti, "bara treysta guði" segir fía mín sem sér ekki ástæðu til að trekkja sig upp yfir svona smámunum, ég hins vegar tékka tölvupóstinn hundrað sinnum á dag og mála skrattann og allt hans venslafólk á alla mögulega veggi, þau elska mig þau elska mig ekki þau elska mig þau elska mig ekki...... hvað maður getur verið slæmur í taugakerfinu!  

laugardagur, 7. maí 2011

konan með ódæmigerðu adhd greininguna

stundum eru tímasetningarnar hjá úniversinu svo hárnákvæmar að það gengur alveg fram af manni og maður hugsar með sér að svona yfirleitt borgi sig nú bara að halda að sér höndum og skipta sér sem minnst af framvindu atburðanna, eins og til dæmis þegar blaðið dettur inn um dyralúguna nákvæmlega á því andartaki sem kaffibollinn er tilbúinn, eða þegar maður liggur uppí rúmi hjá sér og getur ekki alveg gert upp við sig hvort maður eigi að drífa sig framúr strax eða hangsa lengur undir sænginni og þá alveg óvænt brýst lítill sólageisli inn um eldhúsgluggann og teygir sig alla leiðina inní svefnherbergi eins og til að vísa manni veginn út í daginn, og það er alltaf betra að fara á fætur, að liggja uppí bæli gerir mann heilsulausan og óhamingjusaman og leiðinlegan, eins og reyndar aðgerðaleysi almennt, ég vakna orðið alltaf fyrir allar aldir - eins og aldrað fólk gerir gjarnan - og þó rúmið mitt sé vissulega notalegt og þó husband lykti alls ekki illa þá hef ég komist að því að það fylgja því eintómar bölsýnishugsanir og drungi að ílengjast uppí við þessa rómuðu iðju að kúra, kúr drepur, maður verður slappur og latur og að drepast í mjóbakinu og því lengur sem maður kúrir því erfiðara verður að koma sér á lappir, allt verður einhvern veginn ómögulegt og maður dettur í að mikla alla hluti fyrir sér sama hversu einfaldir og ómerkilegir þeir eru, ef ég hangi svona uppí sannfærist ég til dæmis alltaf um að ég sé að verða gjaldþrota og muni örugglega bráðum drepast úr einhverjum dularfullum sjúkdómi, börnin mín verði móðurlaus og maðurinn leggist í drykkju og volæði og heimurinn muni farast, ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að um leið og ég fer á lappir, helli uppá kaffi, moppa gólfin og kjassa hundinn gufar öll vitleysan upp úr höfðinu á mér og tilveran verður tiltölulega yndisleg, þegar ég svo fer út að hlaupa og býð hundinum og kannski nick cave með mér ætlar allt að verða vitlaust af hamingju í litlu sálinni minni og það eina erfiða í því máli er að stoppa og koma mér inn - sem ég geri yfirleitt ekki fyrr en hundurinn segir hingað og ekki lengra (nick er yfirleitt alveg óþreytandi svo ég neyðist til að slökkva á honum), svo er bara að halda sér við efnið, gera gera gera og alls ekki hangsa, núna er ég til dæmis að hugsa um að gera eitthvað í steindauðu páskaliljunum sem fyrir viku síðan voru að gera heilmikið fyrir eldhúsgluggann minn en eru meira til skammar en prýði núna, heimsókn í blómaval gæti verði óumflýjanleg og maíbirtan segir mér að það sé tímabært að ná í hengirúmið út í köldu geymslu og koma því fyrir á pallinum.....þó ekki til að hangsa í því guð forði mér heldur til að skemmta ellabjé sem finnst hengirúmið algjörlega æðislegt og getur hangið þar út í eitt ef frænka nennir að ýta, nú svo er husband auðvitað veikur fyrir síðdegislúr og virðist ólíkt eiginkonunni ekki verða meint af

miðvikudagur, 4. maí 2011

taugaveiklun


á meðan ég bíð eftir svari við umsókn minni í ritlistarnámið skemmti ég skrattanum við að næra í mér vænisýkina og ímynda mér alls kyns vitleysu (maður á að rækta það sem maður er góður í), ein senan sem ég dunda mér við að endurspila í höfði mínu nánast linnulaust allan daginn er einhvern veginn svona:  umsjónarmaður mastersnáms í ritlist hringir í mig og spyr með alvöruþunga í röddinni eftir krummastelpu ruglubusku og ranghugmyndafíkli, ég finn hvernig innyflin í mér kólna en þar sem ég er svo vel uppalin og handónýtur lygari í þokkabót þori ég ekki öðru en að gangast við því að vera sú hin sama þó vitaskuld freisti mína að ljúga til nafns og segja manninum að því miður hafi honum verið gefið upp vitlaust númer, eftir að hafa fengið það staðfest að ég sé sú sem hann vildi ná tali af tjáir hann mér að hann hafi fyrir framan sig hina yfirgengilega bíræfnu umsókn mína og sér sé - svo ekki séu höfð um það  fleiri orð - ekki skemmt, í framhaldinu biður hann mig vinsamlegast um að hlífa þeim í inntökunefndinni - a.k.a vel gefnu háskólafólkinu - við djöfulsins fíflaganginum í mér, fólk sé að reyna að gera eitthvað gáfulegt og taka hluti mjög alvarlega og nákvæmlega enginn þarna uppfrá megi vera að því að eyða sínum dýrmæta akademíska tíma í að lesa minn sjúka hugarburð um allt þetta félagslega vangefna fólk, að því loknu skellir hann á, ég stend nokkra stund með símtólið í hendinni og forðast að horfa í ágeng augu hundsins sem situr fyrir framan mig og finnur á sér að eitthvað mikið sé að, það sem gerist næst er dáldið þokukennt en einhvern veginn kemst ég samt heim til systur minnar þar sem ég ligg og grenja og drekk ofboðslegt magn af áfengi, systa froðufellir og frussar yfir eldhúsborðið öllum þeim verstu svívirðingum sem hægt er að hugsa sér og færir svo fyrir því skotheld rök að ég hafi ekkert við þetta nám að gera af því ég sé overqualified (hún var einu sinni efnilegur morfískandídat og getur verið helvíti sannfærandi), ég held samt áfram að grenja og dey áfengisdauða í bleika sófanum hennar sem er með elstu húsgögnum í heimi og mig grunar að bæði börnin hennar hafi verið getin í þó ég hafi ekkert fyrir mér í því,  restinni af ævinni eyði ég í að flakka á milli skúringardjobba og tekst ekki að láta neitt verða úr mér og það eina skáldlega við líf mitt verður að drepast úr vosbúð ein uppá hálofti því eiginmaðurinn hefur gefist upp á mér og börnin nenna ekki að tala við mig lengur