
6.30 vekjaraklukkan (a.k.a. síminn) hringir, mér tekst að slökkva á henni án þess að opna augun eða henda öllu niður af náttborðinu (5 stig)
6.43 ligg enn hreyfingarlaus með lokuð augu og finnst eins og líkami minn sé ekki á mínu valdi, get alls ekki hreyft mig og velti fyrir mér hvort ég geti mögulega hafa lamast í svefni (kannski af völdum ofnæmis, ég er ofnæmissjúklingur)
6.46 sest upp við dogg og skjögra í svefnmóki fram á klósett, sit óþarflega lengi dofinn á klósettinu með lokuð augu og líður einhvern veginn eins og ég sé í snjógalla með skíðagleraugu, hvítlaukurinn frá því kvöldið áður virðist hafa lækkað vökvamagn líkama míns niður í tvö prósent svo ég pissa bara pínulítið og leggst svo í kranann
6.51 kemst til nokkurrar meðvitundar eftir að hafa látið kalt vatn renna á hendurnar á mér, þvæ kaffikönnuna og mala kaffið, finn til mikillar óþreyju eftir að drekka kaffið strax og dett í þá vitleysu að stara á könnuna á hellunni eins og þá hellist hraðar uppá (það sama hendir mig oft í strætóskýlum)
7.00 geri fyrstu tilraun til að vekja barnið, hún misheppnast, kveiki á útvarpinu og þvæ mér í framan (5 stig), vek barnið aftur, hún horfir á mig eins og henni gæti ekki staðið meira á sama um hver ég sé og hvað mér sé á höndum þarna við rúmgaflinn
7.15 barnið er enn í bælinu og ég átta mig á því að bæði leikfimipokinn og fiðlubækurnar eru týndar, hleyp um á náttkjólnum og sný öllu við á heimilinu, blóta mikið, byrja að hrópa á barnið (mínus tuttugu stig)
7.30 finn loksins bækurnar á fáránlegum stað (tíu stig) og fæ það upp úr barninu að leikfimipokinn sé í skólanum, finn til föt á barnið sem neitar að klæða sig annars staðar en undir sænginni, átta mig á að barnið á enga hreina sokka (mínus fimm stig)
7.35 drekk of mikið kaffi of hratt á meðan ég tek til morgunmat og nesti og góla á barnið of mörg skilaboð í einu: kláraðu að klæða þig, greiddu hárið (rifist um nauðsyn þess að greiða hár, ég æsi mig, mínus tuttugu stig), finndu teygju, komdu að borða, mundu fiðlutímann klukkan tvö
7.38 barnið er enn ógreitt á klósettinu og ég eins og vitleysingur um hausinn, fatta að ég hef gleymt bæði rakakreminu og snyrtibuddunni í vinnunni (fooooookkkk!, mínus fimmtíu stig), ég er sveitt af kaffidrykkju og hamagangi, klæði mig og greiði á mér hárið sem stoðar lítið
7.44 kem barninu til að borða sem það gerir á hraða þess sem hefur enga tilfinningu fyrir hugtakinu tími
7.55 legg af stað í vinnuna í bullandi mínus, lít út eins og sveitt vörtusvín og er strax komin með hausverk