stundum þegar maður fer á fætur í myrkri, trén fyrir utan búin að fenna í kaf og göturnar tómar og hljóðlátar, er næstum því ómögulegt að trúa því að einhvers staðar þarna úti sé heimur sem snýst, fólk að bíða á umferðarljósum, opna hurðar, hrasa á gangstéttum, taka strætó, gleyma skiptimiðanum, á slíkum morgnum er eins og húsið manns sé eina húsið í veröldinni
fimmtudagur, 29. desember 2011
miðvikudagur, 28. desember 2011
veimiltítan með vömbina
eftir að hafa glímt við þessi dæmigerðu hátíðarvandamál síðustu daga – eins og lúffuputta, hjartsláttartruflanir og hryllilega hæga meltingu – fór ég á fætur í morgun og sór þess eið að borða ekkert nema gufusoðinn fisk fram að næstu jólum (í augnablikinu er ég reyndar að borða dáldið af laufabrauði en það er næstum ekki neitt, bara smá flís, næstum því ósýnileg), ég er argasti aumingi þegar það kemur að óhóflegu áti og má eiginlega ekki leyfa mér nokkurn skapaðan hlut öðruvísi en að borga tífalt fyrir það með slíkum kvölum og slappleika að það er á mörkunum að mér finnist þetta fyrirhafnarinnar virði, ég er kannski búin að gíra mig upp í ofsalegt sukk og alls konar óhóf, kaupa allt mögulegt og troða ísskápinn svo út að ég þarf að beyta allri minni rýmisgreind til að geta lokað honum en svo þegar til kastanna kemur og átið á að hefjast kem ég andskotann engu að ráði niður og oftar en ekki ratar megnið af matnum í ruslið eða í dall hundsins, viljinn er sem sagt alveg til staðar, það skortir bara dáldið á getuna, með öðrum orðum er andinn sterkur en holdið veikt, holdið vill líka verða meira um sig þegar maður borðar konfekt í morgunmat og hangikjöt milli mála, staðan er þannig að mér sýnist ég komin með aðkenningu að vömb og það þykir mér leiðinlegt, þess vegna flýtti ég mér í leikfimi í morgun þar sem ég rakst á manninn sem þessi kvöldin malar mig í svefn; engilblíðan jón kalman skáld og stórhlaupara (alveg vambarlausan), í leikfimisalnum var töluvert af sveittu fólki en þó enginn jafnsveittur og við jón sem djöflaðist svo á einhverju þoltæki fyrir aftan mig að mér varð hálf partinn um og ó, enn jók á furðu mína þegar maðurinn fór að teygja á og það verður að segjast eins og er að skáldið er lygilega liðugt og ekkert venjulega af karlmanni þykir mér, sjálf er ég með ansi hreint sveigjanlegan skrokk og ég gat ekki annað en hugsað að það væri nú aldeilis gaman ef við jón ættum eitthvað meira sameiginlegt en vel teygðan gluteus maximus, eins og tildæmis að vera bæði skáld, en það er auðvitað ekki þannig, jón er skáld, ég er amatör ... hann kemst samt ekki í splitt
laugardagur, 24. desember 2011
ó dýrð í hæstu hæðum
þér fallega manneskjuögn sem og úniversinu í heild sinni sendi ég tendraða jólakveðju með ljósbylgjunum, konfekt og kærleikur, alheimsást
fimmtudagur, 22. desember 2011
mother christmas is behind schedule, i must away
enn einu sinni er það leitarorðið tartalettur sem leiðir flesta inn á þessa síðu og hefur meira að segja all nokkra tölfræðilega yfirburði yfir orðið nekt sem er þó alltaf á topp þrem sama hvaða árstíð er, á þessum árstíma eru tartalettur auðvitað sérlega ofarlega í huga fólks og því kemur þetta svo sem ekki á óvart en það er ekki laust við að ég hafi ögn slæma samvisku yfir því að fólk sé að fara erindisleysu inná þessa síðu núna þegar tíminn er af skornum skammti hjá flestum og alltof mikið við hann að gera, ef þú sem lest þetta ert að leita þér að uppskrift að tartalettum þá bið ég þig innilegrar afsökunar á því að hafa lokkað þig hingað inn á fölskum forsendum, ég hef ekki hugmynd um hvernig maður býr til tartalettur, ég elska bara að borða þær, hér eru heldur engar myndir af tartalettum, það er ekki nógu mikið glimmer í þeim til að ég geti réttlætt slíka myndbirtingu núna rétt fyrir jól, en hvað dundar maður við annað en auðvirðulega blekkingaleiki um hvað megi lesa á þessu bloggi ... svei mér þá ég bara veit það ekki, jú eitthvað hef ég gert af því að versla jólaskraut fyrir upphæðir sem ég mun aldrei, ég endurtek aldrei, deila með manninum mínum, fólk getur bundið mig niður, plokkað af mér táneglurnar og spilað celine dion á hæsta styrk eða hvað það er sem yfirleitt er gert til að pína svör upp úr fólki, ég hef með sértstökum djúpsálfræðilegum sjáflssefjunaraðferðum gleymt upphæðinni og mun aldrei getað ljóstrað henni upp, eitthvað hef ég líka gert af því ræða þyngdaraukningu hundsins míns bæði við hann sjálfan og aðra, dýrið hefur fitnað leiðinlega mikið í desember og ég útskýrði fyrir honum að ef við tökum ekki í taumana geti þetta orðið varanlegt vandamál, við fórum yfir nokkrar af ástæðum þess að hundar fitni, eins og til dæmis að aukabitar sem hundur stelur af eldhúsborði – harðfiskur, smákökur, brauðskorpur – í bland við það að hreyfa sig ekki á hverjum degi eru algengustu orsakir þess að maður fái björgunarhring og verði mikill um afturendann, dýrið vill lítið ræða þetta, lítur undan og gengur jafnvel svo langt að beina athygli minni að einhverju öðru með því að sýna óþekkt og vera með stæla, ég verð að segja að ég hef áhyggjur, einhvers staðar innra með mér grunar mig að ég eigi að vera mjög stressuð yfir einhverju, hugsanlega því að það eru jól ekki á morgun heldur hinn og ég ekki búin að gera nánast neitt til tryggja að sá atburður gangi fyrir sig með þeim hætti sem fólk gerir almennt kröfu um – þ.e. að börn fái gjafir og þess háttar, kannski að ég rjúki, bless
sunnudagur, 18. desember 2011
fjórði
englaspilið snýst hring eftir hring yfir kertalogunum ekki ósvipað og ellibjé gerði upp í rúmi fyrir nokkru og olli okkur litlu músinni töluverðri sjóriðu, ellibjé er frænkubetrungur í morgunfjöri og þó hann þyrði ekki annað en að hlýða og halda sig í rúminu þegar hann spratt upp klukkan sex í morgun kostaði það meiri sjálfstjórn en lítill maður hefur yfir að búa – skórinn út í glugga í næsta herbergi og svona – og fyrir vikið hentist hann kveinandi enda á milli í rúminu eins og óður tarfur svo lá við slysum og skemmdum á innanstokksmunum, til allrar guðs lukku hafði jólasveinninn sett vatnsliti í skóinn en litir, skæri og lím virka betur en nokkur dáleiðslumeðferð á bola litla og ég gat lagt mig aftur, ekki að það hafi verið leiðinlegt að fara fram úr, herra minn himinhár langt því frá, í eldhúsinu beið piparkökuhúsið sem husband eyddi gærkvöldinu í að skreyta og ég gæti hreinlega hugsað mér að flytja inní, húsið er svo rúmgott og háreist að þar mætti hæglega koma fyrir rólu í risinu og að minnsta kosti þremur hundum í stofunni, franskir gluggahlerar og strompur og ég veit ekki hvað og hvað og hugsa sér ilminn sem leggur um húsið þegar kveikt er upp í arninum, mitt hlutverk nú þegar húsið er risið er svo að planta dáldið af greni í garðinum því það hefur enginn áhuga á að hafa fréttablaðið sem undirlag á flötinni sinni, kveikja svo á kerti á tröppunum og láta snjóa vel yfir grenið, kannski ég finni mér nokkur hreindýr í dag, mér hefur alltaf fundist ég þessi gerð manneskju sem hefur hreindýr í garðinum hjá sér
þriðjudagur, 13. desember 2011
þriðji
hef nú skilað af mér lokamöppum í öllum fögum og þar með klárað mína fyrstu önn í grafalvarlegu mastersnámi sem ég vil nú kalla fagurskrif en ekki ritlist, einhvern veginn hefur manni verið svo rækilega innrætt að rithöfundar séu svo alvarlegt og djúpþenkjandi fólk að ég er sannfærð um að ég geti aldrei tilheyrt þeirri stétt en fagurskrifari er starfsheiti sem ég gæti vel fellt við mig
einhver (kannski sessunautur í matarboði): „halló“
ég: „halló“
einhver: „bla bla bla“
ég: „bla bla bla“
smá þögn
einhver: „hvað gerir þú?“
ég: „ég er fagurskrifari“
smá þögn
einhver (nú skrítinn á svipinn): „já ... það er nefninlega það“
mest undrar mig að þrátt fyrir að mér hafi liðið eins og hvítvoðungi í frjálsu falli síðustu þrjá mánuði séu allir útlimir á sínum stað og höfuðið óskaddað þó enn eimi eftir af óreglulegum hjartslætti og allt of hröðum andardrætti, ég er að hugsa um að láta prenta fyrir mig stuttermaboli með áletruninni: ég lifði af, ... og þó ég á ljóðakúrsinn eftir á næstu önn, best að hreikja sér ekki of snemma, áfanganum fagnaði ég í fyrsta lagi í frábæru jólapartýi með mínum fellow fagurskrifurum og hef í kjölfarið nóterað hjá mér að fjárfesta hið fyrsta í eins og einu ukulele því einhvern veginn er það hljóðfæri þeim galdri gætt að gera alla hluti skemmtilegri og fólk í leiðinni, mitt næsta verk var svo að baka spikfeitar súkkulaðismákökur sem ég skammast mín fyrir að viðurkenna að enduðu svo gott sem allar í mínum eigin maga, í gær voru skyndilega óhugnalega fáar kökur eftir á disknum og mér ofbauð svo svínslegt sukkið á mér að ég henti þeim í ruslið og sullaði uppþvottalegi yfir allt saman, hvað get ég sagt, maður er ekkert nema breisk manneskja og gerir ekki alltaf skynsamlega hluti, til marks um það er ég að hugleiða að baka nýja uppskrift í dag, gæti einhver hringt á fólkið í hvítu sloppunum?
