miðvikudagur, 30. júní 2010

asnalegt en nauðsynlegt

1. ég er alls ekki stolt af því að hafa étið allt þetta magn af marenstertu í gærkvöldi og er alveg að fara út að hlaupa
2. ég er heldur ekkert alltof upp með mér yfir því að hugsa of mikið með höfðinu í dag og reyna að tækla hluti með rökfræðinni þegar ég veit fyrirfram að ég er alls ekki góð í því og muni þar af leiðandi mistakast
3. ég verð að hætta að hengja mig á að tíminn sé svo dýrmætur að ég geti ekki gert nokkurn skapaðan hlut nema vera búin að fullvissa mig um það fyrst að það sé hið eina rétta í dag að eyða tímanum í nákvæmlega þetta
4. ég ætla að hætta að skammast mín fyrir það hanga svona mikið inná velgengni.is, þar er fullt af fínu lesefni og óþarfi að fyrirverða sig fyrir að lesa slíkt
5. ég verð líka að hætta að hafa svona mikið samviskubit gagnvart guði fyrir lúðaskapinn í mér og reyna frekar að biðja eins og manneskja í staðinn
6. mestast mikilvægast
hætta að pirrast og nudda sjálfri mér uppúr því þó sagan sem ég er loksins byrjuð að skrifa sé alls ekki góð og halda bara áfram og troða því inní hausinn á mér að það besta sem ég geri við tímann sé að rembast við að skrifa eitthvað, muna að það er erfitt, mjög erfitt, verður alltaf erfitt og kostar brjálaða vinnu, þegar ég gleymi því muna þá þetta:

ef þú ætlar einhvern tímann að skrifa eitthvað gott
þarftu fyrst að skrifa allskonar viðbjóð
það eina sem skiptir máli er að halda áfram
halda ró sinni og halda áfram
halda ró sinni og halda áfram
halda ró sinni og halda áfram

mánudagur, 28. júní 2010

doerinn ég!

