fimmtudagur, 30. desember 2010

ekki fyrir viðkvæma


af öllu því sem maður gæti hugsanlega tapað á milli jóla og nýárs er þyngd - hér í merkingunni kíló af líkamsþyngd - ekki það sem maður myndi helst veðja á ef maður myndi af einhverjum ástæðum þurfa að giska á slíkt (sem er auðvitað frekar ólíklegt þegar ég spái í það), en þrátt fyrir að allar aðstæður bjóði uppá hið gagnstæða og þó ég hafi ekki með nokkru móti ætlað mér neitt í þá veruna er samt sem áður svo undarlega fyrir mér komið nú á næstsíðasta degi ársins að það hanga varla upp um mig spjarirnar, reyndar hangi ég sjálf varla uppi ef út í það er farið, skýringin á þessu - því auðvitað er skýring, ekki gerast svona hlutir af sjálfu sér - er svo ólekker að ég ætti auðvitað ekki að vera að gera neina grein fyrir henni hér en þið fyrirgefið mér, manni er ekki alveg sjálfrátt eftir það sem á undan er gengið, atburðarásin hófst á þriðjudag sem framan af var ekki ólíkur öðrum þriðjudögum þó annað ætti eftir að koma á daginn, ég stundaði mína heilnæmu heilsurækt og át hvítlauks og chilli ristað grænmeti bragðbætt með döðlum, kóríander og hvítlauksosti, réttur sem mér þykir afar góður og hef reyndar tilhneigingu til að borða ívið of mikið af, að því loknu dreif ég mig heim til systur minnar til að undirbúa för okkar í stórfjölskyldufögnuð sem systir mín stóð sjálf fyrir, við höfðum ákveðið að sameinast um framlag okkar á veisluborðið og verandi heilbrigðisfulltrúar fjölskyldunnar (hlutverk sem bróðir okkar sniðgengur af einbeitni) ætluðum við að "henda í" delíkatessen kjúklingasalat með kryddjurtum og kasjúhnetum sem mig persónuleg hlakkaði mikið til að borða, þrátt fyrir þann ásetning að "henda í" eitt salat vill það nú einhvern veginn verða þannig þegar við systurnar baukum eitthvað saman og ekki síst ef matur kemur við sögu að allt er í einum seinagangi og á heilli heljarinnar heljarþröm ef svo má að orði komast, við rétt náðum í tæka tíð í partýið og ég náði ekki einu sinni að smakka salatið til, í partýinu tóku veisluföngin að hlaðast upp, einhver kom meira að segja með tartalettur með hangikjöti sem mér þykja svona í gómsætara lagi og annar með sænskar kjötbollur í súrsætri, hvílík veisla, það olli mér því gífurlegum vonbrigðum að finna hjá sjálfri mér eitthvert óútskýranlegt áhugaleysi þegar það loksins kom að því að fá sér á diskinn og gott ef mér þótti salatið ekki alveg sérstaklega ókræsilegt, ég ákvað því að hinkra aðeins með matinn og reyna í staðinn að tjónka eitthvað við ellabjé sem var brjálaða barnið í boðinu og gerði allt sem hann gat til að sturla litlu systur sína og gekk það vel, en það var sama hvað ég beið eftir að hungrið segði til sín ekkert gerðist og þess í stað fer mig eins og að klígja við tartalettunum og flatbrauðinu (eins og það sé kurteisi!) og þó ég geri tilraun til að stinga upp í mig bita og bita fylgir því ekki nokkur einasta ánægja, það fer því svo að parýið líður undir lok án þess að ég hafi komið neinu af ráði niður en líður þó eins og það litla sem endaði í maga mínum þenjist út og verði einhvern veginn fyrir mér, eins og það vilji ekki gefa sig meltingunni á vald heldur tregðist við ofarlega í maga mínum og ætli út aftur, að partýinu loknu versnar málið til muna þegar mágkona mín bíður mér heim í fríkeypis rauðvín og kokkteila, jafnvel tilhugsunin um ískaldan kokkteil stútfullan af maukuðum jarðaberjum kom ekki af stað neinum spenningi innra með mér og það er eðlilega þarna sem það fer að renna upp fyrir mér að það hljóti að vera eitthvað annað og meira á bak við magaóþægindi mín en venjuleg andmæli gegn makkíntossmolunum sem ég hafði tínt uppí mig yfir daginn, eitthvað mikið hljóti að vera að, þann grun fæ ég svo staðfestan stuttu síðar inná salerninu heima hjá mér hvar ég hef eytt umtalsverðum tíma síðustu daga (og engum kvalitítíma skal ég segja ykkur) jökulköld og þó rennandi sveitt af þeim átökum sem því fylgja að hreinsa meltingarfæri sín og maga af öllu því sem þar var að finna, óskaplega óskemmtilegur gjörningur enda smakkast makkíntoss engan veginn eins vel á leið út um munninn eins og þegar það fer þá leið sem því er ætlað að fara, í þokkabót hefur þetta uppistand mitt hlotið afar dræmar undirtektir heimilisfólksins en husband sérstaklega veit ekkert viðbjóðslegra en uppsölur og gildir þá einu hvort þær eru hans eigin eða annarra, svo mjög bauð manninum við ástandi mínu að hann sendi eldra barnið af heimilinu svo hann gæti flutt inn til hennar og skilið mig eftir eina í svefnherberginu, það er ekki laust við að manni sárni þó maður beri sig vel, eins og alltaf er það kríuljósið sem lýsir upp veröldina og lætur ástand móðurinnar ekki vekja hjá sér neinn viðbjóð að ráði heldur kvartar einungis yfir því að fá ekki að drekka með mér gatorade drykkinn sem eiginmaðurinn sótti í sjoppuna svo ég þornaði nú ekki alveg upp, fólk er sem sagt svona misspennt fyrir því að skiptast á líkamsvessum við mann í augnablikinu og ætli maður verði ekki bara að reyna að taka því, allir hafa jú sín takmörk

sunnudagur, 26. desember 2010

gott að maður er ekki einn

I´m tired of my life, my clothes, the things I say. I´m hacking away at the surface, as at some kind of gray ice, trying to break through to what is underneath or I am dead. I can feel the surface trembling - it seems ready to give but it never does. I am uninterested in current events. How can I justify this? How can I explain it? I don´t want to have the same vocabulary I´ve always had. I want something richer, broader, more penetrating and powerful. (James Salter)

laugardagur, 25. desember 2010

hvílík dásemd og draumur

gleðilega hátíð elskurnar, jóladagur er yndislegastur allra daga og þegar hann vekur mann með jólasnjó og angan af eplailmolíu leggur um heimilið er ómögulegt að verða annað en alveg póstkortavæmin og langa ekki til að gera neitt nema hringja í mömmu sína, best er þó að barnið sem var að fara á límingunum í gær og skoppaði um allt hús með fjörfisk í öllum vöðvum liggur nú hljótt og blítt í sófanum eins og eftir vænan skammt af deyfilyfjum og virðist ekki ætla að fara fram á nokkurn skapaðan hlut í dag nema horfa á barnatímann, aðfangadagur er auðvitað hreinasta tortjúr fyrir lítið fólk og sjálfsagt hefur það endanlega ært óstöðugan að sjá pakkann frá foreldrunum sem var þannig í laginu að hann gat eiginlega ekki innihaldið neitt nema hinn langþráða stjörnukíki, vesalings barnið var gjörsamlega að tryllast úr spenningi og hægagangurinn í móðurinni sem var enn á handklæðinu og búin að festa rúllurnar í hausnum þegar bjöllurnar hringdu inn jól og maturinn kominn á borðið hjá tengdó var ekki að afla neinna vinsælda, ég fékk að heyra að ég væri óþolandi, maður þurfi ekki alltaf að vera að dedúa við hárið á sér og setja á sig maskara þegar önnur og meira aðkallandi verk bíði manns, ég var nú samt fegin að hafa lappað aðeins uppá mig þegar ég opnaði gjöfina frá eiginmanninum sem innihélt sjúklega glamörös partýkjól og ástmögur minn braga ólafsson, eru engin takmörk fyrir því hvað ein kona getur verið heppin spyr ég nú bara, ég er harðákveðin í að vera í dressinu öll jólin og bæta á varalitinn enda ekki braga bjóðandi að maður lesi hann í sjoppulegum náttkjól og illa til hafður, sér í lagi ekki á jóladag svo það er eins gott að maður komi sér í sparigallann og gera sig kláran í hangkjötið, þó að reykt kjöt freysti mín engan veginn óbærilega hlýt ég að geta komið niður eins og einni sneið af því enda hef ég nú þegar með einhverju ofurmannlegu afli brotið bjarg af oflæti mínu og sniðgengið hinn hefðbundna banana og hnetusmjörs morgunverð í staðinn fyrir jólabland og makkíntoss, hvílíkur sveigjanleiki, ég er ótrúleg

