
stundum er maður nú bara alveg sleginn út af laginu, þetta er allt svo asnalegt að ég fæ mig varla til að tala um það en samt er ég svo yfir mig undrandi að ég fæ ekki orða bundist, nauðsynlegur formáli að þessum texta er að ég á bróður sem er mikið afbragðs eintak af manneskju þó hann sé þeim fáránlega galla gæddur að hafa slíkan viðbjóð á agúrkum að hann segist ekki þurfa nema finna af þeim lyktina þá verði honum mál að kasta upp, ég veit ég veit nú spyr fólk sig alveg stúmm "bíddu er lykt af gúrkum?" og "hvers konar fólki býður við gúrkum?", sjálf hef ég fullan skilning á að fólki geti fundist ýmislegt ógeðslegt eins og ansjósur og sushi jafnvel og já meira að segja ólívur þó ég sé því ekki sammála en í almáttugs bænum gúrkur! ég meina er hægt að finna meinlausari meðlim innan grænmetisfjölskyldunnar? ég hef - eins og fólki finnst vonandi skiljanlegt - alltaf gert afar lítið úr þessu röfli bróður míns og sagt honum að hætta þessu helvítis miðjubarnsvæli, hann sé bara reyna að draga að sér athygli og vera með vesen, það sé varla bragð af gúrkum hvað þá lykt! hvort hann haldi virkilega að hann sé með svo ofboðslega spes, hárnákvæm og ofurnæm skynfæri að hann greini einhver hárfín blæbrigði í lykt og bragði sem við hin séum bara ekki nógu þróuð til að finna, svona hef ég djöflast í manninum ekkert nema hrokinn og yfirlætið og ekki efast í kvartsekúndu um að ég hafi allt til míns máls en hann ekkert, mér hefur fundist þetta svo mikil þvæla að ég hef reglulega steingleymt þessum dintum hans og boðið honum uppá indverskan mat með æðislegu raita sem ég bý til úr - vel að merkja - nánast engu nema gúrkum, en það er auðvitað alveg dæmigert þegar maður er svona viss á sinni sök að þá rennur maður á rassgatið með allt heila klabbið og finnur sig í einhverjum afar óþægilegum aðstæðum, málið er að nýlega færði indæli húsvörðurinn í vinnunni minni mér ilmkerti til hafa í skólastofunni minni, skólastofan mín lyktar eins og myglusveppur og húsvörðurinn var svo sniðugur að taka upp á því að hafa alltaf kveikt á ilmkerti til að gera þetta bærilegra, hingað til hafa kertin öll verið með vanilluilmi sem ég ef mikinn unað af, dásemd dásemd, en síðast þegar húsvörðurinn fór í búðina til að kaupa kerti voru vanillukertin ekki til, svo hann keypti annars konar kerti, gúrkukerti, og vill þá kannski einhver segja mér hver í veröldinn tekur uppá því að framleiða agúrkuilmkerti? hvað í andskotanum er næst... paprikuilmur? en sem sagt málin standa þá þannig - þökk sé einhverjum hryllilega lélegum ilmkertaframleiðanda - að ég er núna í þeirri vandræðalegu stöðu að þurfa kannski að endurskoða afstöðu mína frá grunni - sem ég hingað til hef ekki einu sinni viljað skilgreina sem afstöðu heldur sem staðreynd - það sé eftir allt saman lykt af gúrkum og ég verði því að viðurkenna fyrir bróður mínum að ég hafi haft rangt fyrir mér í öll þessi ár, þessi rökræða er sko búin að vera í gangi síðan ég man eftir mér, ég sé fyrir mér að hann heimti að ég biðjist afsökunar - hugsanlega opinberlega - og bæti honum það svo einhvern veginn upp að hafa beitt hann þessum órétti og skoðanabælingu árum saman, það gæti til dæmis falist í því að hann megi framvegis alltaf ráða hvað er í matinn þegar fjölskyldan borðar saman og þá megi ekki vera neitt grænmeti á boðstólnum og alls alls ekkert úr spelti, líka þó það sé í mínu eigin ammæli eða ammæli barnanna minna, best að vera bara ekkert að minnast á þetta við hann, það er samt dáldið fúlt því mig blóðlangar til að gefa honum svona gúrkuilmkerti í ammælisgjöf sem the ultimate revenge fyrir gallabuxurnar sem ég gaf honum einu sinni og hann gekk aldrei í, en vá hann myndi brjálast