ég er búin að vera í alveg brjálæðislegri fýlu, ég er svo herfilega móðguð yfir því að það hafi ekki rignt inn hamslausum hrifningarkommentum á myndbrotið með brassgrúppunni hérna fyrir neðan að mér er búið að vera skapi næst að loka þessari sjoppu, eða í það minnsta ekki skrifa staf fyrr en ég hefði fengið allavega eitt komment, sem ég fékk, alveg heilt komment á það sem ég hélt að myndi trylla svo í fólki gleðigrúvið að það kæmist varla lifandi frá tölvunni sinni á eftir, eru allir í heiminum skyndilega alveg ónæmir fyrir svona guðdómlegri snilld? finnst fólki í alvöru bara sjálfgefið að það sé búin til brillíant tónlist? ég er búin að vera að tapa mér yfir þessu atriði og finnst ég þurfa að spila þetta fyrir allan heiminn og binda þannig enda á hungur og eymd og trúarágreining og almennan dónaskap, en allt í góðu, þið um það, horfiði bara á júróvisjón fyrst að það er svona æðilegt! en sumsé ég hélt mitt sjálfskipaða bloggstraff ekki út lengur en þetta, svona svipað og þegar ég fer í fýlu við husband og heiti því að sofa aldrei hjá honum aftur, einmitt
fimmtudagur, 27. maí 2010
sunnudagur, 23. maí 2010
þrautir búks og sálar
í kvöld hef ég sannreynt það á eigin skrokki að það er hægt að borða mjög illa yfir sig af grilluðu grænmeti, svakalega er þetta óþægilegt, mér líður eins og það þurfi að fjarlægja stóran hluta líffæra minna til að hliðra til fyrir öllum þessum sveppum, en ég verð að bíta á jaxlinn, unglingurinn er með vesen og ætlar sér að fá í gegn framlengingu á útivistartímanum svo ég þarf á öllu mínu andlega þreki að halda ef ég ætla ekki að fara yfir um og breytast í fritz the freak og grafa neðanjarðarbyrgi þar sem ég læsi krakkann inni, hvers vegna er það ekki bara viðtekin venja að börn séu svæfð fljótlega eftir fermingu og haldið sofandi fram að tvítugu? djöfull sem það myndi spara manni áhyggjurnar
föstudagur, 21. maí 2010
ekki bara thinker, líka doer
í dag keypti ég mér sumarblóm, á hverju vori frá því að ég varð sæmilega fullorðinn hef ég talað fjálglega um það við hvern þann sem hlýða vill á að ég ætli að fara að setja niður sumarblóm, það sé svo fallegt og ég svo mikið fyrir allt sem er fallegt, sérstaklega blóm, ég hef auðvitað aldrei gert neytt í málinu, fyrr en í dag, að kaupa og planta sumarblómum er ekki eins einfalt og það hljómar, ég þurfti auðvitað að hafa mömmu mína með mér svo afgreiðslufólkið héldi ekki að ég væri á tornæmismörkum og svo var ég látin borga með peningum og svona en að mínu mati heppnaðist þetta allt einstaklega vel, husband var að vísu... ja hvað skulum við segja... less then overwhelmed með afraksturinn en skítt með það, fegurðarskynið er bara ekki jafn næmt í öllu fólki og engin ástæða til að erfa það við neinn, fólk fæðist bara svona og ekkert við því að gera
þriðjudagur, 18. maí 2010
ekki að það komi þessum pósti neitt við en mig hefur alltaf langað í páfagauk
ég er ógeðslega lasin, það eitt og sér er auðvitað nóg til að gera hvern mann óhamingusaman en það sem er enn alvarlegra er að fyrir vikið er nú hópur barna í mosfellsbæ að verða af hágæða málfræðikennslu fyrir lokapróf á föstudaginn svo að í kaupbæti við flensuna er ég að depast úr móral yfir gagnsleysi mínu og aumingjaskap, til að slá á mesta samviskubitið taldi ég mér trú um að ég gæti haft gott af því að setja í þvottavél því það geti ekki verið nokkrum manni hollt að liggja í bælinu langtímum saman og hafast ekki annað að en að snýta sér, gott ef ég hef bara ekki sjaldan haft jafn rangt fyrir