for the record þá langar mig alveg jafn mikið og ykkur til að skipta um lag í spilaranum mínum en ég á bara ekki niðurhal í það, ég mátti samt til með að leggja það á þolinmæði mína að senda þessa færslu því ég er svo upprifin yfir sjálfri mér í augnablikinu að ég bara varð að klína því uppá ykkur líka, ég er nefninlega öll í hamingjuæfingunum þessa dagana og þar vegur þungt að breyta því sem maður getur breytt og leyfa hinu að hafa sinn gang, ergo - þó ég geti í augnablikinu ekki gert rass í því að ég búi ekki í barcelona get ég haft örlítið um það segja hvort ógeðslegi dúkurinn á forstofugólfinu mínu meiði í mér augun alla daga eða ekki, því sem verður lýst hér neðar átti sér svo sem engan sérstakan aðdraganda annan en þennan, maður á ekki að vera að pirra sig óstjórnlega á hlutum sem lítið mál er að gera eitthvað í heldur henda sér bara í að framkvæma þó maður sé ennþá á náttkjólnum og rosalega svangur, ég var sum sé að fara með rusl úr forstofunni útí köldu geymslu þegar ég rak augun í hornið við útidyrahurðina þar sem ofurljóti gólfdúkurinn (þetta er svona dúkur sem þykist vera parket, tótal vibbi) var búinn að losna upp að stórum hluta og sandur, drulla og raki búin að stofna örtstækkandi lionsfélag undir ógeðinu, án þess að íhuga það neitt sérstaklega greip ég í hornið og reif dúkinn upp, fyrst gekk þetta vel, raki og loft höfðu smogið langar leiðir undir kvikindið og unnið á líminu svo stórir fletir voru lausir frá steininum, ég fjarlægði allan dúkinn af miðju gólfinu nánast í einu handtaki og hugsaði með mér að hva þetta væri nú ekki mikið mál, svo tók ég í annað horn, rykkti kröftuglega í og sleit hugsanlega vöðva í mjóbakinu á mér, allt pikkfast, ég lét samt ekki bugast, spyrnti í vegginn með fótunum og togaði af öllum kröftum, dúkurinn mjakaðist hugsanleg um tvo millimetra (og þá er ég að öllum líkindum að gera meira úr en efni standa til), ég sleppti takinu, nuddaði bakið og fann að ég var mígsveitt, svo var eins og það rynni á mig eitthvert æði, ég skundaði inní eldhús og náði mér í hníf, nánar tiltekið venjulegan smjörhníf því maður þarf að hafa vit fyrir sjálfum sér og annað hefði verið fyrstu gráðu sjálfsmorðstilraun, svo fór ég að losa dúkinn upp með hnífnum, hnífurinn rann kannski hálfan sentimeter undir dúkinn í einu og svo varð ég að juða og juða til að losa það sem var í kring, ég hamaðist og djöflaðist með náttkjólinn allan upp um mig og svitnaði eins og svín, bölvaði og frussaði en emjaði svo upp yfir mig af fölskvalausri gleði þegar eitthvað gekk, gargaði "sko þetta kemur, þetta er hægt!!!" á hundinn sem varð órólegri með hverri mínútunni eins og hann væri nú ekki alveg viss um þetta allt saman, við hefðum tildæmis ekkert rætt þetta við hinn húsbóndann og hann er nú svo akkúrat með alla svona hluti, ansi mikið löngu síðar hlammaði ég mér á gólfið með náladofa eftir að húka á hækjum mér of lengi, blóðug á puttunum og svo aum í vísifingrinum að ég gat varla beygt hann (ég er ekki frá því að hann sé að bólgna eitthvað upp sem gerir þessi skrif ekki með öllu sársaukalaus) en mjög mjög hamingjusöm, ég var svo örmagna að ég neyddist til að taka mér pásu en ég sver með guð sem mitt vitni að ég mun ekki gefast upp, ég læt ekki ljótan gólfdúk sigra mig! sjálfsagt finnst mörgum það eitthvað einkennilegt að það geti gert konu hamingjusama að fjarlæga gólfdúk og raspa húðina af fingrum sér í leiðinni og sjálfsagt er þetta allt hálfaumkunarvert en mér fannst þetta nú samt alveg rosalega frelsandi, það er eitthvað við spontant ákvarðanir sem hristir uppí lífsorkunni minni, jafnvel þær sem varða eitthvað jafnplebbalegt og að strípa forstofugólf svo ber steypan blasir við, ég get svarið það mér finnst ég næstum vera spice stelpa þetta er svo æðislegt, handy spice á náttkjólnum með smjörhnífinn, hallamálshusband verður auðvitað brjálaður þegar hann kemur heim úr vinnunni og ég verð örugglega langt fram í miðjan næsta mánuð að sleikja úr honum fýluna yfir andskotans bráðlætinu í mér en ég verð bara að láta mig hafa það, kona verður að gera það sem kona verður að gera! go handy spice!!!

föstudagur, 25. júní 2010

og þá er það veðrið

husband er með kveikt á fréttunum á stöð 2 og ég sem hef ekki horft á fréttir í óratíma get ekki annað en hnotið um þau umskipti sem hafa orðið á veðurfræðingum, ég man þá tíð þegar veðurfræðingar skáru sig svo úr sökum lúðalegheita að maður gat borið kennsl á þá á götu en konan á stöð 2 sem talar um "skýjað á köflum með léttri úrkomu" er svo gasalega skutluleg að ég hugsa að ekki væri hægt að komast fjær lúðaskap þó maður hefði sig allan við, (ath að þessi "veðurspá" er alls ekki áreyðanleg, ég var svo upptekin við að góna á veðurfræðinginn hinn nýja að ég heyrði ekkert hvað hún sagði), sjálfsagt er þetta enn eitt dæmið um ameríkanseringu í sjónvarpi en þar vestra hafa weather girls lengi verið smart stelpur með fegurðarsamkeppni á sívíinu sínu, allt gott um þetta að segja þó persónulega sé mér innilega sama hver færir mér fréttir af ljótu og leiðinlegu veðri en viðurkenni þó að þetta krakkaveðurkort höfðar dáldið til mín, miklu skemmtilegra og prattískara en allar þessar pílur og hringir sem ég er nokkuð viss um að enginn áttar sig almennilega á, óþarfi að gera einfalda hluti svona flókna, þegar allt kemur til alls þarf maður ekkert að vita um veðrið annað en það hvort maður þurfi að fara í stígvélin sín og pollajakkann á morgun, talandi um stígvél, rósóttu gúmmístígvélin mín eru farin að leka og í barnaskap mínum var ég búin að ákveða að skipta þeim út fyrir önnur meira töff, ég varð rosa glöð þegar ég sá slík stígvél í glugganum á kisunni og svei mér ef þau voru ekki enn meira töff í eigin persónu en á mynd en áður hafði ég aðeins séð þau á fótum fólks í hinum ýmsu tímaritum, svo sá ég að þau kostuðu 26.000 krónur, þá varð ég ekki eins glöð og ákvað að bíða aðeins með þetta, held mig bara inni í rigningu í sumar, rigning er hvort sem er ömurleg