mánudagur, 5. desember 2011
annar
að hengja upp jólaljós og smekkfylla hýbíli sín af greni og könglum er beinlínis heilandi athöfn, eftir að hafa verið lokuð inni með tölvunni minni, orðunum mínum og því ömurlega fyrirbæri ritvinnsluforritinu word (hvernig í andskotanum varð einhver skrilljarðamæringur á því að hanna þetta rusl???) í fleiri daga en nokkurri konu er hollt, tók ég mér ótrúlega verðskuldað - að eigin mati alla vega - frí yfir helgina og sleppti gjörsamlega fram af mér beislinu við að umbylta heimilinu í hreiður fyrir jólaálfa, ég vil ekki hljóma eins og eitthvert monthæns en það er einfaldlega staðreynd að þegar þessi kona hérna fær í hendurnar greni og glitrandi glingur þá bara gerast hlutir! þeir ganga kannski ekki alveg slysalaust fyrir sig, maður er sjálfum sér auðvitað stórhættulegur með þessar greniklippur og fínhreyfingarnar svona í slappari kanntinum en ég hef alla vega vit á að senda heimilisfólkið að heiman á meðan svo ég slasi ekki aðra en sjálfa mig, þegar mér liggur mikið á og er öll einhvern veginn upp í lofti af spenningi á ég það til að handfjatla alla hluti eins og þeir séu brennheitir og missa þá þar af leiðandi stöðugt út úr höndunum og á mínar beinaberu ristar, klaufagangur er hugsanlega mitt helsta sérkenni og ástæðan fyrir því að næst á eftir rökfræðingum eru iðjuþjálfar líklega það fólk sem ég myndi síst vilja mæta í myrkri, en allt í góðu, maður bítur bara á jaxlinn, lætur sig hafa það og bölvar í hljóði svo jesúbarninu bregði ekki, ég er ekki manneskja sem lætur marðar ristar og sundurstungna fingurgóma stöðva sig í baráttunni fyrir fallegri heimi, allt fyrir fegurðina, það er heilög skylda mín og ég mun hvergi hlífa mér!
mánudagur, 28. nóvember 2011
fyrsti
sveikst um að gera aðventukrans á tilhlýðilegum tíma og kveikti þar af leiðandi ekki á fyrsta kertinu í gær, ábyrgðin skrifast alfarið á háskóla íslands, líður mjög illa og finnst ég hafa gert eitthvað virkilega ljótt af mér, mun sýna einlæga iðrun og yfirbót um leið og þýðingin á hinum hættulega fyndna david sedaris er orðin læsileg, þangað til verður fjólubláa aðventunaglalakkið að duga
laugardagur, 26. nóvember 2011
nú skal staðar numið
ég gengst möglunarlaust við því að leggja fullmikla rækt við þessa pocket-útgáfu af geðhvarfasjúklingi sem býr þarna innra með mér, ég veit alveg að maður á ekki að gera svona hluti en ég hef bara enga stjórn á þessu, lífið er okkur komplexeraða fólkinu einfaldlega stundum dáldið ofviða og í ofanálag er maður hallur undir þá hugmynd að gera sér erfitt fyrir, maður þarf auðvitað ekkert að gera svona hluti eins og að segja upp vinnunni og henda sér út í krefjandi listnám þar sem maður er einhvern veginn alltaf í frjálsu falli og stöðugt að ganga í fangið á sjálfum sér hvort sem maður hefur áhuga á því eða ekki, maður kann ekki endilega við það sem mætir manni enda getur maður verið alla vega fyrir kallaður og misþægilegur í viðkynningu, verst þykir mér þegar ég hitti fyrir konuna með krumpuðu sjálfsmyndina, ég verð alltaf jafn rasandi yfir því hvað ein manneskja getur verið hryllilega uppáþrengjandi og taktlaus í samskiptum, ein af þessum týpum sem talar og talar og engin leið er að losna við jafnvel þó maður loki sig inn á klósetti og segist ekki mega vera að þessu, ég kann þá betur við þessa sem á það til að vera á himnaskautum og sprengja partýbombur, hún segir líka betri sögur en hin sem er með dauðann á heilanum, svoleiðis tal getur orðið þreytandi til lengdar, þar sem það er fyrsti í aðventu á morgun og glitrandi jólaskraut og greniilmur handan við hornið vona ég innilega að miss melankólía sé löggst í dvala og leyfi okkur himnaskautastelpunni að þeysast í gegnum þennan bjútíblossa sem desembermánuður er - hlægjandi klukknahlátri og algjörlega utan við okkur yfir því að geta verið að grípa glimmer og kveikja á kertum alla daga, besti tími ársins stendur við þröskuldinn og ég er að pissa í mig af spenningi, helvíts melankólían getur norpað þarna úti í garði fram yfir þrettándann, ég ætla ekki einu sinni að yrða á hana
fimmtudagur, 17. nóvember 2011
lífið er diskódrama
skál, skál fyrir klassíkinni, hégómanum og tilgerðinni, hækkum í carly simon og leggjumst í spegilinn, mæmum með, inn með maga út með rass, allt sem máli skiptir er yfirborðið, annað er tímasóun og vitleysa og leiðir ekki til neins, aldrei að gleyma því, áfram með diskóið, áfram með dívuköstin og yfirdrifnu mónólógana, föllum í öngvit, ekki of lengi samt, fólk gæti fengið leið, höldum dampi og verum intressant og sjarmerandi, ekki klikka á skemmtanagildinu, vertu þá frekar bara heima hjá þér
mynd via bando
laugardagur, 12. nóvember 2011
í sumu fer manni bara aftur
í gær gleymdi ég handtöskunni minni í strætó, ég fattaði það ekki fyrr en í hádeginu eftir að hafa snúið íbúðinni við og ásakað alla nema hundinn um að hafa tekið hana, ég sá fyrir mér að liðið hjá strætó hefði pantað sér pizzu fyrir síðasta tvöþúsundkallinn minn og keypt milljón strætókort út á vísakortið til að stinga í jólapakkana hjá "erfiða" liðinu, þessum sem maður veit aldrei hvað maður á að gefa, áhyggjur mínar reyndust dáldið í yfirdrifnari kanntinum, ég er búin að fara í gegnum veskið og ég get ekki betur séð en þeir hafi ekki einu sinni notað varasalvann, fyrir ekki svo löngu síðan gleymdi ég tölvunni minni í þessum sama strætisvagni – ég er að verða mjög náin fólkinu í óskilamunadeild strætisvagnaþjónustunnar – og var nær dauða en lífi af angist þangað til ég endurheimti hana með erfiðismunum því indæli bílstjórinn ætlaði aldrei að geta látið hana af hendi, hann ætlaði að vera handviss um að hann væri að afhenda réttri manneskju tölvuna, "þú ert alveg með það á hreinu að þetta sé þín talva" þráspurði maðurinn með svo rannsakandi augnaráði að ég hálfpartinn hætti að vera viss um að þetta væri eftir allt saman mín talva, kannski ætti ég bara ekkert í þessari tölvu eftir allt saman, eðlilega hefur barnið hrikalegar áhyggjur af minnisglöpum og afglöpum móður sinnar, hún messar yfir mér, hvernig ég geti verið svona utan við mig, þetta sé stórhættulegt að vera svona ruglaður, það sé ekki í lagi með mig og mér væri hollast að halda mig heima, "þú verður að setja ólina á töskunni yfir öxlina mamma! og ekki sleppa tölvunni, og ekki hlusta á ipoddinn, þú ruglast alveg þegar þú ert bara að hlusta á músík og glápa út um gluggann!" barnið sér fyrir sér að einn daginn gleymi ég mér algjörlega og fari ekki út úr vagninum, verði farþeginn sem festist í leið fimmtán og komst ekki heim til sín, svo verði hringt frá strætó og hún vinsamlegast beðin um að koma að sækja mig, er ekki eitthvað bogið við hlutverkaskiptinguna á þessu heimili?
laugardagur, 5. nóvember 2011
enn af histeríu
taugaveiklun mín og ímyndunarsýki hefur svo sannarlega náð nýjum hæðum, undanfarið þegar ég sit hér í eldhúsinu og horfi inní myrkvað herbergi dóttur minnar sé ég allt mögulegt fara á stjá og gardínur blakta þó hvergi sé rifa á glugga, í morgun rauk ég á fætur sannfærð um að ég heyrði barnaraddir í forstofunni, þar var að sjálfsögðu enginn en ég gat ekki annað en sett þetta í samhengi við það að oftar en einu sinni þessa vikuna hefur mér sýnst rugguhesturinn vagga þó enginn sé nálægt honum, ég óttast að það styttist í hælisvistina, ég róa mig með því að þetta hljóti að tengjast því hvað maður dvelur mikið í ímyndunaraflinu þessa dagana við að spinna upp sögur um fólk sem er ekki til og ekki allt lifandi heldur, þetta hefur örugglega einhver undarleg áhrif á taugakerfið sem skilar sér í mildum ofskynjunum, maður er ekki með sjálfum sér
miðvikudagur, 2. nóvember 2011
þeir síðustu verða fyrstir
ég veit að það hljómar asnalega en ég hálf klökknaði rétt áðan þegar mér varð litið inn á vef ríkisútvarpsins og sá myndir af gyrði elíassyni að taka við norrænu bókmenntaverðlaununum, eins og hann væri frændi minn eða eitthvað þess háttar, sem hann er ekki, því miður
föstudagur, 28. október 2011
ég dauðskammast mín
það er eitthvað agalegt við það að annar hver maður sem ratar hingað inn á þessa síðu geri það með því að slá inn leitarorðið "nekt", hvers konar manneskja er ég eiginlega!
