mánudagur, 28. mars 2011

heppni


þegar maður kemur heim til sín eftir fremur vel heppnaðan vinnudag og langar til að gera vel við sig er upplagt að hella uppá gott kaffi, það hleypir svo alveg óvæntu fjöri í leikinn að finna í töfratöskunni sinni heilt stykki af besta chili súkkulaði sem framleitt er í veröldinni og maður var búin að steingleyma að móðir manns færði manni að gjöf frá útlöndum á dögunum, það eru svona móment sem gera dagana dásamlega, sérstaklega þegar maður er nýbúinn að fara í bíó og sjá biutiful, ég labbaði út úr bíó algjörlega að niðurlotum komin af þakklæti yfir lífinu sem ég á, ég er heppin, heppin heppin heppin

laugardagur, 26. mars 2011

ég er í alvörunni húsmóðir í napólí

skítugasta konan í hreinasta húsinu hægeldaði svínaskanka marineraða í fjalli af gulum sítrónum, grænum chili og ilmandi lauk, hvítlauk og rósmaríni, þetta veitti henni mikla ánægju - það þarf ekki meira til - það eina sem skyggði á var að það bráðvantaði fleira fólk til að borða allan þennan mat, svín eru feit og skankarnir af þeim stórir eftir því en við husband aftur á móti erum ekki magamikið fólk og viljum líka helst alltaf spara pláss fyrir rauðvínið, maður vill ekki fara á mis við öll þessi andoxunarefni, heilsan über alles, fólk sem heldur því fram að maður eigi aldrei að drekka meira en eitt glas af rauðvíni í einu veit ekkert hvað það er að segja, ekki frekar en þeir sem vilja meina að maður eigi að nota ólífuolíu í hófi, hvar fær fólk svona hugmyndir?

sunnudagur, 20. mars 2011

til varnar ostum


ég verð bara að hafa á því orð - þó fólki finnist kannski ekki ástæða til og ekki skynsamlegt heldur - að af öllu því sem hið ólögulega húsdýr beljan færir okkur - og þar er aldeilis ekki af litlu að taka - þykir mér osturinn í öllum sínum fjölbreytileika óumdeilanlegur konungur mjólkurafurðanna, í hvert skipti sem ég bít í þetta stinna og silkimjúka fyrirbæri kallar þakklæti mitt í garð jórturdýra hreinlega fram hjá mér tár og ég skammast mín fyrir að vera ekki föst einhvers staðar í miðju umferðaröngþveyti á indlandi þar sem fólk umgengst beljur af tilhlýðilegri virðingu, nú vill sjálfsagt einhver leiðrétta mig og benda á hið augljósa í málinu sem er að beljur eigi engan þátt í framleiðslu osta, osturinn sé ekki afurð sem komi "beint af kúnni" (sem minnir mig á það að ég hef ekki enn lært að fallbeygja orðið kú, skammarlegt!) og því væri mér nær að þakka svisslendingum eða ítölum svo ekki sé minnst á allt þetta fólk hjá mjólkursamsölunni sem lætur sig hafa það að vera með hryllilega ljót hárnet í vinnunni alla daga, gott og vel gott og vel, ég gengst fúslega við því að vera óforbetranlegur náttúruunnandi og rómantíker og hugnast mun betur að dásama ferfætlinga með fáránlega flókið meltingarkerfi heldur en framleiðsluferli stórfyrirtækja so just bare with me for a moment here, ég hætti að borða mjólkurvörur fyrir tveimur árum síðan og ég get ekki sagt að fjarvera þeirra af matseðlinum káfi neitt uppá mig af ráði þó ég hafi að sjálfsögðu neyðst til að gera undantekningu þegar það kemur að mjólkurslurk í kaffibollann á morgnana því mér finnst þetta soja og hrísdót bara ógeðslegt, á mínum villtustu lyftingaárum (guði sé lof að það tímabil er búið) át ég skyr eins og það væri eina fæðutegundin sem náttúran biði uppá og er ekki viss um að ég kæmi því niður í dag þó einhver harðhentur aðstoðaði mig við það en ost gott fólk, ost get ég ekki með nokkru móti afþakkað og ég mun aldrei fara af þeirri skoðun að það sé argasta tímasóun að borða ost sem er undir þrjátíu prósentum í fitu, þessa dagana þykir mér sjúklegast af öllu að skera grænt epli í tvennt og leggja tvær þykkar sneiðar af bóndabrie ofan á og borða með bolla af góðu tei, ég hálfbilast af unaði, í þau fáu skipti sem ég slepp eiginmannslaus í búðina læt ég greipar sópa um ostahilluna af slíku offorsi að fólki verður starsýnt á og þegar heim kemur neyðist ég til að fela allt draslið aftast í ísskápnum og hlaða öllum andskotanum fyrir svo husband fái ekki alveg flog yfir ruglinu í mér, í gær keypti ég sex mismunandi tegundir þar á meðal þennan ljúfling sem kemur beint frá bónda og er hreinlega tú dæ for gómsætur, osturinn er líka sú mjólkurvara sem hvað best hefur haldið sjálfsvirðingu sinni í hinu sorglega markaðskapphlaupi sem öllu ætu er ýtt útí og þó það hafi nú ekki verið meiningin með þessum skrifum að fara út í það að níða skóinn af öðrum mjólkurvörum - þó ég skuli játa það hraðar en eyrað nemur að vera fæðufasisti og hreinlega hata ákveðnar fæðutegundir - þá verður það bara að segjast eins og er að allt þetta sælgæti í jógúrtlíki sem fyllir mjólkurkæla matvöruverslana er hreinasta perversjón og ekki í neinu nágrenni við það sem beljan upphaflega ætlaði sér með mjólkina sína, slíkt verður ekki hermt uppá ostinn sem ég þori nánast að fullyrða að gæti ekki gengið í efnasamband við sykur þó hann langaði það (sem hann myndi auðvitað aldrei gera), ég bið ykkur því kæru lesendur að láta það sem vind um eyru þjóta þegar hinn eða þessi megrunarráðgjafinn hvetur fólk til að borða ost í hófi því hann sé helst til þess fallinn að stuðla að offjölgun á fitufrumum í lærum fólks, hverjum er ekki skítsama um lærin á sér, borðum ost í óhófi og fáum okkur svo aðeins meira