miðvikudagur, 23. júní 2010

sólarheimsókn

helvítis vælugangur og heimtufrekja var þetta þarna í morgun, á hlaupum um skammadalinn (sem er alls ekkert skammur og ég nánast meðvitundarlaus úr hungri sem gerði hann satt að segja ógnarlangan) léttist aðeins á leiðanum (hugsanlega á rassgatinu líka en ég er búin að bæta það upp með makkarónukökunum sem ég flutti með mér yfir haf og lönd í gær) sem kvaldi mig og píndi eftir heimkomuna, enn betra var að fá ellabjé frænkueftirlæti og ljúflingsprins í heimsókn og bjóða uppá makedóníuhnetur sem stuttfætlingnum hugnast vel enda eðalkokkborinn matgæðingur sem lætur ekki hvað sem er ofaní sig og auk þess líkt og flest börn mikið gefinn fyrir mat sem er hægt að tína uppí sig án þess að þurfa að bíta í, ellibjé er veikur fyrir hengirúminu þegar frænka nennir að ýta sem gefur vísbendingu um yfsilonlitning í genamenginu þó ekki megi ráða það af klæðaburðinum þetta augnablikið því nú hleypur hann um í garðinum í fjólubláum prinsessunærbuxum af kríuljósinu, hann vill ekki bleyta sínar í yfirvofandi vatnsstríðinu sem þau frændsystkinin ætla að heygja uppá hvern þurran þráð og skrækt vein á meðan ég ligg í eigin svita og tana mig eins og húðkrabbamein sé sjaldgæft afbrigði af illgresi sem vaxi eingöngu á öðrum hnöttum (eða svo er sagt en fólk segir nú svo margt), en nú verð ég að tala varlega því það dræpi kokkinn á flúðum að vita af syni sínum klæddan í kvenmannsbrók hlaupandi fyrir allra augum í hans eigin heimabæ hvar hann hefur á sér gott orð sem prúðborgari og sjentilmenni, þess vegna ætla ég líka að forðast að minnast á brjóstsykursbleikan stuttermabolinn sem ellibjé fékk sömuleiðis lánaðan og virðist þykja mjög flottur, fæst eiginlega ekki úr honum ef satt skal segja, en best að tala sem minnst um það

leiðinlegt

ég er komin heim, ég á samt að vera einhversstaðar í parís eða barcelona, ég er alveg viss um það, ég veit ekki af hverju ég lenti hérna en ég held samt að það hafi eitthvað með ómerkilega hluti eins og peninga að gera, nú veit ég að hannes hafstein og jón sigurðsson snúast eins og hvirfilvindar í gröfinni en ég ætla nú bara samt að láta þetta vaða, þegar flugrútan keyrði undir kópavogsbrúnna og fossvogurinn blasti við mér fannst mér eins og ég myndi hreinlega drepast úr leiða, vá hvað ég er leið á þessu landi, ég hef eiginlega ekki löngun til neins nema lesa, kannski að ég rifji upp hvernig maður leigir bók á bókasafni

sunnudagur, 20. júní 2010

leyndardómar lúxemborgargarðanna (nancy drew anyone...?)

