
ég hangi í sólbaði og reyni að stabilísera taugakerfið eftir að hafa verið nánast étin lifandi af fjórum lömbum í gær, "það er til nóg handa öllum" er greinilega ekki í orðaforða lítilla lamba sem svífast einskis til að komast að pelanum sínum, því fékk olnboginn minn að kynnast í gærmorgun þegar hann var tekin í misgripum fyrir pelatúttu, flestir sem hafa einhvern tímann komist í tæri við lamb eru líklega sammála um að þau séu ómótstæðilega sætt ungviði en hlustið á orð mín fólk þegar ég segi ykkur að sjarminn fer alveg af þessu þegar maður er króaður af og bitinn í olnbogann af snarvitlausum krullukrílum sem öll eru útbíuð í sínum eigin saur (hvað er þetta eiginlega með rollur og sóðaskap í kringum hægðir?!), í alvöru þetta var verra í raun en ég læt það hljóma....hvar er sólarvörnin, en frá útskitnum lambsrössum og yfir í fegurðina, tópashornið sem hangir yfir hengirúminu er í svo fullkomnum bleikum lit að mig langar stöðugt til að troða því einhvern veginn á hausinn á mér, lífið á pallinum mínum væri svo gott sem fullkomið ef nágranni minn gæti hætt að slá grasið og góla á börnin sín að vera ekki með þennan fíflagang með garðslönguna, hluttekning mín með kóngulóm gerir það að vísu að verkum að það er full margt um manninn hérna úti (nú er nágranninn byrjaður að saga eitthvað, vá hvað ég er pirruð á þessum manni, hvers konar andskotans sansleysi er þetta, sér maðurinn ekki að ég er að reyna að vera ein í heiminum hérna?), ég fæ það bara ekki af mér að eyðileggja alla þessa meistaralega smíðuðu vefi, í hvert skipti sem ég lyfti sópinum til að fjarlægja þá verð ég heltekin af hugsunum um hvernig mér myndi líða ef einhver eyðilegði með einu handtaki eitthvað sem ég væri búin að leggja svona mikla vinnu í (hvurn djöfulann er þessi maður nú að smíða???!!) maður getur spurt sig hvar maður sé staddur í tilverunni þegar tilfinningalíf kóngulóa er eitthvað sem maður lætur sig varða en ég hef um annað mikilvægara að hugsa, til dæmis það að ég er svo leiðinleg þessa dagana að ég voga mér varla út úr húsi, leiðinlegheit mín gætu vel hugsanlega verið á klínísku stigi, ég ætla að gúgla þetta, augnablik.......ah já, "clinically boring people eða homos horribilis boringus er sjaldgæft en þekkt fyrirbæri innan geðlæknisfræðinnar, sjúkdómurinn lýsir sér með því að sjúklingurinn virðist með öllu ófær um að halda uppi áhugaverðum og vitrænum samræðum við aðra af sinni tegund og er að öllu leyti ólýsanlega leiðinlegur, fólk sem hefur átt samskipti við horribilis boringus er sammála um að í návist þeirra verði maður í fyrsta sinn raunverulega hræddur um að drepast úr leiðindum, leiðinlegaheitin séu svo massív að maður hreinlega óttist um líf sitt, það eina góða við heilkennið er að yfirleitt virðast þeir sem þjást af því vera nokkuð meðvitaðir um ástand sitt og halda sig út af fyrir sig við lestur og sólböð, það slæma er að sjúkdómurinn er nánast ólæknandi og getur dregið fólk til dauða", þá veit maður það, ég hefði betur bara leyft lambkvikindinu að naga mig inn að beini, ég hugga mig við að ég verð alla vega sólbrúnt lík