laugardagur, 27. febrúar 2010

eplin falla mislangt frá eikinni (ég hef pælt í því hvort bróðir minn sé ættleiddur)

ef fólk er svangt og peningalítið bið ég það endilega um að droppa við og gæða sér á þessum tveimur kílóum af pasta sem eru afgangs frá því í ammæli kríunnar í gærkvöldi, ekki það að fólki hafi þótt maturinn vondur og tekið þann kostinn að fara svangt heim heldur á húsmóðirin það til að misreikna sig lítillega þegar það kemur að því að áætla það magn sem fólk er fært um að láta ofan í sig burt séð frá því hvort maturinn bragðist vel eða illa, magamál fólks fjórfaldast kannski ekki endilega þó því hugnist maturinn, bróðir minn borðaði reyndar lítið og kom með sín hefðbundnu komment eins og að allt sem ég eldi bragðist meira og minna eins og hálmur, yfirleitt þegar bróðir minn kemur í mat til mín byrjar hann á því að spyrja hvort það sé eitthvað í boði sem sé ekki úr spelti, hann er sá eini okkar systkinanna sem móður okkar tókst ekki að bjarga frá næringarfræðilegri glötun og stærir sig af því á mannamótum að þykja grænmeti bara alveg rosalega ógeðslegt, sérstaklega gúrka en að hans mati er hún algjört úrhrak og viðurstyggð, nokkurs konar rotta grænmetistegundanna, hvað get ég sagt, maðurinn er slikkeríissjúkur grænmetisrasisti og á lazyboy til að sanna það, við systur höfum lagt okkur í líma við að beina honum á réttar brautir en það hefur bara orðið til þess að gera hann enn ákveðnari í að éta ekkert nema fæðu sem hefur álíka mikið næringargildi og skólp, þetta er alveg rjúpan og staurinn all over again, nýlega barst honum svo aðstoð úr óvæntri átt þegar hann var sendur í ristilmyndatöku og fékk þann úrskurð frá ristilsérfræðingi landspítalans að hann hafi hinn fullkomna ristil, mér skilst að maðurinn hafi notað lýsingarorð eins og fallegur, helvítis djöfull, ég hef reynt að klóra í bakkann og benda á að hann sé nú við dauðans dyr þegar komi að slæmu kólestróli en ég held ég verði bara að sleppa takinu á þessu máli og leyfa honum að kúldrast í sínum lazyboy með majónestauminn niður hökuna og pepsimaxflöskuna í klofinu, þegar hann drepst fyrir aldur fram skrifa ég svo minningargrein með titlinum "god knows i tried"!

þriðjudagur, 23. febrúar 2010

ég veit að þetta með jóhannes í bónus er óþolandi en...

jesús kristur almáttugur viljiði sjá þessa birtu þarna úti, ég er heltekin af þrá eftir að koma þessu dásemdarljósi í fast form svo ég geti hreinlega étið það, nuddað því inní húðina og hellt því í baðkarið, ég sit algjörlega dáleidd hérna í stofunni og horfi á það flæða innum gluggana sem ég nota bene þreif um helgina, þegar ég horfði á drullutaumana leka niður húsvegginn skildi ég skyndilega hvers vegna það er alltaf svona svakalega dimmt inni hjá mér, nákvæmlega núna er aftur á móti engu líkara en að stofan standi í björtu báli, ekkert nema ljós útum allt gólf og mér er hlýtt á ljótu táslunum mínum, og af því að guð er alveg að missa sig í gjafmildinni þessa dagana er nóvemberkaktusinn að blómstra í annað skiptið á tveim mánuðum og þar að auki gaf handlagni maðurinn, sem ég er stundum svo lánsöm að fá að sofa hjá, mér blóm á konudaginn og yndislega appelsínugula liljan var að springa út, getur maður beðið um meira?