hvernig stendur á því að garðar íbúa lúxemborgar eru svona óaðfinnanlega snyrtir og hreinlegir? það er eitthvað grunsamlegt við þetta, ekkert í heiminum getur verið svona fullkomið, það sem eykur á grunnsemdir mínar er að þó ég hafi legið á gægjum í næstum viku hef ég ekki séð neinn útí garði að svo mikið sem vökva, hvað þá að klippa tré eða slá gras og raka, reyndar er yfir höfuð aldrei neinn útí garði nema auðvitað litlu garðálfarnir og skjaldböku og moldvörpustytturnar sem þykja vægt til tekið smartasta smart í garðskrauti hér, þegar ég var hér fyrir þrem árum voru rellur það alheitasta en garðtíska lúxarar er töluvert fígúrutívari í ár og nú er enginn maður með mönnum nema hafa fullskipað teymi af kumpánlegum vinum garðsins innan um rósarunnana og hekkin sín, þetta er með ólíkindum, það fer hreinlega um fólk eins og mig sem er yfirleitt aldrei með neitt nema hundaskít á pallinum hjá sér og finnst ástæða til að hrósa sér við hvern þann sem hlíða vill á fyrir að hafa afrekað það að troða niður nokkrum sumarblómum í ár (sem ég óttast að taki á móti mér dauð þegar ég kem heim, husband er ekki garðfígúra þó hann hafi fengið leiðbeiningar símleiðis um hvernig skuli umgangast gersemarnar), þegar ég horfi yfir bæinn hennar mömmu minnar verður mér orðfátt en dettur helst í hug pleimódót, allt hér er svo fullkomlega klippt og skorið og hornrétt og mælt út af hárnákvæmni þess sem lifir eftir þeirri sannfæringu að millimeter til eða frá skeri úr um það hvort hlutirnir séu réttir eða rangir (maðurinn minn myndi þrífast vel hér, gott að hann kom ekki með, olía á eld þið vitið), væri ég gulliver og hefði álpast hingað af rælni án þess að hafa glóru um hvert ég væri komin myndi ég skíra þetta pleis pleimó-plesentville, fullkomna litla dúkkulísulandið þar sem enginn virðist þurfa að hafa fyrir því að allt sé fullkomið, ég vona næstum að það sé rosalegt drasl inni hjá þessu fólki, þá get ég huggað mig við það að þetta sé allt á ytra borðinu en svo grasseri subbuskapurinn og sjoppulegheitin í hverju eldhúsi og enginn geti opnað geymsluna sína fyrir ryki og rusli og alls kyns viðbjóði, maður má vona, svona til að manni líði aðeins betur með sjálfan sig

laugardagur, 19. júní 2010

afsakið hlé

ég er erlendis, biðst velvirðingar á færsluleysinu en ég er bara svo ofsalega upptekin við að éta makkarónukökur, aufviedersehen (spelling check please)

laugardagur, 12. júní 2010

mig langar svo í þessa köku

í alvöru, það er eitthvað afbrigðilega girnilegt við þetta, samt bragðast þetta örugglega eins og tússpenni, en off i go, ég þarf að þvo þvott af bæði litla skít og stóra skít til að setja í ferðatöskur því konum eins og mér sem eiga bæði bestu foreldra og bestu tengdaforeldra í guðs gjöfula heimi er ekkert að vanbúnaði og á þriðjudagsmorgun munum við mæðgur sitja með sætisólarnar spenntar og djöflast á tyggigúmmíi á meðan við fylgjumst af áhugaleysi með flugfreyjunni fara yfir öryggisatriði vélarinnar, hugsanlega mun litli skítur leggja sig fram við að læra á björgunarvestin og neyðarútgangana því hún hefur tiltölulega nýlega öðlast einhverja meðvitund um það hversu fjarstæðukennt það sé að fólk geti flogið og hefur nokkrar áhyggjur af því að flugferðin geti farið illa, en sumsé á þriðjudag verðum við skottur komnar til lúxemborgar til að troða okkur út af kirsuberjum og drekka hvítvín með ömmu (það er ég mun drekka vínið, börnin borða berin ógerjuð), husband og hundurinn verða heima og þamba bjór, veiða fisk og fara á þungarokkskvöld, jamm allt gott og allir glaðir í mosabæ

