jæja, þá hefur sá sem hefur yfirumsjón með veðri og færð á vegum nákvæmlega einn klukkutíma og fimmtíu og tvær mínútur til að drekkja öllu í sindrandi snjó, ég tel mig hafa hagað mér með allra ágætasta móti þessa ellefu mánuði sem liðnir eru af árinu og þætti ekkert tiltökumál þó mér yrði veittur ótæplega jólasnjór út desember mánuð svo ég fái sem mest út úr honum, husband myndi auðvitað segja að þetta sé algjört ábyrgðarleysi af mér þar sem við erum ekki búin að umfelga og dekkin á bílnum yrðu varla mikið hættulegir þó við vaxbærum þau en mér er bara alveg sama, mig langar svo sjúklega í jólasnjó að ég er til í að leggja bílnum og fara í staðinn á gönguskíðum í vinnuna allan næsta mánuð, sem væri ekki lítil fórn ef málið er skoðað í því samhengi að ég hef aðeins einu sinni farið á gönguskíði um ævina, ég var sex ára og að segja að mér hafi þótt það leiðinlegt væri að fara afar sparlega með orð, ég grenjaði viðstöðulaust allan tímann og sór þess eið að fara aldrei, aldrei aftur á skíði, sem ég hef ekki gert svo þið sjáið að mig virkilega langar í þennan jólasnjó, plís
p.s. ég bið norðlenska ættingja mína um að halda montkommentum í lágmarki, it hurts enough as it is