
afsakið fjarveruna og takk fyrir uppklappið, ég veit bara ekki hvað kom yfir mig, get helst líkt því við einhvers konar uppgerðar hógværð, skyndilega fannst mér það einhvern veginn afar fjarlægur möguleiki að ég hefði eitthvað að segja sem fólki gæti fundist taka því að lesa (dellan sem manni dettur í hug), þegar ég hugsa um allt lélega sjónvarpsefnið sem fólk (jafnvel mér nákomið) gefur tíma sinn og í sumum tilfellum hagræðir lífi sínu í kringum sé ég auðvitað hvað þetta er fáránleg hugdetta, hugsanlega er ég líka búin að vera að pirra mig meir en góðu hófi gegnir á einu og öðru sem ég hef ekki haft geð í mér til að angra ykkur með, aðallega uppáþrengjandi stjórnmálamönnum sem banka hjá mér og troða uppá mig brosbæklingunum sínum þó að á hurðinni minni standi með afar læsilegu letri engan ruslpóst takk (er það rangur misskilningur hjá mér að þetta hljómi eins og skipun?), svo reyna þeir að tæla mig á plebbalegar útisamkomur með gylliboðum um hoppukastala og grillaðar pylsur í boði hússins, ég velti því fyrir mér hvort fólk haldi í alvöru talað að þetta sé vænlegt til vinnings, mér verður bumbult bara við tilhugsunina um pylsur í landfræðilegri nálægð við hoppukastala (reyndar verður mér bumbult bara við tilhugsunina um pylsur burtséð frá öllu hoppi), ekki það að ég haldi að ég gæti gert betur sjálf, væri ég stjórnmálamaður í atkvæðaleit myndi ég sjálfsagt vera að halda afar óvinsæl speltpartý þar sem efnt væri til púslkeppni og sýndar gæðakvikmyndir í ætt við þá sem ég leigði handa okkur mæðgunum í gærkveldi, myndin, sem er byggð á frægri barnabók og ég er búin að ætla að sjá lengi með dóttur minni, er það sem kallast tilfinningaþrungin þroskasaga og alveg óhætt að setja nokkurn þunga á orðið tilfinningaþrungin hér, án þess að ég ætli að fara nánar útí lýsingar á því sem var hugsað sem hugguleg samverustund móður og barns í lok annasamrar viku þá endaði kvöldið með því að við sátum hvor í sínu horninu á sófanum og reyndum að fela það fyrir hvor annarri að við værum báðar hágrenjandi en hristumst svo af ekka að hundinum stóð ekki á sama, barnið var óhuggandi það sem eftir var kvöldsins og sofnaði út frá því að þráspyrja hvort það hafi ekki örugglega verið hægt að laga þennan sem missti handlegginn þó það hafi ekki verið sýnt í endann, faðirinn er að tóna hlutina dáldið niður í kvöld með klassískri adam sandler ræmu um heimska menn að gera heimskulega hluti, þetta er algjörlega að gera sig hjá honum þó persónulega vilji ég þakka sælgætispokanum stóran hluta af gleði barnsins, hann ætti kannski að vera í pólitík....það er maðurinn minn ekki sælgætispokinn