miðvikudagur, 26. október 2011
dead woman walking
haustljóð hljóta að vera púkalegust allra ljóða, þau eiga sér vissulega nokkuð harðan keppinaut í öðrum árstíðaljóðum en samt, ég þarf ekki nema renna öðru heilahvelinu í átt að hugmyndinni um haustljóð til að líða hálfilla, ég fer hreinlega hjá mér, núna þegar ég stend frammi fyrir því að eiga að skrifa eitt slíkt ljóð gæti ég vel hugsað mér að grafast undir fjalli af laufum og finnast ekki fyrr en í janúar, þá gæti ég hugsanlega sagt eitthvað innan skammarmarka um kulda og myrkur, kuldi og myrkur eru svo sammannleg fyrirbæri, kannski af því þau eru ekki síður innra með manni en fyrir utan, haustlauf eru ekki eitthvað sammannlegt, haustlauf eiga það sífellt yfir höfði sér að verða plebbaskapur, hversu vont skyldi þetta geta orðið? ég held að möguleikarnir séu óþrjótandi, kannski ætti ég bara að vera dáldið borubrött andspænis öllum þessum óteljandi leiðum til að mistakast, það er óneitanlega ákveðin huggun í því að vita hvernig þetta fer
þriðjudagur, 18. október 2011
maður telur sig þekkja sjálfan sig...
án þess að ég þori að nefna það við nokkurn mann hefur skelfilegur grunur – mér liggur við að segja ótti – hreiðrað um sig djúpt innra með mér, jafnfáránlega og það hljómar þá hef ég fyrir því nokkuð sterkar vísbendingar að ég sé eftir allt saman – þvert á það sem ég hef áður talið – óskaplega ódramatísk og tilfinningalega óspennandi kona, hver hefði trúað þessu, þetta er mikið áfall, en ég er hrædd um að þetta sé samt tilfellið, svona hlutum kemst maður að um sjálfan sig þegar maður stundar nám í ritlist, bekkjarsystkini mín keppast við að skrifa eldheitar ástarsenur og ofsafengnar lýsingar á tilfinningaátökum þar sem fólk týnir á víxl spjörunum og lífinu og guð má vita hvað en ég gott fólk, ég geri ekki annað en að skrifa texta um félagslega vangefið fólk með plastpoka á höfðinu og ónýt talfæri, hjá mér er enginn að kyssast, enginn allsber og alls enginn að hækka róminn, hvað þá að drepa einhvern jesús góður, þetta ætti kannski ekki að koma mér svona á óvart, ég hefði til dæmis átt að geta sagt mér það sjálf að fólk eins og ég sem er með einn í extróvert sé eðli málsins samkvæmt ekki sérlega lúnkið við að skrifa samtöl, aftur á móti tel ég líklegt að ég gæti náð töluverðri færni í að skrifa sögur út frá sjónarhorni innyfla, t.d. miltans, miltað í fólki eyðir ekki tíma í að standa á kjaftasnakki við önnur líffæri, það gerir bara það sem það gerir sem er svona... ja allskyns hlutir sem miltu gera, auðvitað vildi ég óska að ég gæti sagt með algjörri sannfæringu að þetta skipti engu máli því persónulega finnist mér samtöl ofmetin í skáldskap, það sé hvort eð er miklu meira spennandi að glíma við afstöðu og skynjun miltans á umhverfi sínu, en ég er hrædd um að ég geti það ekki, ég er ekki svo gjörsamlega handan við heilbrigða skynsemi (þó maður sé auðvitað alltaf á allra tæpasta vaði þar) að ég sjái ekki í hendi mér að maður verði bara að gjöra svo vel og hlýða kennaranum og æfa sig, æfa sig alveg ofboðslega, satt að segja veit ég ekki hvort mér endist ævin í allar þessar æfingar en maður verður bara að vona, maður getur ekki farið að daga uppi sem kellingin með miltað
þriðjudagur, 11. október 2011
just keep swimming just keep swimming (syngist glaðlega)
ég hef aldrei getað tileinkað mér almennilega hugmyndina um markmið, ég er ekki góð í markmiðum, til þess er ég bæði full hvatvís og alltof hrifnæm, berst of auðveldlega af braut, læt glepjast, gleymi mér, þetta eru örlög okkar sem látum stjórnast af skynfærunum en erum öllu blankari af rökhugsuninni, ef ég má tala alveg opinskátt (sem ég hlýt fjandakornið að mega, þetta er mitt andskotans blogg) þá held ég að það geti verið stórhættulegt að einblína á eitthvert markmið, ég held að maður geti hreinlega misst af lífinu á meðan, ég er veikari fyrir hugmyndinni um að halda þræði, grípa í spotta sem skyndilega stingur sér upp á milli laufblaða eða fellur niður af himininum án sýnilegrar skýringar og rekja sig svo áfram, eins og úlfur sem fylgir slóð og ætlar sér ekki annað en að komast að því hvert hún leiði hann, ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að þetta er það sem hinn skynsami maður kallar að vera stefnulaust rekald í eigin lífi, slíkt hlutskipti þykir ekki eftirsóknarvert og í sumum tilvikum jafnvel refsivert, en ég vil samt frekar vera slíkt rekald heldur en að róa að því öllum árum að koma mér nær einhverju markmiði sem ég veit ekki einu sinni hvort að er eftirsóknarvert fyrr en ég næ því, kannski mun mér meira að segja finnast það hundleiðinlegt og heimskulegt, margt sem mér fannst frábært fyrir fimm árum finnst mér ömurlegt í dag, eins og til dæmis ofvaxnir tvíhöfðar, hvers konar úrkynjun er það? og ég get ekki hugsað mér að vita með vissu hvar ég verði eftir fimm ár, það væri hræðilegt, eina markmiðið sem ég er tilbúin að helga mig af heilum hug er að vera skapara mínum til sæmilegs sóma, en það geri ég ekki með einhverju vel skilgreindu langtímamarkmiði heldur með hænuskrefunum, halda áfram að rekja spottann, stíga varlega til jarðar og leggja við hlustir, anda djúpt og horfa vel í kringum sig, svo allt í einu gengur maður kannski í fangið á einhverju alveg óvæntu, spennandi
laugardagur, 8. október 2011
gottneski geðsjúklingurinn
á meðan smábylurinn sigríður gekk yfir landið í nótt lá ég hálfvitstola af ótta upp í rúmi og beið eftir að gasgrillið kæmi æðandi innum svefnherbergisgluggann, það er eitthvað við það að liggja andvaka sem virðist sjálfkrafa hafa þau áhrif að einhver ofvöxtur hlaupi í taugakerfið og maður verði heltekinn af alls kyns ímyndunarsýki, sem endranær var lítil stoð í eiginmanni mínum sem hafði drukkið töluvert meira af slökunarmeðali fyrir háttinn en ég og hraut friðsælt upp í eyrað á mér, ég dró sængina betur upp fyrir haus og reyndi að róa mig niður, hugsaði með mér að þetta gæti verið verra, til dæmis ef ég væri nítjándualdarmanneskja, þá væri ég svo gott sem dauð, í nítjándualdar skáldsögum má ekki hreyfa vind án þess að eitthvað ægilegt gerist, ég tala nú ekki um ef maður er svo óheppinn að vera persóna í sögu eftir poe, hefði ég verið ein slík í nótt og til dæmis hætt mér fram á klósett er gefið mál að ég hefði gengið beint í fangið á minni eigin vofu eða fundið hundinn minn sundurristann á eldhúsborðinu og öll vegsummerki bentu til þess að ég hefði sjálf framið glæpinn þó ég myndi ekkert eftir því, í framhaldinu myndi ég svo að sjálfsögðu missa vitið, fólk er dáldið í því hjá poe að missa vitið, ekki síst í óveðri, þannig að maður má víst bara prísa sig sælan að vera nútímamanneskja og eiga ekki alvarlegri hluti yfir höfði sér þegar maður leggst til svefns í vondu veðri en að vera kramin til dauða af gasgrilli, ég er svo sannarlega heppin
sunnudagur, 2. október 2011
í huga þess sem hefur fullkomna stjórn á sínu innra lífi
ef þetta verður mikið flóknara er ég hrædd um að afleiðingarnar gætu orðið aðrar en maður ætlaði sér í upphafi, ég sé fyrir mér eitthvað sem hefur fuðrar upp, en ég ætla ekki að hugsa um það núna, núna hef ég þetta allt í hendi mér, núna ætla ég bara að hugsa um að það er ekki til siðs að sleikja kaffibollann þó hann bragðast vel, svo ætla ég sjá möguleikana í þessu veðri og hvað ég sé heppin að vera réttu megin við eldhúsgluggann minn, ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að hugsa eftir það en mér dettur örugglega eitthvað í hug, það gæti hugsanlega haft eitthvað með eirík guðmundsson að gera en ég ætla samt að forðast hugsunina um að hann sé afar vörpulegur karlmaður, aðallega af því að mér líkar illa að beygja mig að almannaálitinu, það sem eftir lifir dags mun ég velta öllu mögulegu fyrir mér, bæði hlutum sem snerta mig beint akkúrat núna en líka óteljandi atriðum sem munu aldrei hafa nein áhrif á líf mitt, eða alla vega ekki þannig að ég geti séð það fyrir núna, en ég ætla ekki að hugsa um það strax, allt verður að hafa sinn tíma og maður verður að hafa stjórn á höfðinu á sér, ég er mjög góð í því, fipast nánast aldrei, í alvöru talað
miðvikudagur, 28. september 2011
mánudagur, 26. september 2011
í dag er oss frelsari fæddur...sem er til lítils þegar fólk vill ekki frelsast