föstudagur, 11. júní 2010

áhyggjur úr óvæntri átt

það er eitthvað skrítið við bananann minn, ég hef borðað banana með hnetusmjöri í morgunmat svo lengi að ég man ekki hvað ég borðaði áður en ég gekk í heilagt hjónaband við þessa fullkomnu samsetningu kolvetna, próteins og heilnæmrar fitu, eitthvað rámar mig í kelloggskornflex og ab mjólk en hvað sem það var þá man ég greinilega að ég var alltaf orðin svöng og geðvond eftir hálftíma og varð að éta eitthvað meira til að geta haldið áfram með daginn, ég ætti kannski að taka það fram áður er lengra er haldið að morgunmatur er uppáhaldsmáltíðin mín, sérstaklega þegar ég get neytt hennar eins og núna í ró og næði í sólbjörtu eldhúsi með sade í spilaranum, en aftur að banana dagsins (og reyndar banana gærdagsins og dagsins þar áður....eða bara öllu knippinu sem ég keypti í krónunni á mánudaginn), það er ekki það að hann sé vondur eða óþroskaður eða neitt svoleiðis heldur..... ja það eina sem mér dettur í hug jafn undarlega og það hljómar er að hann hafi alist upp með perum, ég hef enga hugmynd um hvort bananar og perur vaxi yfir höfuð í nágrenni hvort við annað en ég er búin hugsa þetta alla vikuna og ég er næstum hundrað prósent viss, bananinn minn hefur með einhverjum hætti átt náið samneyti við perur, þetta er meira svona texture thing en taste thing ef þið skiljið mig, að bíta í hann er ekki ósvipað og bíta í peru, hann er pínulítið kornóttur undir tönn og einhvern veginn skringilega ferskur, mjöööög skrítið, ég kann alls ekki við þetta, ég bít varlega í hann og virði hann svo fyrir mér á meðan ég tygg þannig að hrukkan á milli augabrúnanna dýpkar um helming, hvers konar banani er þetta eiginlega? hugsa ég með sjálfri mér og velti bitanum uppí mér, banani á að vera þéttur og passlega mjúkur og alls ekki of sætur en þessi er bara ekki eins og neinn banani sem ég hef áður smakkað, mér finnst næstum eins og ég sé að gera eitthvað rangt þegar ég borða hann, ég kyngi varlega og smyr svo extra þykku lagi af hnetusmjöri á næsta bita og drekk hálft djúsglas eins og ég sé að reyna að hylma yfir eitthvað sem ég veit að maður á alls ekki að gera, eins og ég sé óafvitandi að taka þátt í kolólöglegum tilraunum með erfðabreytt matvæli eða eitthvað þess háttar, ég þessi löghlýðna manneskja, kannski ég minnist á þetta við verslunarstjórann í krónunni næst þegar ég versla þar, hver veit kannski er kolumbíska mafían að selja einhver bananalíki út um allan heim, stútfull af hvers kyns ólyfjan og ræktuð á ólöglegum plantekrum þar sem viðgengst þrælahald og gróf brot á öllum hugsanlegum alþjóðasamningum, aldrei of varlega farið fólk, maður er hvergi óhultur

miðvikudagur, 9. júní 2010

ég er komin í sumarfrí (heillaóskaskeyti afþökkuð af umhverfisástæðum en það má skilja eftir hamingjukomment)

eftir að hafa eytt allt of miklum tíma í vinnu og aðra vitleysu er ég nú í því ástandi sem náttúrulögmálin ætluðu mér, þ.e. í fríi og nokkuð hífuð, gott gott, things are back to normal so lets make the most of it, ég lofaði sjálfri mér fyrr í vetur að ég skyldi hefjast handa við að skrifa eitthvað af viti (lesist ekki þetta blogg) um leið og ég færi í frí og einhver ró og regla kæmist á minn borderline-add huga og ég skal heilalaus hálfviti heita ef ég stend ekki við það, eins gott líka að æfa sig ef maður ætlar að ná að sjarmera þetta lið sem fer yfir umsóknirnar í ritlistarnámið sem ég skaaaaaaal komast inní ellegar senda sjálfri mér handrukkara á vaxtarhormónum með slæmar minningar úr gagnfræðaskóla, af þeim fjórum klukkutímum sem eru liðnir frá því að ég læsti skólastofunni minni og hélt í sumarfrí hefur einn farið í líkamsrækt og restin í drykkju, blaður og minniháttar eldamennsku, gott gott, mest hlakkar mig til að vakna á morgun og fá mér kaffi við eldhúsborðið mitt í staðinn fyrir að drekka það á hlaupum á meðan ég reyni að koma krakkanum á lappir, vek ungling, klæði krakkann, smyr nesti, vek ungling aftur, gef krakkanum að borða, frussa á ungling að drullast á lappir, læt krakkann greiða sér, hóta ungling að hún verði skilin eftir ef hún fari ekki á lappir núúúúúúna, kem krakkanum í útifötin og kyssi bless....you get the picture, bara svo það sé á hreinu þá elska ég börnin mín en guð veit að ég gæfi allar tærnar á mér fyrir að þær gætu hreyft sig aðeins hraðar klukkan 7.55 á virkum dögum, en fyrsta dag í fríi ætla ég (fyrir utan að drekka kaffið mitt í hljóðu eldhúsi) að kaupa mér strætómiða og bruna í 101 að hitta konu sem ég hef vanrækt fram úr hófi síðustu vikur, kannski ég taki hús af hressa borgarstjóranum í leiðinni og bjóði honum í tennis í hljómskólagarðinum, hann er örugglega mjög lélegur í tennis, örugglega lélegri en ég og þá er mikið sagt