mér, verkið var mér svo gjörsamlega ofviða að það suðar ennþá í eyrunum á mér eftir áreynsluna, eins og alltaf þegar þörf er á er það borin von að finna eitthvað verkjastillandi í skápum heimilisins enda gruna ég eiginmann minn og eldra barnið um að éta verkjalyf við hreinlega öllum sköpuðum hlutum, hugsanlega jafnvel hungurverkjum, þar væri alla vega komin skýring á því hvers vegna manninum mínum helst svona illa á eigin holdi, ég ætla svo sem ekki að gráta það neitt sérstaklega að geta ekki dröggerað minn lasna kropp með fabrikkugerðum eiturefnum enda er mér illa við lyfjafyrirtæki og vil sem minnst af þeim vita, öllu verra fannst mér að opna hornskápinn í eldhúsinu og uppgötva að græna teið væri búið, ég gruna husband um glæpinn, það er heldur ekkert viskí í stofuskápnum, engin ástæði til að gruna neinn í því máli, maður veit, þegar maður á ekkert grænt te, brennt vín eða löglegt dóp til að lina þrautir sínar er bara eitt að gera, hringja til ástralíu í bjartsýnisstelpuna með krullukollinn sem gæti komið úníversins staðfastasta fýlupúka til að sjá eitthvað spaugilegt við tilveruna, nú og svo er það auðvitað ótrúlega heilandi að blogga um sína endalausu heilsufarslegu ógæfu og ímynda sér að þarna úti sé fólk sem vorkenni manni alveg ofboðslega, þetta er strax allt betra
mánudagur, 17. maí 2010
ég er kannski heilsulaus en ég kann mannasiði
klukkan ellefu í gærkvöldi sat ég inná hlemmi með rauðan varalit og lakkaði á mér neglurnar, sumum gæti þótt þetta asnalegt en ekki mér, ég fór meira að segja að hugsa hvað hlemmur væri miklu notalegri staður ef fleiri tækju mig sér til fyrirmyndar, ég get ekki pirrað mig nógsamlega á því hvað fólk leifir öllum sínum lægstu hvötum að frussast óhindrað í allar áttir um leið það er komið í námunda við þennan miðpunkt almenningssamgangna sem við hljótum öll að vera sammála um að gegni mjög mikilvægu samfélagslegu hlutverki og ætti að vera griðastaður þeirra sem af hinum ýmsu ástæðum hafa kosið að ferðast með vistfræðilega og fjárhagslega hagkvæmum hætti, en í stað þess að láta sameiginlega hagsmuni þjappa sér saman og sýna samferðafólki sínu og stoppustöðinni sjáflsagða virðingu virðist flest fólk helst eygja þar tækifæri til að haga sér eins og svín, alla vega var enginn fyrir utan mig og penu miðaldra konuna í bleiku kápunni sem var að bíða eftir ellefunni að haga sér eins og maður á að gera, drukkinn maður með svo skítugt hár að hann hefði frekar átt að vera einhvers staðar að baða sig en að bíða eftir strætó var með tóm leiðindi við konuna í bleiku kápunni og heimtaði að hún fyndi út úr því fyrir sig hvenær tólfan kæmi þó konan væri eins og ég nefndi ofar að bíða eftir ellefunni og hefði því engar ástæður umfram manninn til að kynna sér leið tólf sérstaklega, hópur af ungum karlmönnum talað ruddalega hátt og notaði orðbragð sem mér finnst einfaldlega óþarfi að brúka annars staðar en í einrúmi og dónalegur unglingur reyndi að suða ókeypis pylsu út úr indæla manninum í sjoppunni, en ég má ekki láta þetta ná mér upp, ég er svo kvefuð að ég óttast að andlitið á mér hreinlega springi ef ég fer að æsa mig eitthvað af ráði, hversu lengi getur kvef eiginlega haldið áfram að versna? það sem ég vonaði á fimmtudaginn að væri bara slæm þynnka hefur undið jafnt og þétt uppá sig þó guð viti að ég hef ekkert gert til að verðskulda það, að vísu var kvöldgangan í gær frá þjóðleikhúsinu niður á hlemm kannski með glannalegra móti fyrir illa kvefaða konu en að öðru leyti hagaði ég mér eins