(inní herbergi er krakkinn að vísu klæddur í magabol og húllapils að spila bratzdiskinn á hæsta styrk og hundurinn virðist vera með viðvarandi hárlos en látum það ekki skemma stemminguna)

sunnudagur, 21. febrúar 2010

fyrir ykkur kjaftakellingarnar

ég er bara í uppvaskinu og ekkert djúsí við það en ég hef það aftur á móti frá fyrstu hendi að viggo mortensen hafi verið inná hótel holti fyrir stutta að klípa kærustuna sína í rassinn fyrir allra augum, ja ef þetta er ekki maður að mínu skapi!!!

two´s a party three´s a crowd! (mamma ekki lesa þennan póst)

kaffið er svo sterkt að ég svitna, manni veitir ekki af extra koffíni núna enda stendur yfir allsherjar gegnumtekt á barnaherberginu sem er liður í því að fá krakkann til að sofa í sínu rúmi svo foreldrarnir geti rifjað upp hvernig maður sefur hjá, ég lyfti stundum brúnum þegar ég heyri hjónabandsráðgjafa tala um að fólk verði að passa sig á því að halda sambandinu fersku og láta hversdagsleikann ekki eyðileggja rómatíkina, djöfuls bull, hversdagsleikinn eyðileggur ekki rómantík, börn gera það, það kann bara enginn við að segja það....... skildi ég fá haturskomment útá þessi ummæli? frænka mín sagði einu sinni eitthvað dáldið ljótt um köttinn sinn á blogginu sínu og fékk yfir sig holskeflu af ja nánast morðhótunum, á því sama bloggi hafði hún samt sagt margt ótrúlega ljótt um sjálfstæðismenn en enginn sá ástæðu til að finna að því enda er nú ekki allt undir sama hatt sett í þessu lífi og guði sé lof fyrir það!!!, neinei ég elska auðvitað krakkarassgatið meira en guð og jesú og sólarljósið og allt það en ég er aftur á móti ekkert sjúk í að vakna með hæl í andlitinu og brjálæðislegt magn af slefi á koddanum mínum, maðurinn minn á það vissulega til að hrjóta en hann hefur afar notalega rúmnærveru og er alveg hættur að slefa og sparka í mig í svefni, það er eitthvað virkilega bogið við að barn kvarti undan því að geta ekki sofið fyrir hrotum föður síns og svo er ástæða fyrir því að hjónarúm heita hjónarúm en ekki fjölskyldurúm, þau eru nefninlega fyrir hjón svo maður bendi á hið augljósa, það er því tvennt fært í stöðunni, annað hvort að beyta öllum brögðum til að koma krakkanum úr hjónarúminu (jafnvel þó það kosti ferðir í ikea og peninga sem ég faktískt á ekki til) eða hreinlega kaupa nýtt hús með afar rúmgóðu og þægilega innréttuðu baðherbergi, og ekki láta eins og þið skiljið ekki hvað ég er að fara!!!

föstudagur, 19. febrúar 2010

ég lifi í draumi

mig bráðvantar nokkurra mánaða dvöl á eyðibýli, ef ég væri aðeins loðnari um lófana myndi ég kaupa mér eitt slíkt en því miður nýt ég ekki þeirrar blessunnar sem hárvöxtur í lófum er, loðnir handakrikar virðast ekki gera sama gagn (alltaf er ég jafn óheppinn), á eyðibýlinu mínu væri aldrei hávaði, nema þegar ég blasta græjunum en það væri auðvitað ekki hávaði, svo myndi ég bara skrifa, læra að prjóna almennilega, lesa lesa lesa, elda grænmetisrétti og hlaupa á fjöll, minn bitri veruleiki er aftur á móti sá að frammi í eldhúsi er gólandi barn sem heimtar bakaríiskruðerí og ég er alveg að fara að gefa undan, barnið vaknaði með þá meinsemd í höfðinu að hún yrði að fá ólívubrauð og súkkulaðisnúð í morgunmat því ekkert annað í veröldinni sé þess virði að borða það, nú hefur suðið staðið yfir í tvo og hálfan tíma og ég er bara að bugast, þetta skortir ekki þrautseigjuna þetta litla pakk, í þokkabót eru notuð lúaleg brögð eins og að kalla mann "verstu mömmu í heimi sem segir aaaaalltaf nei og leifir aaaaaldrei neitt", það er ekki laust við að manni finnist að sér vegið