föstudagur, 24. desember 2010

gleðileg jól

ljúfar stundir kæra fólk, ljós og friður til ykkar

mánudagur, 20. desember 2010

beauty is truth, truth is beauty

yndislega litla barnið lagði af stað á jólaball í nýja hippa/pocahontas/þjóðlagasöngkonukjólnum og bleiku glimmer sokkabuxunum sem hún fékk óvænt að gjöf í gærkvöldi frá glysgjörnu mömmunni sinni, hún tók svo outfittið á algjörlega annað level þegar hún náði sér í skærbleikt blóm á stærð við hálft höfuðið á sér og nældi í hárið, þar fer sannarlega dóttir móður sinnar, sjálf er ég algjörlega veik í sálinni af þrá eftir jólakjól þó enn einn kjóll sé um það bil það síðasta í veröldinni sem mig vantar en það verður líklega seint um mig sagt að ég sé þræll skynseminnar, ég er búin að búa kjólinn til í höfðinu á mér ásamt fjaðraeyrnlokkunum sem myndu passa fullkomlega við hann og ég myndi ekki neita því sjö sinnum að dæmið sé dáldið bleikt, en þar sem ég kann ekki á saumavél og á enga peninga og afar litla plastpeninga þá ætla ég bara að drattast í leikfimi og hætta að pæla í þessu, munum samt að fegurðin bjargar heiminum og að því tilefni mæli ég með að allir lesi greinina eftir jón kalman sem birtist í fréttatímanum á föstudaginn og minnir á mikilvægi fegurðarinnar í heimi ljótleikans, maðurinn minn sem er klárlega raunsæi aðilinn í okkar hjónabandi bendir mér stundum á hvað við mannfólkið séum ömurleg tegund, að við séum eina dýrið sem hafi ekkert hlutverk í hringrásinni, það sé enginn að fara að éta okkur og við kunnum ekkert nema að eyðileggja, einfeldningurinn ég bendi þá á að hlutverk mannsins verði að vera það að búa til fegurð, búa til fegurð og elska, er það ekki jafngott og hvað annað?

föstudagur, 17. desember 2010

jólafríííííí........

....og herra minn í himnahæðum hvað ég er búin að vinna fyrir því, starf kennarans er nefninlega töluvert frá því að vera þessi þægilega innivinna sem margir gera sér í hugalund, jólamánuðurinn er vægast sagt strembinn í kennslustofunni og maður má hafa sig allan við til að parýið endi ekki með ósköpum, jesúbarnið virðist ekki vera vinsæl fyrimynd unglinga í dag og eftir að hafa farið í gegnum jólaball í gærkvöldi og litlu jól í morgun þar sem hvellhettur, kveikjari og kartöfluflögur fengu nýtt og aukið skemmtanagildi gat ég ekki annað en limpast niður við eldhúsborðið heima hjá systur minni og troðið mig út af osti með rababarbíu, af hverju hefur manni aldrei dottið til hugar að grilla snakkið sitt með kveikjara og mylja það svo út um öll gólf heima hjá sér? hvað er eiginlega að manni? að sama skapi hefur mér aldrei hugkvæmst að tæta bréfið utan af makkíntossinu niður í agnarsmáar ræmur og fleygja því út um allt, sem er synd því ég sé það núna að þetta er tilltölulega billeg leið til að hressa uppá heimilið fyrir jólin ef maður væri bara ekki svona fastur inní kassanum, meira hvað það er ömurlegt að vera svona steríll og döll

af ólíkum og allt öðrum toga er sú staðreynd að það er í meira lagi hugsanlegt og eiginlega bara alveg gefið að ef ég spili nóttin var sú ágæt ein með dikta einu sinni enn muni talvan mín drepa sig

sunnudagur, 12. desember 2010

ekki aftur!

barnið á ekki orð yfir smekkvísi jólasveinsins sem stakk frábærlega litríkum röndóttum hnésokkum í skóinn hennar í nótt, nákvæmlega eins sokka og hana hefur alltaf langað í, ég læt í ljós einlæga undrun mína yfir ótrúlegu innsæi sveinsins og reyni að gera sem mest úr því hvað þetta er allt saman undarlegt, það þurfi enga smá skipulagshæfileika og afar skilvirkt skráningarkerfi til að halda yfirsýn yfir öll þessi börn og allar þeirra sérstöku óskir, maður hljóti hreinlega að þurfa að vera fjarskyggn, en ekkert stoðar, þó ég hafi bundið miklar vonir við að barnið væri búið að átta sig á hinum augljósu brestum í svikamyllunni um jólasveinana virðast þær vonir mínar hafa verið ótímabærar, það þarf greinilega meira en greind til að sjá í gegnum blekkinguna og mig grunar að þetta meira sé vilji því ekki skortir barnið greind, yfir fréttatímanum í gær smíðaði hún til dæmis afar lógíska skýringu á því hvers vegna útlit sveinanna breytist svo mjög frá ári til árs, það er vegna þess að allir jólasveinar nema þeir sem setja í skóinn eru gervi, eðlilega, sá sem hefur svo annasömu starfi að gegna og þarf auk þess að fara leynt við að sinna því starfi fer ekki að blása sig út í fjölmiðlum og sóa sínum dýrmæta tíma í kjaftasnakk og óþarfa públisití, frægasti maður í heim þarf ekki á slíku að halda og þess vegna eru það bara gervijólasveinar sem sjá um að koma fram í fréttum, mæta á jólaböll og annað þess háttar tilfallandi sem hinn störfum hlaðni og metnaðarfulli ósvikni sveinn getur ómögulega sinnt, vissulega rökrétt og maður bara kinkar kolli og blótar í hljóði, þessi vitleysa virðist engan endi ætla að taka og framundan eru langir og pínlegir tólf dagar og ítrekuð brot á níunda boðorðinu, hvílíkt böl að vera svona lélegur lygari

föstudagur, 10. desember 2010

þú ert sko vinur minn

ég á leynivin í vinnunni, algjörlega æðislegan leynivin, svo æðislegan að ég get eiginlega ekki beðið eftir að mæta í vinnuna á mánudaginn og eitthvað er það nú ótrúlega erlendis gott fólk, gjöfin sem leynivinurinn minn sendi mér í dag var nefninlega svo dásamlega vel valin og smekklega over the top glamörös innpökkuð að ég vissi hreinlega ekki hvert ég ætlaði, leynivinurinn hafði haft fyrir því að föndra gylltan (nota bene gylltan!!!) þríhyrning og umvefja hann skærbleikum (nota bene skærbleikum!!!) borða, utan á pakkanum hékk stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag reiknuð út af vísindalegri nákvæmni út frá fæðingardegi mínum og inní honum voru ójáójáójáójá heilsunammi og guðdómlegar hárspennur með fjólubláum (nota bene fjólubláum!!!) steini, það er deginum ljósara að leynivinurinn er annað hvort meðvitaður um mína fíkn í fegurð eða sjálfur jafnilla haldinn af kvillanum, ég átti ekki orð en var svo þakklát að ég henti mér á verkefnabúnkann minn sem ég vægast sagt hef forðast að eiga samræði við alla vikuna og elskaðist með honum daglangt án þess að finna að nokkru ráði fyrir því að langa í leikfimi,ég þyrfti að eiga þennan leynivin alltaf, ég elska þig leynivinur, plís vertu vinur minn að eilífu

þriðjudagur, 7. desember 2010

meira glimmer!

husband er niðursokkinn í að kanna hvaða áhrif það hafi á upplifun manns af alien myndunum að horfa á þær í öfugri röð, nokkuð sem mér finnst ekki vera að gera neitt fyrir the christmas spirit þó ég þegi bara og bæti á jólaskrautið, hvað get ég sagt, ég er veik fyrir manninum og get ekki neitað því, sérstaklega þegar hann er í lopapeysunni sem ég gaf honum í fyrra og gerir ekkert nema ýkja hans meðfæddu fegurð, mér líkar muchos! en já, ooops i did it again, enn eitt árið í röð hef ég farið gjörsamlega fram úr mér í jólaskreytingunum og eytt hreint undarlegum upphæðum í greni, ég hugsa að það væri alls ekki svo fjarstæðukennt að segja að meðalstór íkornafjölskylda gæti hæglega hreiðrað um sig hjá okkur án þess að við yrðum vör við það að nokkru ráði, það er svo annað mál og ekkert til að hreykja sér af að þetta árið hefur mér endanlega tekist að mála mig út í horn hjá litlu manneskjunni minni sem gafst upp á að skreyta með mér af því ég er svo tryllingslega stjórnsöm og leiðinleg, husband er löngu hættur að skipta sér af þessum jóladillum mínum en ég er ansi hrædd um að eldvarnareftirlitið (er það til?) hefði ýmislegt við allt þetta greni og óvarið kertaljós að athuga, notkun rafmagnsljósa er í sögulegu lágmarki hér á heimilinu og ég hyggst bæta um betur því mér reiknast svo til að ef ég bæti nóg við glimmerið muni myndast nægt endurkast til að lýsa upp heimilið án þess að ég kveiki á einni einustu peru, ég elska þegar ég hugsa í lausnum

sunnudagur, 5. desember 2010

þegar barnið kemst í tölvuna

hæ mamma ég elska þig það er gaman að vera með þér elska ikur öll kv. kría sól xoxoxoxoxo ég á erfit með að muna hvar stafirnir eru en það er samt gaman að skrifa í tölfuni en það er en skemti legra að horfa kv. kría sól bæ.