vonbrigði mín eru algör, ég er gersigruð, í barnaskap mínum og einfeldni (og guð veit að af hvoru tveggja á ég nóg) hélt ég að nýhafið háskólanám mitt og sú massíva tölvunotkun sem það útheimtir yrði til þess að eiginmaður minn hyrfi frá villu síns vegar og læknaðist af tölvufíkninni sem er hann lifandi að drepa, ég gekk að því sem gefnu að þegar talvan væri meira og minna "ekki í boði" myndi maðurinn neyðast til að finna sér eitthvað annað að gera - til dæmis hjólreiðar eða leirkeragerð svo eitthvað sé nefnt - og þannig myndi ég (halelújah) ósjálfrátt beina manninum á rétta braut og stuðla að einhvers konar andlegri endurfæðingu (það dylst vonandi engum hvernig ég kristgeri sjálfa mig hér alveg skammlaust), þetta yrði eins og það sem í heimi viðskipta og stjórnmála kallast "a benevolent takeover" og á að ganga tiltölulega átakalaust fyrir sig, en herra minn herra minn himinhár, bjartýni mín og bjargföst trú á eigin umbreytingarmátt er augljóslega byggð á algerri óskhyggju þess sem vill vel en veit ekki betur því þessi maður er greinilega af þeim slóttuga meiði manna sem lætur ekkert stöðva sig hafi hann einu sinni fengið augastað á einhverju, það fékk ég vottað og skjalfest seinni partinn í gær þegar leiðindi hins aðgerðalausa manns náðu slíkum botni að hann brunaði niður í bæ - sjálfsagt með báða fætur á bensíngjöfinni - og festi kaup á... ég veit ekki hvernig ég á að koma orðum að þessu öðurvísi en beint, tölvuleik, í algjörum leiðindum sínum og örvæntingu mundi eiginmaðurinn ístöðulausi nefninlega að í herbergi unglingsins er talva af gerðinni playstation 2 og sá í hendi sér að þarna væri rifa á glugga út úr þeim vistarverum tómleikans sem hann hafði svo miskunnarlaust verið læstur inní, og af því að maðurinn hefur að undanförnu ekki einungis þurft að horfa á eftir sinni heittelskuðu tölvu inní handanheiminn heldur eiginkonunni líka varð valið á leiknum eins agalegt og það frekast getur orðið - alla vega í augum okkar kvenna sem er naumt skammtaður barmurinn - því maðurinn sneri heim í fylgd konu með hreint undarlega samsettan skrokk og engu betri samvisku, nefninlega hins alræmda og íðilfagra grafarræningja löru croft (ath ég gef mér hér þá forsendu að valið á leiknum megi rekja til þess að eiginmaður minn sé bugaður af söknuði eftir mér, forsendan á kannski ekki við nein rök að styðjast), en ekki nóg með það, eiginmaður minn er langt frá því að vera sá tornæmi þumbi sem maður vill gjarnan gefa sér að tölvufíklar séu og hann hefur greinilega áttað sig á hvers konar kenndir kaup hans á leiknum myndu vekja hjá mér, en í stað þess að ræða málin eins og maður þegar hann kom heim og viðurkenna vanmátt sinn og vanda, greip hann til slíks neðanbeltisbragðs að helst mætti við líkja að stinga sleikipinna uppí barn sem gólar á almannafæri til að fá það til að þegja, þ.e. hann færði mér tónlist, þið sjáið að ég fór engu offari í orðanotkun þegar ég kallaði manninn slóttugan, en það versta er enn eftir því maður má ekki gleyma því að vont vill alltaf versna og verða verra en mann gat nokkru sinni órað fyrir, fólki finnst það líklega nógu slæmt að fullorðinn karlmaðurinn liggi þarna inni hjá unglingnum og djönki sig með innihaldslausri afþreyingu á meðan leirtauið myglar í vaskinum, en öllu agalegra er að hann hefur náð að smita yngra barnið af sinni sjúku fíkn og berskjaldaður sakleysinginn ætlaði aldrei að ná sér niður fyrir svefninn í gærkvöldi og neitaði svo að fara í skólann í morgun því hún vildi vera heima að spila tölvuleik með föður sínum, eðlilega engist ég ábyrg móðirin nú af ótta yfir því að dóttir mín verði einn af þessum einstaklingum með enga félagsfærni og muni auk þess aldrei komast yfir þær fáránlegu ranghugmyndir sem leikurinn gefur um líkama kvenna, þið afsakið hvað maður er óðamála en ég er bara svo miður mín, þetta átti ekki að fara svona, það var eitthvað allt annað sem ég hafði í huga, en ég veit svo sem ekki af hverju ég er svona vonsvikin, þrjátíu og sex ára gamalli konu ætti að vera orðið það fullljóst að það er jú biturt hlutskipti karlmanna að valda konum vonbrigðum
laugardagur, 24. september 2011
eintal þess sem er fullviss um að enginn sé að hlusta
eitt er að ætla þrátt fyrir ótrúlegar annir að leyfa sér munað á borð við þann að raða saman stöfum og koma þeim fyrir hér fyrir framan sig svo úr megi lesa eitthvert lítilræði sem hugsanlega væri ekki algjör tímaeyðsla, að ná í það sem mann langar til að segja þarna niður í ystu myrkur þar sem það lúrir líkt og dreki í djúpu lyfjamóki er svo eitthvað allt annað, við skulum gefa okkur það strax að það muni ekki takast og þá um leið ákveða að það sé ekkert kosmískt stórslys þó skepnan sofi áfram og stafrófið hangi ósamsett í lausu lofti, heimurinn sé ekki að fara á mis við neitt óumræðanlega mikilvægt, þetta muni allt bjargast án manns, mesta hættan er alltaf sú að maður fari að ímynda sér einhverja vitleysu eins og að auð síða jafngildi glötuðum hugmyndum, glötuðum í merkingunni týndum, horfnum, dánum jafnvel, því ef maður sé ekki stöðugt að festa lífið á blað sé maður að týna alls kyns góssi sem maður vissi ekki einu sinni að maður ætti í fórum sínum, þetta ástand er fullkominn andstæða þess sem uppá engilsaxnesku kallast að vera "blissfully unaware" og ég ætla hér að þýða sem að vera uppljómaður af meðvitundarleysi, þetta er auðvitað ranghugmynd en ég er veik fyrir ranghugmyndum, þær eru alla vega hugmyndir, í augnablikinu er minn dýpsti ótti hugmyndaleysi, hugmyndaleysi og tilgerð, líklega er rótin að þessum ótta grunurinn um að einn daginn eigi áhugaleysi mitt á veruleikanum eftir að koma mjög illilega í hausinn á mér, beðið eftir boomeranginu og neglurnar komnar niður í kviku
laugardagur, 17. september 2011
somethings gotta give!
að því undanskildu að mig vantar nauðsynlega tíu klukkutíma í sólarhringinn er lífið afbragð, bekkjarfélagarnir eru smám saman að skríða út úr skelinni og ég sé glitta í fólk sem ég held að eigi eftir að verða vinir mínir, ljúfi kennarinn veit upp á hár hvað hann er að gera og hefur lag á að róa titrandi taugar og sjálf sýni ég fordæmalausa óvægð í framgöngu minni gegn mínum innri aumingja, sá ömurlegi úrtölumaður er bæði hávaðasamur og dónalegur eins og illa drukkinn maður á bar sem hefur algjörlega misst sansinn fyrir því hvað er viðeigandi að segja við fólk, ég hef í gegnum tíðina brugðist við blammeringum þessa hálfvita með misgáfulegum hætti, allt frá því að hengja haus og leifa honum að ausa yfir mig alls kyns óhæfu til þess að slá hann full kellingalega utan undir og fá svo húrrandi móral á eftir, uppá síðkastið hef ég aftur á móti hrækt í andlitið á honum og sagt honum að drullast til að káfa á einhverjum öðrum rassi, minn sé í ofurstelpunærbuxunum með sjálfvirka raflostbúnaðinum sem drepur menn eins og hann, vandinn við að vera í ofurstelpunærbuxum er að maður strikar aldrei neitt út af verkefnalistanum sem verður hreint ógnarlangur þegar maður skráir sig í mastersnám og það er nú ekki eins og hann hafi verið neitt stikkorðaplagg fyrir, þar af leiðandi ligg ég andvaka flestar nætur eins og vandlega upptrekkt apparat sem um leið og maður sleppir takinu af því tryllist algjörlega og skoppar af stað yfir borðplötuna í æðisgengnum tripphopp takti, það leiðinlega við svona apparöt er að nánast undantekningalaust hendast þau fram af borðinu og missa útlim, jafnvel höfuð, titra svo krampakennt í smá stund áður en þau stöðvast fyrir fullt og allt, komin veg allrar veraldar þar sem engar endurlífgunaraðferðir duga til að koma þeim í sitt fyrra æsta form, sem eru kannski ekki endilega þau örlög sem maður getur helst hugsað sér
það er svo allt annað mál að það er óralangt síðan ég hef séð minn yndisljúf ellabjé dásemdardreng og litlu músina systur hans og óttast stórlega að staða mín sem uppáhaldsfrænka sé í hættu, slíkt má ekki henda, best að kaupa stóran poka af haribo hlaupi og sleikja litla fólkið upp
miðvikudagur, 14. september 2011
örmagna
mig langar til að segja eitthvað fallegt en er hálfuppiskroppa með fegurð í augnablikinu, ég er búin að vera með kökk í hálsinum bróðurpartinn af deginum og nú er höfuðverkurinn að rífa úr mér augun, ég ætla að finna koddann minn og biðja guð að endurnýja mig í nótt
fimmtudagur, 8. september 2011
skáldið og smáborgarinn