og ljós alla helgina og því til sönnunar er far eftir rassinn á mér í sófanum heima hjá kolbrá sem mun að öllum líkindum ekki hverfa í bráð, ég var skammarlega gagnslaus í sauðburðinum og eina lambið sem ég sá fæðast fæddist dautt, þetta hefði verið auðvelt að taka til sín og detta í sjálfsásakanirnar en kolbrá fullvissaði mig um að svona gerist bara stundum og ekkert við því að gera, lífið sé bara svo brothætt þegar maður er lítið lamb og kemur í heiminn án þess að hafa það á hreinu í hvaða röð útlimir eigi að líta dagsins ljós, ég vona að það sé satt, ég held ég gæti ekki litið glaðan dag framar ef ég vissi til þess að ég hefði átt þátt í dauða saklauss lambs með því að halda húsfreyjunni á kjaftasnakki og bjórsötri inní eldhúsi á meðan fjárhúsið nötraði undan jarmandi söng áa í lambsnauð, nei slíkt gæti maður bara ekki fyrirgefið sér
fimmtudagur, 13. maí 2010
nei djók, ég er samt smá þunn, eða ég held það, hálskirtlarnir eru með einhverjar hótanir við mig og ég get ekki alveg greint þynnkuna frá flensueinkennunum, mér tókst að verða merkilega ölvuð í gærkvöldi af því ekki svo mikla áfengismagni sem ég innbyrgði, stundum er eins og áfengismagn margfaldist innra með manni og framkalli langtum meiri áhrif en maður upphaflega hugsað sér að finna fyrir, fyrir vikið gafst ég alveg upp í fyrra fallinu inná boston, yfirgaf meðdrykkjufólk mitt og lagði af stað í einhverja óþægilegustu bílferð sem ég hef upplifað, bílstjórinn keyrði hratt og hægði lítið á sér í beygjum, mig svimaði og áfengið gutlaði svo í maga mínum að ég hafði töluverðar áhyggjur af því að gubba yfir allt og alla, þegar bíllinn renndi upp að húsinu mínu og maðurinn rukkaði mig fjögurþúsundogfimmhundruð krónur fyrir farið dauðsá ég eiginlega eftir að hafa ekki ælt bílinn hans allan út, ég spáði alvarlega í að reyna að framkalla uppköst með handafli en sleppti því af því að ég heyrði nýlega að það sé ofsalega slæmt fyrir hjartað, svo var ég líka alltof þreytt til að standa í einhverju jafn líkamlega krefjandi og að öllum líkindum hefði þetta kostað mig ennþá meiri peninga plús massa eiginmannsfýlu, maður getur ekki látið allt eftir sér
mánudagur, 10. maí 2010
þetta er allt hluti af stærra plani (and im not just saying that)
kalla svíar jarðaber virkilega gubbar....maður mun líklega aldrei skilja til hlýtar hvað sumu fólki gengur til, pössum okkur á að verða ekki fordómum að bráð kæru lesendur, munum að svíar eru líka fólk, sama má segja um bókabúðarfólkið sem vildi ekki ráða mig í vinnu, þar fer aldeilis flokkur ógæfumanna og kvenna sem veit ekki hvað þeim er fyrir bestu! ég bið ykkur samt um halda ótrauð áfram að versla í bókabúðum, ég tók þetta ekki einu sinni nærri mér því mér leist ekkert á stemminguna á svæðinu og var búin að meta stöðuna sem svo að sjarma mínum og ofurmannlegum gáfum yrði skammarlega sólundað á þessum vettvangi kapítalismans (jesú á markaðnum og öll sú sena muniði, ljótt mál í alla staði), guð er líka búinn að sjá fyrir þessu öllu saman og kippa í nokkra strengi fyrir mig niðri í háskóla svo að eftir ár get ég að öllum líkindum hafið mastersnám í ritlist eins og hugur minn og hjarta býður (hér í merkingunni öskara/heimtar/þráir/fer fram á með afar eindregnum og ósveigjanlegum hætti og tekur mjög illa í allar aðrar hugmyndir), ja ef einhvern tíman væri ástæða til að hreinlega splundrast úr hamingju
sunnudagur, 9. maí 2010
laugardagur, 8. maí 2010
the pressure of modern life can really make one go bonkers from time to time!