miðvikudagur, 1. desember 2010

ég bíð enn

þá er hann kominn, desember það er að segja ekki snjórinn, hann er víst upptekinn við að falla í útlöndum og skapa samgönguusla, ég bíð þá bara áfram, ætli það sé einhvers staðar ennþá hægt að fá svona gamaldags níþrönga skíðagalla í stíl við gönguskíðin? bara svona ef ske kynni, já og launaseðillinn kom auðvitað líka í dag þó það taki því nú varla að minnast á það, ég skil ekki hvernig launaseðillinn minn nær að raungerast og verða sýnilegur miðað við hvað innihaldið er agnarsmátt, eins gott að maður nærist ekki á neinu nema ást og lestri, ég sit og horfi á kiljuna og öfundast út í fólk sem fær launaseðil fyrir að lesa bækur, ekki það að ég væri góð í svoleiðis vinnu, til þess er ég alltof sérhlífinn lesandi og fæ mig ómögulega til að lesa annað en það sem ég hef unun af, ég álása sjálfri mér til dæmis oft fyrir það hvað ég er áhugalaus og löt við að lesa ævisögur en ég hef bara svo gasalega takmarkaðan áhuga á raunveruleikanum að ég tek mig aldrei á, má ég þá frekar biðja um töfraraunsæið, ja eða bara töfra.....töfralaunaseðil kannski, já og svo þennan snjó

þriðjudagur, 30. nóvember 2010

vinsamleg tilmæli

jæja, þá hefur sá sem hefur yfirumsjón með veðri og færð á vegum nákvæmlega einn klukkutíma og fimmtíu og tvær mínútur til að drekkja öllu í sindrandi snjó, ég tel mig hafa hagað mér með allra ágætasta móti þessa ellefu mánuði sem liðnir eru af árinu og þætti ekkert tiltökumál þó mér yrði veittur ótæplega jólasnjór út desember mánuð svo ég fái sem mest út úr honum, husband myndi auðvitað segja að þetta sé algjört ábyrgðarleysi af mér þar sem við erum ekki búin að umfelga og dekkin á bílnum yrðu varla mikið hættulegir þó við vaxbærum þau en mér er bara alveg sama, mig langar svo sjúklega í jólasnjó að ég er til í að leggja bílnum og fara í staðinn á gönguskíðum í vinnuna allan næsta mánuð, sem væri ekki lítil fórn ef málið er skoðað í því samhengi að ég hef aðeins einu sinni farið á gönguskíði um ævina, ég var sex ára og að segja að mér hafi þótt það leiðinlegt væri að fara afar sparlega með orð, ég grenjaði viðstöðulaust allan tímann og sór þess eið að fara aldrei, aldrei aftur á skíði, sem ég hef ekki gert svo þið sjáið að mig virkilega langar í þennan jólasnjó, plís

p.s. ég bið norðlenska ættingja mína um að halda montkommentum í lágmarki, it hurts enough as it is

sunnudagur, 28. nóvember 2010

fyrsti

allt í litlu kærleiksveröldinni er á sínum stað, myrkrið fyrir utan gluggann og kertaljósið á eldhúsborðinu, fallegi maðurinn undir sænginni og kaffið í bollanum, við barnið opnum dyrnar uppá gátt og segju dálítið hátíðlega; velkomin aðventa, sækjum rykfallna kassa í geymsluna og týnum upp úr þeim gersemarnar, dýrmætastur af öllu er litli glimmerköngullinn sem var fyrsta jólagjöf barnsins til mín og er svo fagur að ég verð alltaf að depla burt tárunum þegar ég tek hann upp úr handmáluðu öskjunni sem hún bjó til undir hann, svo púslum við saman kertastjakanum með básúnenglunum sem snúast og klingja yfir logunum, dáumst að skuggaspilinu og ég hugsa um hvað ég er heppin, ótrúlega heppin

mánudagur, 22. nóvember 2010

það er þetta með krosstrén

barnið þverbrýtur ófrávíkjanlegu regluna um fyrsta desember vísvitandi og laumar jólalögum í spilarann svo lítið beri á, ég horfi bara í aðra átt og þykist ekki taka eftir neinu, svona linast maður með aldrinum

sunnudagur, 21. nóvember 2010

ofvaxna barnið æsir upp í sér tilhlökkunina

hvað langar mann, jú mann langar í bækur, á ekki að vera búið að senda fólki þessi bókatíðindi, ég hef ekki fengið eintak inn um lúguna mína og ég er herfilega móðguð, ég fæ samt eintak af morgunblaði davíðs oddsonar á hverjum morgni þennan mánuðinn, davíð hringdi nefninlega í mig og vildi ólmur fá að bjóða mér uppá mánaðaráskrift alveg fríkeypis, ég sagði honum að honum væri velkomið að eyða peningunum sínum í pappír handa mér en ég muni sko aldrei borga honum fyrir hann, hann aftur á móti er sannfærður um að eftir mánuðinn muni ég ekki geta án blaðsins verið því það sé svo æðislegt, sem það er ekki, eitthvað er þó þar skrifað um bækur sem kyndir undir manns sjúku löngunum, og mann langar sko sjúklega í handritið... hans braga ólafs og doris deyr eftir kristínu eiríks og sýrópsmánann hans eiríks guðmunds, langar langar og langar, munum svo að versla bækur í bókabúðum hvar þær eiga heima en ekki í kjötkælinum í svínabúllunni, hvers vegna í veröldinni geta matvörbúðir ekki bara haldið sig við hlutverk sitt og selt matvöru? að geta ekki snúið mér við í krydddeildinni án þess að fá sokka og yatzee og hárbönd og guð má vita hvað í andlitið er eitthvað sem mér finnst algjörlega óþolandi, þessi grípa með menning fer óstjórnlega í taugarnar á mér enda tvinnar hún saman það tvennt sem neytandanum mér finnst hvað mest pirrandi, hvetur til þess að fólk kaupi lélega vöru a.k.a draslvarning og eyði í óþarfa sem að öllum líkindum endar fljótlega í ruslinu, en engan pirring því besti mánuður ársins er alveg að koma, ég er gjörsamlega að bilast úr desemberspenningi og ætla að gera piparkökuhús um næstu helgi með mömmu minni, mamma mín er ruglgóð í svona hlutum sem er gott því ég er með fatlaðar fínhreyfingar eins og ég hef tæpt á áður og væri vís með að brenna gat á fingurna á mér með sykurlíminu og klístra eldhúsið hjá mömmu allt út með glassúrinu, þrátt fyrir sjálfa mig státar heimili mitt yfirleitt af geysifínum heimagerðum aðventukransi í desember þó hann sé kannski alltaf dáldið í villtari kanntinum og ef ég er ekki alveg út úr korti (sem væri svo sem ekkert nýtt) þá held ég að fyrsti í aðventu sé líka um næstu helgi svo ég þarf að gera eitt stykki villtan krans í vikunni, ég ætla að vera búin að kaupa mér jólaplötuna hans sigurðar í hjálmum fyrir kransagerðina og grafa eftir disknum hans dylan sem ég keypti fyrir síðustu jól, hann er svo mikil dásemd að ég get ekki mælt nógsamlega með honum og ef þú átt hann ekki skaltu kaupa hann strax og þú færð útborgað, það er nebblilega alveg á hreinu að tónlist og óþarfi eru ekki orð sem ég nota í einni og sömu setningunni

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

justice for all!

allt fór í háaloft í kennslustofunni minni í dag þegar ég las í gegnum mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna með nemendum mínum í tíunda bekk, ástæða uppþotsins var ekki sú að börnunum misbiði þegar ég benti þeim á hversu gróflega mörg ákvæði sáttmálans séu brotin til dæmis í löndum þar sem konur eru þvingaðar í hjónaband og fólk pyntað til dauða vegna pólitískra skoðana sinna, vissulega fannst þeim þetta ekkert sniðugt en það sauð fyrst upp úr þegar ég fór í ákvæðið um rétt allra til frítíma og hvíldar, loksins loksins töldu skólaþjáðir nemendur mínir sig hafa fengið vopn í hendurnar til að spyrna við hinni (að þeirra mati) óhóflegu heimavinnu sem lögð er á þeirra ungu herðar og er þau lifandi að drepa, hvers konar skóli er þetta eiginlega sem virðir ekki þetta grundvallardokjúment hins siðmenntaða heims, hvern hefði grunað að í mosfellsbæ því friðsæla samfélagi væru á daglegum basís framin brot á réttindum þeim sem hinn mikli sáttmáli kveður svo skýrt á um að tilheyri okkur öllum og enginn geti tekið frá okkur, uppreisn!!! uppreisn!!! réttlætið skal sigra!

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

nei hættu nú!