með yfirbragði þess sem er eilítið villtur og að frjósa úr kulda í þokkabót arkar nóbelskáldið herta müller í gegnum austurstrætið í fylgd einhvers sem ég gef mér að sé eiginmaður hennar, þau ganga hratt framhjá tíu ellefu, nema svo snöggt staðar og benda í átt að búðinni eins og þau hafi skyndilega áttað sig á að þetta sé matvörubúð og það sé einmitt það sem þeim vanti í augnablikinu, þaðan sem ég sit á annarri hæð bókabúðarinnar eymundsson get ég ekki annað en dáðst að glöggskyggni nóbelskáldsins því gluggar matvörubúðarinnar eru þaktir risavöxnum límmiðum af pilsnerflöskum ásamt stuttum texta um "sögu pilsnersins á íslandi" (jafn fáránlega og það hljómar, í hljóði þakka ég guði fyrir að herta lesi ekki íslensku) og því hægara sagt en gert að átta sig á að þarna sé selt eitthvað sem yfir höfuð sé hægt að tyggja, hjónin verða svo greinilega sammála um að láta reyna á vöruframboðið í hinni torkennilegu búð og drífa sig inn fyrir, þegar inn er komið sé ég að þau staðnæmast strax við goskælinn og eiginmaðurinn teygir sig í hálfslíters flösku af því sem ég get ekki betur séð en að sé egils sódavatn með sítrónubragði (hér hlýtur fólk að staldra við og undra sig á ótrúlegri skerpu augna minna en þetta uppsker maður af því að éta svona mikið af ólífum og auk þess gerir sjúkleg forvitni auðvitað magnaða hluti fyrir athyglisgáfuna), einhverra hluta vegna skilar maðurinn flöskunni og þau fara lengra inn í búðina svo þau hverfa úr augsýn, í sama bili kemur maður út úr búðinni sem ég ákveð samstundis að sé einnig ferðamaður, aðallega vegna þess að hann er með stóran fjallabakpoka og heldur á plastboxi sem hann hefur greinilega fyllt á salatbar búðarinnar (þó persónulega finnist mér umdeilanlegt hvort fyrirbærið geti staðið undir því að geta kallast jafn háleitu nafni og salatbar) og nú stendur hann í miðju austurstrætinu og mokar innihaldinu upp í sig með þar til gerðum plastgaffli og "borðsiðum" þess sem er of svangur til að hafa áhyggjur af því hvað fólki finnist um háttalag hans, maðurinn sem er vel yfir miðjan aldur, hálf illa til fara og með sítt og mikið skítugt hár hefur á sér eitthvert flækingsyfirbragð og það sem stingur mig sérstaklega er að þrátt fyrir að vera þokkalega hlýlega búinn er hann berfættur í svokölluðum krokks-skóm, berir fætur mannsins í bláum skónum kalla samstundis fram í huga mér mynd af gæs sem ég gekk framhjá fyrr um daginn og spígsporaði í vatninu við ráðhús reykjavíkur, til merkis um það hvað maður er ömurlega fastur með höfuðið upp í eigin rassi þá helltust yfir mig áhyggjur af því hvort dýrinu væri ekki agalega kalt á fótunum, nokkuð sem hlýtur að teljast fáránleg hugmynd gagnvart gæs en töluvert meira viðeigandi gagnvart hinum sokkalausa útlendingi, ég er niðursokkinn í að velta upp hugsanlegum skýringum á sokkaleysi mannsins þegar herta og eiginmaður koma strollandi út úr búðinni með plastpoka í þessum viðurstyggilega græna lit sem eitthvert markaðsviðrinið ákvað að væri best til þess fallinn að skapa trausta viðskiptavild í brjósti fólks í garð þessa glæpaapparats í búðarbúningi, verandi sá smáborgaralegi plebbi sem ég svo sannarlega er halla ég mér nær glerinu og reyni að greina innihald pokans, þrátt fyrir mín haukfráu augu - sem mig er á þessum tímapunkti reyndar farið að verkja all verulega í - þori ég að fullyrða það eitt um verslunarferð þeirra herr und frau müller að þau hafi greinilega komist að því að það séu betri kaup í tveggja lítra flösku af egils sódavatni heldur en smærri flöskunum, nokkuð sem ég held að hljóti að teljast hárrétt niðurstaða í málinu og sjálf hefði ég aldrei látið mér detta annað til hugar, ég tek eftir að það er merkilega lítið í pokanum miðað við allan tímann sem hjónin eyddu inn í búðinni og hugsa með mér að þrátt fyrir smæð hennar hafi lélegt skipulagið og bjánaleg breidd í vöruúrvali líklega borið þau ofurliði og því hafi þau ákveðið að gera sér sódavatnið að góðu, það sé einfaldara að nota minibarinn og herbergisþjónustuna á hótelinu, ákvörðun sem ég get ekki annað en haft fullan skilning á því sjálfri þykir mér óþolandi að versla í ókunnugum stórmörkuðum og hafa ekki græna glóru um hvar ég finni hinar sjálfsögðustu nauðsynjar svo ekki sé minnst á hvað það er óviðeigandi að hrasa um nærbuxur og ullarsokka í næsta rekka við mjólkurkælinn og áleggið, þegar hjónin hverfa fyrir hornið á pósthússtrætinu get ég ekki annað en hugsað um það sem ég heyrði skáldkonuna segja í viðtali fyrr um daginn þegar hún lýsti reynslu sinni af ógnarstjórn og ofsóknum og ekki síst hungri á tímum einræðisins í rúmeníu
"sá sem hefur næstum dáið úr hungri borðar alltaf öðruvísi en hinir"
mánudagur, 5. september 2011
mig dreymir, þess vegna er ég
barnið er í uppnámi, þrátt fyrr yfirmáta ríkt ímyndurafl og góðan vilja er það smám saman að renna upp fyrir henni að hún muni aldrei verða hafmeyja, ég bít í tunguna og hem mig um að benda á að margt annað sem mann dreymir um verði ekki að veruleika, eins og til dæmis að verða rokksöngkona eða höfrungatemjari (það voru ljótu vonbrigðin maður), en ég þegi bara, draumar eru nefninlega nauðsynlegir, það eru draumar en ekki rökhugsunin sem greina manninn frá dýrunum, já og auðvitað sjálfsvorkunin, en hún er reyndar náskyld brostnum draumum
laugardagur, 3. september 2011
hamingjuhamfarir
það er í alvöru talað með algjörum ólíkindum hvað ein kona getur verið hamingjusöm, orðið hamingja nær auðvitað engan veginn utan um mitt andlega ástand, ég er aðalsöguhetjan í litríkri dans og söngvamynd þar sem göturnar glitra í hlýrri haustbirtunni og fuglarnir blístra óðinn til gleðinnar, glaðasta barnið á trampólíninu með búnt af skærgulum gasblöðrum í hendinni, sirkustelpan í rólunni sem svífur í þokkafullum boga yfir áhorfendapöllum fullum af hlæjandi fólki með poppkorn og sleikipinna, stóreyga skólastelpan sem tekur strætisvagninn á hverjum morgni með nýja blýanta í töskunni og stílabók með dásamlegum teikningum af þykkblöðungum sem bíður eftir að fyllast af orðum, indian summer í reykjavík og ævintýrið er hér, staðan í netbankanum er að vísu með allra daprasta móti og eiginlega alveg ævintýralega slæm en það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina í því samhengi, að einhver sé hreinlega tilbúinn til að lána manni peninga til að maður geti skottast um innviði háskóla íslands með bestuvinkonu sinni og velt sér upp úr því sem manni þykir skemmtilegast og fegurst í veröldinni er svo fáránlegur rausnaskapur að maður veit varla hvert maður á að horfa, svo maður horfir bara til himins og segir takk góði guð, hugsar svo um mömmu sína sem gerir allt fyrir mann og veit að maður er ótrúlega heppin, eins gott að fínstilla athyglisgáfuna og depla ekki auga svo maður missi ekki af einu einasta augnabliki, hamingja
mynd: jen gotch
laugardagur, 27. ágúst 2011
tilraun til að tjilla
í allan dag hefur mér liðið eins og ég sé að gleyma einhverju, sem kemur líklega fyrst og fremst til vegna þess að ég ákvað að taka daginn frekar rólega og vera ekki að drepa mig með öllum þessum heimatilbúnu skyldum sem plaga mig flesta daga (drulla mér út að hlaupa, lesa eitthvað af viti, skrifa eitthvað af viti, rífa hurðarnar af hjörunum og þrífa fölsin með tannbursta), kæruleysið í mínum kroppi náði meira að segja slíkum hæðum að meirihluta seinni partsins dundaði ég við þá iðju sem hvað gleggst gefur til kynna að maður hafi dáldið af tíma til umráða og sé tilbúin til að fara frjálslega með hann, sumsé að strauja (allir rólegir, ég er heimilistryggð), það er í alvörunni mjög róandi, ég hélt mig samt eingöngu við minn eigin fataskáp og fann ekki til nokkurrar ábyrgðar þegar husband fór í krumpuðu hermannabuxurnar og hvarf svo út um útidyrahurðina á leið á gusgus tónleika sem ég treysti mér ekki með á sökum einhverfutendensa og fylliríisfóbíu, maður er ekki beint gerður til að vera sósíal og stundum er það mér bara algjörlega ofviða að standa of nálægt einhverjum sem ég veit ekkert hvort hefur þvegið sér um hendurnar nýlega, þess í stað hefur maður það eins huggulegt og frekast getur orðið aleinn með sjálfum sér og sínum hundi, étur hnetur í óhóflegu magni og drekkur bjór, spilar músík og hefur ekki fyrir því að klæða sig, gleymir sér við að gleyma einhverju, það rifjast svo kannski upp fyrir mér á morgunn hverju ég er að gleyma, og þá verð ég alveg brjáluð yfir öllu andskotans straujdútlinu
mynd: cannelle-vanille
laugardagur, 20. ágúst 2011
einfaldir eru ekki alltaf sælir, stundum eru þeir bara asnalegir