ó já og viggo mortensen er á landinu, eins gott að þvo sér um hausinn og kaupa sér vax

laugardagur, 13. febrúar 2010

búðabömmer

jesús hvað það er ofboðslega erfitt að hlaupa á milli húsgagnaverslana, skrifborð í barnaherbergi sem kostar minna en tuttugu þúsund er ekki auðfáanleg vara á íslandi, mér hefði gengið betur að versla fíkniefni handa barninu, eiginmaðurinn gerði sitt til að auka á eymd mína með því að heimta að koma við í kosti en það hefur hann dreymt um alllengi eða alveg síðan hann heyrði þann orðróm á götunni að þar væri hægt að kaupa trix morgunkorn (svo fólk taki mig ekki fyrir pedófíl tek ég fram að hann er að verða 38 ára í maí), manninum til gífurlegra vonbrigða var trixið búið, bömmer, ég gerði ræflinum það til geðs og huggunnar að þvælast á milli yfirtroðinna rekka af innfluttum ammrískum varningi þó mér liði eins og heimsins versta föðurlandssvikara og landhelgisgæslan í þokkabót sveimandi yfir húsinu, það hvarflaði að mér hvort fólk sem verslar í búðinni sé grunað um landráð og fari á lista yfir hættulegustu óvini ríkisins (eða jóns ásgeirs), ég fann ekki eina lífræna vöru þó guð viti að ég leytaði mig nær dauða svo ég keypti íslenska tómata og nautahakk til að friða samviskuna og dröslaði vonsviknum eiginmanninum út í bíl, barnið er sem betur fer nægjusamt og gerir sér að góðu að fá sýnishorn af skrifborði í ammælisgjöf (það er ponsulítil spónarplata skrúfuð beint á vegg) og fær í staðinn ógeð smart öskurbleikan stól í sárabót og lampa í álíka örvandi lit, eitt er það sem öruggt er og það er að barnið hefur nægjusemina ekki frá móður sinni, sama verður ekki sagt um skapsveiflurnar, þessa dagana finnst mér reyndar eins og mig skorti ekkert á meðan ég get blastað bat for lashes út yfir endimörk alheimsins, ja reyndar væri fínt ef ég fengi pening í pósti og gæti keypt mér harm englanna, kirkja hafsins er alls ekki að standa undir væntingum og það er allt útlit fyrir að ég gefist upp á henni, ég hef aldrei gefist uppá bók fyrr, ekki einu sinni red and black sem ég las í frönskum bókmenntum hjá álfrúnu gunnlaugs og er einhver ömurlegast bók sem skrifuð hefur verið, svo mig langar í bókabúð, engin hætta á bömmer þar

föstudagur, 12. febrúar 2010

ég missi mig

útsvar er ógeðslega plebbalegur þáttur en þetta er sjúkt töff lag

mánudagur, 8. febrúar 2010

auðteymdi nautnabelgurinn

kona stendur við eldhúsbekk í bláum peysukjól sem pizzubaksturinn hefur litað hvítum skýjum, hún kennir til í úlnliðnum við að hnoða deigið og gerir öðru hvoru hlé á vinnu sinni til að virða fyrir sér kúluna sem hefur myndast við innanvert úlnliðsbeinið, það er að segja innanvert sé horft ofaná handarbakið en hún þarf reyndar að snúa lófanum upp til að kúlan komi í ljós rétt við þetta bein sem hana minnir að kallist úlna þó hún sé alls ekki viss, konan er bæði svefnlaus og þjökuð af slappleika sem líkast til skýrist af þrálátu lungnakvefi, pizzubaksturinn var upphaflega hugsaður sem hressingarmeðal og tilraun til að lyfta fremur óspennandi mánudegi uppyfir meðalmennskuna sem hann virðist dæmdur til að lúta, en allir sem einhverntíman hafa bakað pizzu vita að verkið er seinunnið og alls ekki eins einfalt og fólki hættir til að trúa, í það minnsta ekki sé því sinnt af þeim metnaði sem það verðskuldar og rekja má til eldhúsa napolíborgar, þó konan sjálf hafi ekki komið sunnar en til rómar er hún þess fullmeðvituð að pizzugerð er ekki eitthvað sem maður kastar til hendinni við og var því orðin verulega þreytt í fótunum og farin að finna óþyrmilega til hungurs þegar bakstrinum loks lauk, sem betur fer uppskar hún þó eins og litla gula hænan og lífræna speltpizzan með tómötum, lauk og ólífum hefði ekki einu sinni staðið í hreinræktuðum sikileying hvað þá rammíslenskri konukind, til að hámarka huggulegheitin ákvað konan að borða hnossgætið í sófanum yfir því eina sem hún fylgist með í sjónvarpi þessa dagana en það er ferðalag bretans stephen fry um víðáttur nýja heimsins, gjörningurinn allur var hinn ljúfasti ekki síst þar sem hann var framkvæmdur í selskap undraljóssins með bláklukkuaugun og fallegu löngu fingurna sem eiga það til að flækjast í hári móður sinnar, en það þykir konunni hreint yndislegt, eftir á þvælist það fyrir henni að hafa ekki nýtt kvöldið til verkefnavinnu og eitthvað bólar á samviskubiti, en til allrar guðs lukku er bitið laust og víkur fljótt fyrir mikilli syfju sem gerir alla hluti aðrar ósköp smáa og ónauðsynlega, eitt af því fyrsta sem manneskjan lærir í lífinu er að þegar fólki syfjar þarf það einfaldlega að sofa og svosem ekkert við því að gera annað en að leggja sig, svefnþörfin er svo skelfilega harður húsbóndi og ekki af því taginu sem tekur einhverju tali, konan sem á það til að vera í eftirgefanlegri kantinum þegar að frumhvötunum kemur ákveður því að sætta sig við orðinn hlut og hugsa ekki um það meir fyrr en á morgun, slekkur ljósin og leggst til svefns