ég stend fyrir framan fataskápinn minn gjörsamlega yfirkomin af undrun og vantrú, í enn eitt skiptið hefur maðurinn minn gengið frá hello kitty nærbuxum yngra barnsins inní skápinn minn þar sem þær liggja innan um blúndubrjóstarhaldara og annað slíkt sem greinilega er í eigu konu með takmarkaðan húmor fyrir nærklæðnaði en töluvert meira af hégóma, ég tek nærbuxurnar upp og máta þær við mig miðja, buxurnar sem eru að verða of litlar á dóttur mína gætu kannski, af því maður er svo skapandi, nýst mér sem frampartur á heimasaumaðan þveng en að öðru leyti sé ég ekki hvernig ég ætti að geta hulið mig með þeim, hvernig má þetta vera? hvað gengur manninum til? ég get ekki einu sinni afsakað hann með því að þetta séu einfaldar hvítar nærbuxur sem (að því gefnu að maðurinn minn hefði gjörsamlega engan sans fyrir hlutföllum og stærð sem er alls ekki tilfellið) hefðu auðveldlega getað þvælst alveg óvart inní skáp með öðrum hvítum þvotti, hin sjokkerandi staðreynd er aftur á móti sú að brækurnar eru vandlega skreyttar að minnsta kosti þrjátíu myndum af höfði hinnar japönsku hello kitty í beibíbláum og bleikum lit, hvernig á maður að túlka þetta, er maðurinn einfaldlega fordæmalaust utan við sig og getur ekki að þessu gert eða (og nú veit ég ekki hvort maður vill vita svarið) þætti honum allt í lagi og (nei andskotinn hafi það) jafnvel skemmtilegt ef ég klæddi mig í slíka flík á prívatmómentum? ég held alla vega að ég sé búin að færa óhrekjanleg rök fyrir því að þegar konur kaupa sér nærföt eiga þær ekki að gera það fyrir neinn nema sjálfa sig því það er augljóst að karlmaður sem finnur sig í þeirri príma stöðu að kona ætli að fækka fötum í návist hans hefur ekki nokkurn einasta áhuga á spjörunum sem detta af henni, kannski ég kaupi mér bara svona hello kitty næríur, sprangi í þeim út um allt hús og testi þessa kenningu.....to be continued

sunnudagur, 14. nóvember 2010

the burden of beauty

ástin er ágæt en fegurðin bjargar heiminum, auður ólafs segir það og nick cave segir það líka, nick cave segist meira að segja hafa það frá guði og ekki dettur mér til hugar að þræta við manninn, ég legg mitt af mörkum og set rúllur í hárið og skúra fyrir mömmu mína á meðan dúið er að taka sig, mamma smellir platters í spilarann og ég svíf um með moppuna, grínlaust, svíf, alveg eins og alvöru fifties housewife í ryksuguauglýsingu, bara sveittari, gólfhitinn hjá mömmu hefur rokið upp úr öllu valdi í kuldanum og nærbuxurnar límast við rassinn á mér, ég fer að hafa áhyggjur af að þetta geti farið illa með dúið, sem það gerir, rúllurnar leka úr og það vantar allt voljúm í hárið, andskotinn, mamma opnar konfektkassann sem er að renna út og ég sé til þess að svissneska súkkulaðið fara ekki til spillist (ég er ekkert nema hjálpsemin í dag), dúndra mér svo í að pússa gler og þurrka af á meðan sykurinn ólmast í blóðinu, ég eyri engu, ekkert fer framhjá mér, ég er terminatorinn, mamma biður mig að taka því rólega, hún vill ekki að ég ofgeri mér, eins og terminatorinn geti ofgert sér, glætan, ég fer heim og fyrst ég er búin að vinna svona ötullega í þágu fegurðarinnar í dag finnst mér ég eiga það inni að rústa eldhúsinu við matseldina, stofan er full af reyk og olían á pönnunni frussast yfir alla eldavélina, who cares, ég horfi á allt drulluga leirtauið alveg poll og hugsa bara það get´ekki allir verið gordjöss, husband getur reddað þessu á morgun, hvað á ég að þurfa að segja fólki það oft að ég get bara ekki alltaf verið að bjarga heiminum

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

og maður hugsar (guð hjálpi mér)

hvað gerir fólk þegar gömul húsráð eins og að fara snemma í háttinn og nærast vel gagnast ekki af neinu viti í glímunni við hversdagsþrautir þær sem bíða meðalmanneskunnjar á hverju horni sé hún yfir höfuð enn að hætta sér út úr húsi, í sjónvarpinu talar fólk um að finna endanlegar lausnir, mann svimar af umfangi orðanna, svona eins og þegar maður óvart hleypir að þeirri hugsun að himinngeymurinn sé endalaus og óttast í kjölfarið að tapa þeim litlu geðsmunum sem maður telur sig þó enn hafa nokkurn veginn á þurru, ætli maður verði einhvern tíman svo borubrattur að telja sig hafa fundið hina endanlegu lausn? er slíkt yfir höfur hollt? kannski jú í því samhengi að hætta að brúka krítarkort en fljótlega eftir það verða útlínurnar dáldið óljósar, ég viðurkenni að hugmyndin freistar mín, meira að segja mikið, svo mikið að að tala um jönkistatendensa og þrá eftir heilögum disney væri enginn ýkjugangur að ráði, á mínum fáu jafnvægismómentum læðist samt að mér sú tilfinning að draumurinn um hina endanlegu lausn sé mannæta sem einn daginn muni bryðja í mér beinin og sjóða í mér sálina þar til öll hamingjan gufar upp úr henni, en ég get auðvitað bara talað fyrir mig sjálfa (afar erfitt og vanþakklátt jobb það enda ekki margir til í að taka það að sér - ergo ég neyðist til að sinna því sjálf þó ég taki út fyrir það) og jújú ég þekki vissulega fólk sem kannast ekki við að hafa nokkru sinni rekið upp hnikil, hvort sem maður leggur nú einhvern trúnað á það

mynd: kate towers

laugardagur, 6. nóvember 2010

lesum

þessa konu þekki ég lítilega og ég dáist að henni, til hamingju kraftastelpa!

föstudagur, 5. nóvember 2010

maður er hress (að vanda)

það bara hlýtur að standa skrifað einhvers staðar að kaffi lækni höfuðverk, ef ekki þá er það hér með fært til bókar, kaffi slær líka á hungur sem kemur sér einmitt vel þegar maður er með svo mikinn hausverk að fábrotið úrvalið í ísskápnum verður einhvern veginn yfirþyrmandi og maður getur ómögulega tekið ákvörðun um hvað maður eigi að fá sér að borða, ég staulaðist inn um þröskuldinn heima hjá mér hálfblind af höfuðkvölum eftir að hafa farið yfir um það bil þrjúþúsund próf í flúorlýstu loftlausu kennslustofunni minni með ærandi föstudagsgleði fjögurhundruð unglinga í eyrunum, ég slökkti ljósin og hlustaði á kaffið spítast upp í könnunni og hugsaði um að hún sé nú ekkert smáræði þakkarskuldin sem maður stendur í við brasilíska kaffibændur! en þá er þessi ljómandi ömurlega vika loksins að baki og guði sé lof fyrir það, svefntruflanir, vinnustress og harkalegur niðurtúr eftir ameríkugleði fer ekki vel í sensitívar konur og herra minn í himnahæðum hvað maður getur orðið leiðinlegur og erfiður í umgengni svo ekki sé minnst á vænusýkina, mig dreymdi til dæmis í alla nótt að ég væri persóna í mynd eftir david lynch og ef það bendir ekki til þess að maður sé hálfslappur á taugum þá veit ég ekki hvað! husband er að reyna að lappa upp á móralinn og ætlar að bjóða mér í bíó í kvöld og er greinilega allur að vilja gerður því hann stakk sjálfur uppá að við færum á hressu lesbíumyndina með mike sæta ruffalo þó ég viti vel að hann langar miklu meira á mynd með byssum og blóði og mönnum sem segja oft motherfucker, svona getur maðurinn minn nú verið mikið afbragð þó mig langi stundum til að kæfa hann með koddanum klukkan sjö fjörutíu á morgnana, maður hemur sig fyrir þær sakir einar að díllinn hljóðaði víst uppá í blíðu og stríðu og svo myndu börnin auðvitað taka þetta nærri sér, en ég læt hann sko splæsa í stóran popp í kvöld í staðinn andskotinn hafi það, minna má það ekki vera

fimmtudagur, 4. nóvember 2010

inngrip

stundum, þegar maður af einum og öðrum ástæðum sem maður kann ekki endilega að gera grein fyrir húrrar á ógnarhraða niður lífsleiðarennibrautina og lendir með hörðum skelli á rassinum í jökulköldum polli, þá seilist úníversið upp í ermina sína og dregur fram birtuhvítan stjörnusnjó og indígóbláan stjörnuhiminn eins og til að benda manni á að líta upp öðru hvoru svo fegurðin fari nú ekki alveg framhjá manni, maður stoppar og starir, stendur og horfir eins lengi og eyddir skósólarnir og óþolinmóður hundurinn leyfa, hugsar um jólakort og trönuberjailmkerti og súkkulaðiklíning á kríukinn, heldur svo áfram pínulítið glaðari en finnst hálfleiðinlegt að kunna ekki að nefna stjörnurnar