þó það þyki ekki smart á þessum tímum sjálfsánægjunnar þá mun ég aldrei reyna að halda öðru fram en að ég sé ákaflega einföld sál, og þó ég spretti á fætur á hverjum morgni og gaumgæfi huga minn í von um að komast að því að ég hafi loksins tekið út síðbæran andlega þroska og finni innra með mér himinn og haf alvöruþrunginnar djúphygli og óskeikullar dómgreindar þá er spurning hvort ég þurfi ekki að fara að sætta mig við að þetta muni aldrei verða að veruleika og gera þess í stað viðeigandi ráðstafanir til að forða mér og öðrum frá þeim óþægindum sem reglulega hljótast af mínum eðlislæga aulaskap, eitt af því sem hendir einfeldninga eins og mig er að lenda í aðstæðum sem maður sá ekki fyrir og átti engan veginn von á vegna þess að maður hrapar fullhratt að niðurstöðu og á það til að hugsa um of í staðalmyndum, þetta getur komið í bakið á manni.......... ja eða komið við bakið á manni eins og ég lenti í í gær þegar ég lagði leið mína á eina fínustu heilsulind bæjarins til að leysa út tíma í nuddi sem elskulegu bestuvinkonur mínar gáfu mér í ammælisgjöf nýverið, ég nota minn skrokk mikið og er oft aum í vöðvunum í samræmi við það svo eðlilega elska ég svona olíuborin hnoðsessjón með kertaljósum og slökunarmúsík og öllu og var vægast sagt full tilhlökkunar fyrir tímann, við komuna var mér afhentur risavaxinn baðsloppur, handklæði og inniskór og var tilkynnt að......... við skulum bara kalla hann valgarð (hann hét það samt alls ekki) myndi sækja mig innan skamms, hafðu það kynímyndakreddukelling, karlmenn geta líka verið nuddarar, gott og vel, ég fór í gufuna og á meðan svitaholurnar hömuðust við að spýta út óhreinindum og salti reyndi ég að gera það upp við mig hvort ég ætti að láta þetta koma mér úr jafnvægi, þetta væri óneitanlega dáldið undarlegt að vera svona berrassaður fyrir framan ókunnugan mann, ég var samt fljót að hrista af mér tepruskapinn þegar ég hugsaði málið betur því auðvitað eru allir karlkyns nuddarar þessar gandhi-týpur, svona guðni í rope-yoga gaurar sem virðast nánast algjörlega andlegar verur og sjá líkama fólks eingöngu sem mjög flókið orkustöðva- og punktakerfi gert til tæknilegrar meðhöndlunar, ég klæddi mig því í sloppinn og hlammaði mér niður í setustofunni og hætti að spá í að ég væri að striplast þetta á pjásunni annars staðar en heima hjá mér, ég var niðursokkinn í að fletta vogue og ergja mig á öllu kjaftæðinu sem er skrifað í það blað þegar valgarð kom að sækja mig og ég fékk hressilega á baukinn, hann var ekki vitund líkur guðna í rope-yoga og ekki gandhi heldur, hann leit eiginlega frekar út fyrir að vera í unglingalandsliðinu í fótbolta og vinna við módelstörf í hjáverkum, andskotinn, ég kom mér fyrir á nuddbekknum og snarhætti við að biðja um öflugt mjaðmanudd eins og ég hafði hugsað mér, "bara herðar og bak takk", næstu þrjátíu mínútunum eyddi ég svo í að reyna að líta fram hjá því að ég væri stödd allsber í mjög litlu kertalýstu rými með bláókunnugum karlmanni og hann væri með rakspýra, fljótlega varð alvara málsins mjög alvarleg þegar valgarð byrjaði að nudda og það rann upp fyrir mér að nuddarar snerta mann mjög mikið, sem er mjög undarlegt þegar maður hefur verið giftur lengi og ég gat ekki annað en spurt sjálfa mig í sífellu "fokk! má þetta?", í gegnum gatið á nuddbekknum þar sem ég hvíldi andlitið sá ég að valgarð stundar sína vinnu berfættur og hugsar greinilega vel um sínar tær, þar sem ég hafði þegar gerst sek um alls konar sleggjudóma þennan daginn ákvað ég að gefa mér það að einhver sem hugsi svona vel um fæturna á sér hljóti að vera gay, þetta gerði sitt til að draga úr þeirri tilfinningu að ég væri alveg óvart "lent í" framhjáhaldi og hefði án þess að ætla mér það brotið neðanmálsgrein í hjúskaparsáttmálanum um að maður eigi aldrei að vera allsber og olíuborinn með öðrum en maka sínum, það hjálpaði enn frekar þegar valgarð tók óvænt tvist í nuddinu og fór að losa upp á mér herðablöðin og þrýsta á svo helauma punkta í mjóbakinu að það var engu líkara en hann væri að dunda sér við að tína úr mér taugarnar og gera úr þeim teygjubyssu, "fínt" hugsaði ég og þegar hann svo spurði hvort hann væri alveg að drepa mig svaraði ég hratt "nei alls ekki, endilega meira svona" og lá svo og svitnaði af sársauka dauðfeginn yfir því að maðurinn væri hættur að strjúka mig þetta hátt og lágt, valgarð fékk eftir þetta mörg prik fyrir að hafa afar sterka þumalfingur en það þykir mér mikill kostur í fari nuddara og ég er ekki frá því að það hjálpi mér við að horfa fram hjá kynferði hans, þegar heim kom fannst mér ég knúin til að játa hinn slysalega glæp fyrir husband sem tók þessu furðu fálega, svo fálega að ég velti því fyrir mér hvort að hann sé í raun alveg sjóðandi illur og sé að leggja á ráðin um að panta sér sjálfur tíma í nuddi og taka sérstaklega fram að hann vilji að nuddarinn sé kvenkyns, og með ilmvatn, og mjög sæt.........nei ég veit það ekki ég er kannski að gera aðeins of mikið úr þessu,
sunnudagur, 14. ágúst 2011
talnaspeki og ársuppgjör á öðrum í ammæli
þrjátíu og sex, þrír plús sex gera níu (er það ekki.......) og kettir hafa níu líf, ljón eru kettir, ég er ljón, þrisvar sinnum sex eru...........átján, níu plús níu eru líka átján (hér varð ég að telja á fingrunum), talan níu sækir sem sagt að mér úr öllum áttum nú þegar ég legg af stað inní þrítugasta og sjöunda árið í æfingabúðunum "tilraun til að verða betri manneskja en ekki svona viðbjóðslega komplexeraður", þrjátíu og sex að baki og maður hefur staðið sig misvel í verkefnunum, stundum afleitlega, stundum hefur maður meira að segja klárað heilt ár og eiginlega ekki fengið nein stig nema rétt þetta eina sem maður fær fyrir lágmarksviðleitni til að draga andann, verið heilsuveill og deprímeraður og með alltof mikið af eldgömlum verkefnabókum í bakpokanum, mörgum ókláruðum og sumstaðar búið að krota svo mikið yfir að það er ekki einu sinni hægt að rifja upp það sem var verið að reyna að kenna manni, en stundum hefur maður líka staðið sig prýðilega og gott ef maður er ekki að sækja í sig veðrið núna á allra síðustu árum, ég þori meira að segja að fullyrða að þrítugasta og sjötta árið hafi verið það besta til þessa, ég er búin að hugsa þetta vel og vandlega og ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það að maður er náttúrulega fáránlega seinþroska en síðasta ár var klárlega best af þeim árum sem minni mitt nær yfir og ég þori að veðja ýmsu uppá að á hamingjumælikvarða meðalmanneskjunnar hafi það verið töluvert fyrir ofan meðallag, ekki það að maður ætli að ofmetnast, framundan eru endalausar þrautabrautir og margar af manns verstu greinum eru eftir, eins og til dæmis að finna sálarró í frjálsu falli og fyrirgefa sjálfum sér hvað maður er umhleypingasamur og ófullkominn, þar er maður heldur betur lélegur, erfiðast verður þó að leggja að velli sína fornu fjendur óttann og efann, ég vildi óska þess að það gæti gengið kalt og hratt fyrir sig, skilja höfuð frá búk með einu höggi og brenna hræin með logum hugrekkisins, en að öllum líkindum verður sú viðureign töluvert meiri splatter, níu sinnum níu meiri splatter
föstudagur, 12. ágúst 2011
að taka hluti alvarlega
bleik fjaðrakóróna
bleikar kökur
bleikur kjóll
bleikir diskar
bleik blóm
bleikur varalitur
bleik kerti
bleikur drykkur
bleik pom poms
barnið smyr sér samloku með pepperoni og majónesi og fer í ljótu sokkana með gatinu
ég lít bara undan
bleikar kökur
bleikur kjóll
bleikir diskar
bleik blóm
bleikur varalitur
bleik kerti
bleikur drykkur
bleik pom poms
barnið smyr sér samloku með pepperoni og majónesi og fer í ljótu sokkana með gatinu
ég lít bara undan
þriðjudagur, 9. ágúst 2011
muna
verð að rífa mig upp úr hneykslanlegu kæruleysi við skipulagningu ammælis, must get organized, to be disorganized is to fail! verð að muna að kaupa meira af bleikum matarlit, kaupa mér kórónu og taka ákvörðun um hvort heimatilbúnir afar bleikir og aaaaafar áfengir frostpinnar og trampólín séu málið, já og bjóða fólki, kannski það borgi sig að setja það efst á listann, b j ó ð a f ó l k i
sunnudagur, 7. ágúst 2011
enn af mat (maður er náttúrulega ekki alveg heill í höfðinu)
það verður að segjast eins og er að maður er óþarflega oft helvíti timbraður þessa dagana, í dag er samt svo ofboðslega góð ástæða fyrir timburmönnunum að ég er næstum því þakklát fyrir þá og væri til í að umbera þá alla daga ef það þýddi að allir dagar yrðu eitthvað í líkingu við daginn í gær, í gær skópum við systir mín nefninlega hreint undur af kosmískri stærðargráðu hérna í eldhúsinu mínu, ég sé enga ástæðu til að gera mér upp lítillæti, þetta var goðsagnakennt, einhver (þessi einhver gæti verið um það bil allir) gæti haldið því fram að við systir mín séum óeðlilega uppteknar af ítölsku eldhúsi og ég viðurkenni að sjálfsagt væri sá hinn sami ekki að fara neitt agalega rangt með staðreyndir, því til staðfestingar höfum til dæmis gengið með þá veiru í maganum lengi að elda alvöru ósvikið ragú, við höfum vitaskuld oft og mörgum sinnum eldað hinn fjarskylda ljóta frænda ragúsins hið fræga meðalmenni spaghetti bolognes og meira að segja náð í því töluverðri leikni en þar til nýlega höfðum við ekki haft undir höndum nægilega krassandi uppskrift af hinni einu sönnu ítölsku kjötsósu til að takast verkið á hendur, þegar okkur hafði áskotnast slík uppskrift var okkur því ekkert að vanbúnaði og af þeim sökum vorum við staddar í himnaríkinu kjötbúðinni á grensásvegi laust eftir hádegi í gær að biðja um nautaskanka, nú höfum við báðar margoft séð naut og gerum okkur grein fyrir því að þau eru ekki smáar skepnur svo ég veit ekki hvers vegna það var slíkt sjokk þegar kjötmeistarinn kom fram með það sem verður helst líst sem...... ja stærðar fótlegg, við ákváðum að láta skrímslalega ásjónu skankans ekki draga úr okkur kjark og roguðums heim með dýrið, næstu sex klukkutímunum eyddum við svo í að umbreyta þessari löpp ásamt fjalli af hvítlauk og grænmeti í guðdómlega kjötsósu eftir kúnstarinnar reglum, þegar ég horfði á systu hella heilli rauðvínsflösku á pönnuna ákvað ég samt að bæta því inní uppskriftina að æskilegt sé að margfalda það vínmagn sem fer í pottinn með alla vega þrem til að fá út það magn sem maður ætlar sjálfur að drekka á meðan rétturinn eldast, ég ákvað líka að það sé best að hafa vínið dýrt, trúið mér þetta er dásamleg uppskrift en þetta smávægilega innskot mitt dúndrar henni alveg í gegnum þakið, prófiði bara