afsakið fjarveruna og takk fyrir uppklappið, ég veit bara ekki hvað kom yfir mig, get helst líkt því við einhvers konar uppgerðar hógværð, skyndilega fannst mér það einhvern veginn afar fjarlægur möguleiki að ég hefði eitthvað að segja sem fólki gæti fundist taka því að lesa (dellan sem manni dettur í hug), þegar ég hugsa um allt lélega sjónvarpsefnið sem fólk (jafnvel mér nákomið) gefur tíma sinn og í sumum tilfellum hagræðir lífi sínu í kringum sé ég auðvitað hvað þetta er fáránleg hugdetta, hugsanlega er ég líka búin að vera að pirra mig meir en góðu hófi gegnir á einu og öðru sem ég hef ekki haft geð í mér til að angra ykkur með, aðallega uppáþrengjandi stjórnmálamönnum sem banka hjá mér og troða uppá mig brosbæklingunum sínum þó að á hurðinni minni standi með afar læsilegu letri engan ruslpóst takk (er það rangur misskilningur hjá mér að þetta hljómi eins og skipun?), svo reyna þeir að tæla mig á plebbalegar útisamkomur með gylliboðum um hoppukastala og grillaðar pylsur í boði hússins, ég velti því fyrir mér hvort fólk haldi í alvöru talað að þetta sé vænlegt til vinnings, mér verður bumbult bara við tilhugsunina um pylsur í landfræðilegri nálægð við hoppukastala (reyndar verður mér bumbult bara við tilhugsunina um pylsur burtséð frá öllu hoppi), ekki það að ég haldi að ég gæti gert betur sjálf, væri ég stjórnmálamaður í atkvæðaleit myndi ég sjálfsagt vera að halda afar óvinsæl speltpartý þar sem efnt væri til púslkeppni og sýndar gæðakvikmyndir í ætt við þá sem ég leigði handa okkur mæðgunum í gærkveldi, myndin, sem er byggð á frægri barnabók og ég er búin að ætla að sjá lengi með dóttur minni, er það sem kallast tilfinningaþrungin þroskasaga og alveg óhætt að setja nokkurn þunga á orðið tilfinningaþrungin hér, án þess að ég ætli að fara nánar útí lýsingar á því sem var hugsað sem hugguleg samverustund móður og barns í lok annasamrar viku þá endaði kvöldið með því að við sátum hvor í sínu horninu á sófanum og reyndum að fela það fyrir hvor annarri að við værum báðar hágrenjandi en hristumst svo af ekka að hundinum stóð ekki á sama, barnið var óhuggandi það sem eftir var kvöldsins og sofnaði út frá því að þráspyrja hvort það hafi ekki örugglega verið hægt að laga þennan sem missti handlegginn þó það hafi ekki verið sýnt í endann, faðirinn er að tóna hlutina dáldið niður í kvöld með klassískri adam sandler ræmu um heimska menn að gera heimskulega hluti, þetta er algjörlega að gera sig hjá honum þó persónulega vilji ég þakka sælgætispokanum stóran hluta af gleði barnsins, hann ætti kannski að vera í pólitík....það er maðurinn minn ekki sælgætispokinn
laugardagur, 1. maí 2010
yndisljósið
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)