sunnudagur, 31. október 2010

ameríka ameríka, ég elska þig

indian summer og logandi haustlauf í boston er ekki eitthvað sem gerir mann leiðan og miður sín, sérstaklega ekki þegar maður eyðir dögunum í að tala við skemmtilegt fólk, drekka kokkteila og borða indverskan mat og ostakökur, fyrir slíka upplifun er vel þess virði að leggja á sig fimm klukkustunda flugferð þó manni sé ekki endilega mjög vel við að ferðast með þeim hætti, flughræðsla mín fer vaxandi með árunum og í seinni tíð hef ég oft þurft að bregða á það ráð að botna ipodinn minn svo ég hendist ekki upp úr sætinu og öskri "þetta er brjálæðislegt! hvað erum við öll að gera hérna!" þegar flugstjórinn minnir farþegana á að þeir séu í skrilljónþúsund feta hæð yfir miðju atlantshafinu, á slíkum augnablikum er ég mjög þakklát fyrir sigurrós og ponsulitlu vínflöskurnar, eitt fékk ég staðsfest sem mig grunaði reyndar eftir síðustu ferð mína til nýja heimsins og það er að ég elska ameríkana, ameríkanar eru æðislegir, það er bara ekki hægt að hugsa sér hjálpsamar og kurteisara fólk, þegar ég segi ameríkanar meina ég samt auðvitað alla nema ofsóknaróðu tollverðina sem láta manni líða eins og maður sé með allt mögulegt ólöglegt innvortis og það eitt og sér að maður kjósi að ferðast um heiminn bendi til þess að maður geti ekki haft neitt nema illt í hyggju, ég gekk út úr flugstöðinni nánast viss um að ég væri að fara að gera eitthvað rosalega ljótt af mér en gæti bara ekki munað hvað, óþægilegt, tilfinningin hvarf samt um leið og ég tillti mér niður á hótelbarnum og þjónustustúlkan kallaði mig stöðugt honey, krúttlegt krúttlegt, hvort sem fólk trúir því eða ekki var barnið sem oftar en ekki kallar mig leiðinlegustu mömmu heimi ótrúlega glatt að sjá mig og hefur ekki fengið nóg af mér enn, einhvern veginn efast ég um að nemendurnir verði jafnglaðir að sjá mig á morgun, ég í það minnsta verð ekki eins kát að hitta verkefnabúnkann sem bíður mín og er algjörlega út í hött ef maður hefur höfðatölu íslendinga í huga, hvar í veröldinni fæ ég eiginlega öll þessi verkefni?!

föstudagur, 22. október 2010

ég þarf að skjótast aðeins

boston eftir smá, var svo heppin að mamma mín reddaði mér risastórri ferðatösku en í hana hyggst ég ekki setja neitt nema nærbuxur til skiptanna og afsláttamiðana í outlettið, helst af öllu myndi ég vilja fylla hana af möffins og bollakökum en barnið vantar dúnúlpur og alklæðnað og unglingurinn híperventílerar við tilhugsunina um victoria´s secret svo maður verður víst að stramma sig af, ef einhver er alveg ómögulegur og veit ekkert hvað hann á af sér að gera næstu vikuna er hér afar óhamingjusamur hundur sem myndi ekki telja það eftir sér að bjóða í göngutúr og myndarlegur og afar handlaginn karlmaður sem myndi þiggja boð í mat, aldrei að vita nema hjálpsamir fái borgað í tolli, en ég má ekki dvelja við dútl og dund núna, verð að pakka þessum nærbuxum og finna ferðadressið, góðar stundir

mynd: yvette inufio

miðvikudagur, 20. október 2010

til hamingju með daginn þið sem ég elska

þessi mynd er fyrir kolbrá af því ég elska hana og hún á ammæli í dag, viggo minn á líka ammæli í dag og það eitt er víst að ég myndi ekki láta biðja mig tvisvar um að syngja fyrir hann ammælissönginn a la marylin, pabbi minn hefði líka átt ammæli dag og mest af öllu langar mig til að geta eldað handa honum lambalæri og faðmað hann fast, þar sem ég get ekki fagnað deginum með neinu af þessu fólki ætla ég í bíó með mömmu minni, ég hef varla komist út úr húsi þessa vikuna sökum þreytu eftir sunndagskvöldið en þá var ég dregin nauðug viljug á tapas barinn og neydd til að drekka sangria og snæða beikonvafðar döðlur, ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að annað eins myndi ég aldrei gera ótilneydd enda þykir mér tapas ógeðslegt og áfengi drekk ég aldrei, sérstaklega ekki á stöðum eins og tapas barnum, ég veit ekki hver ætti að geta haft gaman af slíku nema þá líklega samferðakonur mínar sem eru slæmur félagsskapur og veigra sér ekki við að beita því hryllilega verkfæri sem jafningjaþrýstingur er, ef einhver ætlar að halda því fram að fyrrnefnt tapassukk hafi verið mín hugmynd bið ég fólk um að taka ekki mark á slíkum skröksögum og hafa í huga að það sem jón segir um pál segir nú oftast meira um jón en pál, allir sem mig þekkja vita að ég myndi aldrei eiga frumkvæðið að einhverju jafn ábyrgðarlausu og drykkju á sunnudagskvöldi, aldrei!

föstudagur, 15. október 2010

í kvöld er ég fönix

ég varð að henda inn einni mynd af marilyn í tilefni af því að hafa eitt síðustu tveimur tímum inná baði við að taka mjög heildrænt á sjúskuðu gellunni sem ég er búin að vera síðan að ég veiktist, ég er vælugjörn og ógeðslega sérhlífin í veikindum og finnst þá alls ekki hægt að ætlast til þess að ég framkvæmi sjálfsagða hluti eins og að þrífa mig og skipta um hlýrabol, fyrir vikið leifi ég mér hiklaust að drabbast niður í subbuskap og alls konar ólifnað án þess að skeyta hið minnsta um sambýlinga mína, ekki einu sinni þá sem deila með mér rúmi, en sumsé í dag er allt miklu betra hér á bæ, ég með hreint hár og búin að heilvaxa og meira að segja nokk sómasamleg til fara, sem gefur að skilja er husband allur miklu léttari á manninn, gott gott, best að reyna að halda dampi yfir helgina og sálga mygluðu garðhúsgögnunum og þessu þarna úti á palli sem einhvern tíman voru sumarblóm, klára að lesa heim til míns hjarta sem er virkileg dásemd og sinna þessu litla loðna sem í augnablikinu situr fyrir framan mig og horfir á mig eins og ég sé það eina í veröldinni sem skipti einhverju máli, skrifa svolítið og í guðs bænum rembast við að verða betri manneskja og hætta að hugsa svona mikið um þennan ótta, það eilífðar verkefni gengur ákaflega hægt

miðvikudagur, 13. október 2010

uncanny

sammála

“There is a fear of comedy in the novel today — when did you last see the word ‘funny’ on the jacket of a serious novel? — that no one who loves the form should contemplate with pleasure. We have created a false division between laughter and thought, between comedy and seriousness, between the exhilaration that the great novels offer when they are at their funniest, and whatever else it is we now think we want from literature.”

....segir howard jacobson handhafi booker verðlaunanna í ár, kannski ekki svo vitlaust

mánudagur, 11. október 2010

it gets me every time!

vika án þess að taka spirulina og viti menn það er flensa í mínum kroppi og útgangurinn á mér eftir því, ég hef forðast spegla meðvitað í allan dag en mig grunar samt að ég verði að drulla mér í bað áður en husband kemur heim ef ég ætla að halda í þetta hjónaband (sem mér þætti svona skemmtilegra) því það eru víst takmörk fyrir því hversu heiftarlega maður getur misboðið maka sínum, ég gæti maulað brenninettlur þangað til það dytti úr mér tungan án þess að finna nokkurt bragð og þess vegna ber ég þess nokkuð glöggt merki að hafa ekki nærst á neinu nema kóki í dag, mér finndist það sóun á matvælum að vera að borða eitthvað í þessu ástandi, það versta er að ég er frekar illa sofinn eftir helgina en við mæðgur skelltum okkur á strengjamót á akureyri yfir helgina og ég get sagt ykkur það að norðlendingar eru ekki með neinn hálfkæring þegar það kemur að málum eins og loftræstingu, við gistum í skólastofu sem þrátt fyrir að bera öll einkenni slíkrar vistarveru var meira í ætt við kæliklefana í bónus hvað hitastig varðar og þó að ég illa kvefuð manneskjan svæfi í lopapeysunni og háleistunum og vefði sænginni um hausinn þannig að ekkert stæði út úr nema slímugt nefið þá vaknaði ég í gærmorgun með berklahósta og eyrnaverk og guð má vita hvað, allt var þetta samt þess virði þegar ég horfði á kríuljósið spila með sextíu manna strengjasveit á tónleikum í splunkunýja menningarhúsinu þeirra akureyringa sem er nú bara tú dæ for og algjör dásemd án þess að ég segi meira, það er svo annað mál all together að af einhverjum átæðum sem ég hugsaði ekki til hlítar fannst mér viðeigandi í þessari mæðgnaferð að lesa frá a til ö veginn eftir cormac mccarthy og það gjörsamlega eyðilagði fyrir mér gærkvöldið og olli mér martröðum í nótt, ég hafði hugsað mér í framhaldinu að horfa á kvikmyndina sem var gerð eftir henni og minn ástkæri mortensen fyllir hvern einasta ramma í (jafnvel spjaralaus að mér skilst) en vitiði ég held ég sleppi því bara, tilfinningalega er ég alltof mikill aumingi og grenjuskjóða í svona stöff og ég ætla bara að láta mér harðgerara fólki það eftir að leigja þessa mynd, þannig er nú bara það

fimmtudagur, 7. október 2010

ég passa

ég rétti bróður mínum dáldinn vasapening sem við systurnar höfðum nurlað saman handa honum og sagði honum að bjóða konunni sinni eitthvað út, þau eru svona fólk sem þarf ofboðslega á því að halda að komast út úr húsi saman án þess að þurfa að hafa af því áhyggjur að litli maðurinn þeirra sé að verða sér að voða, þau eiga eitt af þessum athafnasömu börnum sem er staðráðið í að setja mark sitt á heiminn með góðu eða illu, þau voru auðvitað hálfuggandi yfir því að skilja son sinn einan eftir hjá mér en það slaknaði aðeins á þeim þegar þau sáu að kríuljósið var með mér, kríuljósið er mjög ábyrgðarfullt barn og auk þess ekki farin að smakka áfengi, sem hlýtur að teljast kraftaverk miðað við hvað maður er léleg fyrirmynd, það er nefninlega til bjór í ísskápnum og ég ætla að drekka hann, i am a pig and i deserve to be shot

þriðjudagur, 5. október 2010

svo maður hafi nú allt í sama orðinu

er hálfnuð við að skrifa alveg hreint merkilega leiðinlegan leikþátt, af hverju krassar talvan manns aldrei þegar maður virkilega þarf á því að halda?

er enn hálfléleg í maganum eftir að hafa í einhverjum æsingi og bríaríi étið fjórar kókosbollur og ýmislegt smálegt úr sælgætispoka yngra barnsins um helgina og ég segi nú bara mátulegt á mig!