steiktu 200 gr af fleski á pönnu með engri olíu
veiddu fleskið upp og steiktu nautaskankana dökkbrúna í fitunni
settu skankana til hliðar og steiktu sellerí, lauk og gulrætur í fitunni
bættu útí fimm hvítlauksgeirum
helltu heilli rauðvín útí og láttu sjóða niður
bættu útí fimm dósum af niðursoðnum plómutómötum
bættu fleskinu og lárviðralaufi útí
láttu sjóða í nokkrar mínútur
settu skankana í steikarpott og helltu sósunni yfir
settu pottinn inní 100°heitan ofn og láttu malli í fimm, sex tíma
drekktu mikið af dýru víni
taktu pottinn út, rífðu kjötið af beinunum og passaðu að mergurinn fari líka útí
bættu útí fersku oregano og láttu malla áfram inní ofni á meðan þú sýður ferskt spaghetti
berðu á borð og búðu þig undir að vilja aldrei framar borða spaghetti bolognes
þriðjudagur, 2. ágúst 2011
andskotans ástin
husband bauð mér á tónlistarmarkað í dag af því hann er velktur maður eftir tólf ár í þessu sambandi og þekkir uppá sína tíu fingur stystu leiðin að all that sweet wonderous bootie lovin a man wants, og nú syngur hún frú franklin með risalungun úr hátölurunum mínum í stofunni og ég get sagt ykkur það að henni er ekki skemmt, ó nei ekki vitund, því hann er svikari og lygari og það er til skammar hvernig hann kemur fram við hana! (ekki husband sko heldur gæinn sem hún er að syngja um, hún myndi aldrei þurfa að syngja neitt í líkingu við þetta um husband, í mesta lagi að hann eigi það til að drekka of mikinn bjór og kunni ekki að þrífa baðkar), og ekki skánar það maður minn, vinir hennar segja henni að hann sé hinn mesti hjartabrjótur og einskis nýtur í alla staði, og af því þessi maður er enginn venjulegur drullusokkur heldur eitthvað agalegt afbrigði af slíkum manni þá getur hún ekki sofið, og ekki komið niður bita heldur (nei nú er mér nóg boðið! hún þyrfti að komast í mat til magnúsar.......annars hefur þetta ástand varla varað lengi, konan hefur nú aldrei verið neitt sérlega mjó um sig miðja) en þrátt fyrir þetta allt saman, þrátt fyrir það að hún sé aðframkomin á sál og búk eftir meðferð þessa manns er hún samt föst við hann, föst eins og lím og vill að hann kyssi sig aftur og segi að þau verði alltaf saman, því guð minn hún elskar hann, elskar hann eins og hún hefur aaaaaaldrei elskað mann áður (hvur andskotinn hangir eiginlega á spýtunni á þessum manni!), og hún vill engan nema hann, bara hann og hann einan, hverja einustu einskis nýta skítafrumu í hans einskis nýta skítaskrokki.................. ég veit það ekki fólk, er þetta ekki dáldið sjúkt
mynd via creature comforts
fimmtudagur, 28. júlí 2011
miðvikudagur, 27. júlí 2011
sumu fólki dettur ekki til hugar að fíflast mat
ég borðaði óheyrilega, ógeðslega yfir mig í gærkvöldi, svo óheyrilega að ég átti erfitt með svefn og í dag líður mér eins og ég hafi þyngst um hundrað kíló og muni aldrei framan skilja hugtakið svengd, ég borða alls ekki oft yfir mig en ef það gerist er það nánast alltaf magnúsi að kenna, ég veit ekki hvað það er sem magnús gerir við mat, ekki það að ég hafi ekki ótal sinnum horft á hann elda og meira að segja hjálpað til af veikum mætti, það bara skýrir ekki neitt, skýrir ekki það að þegar maturinn er kominn á borðið og fólk setur hann uppí sig gleymir það öllum almennum borðsiðum, hættir að geta tjáð sig öðruvísi en að emja og stynja og finnst að allt sem það hafi áður bragðað hafi ekki verið þess virði að tyggja það, hvað hefur maður eiginlega verið að eyða tíma sínum og kröftum í að borða hingað til, til hvers? og af hverju sagði mér enginn að blómkál gæti bragðast svona? ef ég hefði til dæmis vitað það að ef maður sýður smjör þar til það verður brúnt og sigtar það svo í gegnum klút verður til einhvers konar karamelluhnetusósa þá trust me, hefði ég fyrir löngu gert það að reglu að eiga alltaf fullan pott af þessu og éta með öllu sem ég legg mér til munns, himneskt er ekki orðið sem ég er að leyta að, mér finnst ég þurfa að kalla á oscar wilde
mynd: magnús már
mánudagur, 25. júlí 2011
reynt á þolmörk rýmisgreindar
það er svo margt sem bendir til þess að ég eigi að sleppa því að vaska upp að mér er ekki stætt á öðru en að taka það til greina, maður á að hlusta þegar úniversið talar til manns, ég er líka svo þreytt í höfðinu að ég má ekki við meiru og þvert á það sem flestir halda þá er uppvask langt því frá að geta kallast a mindless task, alla vega ekki ef maður rækir það almennilega af hendi eins og við áráttuhegðunarfólkið gerum, morgninum hef ég eytt algjörlega örvilnuð í að leysa heimsins erfiðustu gestaþraut: hvernig býr maður til tuttugu fermetra úr tólf? og mig er farið að gruna að það sé meira en smæð höfuð míns og hægt vinnsluminni þegar kemur að tölum sem gerir þetta dæmi svona flókið, mergurinn málsins er að mig vantar nauðsynlega aukapláss í íbúðina mína svo ég geti útbúið mér vinnuherbergi, ég er búin að snúa hjónarúminu á alla mögulega kannta en það bara leysir engan vanda, það er alltaf bara þessi sama l-laga fjagra fermetra mjóa ræma eftir til að spila úr og það samsvarar engan veginn hugmyndum mínum um a room with a view! eini möguleikinn sem ég sé er að snúa rúminu upp á rönd en ég held að það yrði aldrei raunhæfur kostur sama hvað ég yrði mjó, ég er líka allt of lofthrædd, ég gæti svo sem keypt koju handa okkur en einhvern veginn held ég að það myndi setja of mikinn systkinafíling í þetta hjónaband og ég er ekki viss um að það sé neitt sem ég hafi áhuga á, satt að segja hef ég enga löngun til að vera gift bróður mínum, svo virðist því sem ég sé dæmd til að gera þjóðarbókhlöðuna að heimili mínu í haust þrátt fyrir að það sé skýrt kveðið á um það í mínu lífsmottómanifestói að ég dvelji ekki inní byggingum sem hafa engin opnanleg fög lengur en ég næ að halda niðri í mér andanum, hvers konar fólk byggir slík hús spyr ég nú bara, kannski samskonar fólk og hannar tólf fermetra svefnherbergi og gluggalaus baðherbergi, sem að mínu mati er dauðasynd arkitektúrsins, í alvöru, það á að fangelsa svona fólk
stundum fæ ég það óþægilega á tilfinninguna að bloggskrif séu fyrst og fremst merki um mjög óheilbrigðan áhuga á sjálfum sér...................... djöfull er maður ömurlegur
þriðjudagur, 19. júlí 2011
heimilishald mínus einn
spaghetti bolognes á pönnunni og ég hlusta á víðsjá í podcastinu, barnið lyftir brúnum yfir því afreki móður sinnar að hafa eldað eitthvað annað en spælegg í fjarveru eiginmannsins og bendir henni svo á að þetta útvarpsefni sé tótallí lame, það getur vel verið að það sé ofboðslegt ellimerki að hlaða engu nema víðsjá niður í podcastinu en ég er því þá bara fegin, enda bíð ég og bíð eftir að aldurinn færi mér höfuð fullt af djúpri visku og hjarta sem þekkir ekkert nema auðmýktina, best að búa sig undir langa bið, það er svo annað mál að það er kannski óþarfi að hætta að næra börnin sín þó að einn úr fjölskyldunni - sem vill svo til að er einnig sá matgrannasti - hverfi af heimilinu í nokkra daga, þetta er í alvörunni ekki svona tragískt að það þurfi að dæma alla hina til stanslausrar svengdar, taktu þér tak kona
mánudagur, 18. júlí 2011
grasekkjan
ég er skyndilega komin í fjarbúð, á sjálfan ullarbrúðkaupsdaginn var maðurinn minn tekinn í gíslingu af selfysska fyrirtækinu sem hann vinnur hjá og fær ekki að fara heim til sín fyrr en í lok vikunnar þegar hann hefur lokið við að smíða eitthvað dót sem heimtufrekir grænlenskir viðskiptavinir pöntuðu með alltof stuttum fyrirvara, sumt fólk hefur enga sómatilfinningu, maður reynir bara að tóra, lætur krakkann sofa uppí og horfir á myndir með ed harris, blandar sér sjúkt gott íste og borðar salat með ananas og granateplum í öll mál, löðrar sig í sólarolíu og les frá sér allt vit, aðeins einn virðist frekar ánægður með fyrirkomulagið en það er hundurinn, loðdýrið mitt er greinilega staðráðið í að gera sér sem mestan mat úr þessum aðstæðum og baðar sig í öllu því kjassi og knúsi sem annars hefði fallið hinum illséða tvífætta keppinauti í skaut, sweetness, ég kann ekki illa við ástúðlega hegðun hundsins en verð að viðurkenna að maðurinn minn hefur töluvert ferskari andadrátt og glímir ekki við þetta hvimleiða hárlos, en maður verður líklega alltaf að sætta sig við eitthvað, tölvufíkn vs hárlos og andremma.........hmmmmm.....