mynd: anna williams

laugardagur, 19. mars 2011

fimmtudagur, 17. mars 2011

þegar maður gáir ekki að sér

djöfuls sjálfsefinn búinn að hreyðra um sig í stofusófanum, og ég ekki með nein vopn í húsinu nema bitlausar skeiðar!

mánudagur, 14. mars 2011

gegnsósa

þegar maður er fótgangandi og hættur að nota leikskólatösku sem inniheldur alklæðnað til skiptanna - þrátt fyrir að vera heimsins mesti töskusóði er ég aldrei með auka naríur á mér - getur maður nú alveg hugsað sér alls konar annars konar veður en það sem boðið er uppá í augnablikinu, mér dettur hreinlega margt í hug

fimmtudagur, 10. mars 2011

enginn getur allt en allir geta eitthvað (örugglega líka ég)

ég elska tvinnakefli, það hefur örugglega eitthvað með það að gera hvað ég þrái að vera flink að sauma, sem ég er ekki, alls ekki, ef ég væri það hefði ég til dæmis saumað mér eitthvað sjúklegt outfit fyrir öskudaginn en því er skemmst frá að segja að ég klúðraði búningnum mínum gjörsamlega, ég var búin að möndla saman einhvern vísi að fönix með fjöðrum og öllu en svaf svo hryllilega yfir mig að ekkert varð úr, hljómar kannski ekki eins og stórmál en þegar maður er grunnskólakennari er þetta ávísun á óvinsældir, manni finnst maður hreinlega einhvern veginn vera að svíkjast undan í vinnunni, vond tilfinning, en talandi um vinnu, fyrir það fyrsta get ég ekki þakkað skapara mínum nógsamlega fyrir að hafa komið því í kring að stífa fólkið þarna í máli og menningu vildi ekki ráða mig í vinnu síðastliðið vor en við vitum jú öll hvernig fór á þeim bæ, æjæjæ, gott að maður ber enga ábyrgð þar, nóg er nú um manns miklu og stóru syndir þó ekki sé á bætt! en gott fólk, en en en maður er ekki að vinna alla þá vinnu sem maður hafði hugsað sér, maður er til dæmis ekki búinn að skrifa eitt stykki umsókn í mastersnám í ritlist - og nú veit ég að þið hugsið að fólki sem ekki veit að það er yfsilon í skrýtinn sé nú bara hollast að halda sig heima hjá sér og vera ekki að gera sér neinar grillur og mikið rétt mikið rétt! en ég ætla mér nú samt að gerast svo bíræfin að senda mínum elskulega gamla kennara rúnari helga umsókn þar sem ég gef mig út fyrir að vera gífurlegt talent á sviði orðfléttufræða (maður brennur auðvitað í víti fyrir svona lygar en það verður bara að hafa það), fyrst ætla ég samt að læra aðeins meira í vefsíðugerð og kíkja í tíma hjá hinum fremur skemmtilega þorvaldi þorsteinssyni, maður verður að hafa sig allan við svo maður drabbist ekki niður í leiðindum, læra læra læra, það er mín björgun