í ísskápnum mínum er nákvæmlega eitt smjörstykki, einn og hálfur líter af léttmjólk, eitt egg, þó nokkuð af hálfum sultukrukkum og kíló af kartöflum.......uppástungur?

sunnudagur, 3. október 2010

bókamarkaðir - himnaríki á heimsmælikvarða

ég er ístöðulaus aumingi með enga sjálfstjórn og erfiðar þráhyggjur og þess vegna sagði ég eiginmanni mínum að bíða í bílnum í gær á meðan ég rétt hlypi inn á bókamarkaðinn til að kaupa baaaaara eina bók sem ég vissi að kostaði næstum því enga peninga, þegar inn var komið rak ég augun í þrjár bækur til viðbótar sem mér fannst ég yrði að eignast ef ég ætti að geta haldið áfram að anda þennan daginn, þar á meðal bjargvættinn í grasinu sem ég hef aldrei lesið (enskukennarinn minn í menntó var íri með ofvaxna þjóðerniskennd) og fannst eðlilegt framhald á ameríska menntaskólaþemanu sem byrjaði með to kill a mockingbird, ég kom svo skælbrosandi og yfir mig glöð að kassanum að afgreiðslustúlkan skellti upp úr og fannst ekki annað hægt en að gefa mér eintak af áritunarmanninum eftir zadie smith þó ég hefði ekki verslað fyrir meira en fimmþúsundkall, mér fannst heppni mín með ólíkindum og sagði konunni að mig langaði mest til að kyssa hana, þegar ég kom út í bíl sagði husband auðvitað að ég væri rugluð og það mætti ekki líta af mér eitt andartak þá væri ég búin að gera einhvern óskunda en ég þaggaði niður í honum með því að benda á verðmiðana sem ég verð nú bara að segja að voru þessum bókum til skammar, ef ég hefði ekki verði svona taumlaust glöð hefði ég hreinlega fengið samviskubit yfir að nýta mér blákalt neyð þessara bóka, það eina sem skyggir á gleði mína er að ég kemst ekki í að hefja lesturinn á fjársjóðnum í dag út af öllum þessum verkefnum sem ég þarf að fara yfir og auk þess á ég eftir að skrifa leikþátt fyrir miðvikudaginn, guð hjálpi mér hvað ég held að það verði dapurt hjá mér

laugardagur, 2. október 2010

letin drepur

ég er búin að drekka eina flösku af þessum my secret safa og taka tólf spirulina töflur og mér líður eins og ég hafi skolað rítalínboxinu niður með fimmföldum espressó, ég veit ekki hvort það er gott eða vont...best að drífa sig allavega út að hlaupa svo maður freistist ekki til að eyða allri þessari orku í verkefnabúnkann sem ég hafði með mér heim úr vinnunni og er svo risavaxinn að maður gæti auðveldlega kramið meðalstóran kött til bana með honum, eins og alltaf þegar mín bíða of mörg verkefni og ég á eeeeeenga peninga langar mig ekki til að gera neitt nema bruna í bæinn og byrgja mig upp af tónlist og bókum og brennivíni, loka mig svo inni og svara hvorki í símann né fara til dyra (sweetness), ég ætti þá líka ekki á hættu að koma vondum hlutum til leiðar eins og mér tekst stundum án þess að hafa ætlað mér það, í vikunni tókst mér til dæmis að eyðileggja bílinn hennar systur minnar með því einu að nenna ekki út með hundinn minn, þennan dag var fallegt veður og allan daginn í vinnunni var ég að hugsa hvað það yrði gott að fara heim og viðra hundinn sem ég hafði vanrækt alla vikuna sökum fáránlegra anna, þegar ég kom heim var ég gripinn ótrúlegri leti og ákvað að leggja mig í svona korter áður en ég færi út með loðdýrið, ég var því heima þegar systir mín hringdi og vildi koma í heimsókn, eftir stutt slúður í sófanum bað ég hana um að gefa mér far í búðina því ég væri mjólkurlaus og eins og áður sagði að drepast úr leti og nennti ekki að labba, hún sagði það lítið mál enda ótrúlega greiðvikin að eðlisfari og auk þess ekki sú manngerð sem erfir það við mann þó hún standi upp úr sófanum hjá manni með mottu af hundahárum á rassinum, þannig kom það til að systir mín var stödd á bílaplaninu fyrir utan gulu svínabúlluna á nákvæmlega sama andartaki og viðutan karlmaður bakkaði út úr stæðinu sínu án þess að íhuga þann möguleika að hugsanlega væri fleira fólk á ferli á bílunum sínum þennan dag, fyrir vikið á systir mín núna bíl með mjög stórri beyglu en blindi maðurinn á bara bíl með pínulítilli rispu, ég er að hugsa um að heimsækja hann einhverja nóttina og hafa með mér kúbein, í framhaldinu yrði ég ákærð fyrir eignaspjöll og röskun á friðhelgi heimilisins og þyrfti að borga himinháar skaðabætur og hugsanlega yrði sett á mig nálgunarbann, allt vegna þess að ég nennti ekki út með hundinn minn, ég ætla að koma við í apótekinu á eftir og kaupa meira af þessu spirulina og my secret safanum, greinilega aldrei of varlega farið

þriðjudagur, 28. september 2010

meðalmennskan er að eyðileggja líf mitt

skilaboðin á tepokanum mínum í morgun voru "let love drive you to excellence", það gekk ekki eftir

mánudagur, 27. september 2010

fólk með einn í extróvert fær enga samúð

ég hef eytt næstum öllum deginum í ömurlega gagnslausa hluti eins og að láta fólk koma mér úr jafnvægi (vá hvað guð hlýtur að vera fúll út í mig), ég fór á fætur með viðkvæmu hliðina utanyfir hlífðarbúninginn í morgun og eftir það gat leiðin ekki legið annað en niður á við, að vera í viðkvæma skapinu í vinnunni þar sem maður passar sig vandlega á að láta hvergi glitta í veika bletti er óhemju orkufrekt og framkallar svo mikla slímmyndun í höfðinu að maður hugsar ekkert af viti en veltir sér þeim mun meira upp úr öllum hugsanlega mögulegum neikvæðum útkomum allra hluta, miðað við hvað þetta tekur mikið á líkamlega get ég bara vonað að þetta sé alveg ofboðslega grennandi og vegi þannig upp á móti því hvað viðkvæma hliðin (öðru nafni auminginn) lætur manni finnast maður feitur og ruglaður og yfir höfuð ekki veraldartækur einstaklingur (líkt og að vera ekki skólatækur nema bara í miklu víðari skilningi), í augnablikinu kenni ég barninu þumalputtareglur í stafsetningu til að ég þurfi ekki að horfast í augu við það að ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að skrifa um fyrir næsta ritlistartíma og að öllum líkindum verður það eitthvað virkilega vandræðalegt nema ég verði svo heppin að músan mín helli mig svo fulla að ég steingleymi að hafa áhyggjur af öðru fólki og öllum þessum orðum og leiðindum sem af þeim hljótast, mig vantar eyðibýlið mitt

sunnudagur, 26. september 2010

hux hux

hvaða reglur má brjóta?

hvað má grínast með?

hvenær er refsiverð háttsemi til góðs?