þriðjudagur, 12. júlí 2011
um afleiðingar þess að allir deila sama vegakerfinu
tvær konur, þrjú börn og tveir hundar sitja í fólksbíl af staðlaðri stærð og ferðast á hraðanum 0,00000000000000001 km/klst eftir þjóðvegi eitt, hvaða kommon skjaldbaka sem er myndi virðast í mjög röskum göngutúr í samanburðinum og á þeim tíma sem það tekur umræddan bíl að ferðast frá punkti a í mosfellsbæ að punkti b í austur - landeyjum væri hægt að rækta heilan regnskóg af bambus og byggja úr honum lítið vistvænt þorp með túristabúllu og öllu, ástæða hægagangsins er sú að konunum tveim láðist að leggja saman tvo og tvo og fá út hina augljósu fjóra - enda báðar með allverulega hefta reiknigetu - og hófu ferðalag sitt fyrir vikið á nákvæmlega sömu stundu og trilljónþúsund unglingar á leið á verstu og viðbjóðslegustu útihátíð veraldar, á meðan á ferðinni stendur fá þessar konur oftar en nokkur kærir sig um gallharðar sannanir fyrir því að unglingum eigi yfir höfuð ekki að hleypa nálægt neinu á hjólum, hvað þá að leifa þeim að keyra eitthvað annað en hugsanlega þríhjól, ef það þarf endilega að leifa þessu liði að keyra þá legg ég til að það verði grafið alveg sérstakt neðanjarðarvegakerfi eingöngu ætlað umferðarvanvitum sem henda bjórdósum út um bílgluggana og keyra bara nákvæmlega þar sem þeim hentar burt séð frá því hvort þar liggi vegur eða ekki, eftir meira en þriggja tíma setu í bílnum er ellibjé - sem situr í aftursætinu, búinn að borða ótrúlegt magn af haribo-hlaupi og algjörlega kominn á ystu nöf andlega - orðinn svo reiður yfir þessu öllu að hann hrópar stöðugt á bílstjórann móður sína að fara bb-leið og hina leiðina og aðra leið og alls konar leiðbeiningar sem hvorki ég né hún botnum neitt í en grunar að sé annað hvort að takast á loft eins og í harry potter eða að keyra einfaldlega beint af augum yfir tún, girðingar og skurði og komast þannig hratt og örugglega í ömmuogafasveit og rakleiðis á trampólínið, þegar bifreiðin kemst loks framhjá hryllilegu unglingalestinni brjóstast út slík fagnaðarlæti inní bílnum að rúðurnar ætla úr og mælaborðið víbrar, ekki einu sinni það að ég er algjörlega að farast í mjaðmaliðnum og bílstjórann vantar vöðvaslakandi í kúplingar-löppina slær á hamingju- og frelsisvímuna sem fer eins og risaalda um okkur farþegana og skellur á bensíngjöfinni svo nú tökumst við næstum í alvörunni á loft og erum komin á endareit hraðar en við bílstjórinn getum sagt áfengi! nokkuð sem við þurfum ekki að biðja um oft í ömmuogafasveit þar sem systir mín er húsráðandi og sú kona kann sko að forgangsraða í innkaupum skal ég segja ykkur!.......... enda deilum við jú sama genamenginu
mynd: jen gotch via design love fest
mánudagur, 4. júlí 2011
mama is back in da house
hola hombres, ég er komin heim til mín, við krían fluttumst búferlum til bróður míns um helgina til að annast yngsta son hans svo að hann og eiginkonan - og reyndar allt þetta óreglufólk sem kallar sig hestamenn - gætu lagst í ólifnað og drykkju norður í landi, það er ekki eðli mínu samkvæmt að stuðla að því að fólk geti nært sínar lægstu hvatir en ég neita mágkonu minni helst ekki um nokkurn skapaðan hlut, konan giftist bróður mínum hvað get ég sagt, við frændi litli höfum það líka yfirleitt ágætt saman enda bæði fólk með erfiðar þráhyggjur og tendensa til að vera dáldið ósveigjanleg þegar það kemur að hlutum sem skipta okkur máli, frænda finnst ég að vísu geta verið fullmikil klína og kann ekki alltaf að meta allt þetta kjass og knús, sérstaklega ekki þegar hann er að horfa á tomma og jenna en að hans mati er það eina sjónvarpsefnið sem er þess virði að gefa tíma sinn og gæti hæglega ekki gert neitt annað, nokkuð sem ég skil fullkomlega enda líður mér nákvæmlega eins þegar það kemur að so you think you can dance, ég ákvað samt að reyna að vera sæmilega ábyrgðarfull barnfóstra og dreif frændi út í göngutúr og á róló þó hann væri ekki alveg að nenna því og skammaðist í mér nánast allan tímann, við ákváðum fljótlega að drífa okkur heim fyrst hann væri í svona slæmum húmor og skella okkur frekar í bað, ég var að vísu hálf skeptísk á baðferðir frænda enda hafði hann daginn áður kúkað í þetta sama bað og ég þurfti að drekka töluvert af bjór áður en ég tæmdi úr brúsanum með sótthreinsandi spreyinu í karið, seinni baðferðin gekk betur og frændi lét sér nægja að drekka helminginn af baðvatninu og skvetta restinni út fyrir en sleppti kúknum all together, að launum fékk hann að leggjast aftur í tomma og jenna en ég fékk ipaddinn og gat sökkt mér í að horfa á viðtöl við zadie smith sem er þráhyggja vikunnar og ég er að lesa mjög mjög hægt í takt við minn nýja lestrarstíl, við heimkomuna í gær fékk ég misæstar kveðjur frá heimilisfólkinu, husband virtist jú ansi glaður að sjá mig - sýndist mér allavega þar sem ég sá glitta í hann á bak við tölvuna - en hundurinn gjörsamlega tapaði sér, ég elska hundinn minn og ekki bara vegna þess að hann er loðnari á löppunum en ég, það er einfaldlega ómögulegt annað en að elska einhvern sem elskar mann svo óstjórnlega að hann hreinlega missir stjórn á líkama sínum við það eitt að berja mann augum, það sama hendir reyndar stundum husband en til þess verð ég að vera allsber og það er yfirleitt meira svona prívat........sem er kannski ágætt svona þegar ég pæli í því
miðvikudagur, 29. júní 2011
hollráð fyrir nautnabelgi
í dag las ég pistil um mikilvægi þess að lesa hægt ef maður hefur hugsað sér að láta lesturinn gagnast manni í eigin skrifum, skilaboð sem hittu hinn alræmda nagla beint á mitt heimska höfuð enda hef ég tilhneygingu til að umgangast bækur á sama hátt og mat, það er að segja ég háma þær í mig af græðgi og nautnasýki og gef mér helst ekki tíma til að anda, ég tók sneiðina til mín og mun framvegis hafa það að markmiði að lesa lúshægt, hægja á sér kona! mamma mín hafði oft orð á þessu sama við matarborðið þegar ég var yngri, hægðu aðeins á þér barn! eitt af því sem maður þarf að sætta sig við þegar maður verður fullorðinn er að mamma manns hefur alltaf rétt fyrir sér, ég læt það ekki einu sinni pirra mig lengur
laugardagur, 25. júní 2011
gestapóstur frá marie antoinette
ég veit að flestum mun finnast þetta mjög lasið en ég er í alvöru sjúk í að baka þetta fyrir ammmmælið mitt, sömuleiðis þetta hér
og af því ég er dáldið þessi allt eða ekkert týpa, þetta hér (og lúðra nú)
ef fólk sækist eftir boðskorti bara láta vita, hinum bendi ég á þessa síður hér þó ég vari fólk við, maður verður sjúúúúúúkur
og af því ég er dáldið þessi allt eða ekkert týpa, þetta hér (og lúðra nú)
ef fólk sækist eftir boðskorti bara láta vita, hinum bendi ég á þessa síður hér þó ég vari fólk við, maður verður sjúúúúúúkur
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)