þriðjudagur, 1. júní 2010

neikvæða fýlufærslan

loksins, loksins meira niðurhal, ég held að þetta símafyrirtæki sé að hafa mig að fífli, allir sem ég þekki hala niður bíómyndum öll kvöld og hanga á youtube útí eitt en borga samt sama pening og ég fyrir niðurhal, annað hvort er svona rosalega dýrt að vera bloggari eða það sem mér finnst líklegra (af því ég er höll undir samsæriskenningar og hneygist til ofsóknaræðis) að einhverstaðar hátt í höfuðstöðvum vodafone sitji manneskja sem ég hef gert eitthvað mjög ljótt um ævina (mér dettur ekkert í hug í fljótu bragði en ég hef örugglega oft verið hundleiðinleg við fullt af fólki án þess að gera mér grein fyrir því, ég er ekki alltaf alveg með sjálfri mér og stundum er ég bara brjálæðislega pirruð yfir hlutum eins og hundaleyfisgjöldum og grænum svæðum sem leyfa ekki hunda nema í bandi) og tali hátt á kaffistofunni um heimsku konuna í mosfellsbæ sem djöflast við að spara niðurhalið sitt og hótar manninum sínum öllu illu í hvert skipti sem hann opnar tölvuna en samt er alltaf búið að læsa búllunni viku fyrir mánaðarmót og fyrir vikið verður bloggið hennar mjög döll í nokkra daga svo hinir örfáu en dyggu lesendur hennar verða morðfúlir og fara að lesa blogg á mbl í staðinn, vinnufélagar vonda mannsins hlægja sig máttlausa og gefa honum high five og klesst´ann og troða svo í sig vínarbrauði og bakaríisbollum í boði fyrirtækisins, ég hata símafyrirtækið mitt, geðvonska mín (en af henni á ég töluvert til skiptanna skildi einhvern vanhaga um slíkt) lætur ekki staðar numið þar því ég hata líka mentor, síðustu daga hef ég setið og myndast við að slá inn einkunnir í þetta forrit sjálfseyðingarinnar sem hendir stöðugt út öllu sem maður gerir og krassar svo það sem eftir er dagsins þannig að það eina sem maður getur gert er að sitja og mölbrjóta blýanta og bölva svo ofboðslega að manni yrði vikið úr starfi hið snarasta myndi einhver heyra til manns, flestir hlutir eru þó eins og þeir eiga að sér að vera hér í mosku sjálfstæðisviðbjóðsins (ég skammast mín svo að ég treysti mér ekki til reykjarvíkur að heimsækja besta fólkið) og verða víst næstu fjögur árin eða svo, meira af uppbyggingu golfvalla og þess háttar montverkum og enn meiri niðurskurður við börn sem minna mega sín í skólakerfinu og fleira frábært í þeim dúr býst ég við, nema þessi bær verði svo heppinn að hér hrapi loftsteinn, væri það að ég ét ekkert nema grillaða sveppi með osti og drekk of mikinn bjór ( ég get rökstutt það í lengra máli en þið nennið að lesa að hvorutveggja sé manninum mínum að kenna) ekki óyggjandi sönnun þess að það er að koma sumar væri maður vís með að taka forskot á sæluna og hreinlega farga sér á pallinum innan um öll sumarblómin, ég veit ekki alveg hvernig en ég þori að veðja að það geti ekki gert nokkrum manni gott að drekka sólarvörn í bónusmagni, nei bíddu það eru allir í þessum stíflueyði.....nei annars, betra að flytja bara til reykjavíkur, já ætli það væri ekki best

það er lús á begoníunni sem ég keypti með sumarblómunum, týpískt fyrir mig