þriðjudagur, 21. september 2010

vinsamlegast takið mig úr umferð.......einhver?

tímaþröng og krefjandi verkefni ganga yfirleitt treglega í efnasamband og fyrir vikið óttast ég að þegar ég les söguna mína fyrir ritlistarhópurinn minn á morgun telji fólkið að ég sé ein af þessum ógæfusömu einstaklingum sem halda til á umferðareyjum þessa dagana og næra sig á sveppum, sem ég geri ekki þó það hvarfli stundum að mér að ég gangi í svefni og belgi mig út af einhverju sljóvgandi, eins og til dæmis í gærmorgun þegar ég uppgötvaði mér til hrellingar að ég var á leiðinni út úr dyrunum í leggingsbuxunum á röngunni og kjólnum öfugum, það bætti stöðuna lítið að snúa kjólnum við því framhliðin reyndist útbíuð í kökukremi og deigklessum sem hefði hæglega mátt ímynda sér að væri eitthvað annað og verra án þess að ég segi meira en fólki er frjálst að fabúlera frá sér allt vit ef það getur skemmt sér við það, ég var orðin svo sein að eitt andartak hvarflaði það að mér að vera bara í flíkinni öfugri og reyna bara að passa að snúa aldrei baki í fólk en sem betur fer sá ég að mér og fór inná bað og mígbleytti pilsið á kjólnum og náði sullinu úr, af tvennu illi var þá skárra að líta út eins og ég hefði pissað á mig fyrir allan peninginn, ætli félagsmálastofnun bjóði fullorðnu fólki uppá aðstoð við að klæða sig á morgnana svo það verði sér ekki ítrekað til minnkunar og eigi á hættu að vera rekið úr vinnunni vegna gruns um að vera á kafi í sniffi og sveppaáti?

föstudagur, 17. september 2010

gríðarlega mikilvægar upplýsingar

haustgöngutúrar með hundinum mínum eru afbragð, jafnvel þó ég hafi hryllilegar áhyggjur af því að dýrið sé með þvagleka og það sé aldrei töff að ganga um með kúk í poka, best er að hafa með sér bók og lesa einhvers staðar útí móa þangað til maður er orðinn tilfinningalaus í rasskinnunum og nennir ekki lengur að reyna að hemja blaðsíðurnar sem slást í allar áttir eða öskra á hundinn sem þefar uppi hvert einasta fuglshræ á svæðinu og nuddar sér af ástríðu upp úr rotnunaróþefnum, kemur svo og klínir sér upp við mann til að deila með manni ilminum og skilur lítið í því að athæfið veki ekki hjá manni mikinn unað, ég ætla að fá mér einn svona göngutúr nákvæmlega núna og hafa með mér mitt splunkunýja eintak af to kill a mockingbird sem ég viðurkenni hér með opinberlega (því hálfur heimurinn les auðvitað þetta gríðarlega mikilvæga málgagn sem þetta blogg er) að hafa ekki lesið og já ég skammast mín, ég játa einnig að hafa í dag gert marga púkalega hluti eins og að sækja um afsláttarmiða í amerísku risaoutleti hvar ég hyggst kaupa fjall af jólagjöfum þegar ég visitera nýja heiminn í næsta mánuði, mér hefur sjaldan fundist ég meiri íslendingur

fimmtudagur, 16. september 2010

skýring á fjarvistum

er vægt til orða tekið mjög upptekin við að klára bókmennta og kartöflubökufélagið og drekka sódavatn uppí rúmi, ég er heltekin af þessari bók sem er ekkert minna en dásamlega skemmtileg og fögur og þá sjaldan sem ég splæsi í pissupásu gleymi ég mér við að fantasera um að kaupa kvikmyndaréttinn að henni, ég myndi þá leikstýra henni og leika aðalhlutverkið ásamt því að velja í hana tónlist (svona eins og ég væri kvenkyns útgáfa af charlie chaplin, heimsins mesti multítasker í kvikmyndagerð), hvað segi þið er ekki einhver til í að einhenda sér í verkið með mér? við myndum svelta og fólk myndi hlægja að okkur en guð it would be worth it!

laugardagur, 11. september 2010

there is a crack in everything....... that´s how the light gets in (l.cohen)

ég mundi rétt í þessu að það er ellefti september, ég ætla að biðja guð um gefa öllum auka skammt af kærleika og umburðarlyndi í dag, ég er nefninlega ekki á því að guð sé ranghugmynd, ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað guð er, ég bara finn hann alls staðar

heilsið ellabjé

þetta er ellibjé, ég hef nefnt hann á nafn oftar en einu sinni á þessari síðu og er lengi búin að ætla að skrifa um hann pistil, ellibjé er þriggja ára systurdóttursonur minn eða kannski er einfaldara að segja að ég sé ömmusystir ellabjé (sem eitt og sér er með ólíkindum) og hann er mér afar kær, jafnvel þó hann sé rangnefndur (ég er búin að ákveða að það sé orð) því af einhverjum ástæðum mér óskiljanlegum ákvað móðir hans allsgáð og ótilneydd að nefna hann í höfuðið á bróður mínum (þessi frásögn er að verða svona ég er afi minn) en ekki mér (?!), ég er ennþá að reyna að skilja hvers vegna konan hafi ekki áttað sig á að það lægi beinast við að nefna drenginn krumma, en gleymum því, ellibjé er svo fallegur að manni líður eins og maður sé úr mauki að innan þegar maður horfir á hann, frá því hann var pínulítill hefur hann haft svo undarlega angurvært og fjarrænt blik í augunum sínum að það er alltaf eins og hann eigi sér leyndarmál, eins og hann viti eitthvað sem við hin áttum okkur ekki á og hann ætlist ekki til að við skiljum, hann sóar yfirleitt ekki orðum þó hann eigi orð yfir flesta hluti (eins og stórfenglegt og í kveðjskyni) og hann nagar á sér neglurnar og borar í nefið á sér af meiri einbeitni en ég hélt að þriggja ára barn gæti búið yfir, ellabjé finnst ekkert í heiminum eins gott og sælgæti (sérstaklega haribohlaup) nema þá kannski góð bók og púsl sem gjarnan mega á einn eða annan hátt tengjast leiftur mcqueen, sælgætissýkina og bókafíknina erfði hann frá móður sinni því pabbi hans er meiri áhugamaður um eðalhráefni eins og truffluolíu og kryddjurtir en hvítan sykur (ef ég tryði ykkur fyrir því hvað hann á margar flöskur af truffluolíu myndu þið halda að ég væri að ljúga) enda einhver besti kokkur á landinu, ef þú ert á flúðum skaltu fara á hótelið þar og spyrja hvort pabbi hans ellabjé sé á vakt í eldhúsinu, þú munt ekki yðrast þess, trúðu mér, en þó ellibjé sé ekki sammála pabba sínum um hvaða fæðutegundir megi flokka sem delicatessen er hann samt ótrúlega líkur honum, sérstaklega þegar maður sér hann aftan frá á nærbuxunum, þá er hreinlega erfitt að sjá muninn ef frá er talinn augljós stærðarmunurinn, fyrir einu og hálfu ári eignaðist ellibjé systur (vegna þess að stundum henda erfiðir hlutir gott fólk) og á myndinni hér fyrir ofan (sem pabbi hans tók vegna þess að sumt fólk er hæfileikaríkt á fleiru en einu sviði, sensar einhver öfund?) er hann einmitt að fá nýfædda boðflennuna í fangið, að lífi manns sé umturnað með innrás agnarsmárrar kraftmúsar (hún er aldrei kölluð annað en litla músin) sem er ekki bara svívirðilega sæt heldur líka nógu óforskömmuð til að bjóða manni byrginn og snúa mann niður á hárinu er auðvitað miklu meira en hægt er að leggja á einn lítinn mann og stundum ræðir ellibjé það af hreinskilni hvort hann eigi ekki bara að búa hjá ömmu og afa, ég hef boði honum að búa hjá mér en hann horfir bara á mig með leyndarmálaaugunum sínum og segir "neeeeei kannski bara seinna", þá bendi ég honum gjarnan á augljósa kosti við ráðahaginn eins og hengirúmið og kastalann í garðinum en hann svarar bara með því að hneigja hökuna örlítið og horfir á mig lengi án þess að segja orð, maður gæti grenjað, í staðinn reyni ég að fara í helgarheimsóknir til hans á flúðir og er iðullega fagnað eins og eftirsóttustu manneskju í heimi, barnið er gengdarlaust gestrisið og bíður mér háum rómi að gista í margar margar vikur í rúminu sínu og leika með allt dótið og bækurnar og púslin og guð má vita hvað, hvað get ég sagt, ég elska ellabjé

fimmtudagur, 9. september 2010

hvar er glamúrinn?

af hverju er ég með svona margar bólur, hmmmm kannski vegna þess að næturkremið sem ég var að kaupa er eins og hamsatólg, ég er orðin svo mikil kelling að ég nota næturkrem í ofanálag við að safna matarstelli, hver hefði trúað þessu

þriðjudagur, 7. september 2010

mér finnst ég þurfa að drepa eitthvað

us department of homeland security meinar mér að fylla út umsókn um vegabréfsáritun á heimasíðunni sinni, það er sama hvað ég reyni mér er hvergi hleypt inná síðuna þar sem umsóknareyðublaðið er að finna, ég er búin að vera að reyna þetta í tvo klukkutíma og það næsta sem ég hef komist umsókninni er að tvívegis hef ég fengið upp glugga þar sem mér er boðið að velja á hvaða tungumáli ég vilji lesa skjalið, ég rétt næ að færa bendilinn á íslenska og þá poppar samstundis upp gluggi sem segir mér að tími minn sé útrunninn, ég er algjörlega að tapa vitinu og þarf af beita öllum mínum viljastyrk til að láta það ekki eftir mér að sarga í sundur á mér slagæðarnar með öllum tiltækum ráðum, ég myndi láta það eftir mér að segja eitthvað ógeðslega ljótt um us department of homeland security ef ég þyrði því en held að ég geymi það þangað til ég kem heim frá boston, ef svo ólíklega vildi til að ameríkanar ákveði að hleypa mér inn í land hinna frjálsu og heimkynni hinna hugdjörfu (hlýtur að vera nett stressandi að standa undir þessum háleitu lýsingum) ætla ég ekki að hætta á að vera send beint aftur heim til íslands með stimpil á enninu upp á að teljast ótækur túristi og hugsanlegur óvinur frelsisins, það síðasta sem maður vill þegar maður sér fram á að geta heimsótt supersize bókabúðir og drekkt sér á starbucks er að láta bendla sig við niðurrifsstarfsemi og aðra almennt óameríska hegðun sem gæti komið manni í bobba, á morgun ætla ég að láta nemendur mína hlusta á bandaríska þjóðsönginn, tvisvar