sunnudagur, 7. febrúar 2010

í aðalatriðum með útúrdúrum

tvennt er það sem mér finnst að þurfi að taka fram á degi eins og þessum sem virðist ekki til stórræðanna og ég get engan veginn komið mér í einföld verk eins og það að klæða mig, í fyrsta lagi það að júróvisjón er viðbjóður sem fólk á ekki að láta bjóða sér því það veit sá sem eitthvað veit að lífið er of stutt til að eyða því lélega tónlist!!!!! fólk á ekki að gera sér viðbjóð að góðu þegar maður getur labbað inní smekkleysu og keypt sér two suns með bat for lashes á tilboði, 2200 krónur fyrir sjúklega fegurð er í alvöru talað enginn peningur, jafnvel ekki þegar maður á hann ekki til, hitt er kannski ekki eins þýðingarmikið en brýnt á sinn hátt og það er að það tekur því eiginlega ekki að borða ost undir 30% fitumarkinu þó hægt sé að bjarga því fyrir horn eigi maður heimalagað rifsberjahlaup frá systur sinni í búrskápnum, þetta er sumsé það sem mér liggur helst á hjarta í augnablikinu þó maður gæti auðvitað týnt eitt og annað til væri maður staðráðinn í því og ekki með kynlegan útvöxt á únliðsbeini sem veldur nokkrum óþægindum við tölvunotkun, ég gæti til dæmis játað það fyrir guði og mönnum að hafa keypt morgunblaðið í gær og það sem verra er lesið það, aðalleg þó sunnudagsmoggann, ég veit ég veit og já ég skammast mín, þetta var skyndiákvörðun tekin inná hlemmi en hver sá sem hefur upplifað það að leiðast inná hlemmi og heilar átján mínútur í strætó ætti að geta sýnt glæpnum skilning þó ég sé ekki að fara fram á fyrirgefningu, öllu merkilegri lestur stendur samt fyrir dyrum en ég á aðeins nokkrar síður eftir af góða elskhuganum hennar steinunnar sigurðar, þetta hefur tekið tíma enda fletti ég stundum til baka og les aftur því það er engin leið að horfa framhjá því að konan er snilldarstílisti og fyrir þeim er ég veik, sjálf þarf ég svo að skrifa ýmislegt og ekki allt innkaupalista þó ég verði að hripa einn slíkan niður hið snarasta, efst á honum er spikfeitur ostur til að troða inní grísalundirnar sem eru í kvöldmat, ég mynni svo á að það styttist í öskudaginn, uppástungur?

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

ég má ekki vera að þessu en...

ég óttast það mest af öllu að vakna einn daginn og vera búin með allar hugmyndirnar, fjarstæðukennt en ógnvekjandi, í augnablikinu ætla ég samt að einbeita mér að einhverju nærtækara, eins og til dæmis því að ég er á eftir áætlun og með höfuðverk, ekkert nýtt þar, svo er ég líka að kviðrifna eftir að hafa étið steiktan fisk með sellerírótarstöppu í hreint ruddalegu magni, tíminn læknar það þó hann sé mér ekki hjálplegur að öðru leyti, alla vega ekki á meðan ég eyði honum í eitthvað sem ég á ekki að vera að gera, eins og til dæmis þessi skrif

mig langar í birtuna á þessari mynd