sunnudagur, 6. mars 2011

það sem er og verður og getur orðið

í fyrsta lagi, er virkileg yfsilon í skrýtinn? skrítinn/skrýtinn, ég get svarið fyrir það ég held ég ætti bara að hætta í þessum orðabransa, eða halda mig alla vega bara við að lesa orð, sem ég geri þó nokkuð af enda bæði búin að koma við á bókamarkaðnum og í bókahillum systur minnar þar sem ég fann leik engilsins eftir einn af þessum dásamlegu töfraraunsæis-spánverjum, ég fel mig undir sæng og flýg á blekinu til barcelona, ég kem við í súkkulaðibúðinni í gotneska hverfinu sem er eins og risastór kæliskápur fullur af eðalsúkkulaði, svo fer ég á markaðinn á römblunni og kaupi fíkjur og hráskinku og hvítvín, sest á ströndina og fylgist skíthrædd með husband synda í sjónum, seinna löbbum við heim í litlu íbúðina með litlu svölunum sem snúa út að höfninni og er algjörlega laus við kakkalakka (ein af fáum í barcelona, við erum mjög heppið fólk), en aftur til raunveruleikans - sem er á köflum ágætur þó hann sé ekkert töfrandi töfraraunsæi - því í öðru lagi þá finn ég vorlykt í loftinu og iða öll af eftirvæntingu, iða eins og ormur því það kemur það kemur, ég efast ekki, við þurfum bara að bíða aðeins og þá gerist það alveg af sjálfu sér, við vöknum öll einn daginn við það að úníversið rekur inn nefið og segir eins og ekkert sé sjálfsagðara "mér datt í hug að færa þér dáldið af grænu grasi og hvítri birtu, svo fyrst ég var á annað borð að þessu ákvað ég að gera þetta bara almennilega og koma með ilmandi útsprungin blóm og syngjandi fugla líka", maður verður alveg kjaftstopp og veit ekki hvernig maður á að þakka fyrir sig, tautar eitthvað á þá leið að það sé aldeilis rausnarskapurinn, maður viti bara ekki hvað maður eigi að segja, hefði maður vitað hefði maður nú lagt eitthvað til sjálfur og þar fram eftir götunum, úníversið bandar bara til manns hendinni og segir að það sé alveg óþarfi, hann eigi nóg af þessu, "njóttu bara" segir hann og er dáldið eins og ógeðslega ríkur gestgjafi sem er búinn að bjóða öllum heiminum í partý því eitthvað verði hann að gera við alla þessa peninga "blessuð vertu ég á nóg af þessu, just roll around in it", og maður náttúrulega bara hlýðir

þriðjudagur, 1. mars 2011

meira partý

ástkærastur minn yndislegi ellibjé átti ammæli í gær og bíður í partý í dag ásamt litlu músinni systur sinni, febrúar og mars eru álíka mikið partýsíson í familíunni og ágústmánuður en áttatíu og fimm prósent fjölskyldumeðlima á ammæli í þessum mánuðum, við þurfum að leggja fyrir allt árið til að komast í gegnum þetta fjárhagslega, þó það sé auðvitað subbuskapur að mæta í partý allur útí hori og hóstandi framan í fólk verð ég samt að snýta mér hressilega og fara í ullarnærfötin svo ég geti kíkt í boðið því ekki fer maður að valda litla manninum vonbrigðum, fyrst verð ég samt að finna einhvern sem getur farið í bæinn fyrir mig að versla riddarabúning og bækur og kitty dót því mér er mjög í mun að ganga í augun á smáfólkinu og finnst að ellibjé geti ekki endalaust notað pottlokin hennar ömmu sem skjöld, menn verða að vera almennilega græjaðir ef þeir eiga að geta varið kastalann og bjargað litlu músinni frá öllum þessu sjóræningjum og skrímslum svo maður tali nú ekki um hvolpinn þeirra sem er gereyðingarvopn dulbúið sem sturlandi sætur labrador, óþekkir hundar eru bölvun í þessari fjölskyldu og þar fer minn eigin hundur langfremstur meðal jafningja þó honum hafi oft verið veitt hörð samkeppni af sáluga hundinum hennar systur minnar sem til dæmis át skírnartertuna hans ellabjé áður en hún komst á veisluborðið, hafi maður einhvern tíman prísað sig sælan að manns eigið loðdýr var víðsfjarri vettvangi glæpsins! en best að fá sér verkjalyf og blund svo maður geti sinnt skyldum sínum sem ömmusystir í kvöld, þetta er ábyrgðarhlutverk og manni er í mun að standa sig - en hundurinn verður heima!