í dag af öllum dögum ákvað ég að fara út að hlaupa og svifrykið situr svo í augabrúnunum og svitaholunum að fólk gæti auðveldlega tekið mig í misgripum fyrir samkvæmisdansara

laugardagur, 4. september 2010

athugið

í dag vil ég framar öllu benda fólki á að tvær dásamlegar konur sem ég er svo fáránlega heppin að eiga fyrir systur og mágkonu hafa stofnað skemmtilegasta og frumlegasta fyrirtæki sem hægt er að hugsa sér og ég mæli með að þú kynnir þér það hér, maður bara roðnar yfir því hvað maður er simpill og óspennandi í samanburðinum, annars bið ég fólk bara að muna að god is on your side and wants you to dance

mynd: yvette inufio

fimmtudagur, 2. september 2010

morningmadness

6.30 vekjaraklukkan (a.k.a. síminn) hringir, mér tekst að slökkva á henni án þess að opna augun eða henda öllu niður af náttborðinu (5 stig)

6.43 ligg enn hreyfingarlaus með lokuð augu og finnst eins og líkami minn sé ekki á mínu valdi, get alls ekki hreyft mig og velti fyrir mér hvort ég geti mögulega hafa lamast í svefni (kannski af völdum ofnæmis, ég er ofnæmissjúklingur)

6.46 sest upp við dogg og skjögra í svefnmóki fram á klósett, sit óþarflega lengi dofinn á klósettinu með lokuð augu og líður einhvern veginn eins og ég sé í snjógalla með skíðagleraugu, hvítlaukurinn frá því kvöldið áður virðist hafa lækkað vökvamagn líkama míns niður í tvö prósent svo ég pissa bara pínulítið og leggst svo í kranann

6.51 kemst til nokkurrar meðvitundar eftir að hafa látið kalt vatn renna á hendurnar á mér, þvæ kaffikönnuna og mala kaffið, finn til mikillar óþreyju eftir að drekka kaffið strax og dett í þá vitleysu að stara á könnuna á hellunni eins og þá hellist hraðar uppá (það sama hendir mig oft í strætóskýlum)

7.00 geri fyrstu tilraun til að vekja barnið, hún misheppnast, kveiki á útvarpinu og þvæ mér í framan (5 stig), vek barnið aftur, hún horfir á mig eins og henni gæti ekki staðið meira á sama um hver ég sé og hvað mér sé á höndum þarna við rúmgaflinn

7.15 barnið er enn í bælinu og ég átta mig á því að bæði leikfimipokinn og fiðlubækurnar eru týndar, hleyp um á náttkjólnum og sný öllu við á heimilinu, blóta mikið, byrja að hrópa á barnið (mínus tuttugu stig)

7.30 finn loksins bækurnar á fáránlegum stað (tíu stig) og fæ það upp úr barninu að leikfimipokinn sé í skólanum, finn til föt á barnið sem neitar að klæða sig annars staðar en undir sænginni, átta mig á að barnið á enga hreina sokka (mínus fimm stig)

7.35 drekk of mikið kaffi of hratt á meðan ég tek til morgunmat og nesti og góla á barnið of mörg skilaboð í einu: kláraðu að klæða þig, greiddu hárið (rifist um nauðsyn þess að greiða hár, ég æsi mig, mínus tuttugu stig), finndu teygju, komdu að borða, mundu fiðlutímann klukkan tvö

7.38 barnið er enn ógreitt á klósettinu og ég eins og vitleysingur um hausinn, fatta að ég hef gleymt bæði rakakreminu og snyrtibuddunni í vinnunni (fooooookkkk!, mínus fimmtíu stig), ég er sveitt af kaffidrykkju og hamagangi, klæði mig og greiði á mér hárið sem stoðar lítið

7.44 kem barninu til að borða sem það gerir á hraða þess sem hefur enga tilfinningu fyrir hugtakinu tími

7.55 legg af stað í vinnuna í bullandi mínus, lít út eins og sveitt vörtusvín og er strax komin með hausverk

þriðjudagur, 31. ágúst 2010

vesen vesen

ég er gjörsamlega yfirkomin af þrá eftir að vera nemandi (að vera kennari er ekki að gera alveg sömu hluti fyrir mig), er virkilega eitthvað eftirsóknarverðara í þessum heimi en að stunda mastersnám við háskóla íslands (ekki svara þessu, þetta er ömurleg spurning), jú jú ég gæti auðvitað tínt til hluti eins og eilífa sangriadrykkju í barcelona og vinnulaust líf þar sem tíma mínum er hnífjafnt skipt á milli þess að sitja við skriftir og að gera upp eyðibýlið sem ég bý á en maður er nú svona einu sinni að rembast við að sýna veika viðleitni í að vera örlítið raunsær en ekki svona fáránlegur og út úr heiminum eins og manni er eðli sínu samkvæmt tamt að vera, annað öllu jarðbundnara mál flækist fyrir mér þessa dagana án þess að ég eigi á því nokkra lausn en það er að bróðir minn er löngu búinn að eiga ammæli og ég er algjörlega strand með hvað ég eigi að gefa honum í tilefni af því að hafa lifað sitt eigið mataræði af í fjörutíuogeitt ár, að einhverju leyti skrifast hugmyndastífla mína á þá uppgjöf og biturð sem það kallaði yfir mig að eyða miklum tíma og enn meiri peningum í að velja á hann hinar fullkomnu gallabuxur fyrir þrjátíuogníuára ammælið hans en þær hinar sömu buxur eru enn í pokanum með verðmiðanum og búðarlyktinni og allt, sjálfur hefur hann afsakað sig með því að hann hafi...hvað skulum við segja...étið sig frá flíkinni ef svo má að orði komast og því séu það eingöngu efnislegar hindranir sem orsaki það að hann geti ekki klæðst henni en ekki það að hann véfengi smekk minn og tískuvit, mannandskotinn virðist ekki finna fyrir örðu af samviskubiti enda held ég að sjálfur vilji hann meina að ég standi í ævarandi og ógreiðanlegri skuld við hann fyrir að hafa fæðst viku fyrir sex ára ammælið hans og þannig eyðilagt þann merkisviðburð fyrir honum (ef ekki líf hans eins og það leggur sig), þetta gallabuxnamál hefur hálfpartinn eitrað öll okkar samskipti síðustu tvö árin og ég hóta honum reglulega alls konar misfallegum refsingum fyrir kúkalabbaháttinn sem stranda svo alltaf á því að mér þykir ógeðslega vænt um manninn og aumingjast öll upp inní mér þá sjaldan ég hitti hann af því hann er svo fallegur og fyndinn, best að ég baki handa honum brúnköku hið fyrsta, hann er sjúkur í brúnköku sem virðist vera eitthvað litningatengt því börnin hans þjást af því sama, ég hef aldrei vitað fólk sem getur innbyrgt brúnköku í jafn ósiðlegu magni, get ég svo bara ekki sent hann í bíó á þessa mynd með angelinu jolie? ég sendi hann alla vega ekki á þessa stallone mynd, maðurinn minn sagði að hún væri svo léleg að hann hafi næstum fengið niðurgang, það væri nú meiri ammælisgjöfin!

sunnudagur, 29. ágúst 2010

bababadadúdadaaaa......

ó já og við ella fitzgerald þrifum eins og kreisí konur í dag, elskulegur bróðursonurinn gaf mér disk með henni í gær og hann er búinn að vera í spilaranum síðan í hádeginu (það er diskurinn ekki bróðursonurinn), ella og big bandið og allt þetta swing var svo elegant að mér fannst ég næstum þurfa að klæða mig upp við skúringarnar en því miður komst ég aldrei úr náttkjólnum sökum anna, ofboðslegt sem maður getur verið afkastmikill þegar maður vill hafa það þannig

í afneitun

ég hangi í þeirri fjarstæðu að það sé ennþá sumar þó óumdeilanleg sönnunargögn um hið gagnstæða hrannist upp í kringum mig eins og hálfétin lík í ljónagryfju, sumarblómin á pallinum eru nánast öll dauð (ég kenni hundinum um að hafa eyðilagt þau), það er ekkert kósí lengur að ganga um berfættur allan daginn (ég harka af mér með gæsabólur fyrir allan peninginn og reyni að hreyfa mig rosalega hratt), ég kíkti í bæinn í gær og það er hvergi hægt að kaupa neitt nema trefla (ég held mig við bókabúðina), öll blöð og blogg er full af pistlum um haustverk og haustfatnað og haust haust haust eitthvað (ég les bara áströlsk blogg), veikburða rödd innra með mér segir mér að gefast bara upp, sætta mig við ört dofnandi bikinifarið og fara út að safna reyniberjum og finna hvað brakandi svalt loftið sé hressandi og birtan falleg, en ég get það ekki strax, bara get það ekki