
stundum hef ég áhyggjur af því hvaða mynd fólk fengi af mér ef það kæmi að mér látinni einhvers staðar út á víðavangi og tæki að róta í handtöskunni minni til að finna út hver ég væri, ég segi ekki að þessi hugmynd sé eitthvað sem angri mig svo teljandi sé en ég viðurkenni að hafa leitt að þessu hugann og fundið til ónota, í kvennatímaritum er þetta (það er að segja hvað sé í handtöskunni en mínus þetta með að finnast látinn á víðavangi) stundum sett fram sem skemmtileg leið til að komast að því hvaða manneskju þú hafir að geyma og töskueigendurnir eru aldrei með neitt alvarlegra á sér en lykla, eitthvað til að halda andadrættinum ferskum og nýjasta glossið frá þessum eða hinum snyrtivöruframleiðandanum (sem mér þykir alltaf fremur grunsamlegt), taskan mín er dulítið meira svona..... hvernig á ég að orða það..... an element entirely of its own skulum við segja, sá hinn sami og væri svo óheppinn (eða heppinn allt eftir viðhorfi og manngerð viðkomandi... og þó nei, bara óheppinn) að finna mig örenda, segjum á miklatúninu (ég væri kannski að koma af útskriftarsýningu listaháskólans sem ég ætla mér að kíkja á sem fyrst), myndi ráðast á töskuna í þeirri góðu trú að hún væri eitthvað í líkingu við huggulegu töskurnar í kvennatímaritunum en fyndi sig fljótt í allt öðrum og mun minna aðlaðandi veruleika, gefum okkur það að í óðagotinu sem gripi þennan ógæfusama einstakling við það að ganga alls óundirbúinn fram á lífvana líkama minn, myndi honum yfirsjást hólfið á hlið töskunnar þar sem hann myndi finna símann minn og peningaveskið (að sjálfsögðu gersneytt öllum peningum) en það eru þeir hlutir sem gætu hvað fljótast komið upp um hver ég er, þess í stað myndi hann opna töskuna sjálfa og týna uppúr henni innihaldið í ofboði, þetta fer vel af stað og hann setur svörtu ullarhúfuna mína og hvítu vettlingana í grasið, næst tekur hann upp svarta íþróttaskó og upp gýs táfýla sem hreinlega storkar mörkum hins mannlega, næst koma svartar æfingabuxur og bolur, brjóstarhaldari og hælasokkar, allt gegnsósa af mínum eigin svita, svitalykt mín er ekki mikið frábrugðin annarra, hún er vond, vantrú hans vex svo þegar upp úr töskunni koma tvö djúp plastbox, annað angar af tómatsúpu og hitt er fullt af eggjaskurn, eitt minna box fylgir í kjölfarið en í því er myglað hummus, á botni töskunnar finnur hann svo grifflur, bók (með asnalegum titli), hárspennur og allskyns mylsnu, hnetur og möndlur, bréf utan af sesamstöngum, stóra vatnsflösku, litla tösku með handáburði og sótthreinsandi handgeli, hvoru tveggja með vanilluilm (prik fyrir það) og tannbursta, í litlu innra hólfi finnur hann svo tvo varasalva í sjúskuðum umbúðum, fleiri hárspennur, ofnæmislyf, tvö a4 blöð, annað með æfingaprógrammi en hitt með lista yfir lyf sem virka vel við þurrk í húð (þau virka reyndar ekki rassgat en hann veit ekkert um það) og moleskinnuna mína sem ég skrifa í allar þær hugmyndir sem detta inní höfuðið á mér til dæmis þegar ég bíð eftir strætó (og guð veit að þær eru ekki allar góðar!), það er hér sem líkfinnarinn (gefum okkur að það sé orð) fer að hugsa um mary poppins en reynir að bægja burtu hugsuninni svo hann fari ekki að sprenghlæja yfir steindáinni manneskjunni, öðru megin í töskunni hefur fóðrið rifnað frá og þar ofan í hefur verið troðið poka af krömdum gráfíkjum og bunka af vísanótum (óþarflega þykkum að honum finnst), nú loks hefur maðurinn rænu á að stinga hendinni í ytra hólfið, fingur hans nema einhverskonar ofsalega ógeðslegt slím sem mig grunar að sé sambland af rakakremi, sandkornum og möndlumulningi (one can never be sure though.....), upp úr hólfinu dregur hann lyklakippu í löngu bandi sem á er letrað kennarasamband íslands (maðurinn hryllir sig eitt andartak yfir því að eigandi töskunnar sé manneskja sem umgangist börn náið á hverjum degi, er allt orðið leifilegt í þessu samfélagi dekadansins?!!!), sömuleiðis finnur hann brotna hárklemmu, aðra lyklakippu en þessi er merkt með orðunum mitt annað heimili sem hver maður sér að hljómar allt annað en vel, á eftir fylgja stór grár ipod og samanlímd heyrnartól, klístraður hálsbrjóstsykur (sem hugsanlega er klístraður eftir veru í munni þeirrar dauðu) klinkbudda, eldgamalt gloss og loks síminn og veskið, maðurinn horfir á rispaðan símann og grípur með þumli og vísifingri um míu litlu múmínfígúru sem dinglar neðan úr honum, hann lítur á líkið og velti fyrir sér hvort það geti verið að hin látna sé barn sem hafi tekið snemmbæran og óhóflegan vaxtakipp en sannfærist um annað þegar hann opnar veskið og kemst að því að eigandi ógeðstöskunnar er kona á hraðleið úr barneign, mjög hugsanlega stendur maðurinn nú upp og lætur sig hverfa, með mikilli vinnu og hjálp frá góðu fólki nær hann með tíð og tíma að gleyma þessari leiðu reynslu og byggja upp trú sína á manneskjuna aftur, giftist jafnvel og eignast börn, honum tekst þó aldrei að losna við martraðirnar og tekur alltaf stóran sveig framhjá miklatúni