
af öllu því sem maður gæti hugsanlega tapað á milli jóla og nýárs er þyngd - hér í merkingunni kíló af líkamsþyngd - ekki það sem maður myndi helst veðja á ef maður myndi af einhverjum ástæðum þurfa að giska á slíkt (sem er auðvitað frekar ólíklegt þegar ég spái í það), en þrátt fyrir að allar aðstæður bjóði uppá hið gagnstæða og þó ég hafi ekki með nokkru móti ætlað mér neitt í þá veruna er samt sem áður svo undarlega fyrir mér komið nú á næstsíðasta degi ársins að það hanga varla upp um mig spjarirnar, reyndar hangi ég sjálf varla uppi ef út í það er farið, skýringin á þessu - því auðvitað er skýring, ekki gerast svona hlutir af sjálfu sér - er svo ólekker að ég ætti auðvitað ekki að vera að gera neina grein fyrir henni hér en þið fyrirgefið mér, manni er ekki alveg sjálfrátt eftir það sem á undan er gengið, atburðarásin hófst á þriðjudag sem framan af var ekki ólíkur öðrum þriðjudögum þó annað ætti eftir að koma á daginn, ég stundaði mína heilnæmu heilsurækt og át hvítlauks og chilli ristað grænmeti bragðbætt með döðlum, kóríander og hvítlauksosti, réttur sem mér þykir afar góður og hef reyndar tilhneigingu til að borða ívið of mikið af, að því loknu dreif ég mig heim til systur minnar til að undirbúa för okkar í stórfjölskyldufögnuð sem systir mín stóð sjálf fyrir, við höfðum ákveðið að sameinast um framlag okkar á veisluborðið og verandi heilbrigðisfulltrúar fjölskyldunnar (hlutverk sem bróðir okkar sniðgengur af einbeitni) ætluðum við að "henda í" delíkatessen kjúklingasalat með kryddjurtum og kasjúhnetum sem mig persónuleg hlakkaði mikið til að borða, þrátt fyrir þann ásetning að "henda í" eitt salat vill það nú einhvern veginn verða þannig þegar við systurnar baukum eitthvað saman og ekki síst ef matur kemur við sögu að allt er í einum seinagangi og á heilli heljarinnar heljarþröm ef svo má að orði komast, við rétt náðum í tæka tíð í partýið og ég náði ekki einu sinni að smakka salatið til, í partýinu tóku veisluföngin að hlaðast upp, einhver kom meira að segja með tartalettur með hangikjöti sem mér þykja svona í gómsætara lagi og annar með sænskar kjötbollur í súrsætri, hvílík veisla, það olli mér því gífurlegum vonbrigðum að finna hjá sjálfri mér eitthvert óútskýranlegt áhugaleysi þegar það loksins kom að því að fá sér á diskinn og gott ef mér þótti salatið ekki alveg sérstaklega ókræsilegt, ég ákvað því að hinkra aðeins með matinn og reyna í staðinn að tjónka eitthvað við ellabjé sem var brjálaða barnið í boðinu og gerði allt sem hann gat til að sturla litlu systur sína og gekk það vel, en það var sama hvað ég beið eftir að hungrið segði til sín ekkert gerðist og þess í stað fer mig eins og að klígja við tartalettunum og flatbrauðinu (eins og það sé kurteisi!) og þó ég geri tilraun til að stinga upp í mig bita og bita fylgir því ekki nokkur einasta ánægja, það fer því svo að parýið líður undir lok án þess að ég hafi komið neinu af ráði niður en líður þó eins og það litla sem endaði í maga mínum þenjist út og verði einhvern veginn fyrir mér, eins og það vilji ekki gefa sig meltingunni á vald heldur tregðist við ofarlega í maga mínum og ætli út aftur, að partýinu loknu versnar málið til muna þegar mágkona mín bíður mér heim í fríkeypis rauðvín og kokkteila, jafnvel tilhugsunin um ískaldan kokkteil stútfullan af maukuðum jarðaberjum kom ekki af stað neinum spenningi innra með mér og það er eðlilega þarna sem það fer að renna upp fyrir mér að það hljóti að vera eitthvað annað og meira á bak við magaóþægindi mín en venjuleg andmæli gegn makkíntossmolunum sem ég hafði tínt uppí mig yfir daginn, eitthvað mikið hljóti að vera að, þann grun fæ ég svo staðfestan stuttu síðar inná salerninu heima hjá mér hvar ég hef eytt umtalsverðum tíma síðustu daga (og engum kvalitítíma skal ég segja ykkur) jökulköld og þó rennandi sveitt af þeim átökum sem því fylgja að hreinsa meltingarfæri sín og maga af öllu því sem þar var að finna, óskaplega óskemmtilegur gjörningur enda smakkast makkíntoss engan veginn eins vel á leið út um munninn eins og þegar það fer þá leið sem því er ætlað að fara, í þokkabót hefur þetta uppistand mitt hlotið afar dræmar undirtektir heimilisfólksins en husband sérstaklega veit ekkert viðbjóðslegra en uppsölur og gildir þá einu hvort þær eru hans eigin eða annarra, svo mjög bauð manninum við ástandi mínu að hann sendi eldra barnið af heimilinu svo hann gæti flutt inn til hennar og skilið mig eftir eina í svefnherberginu, það er ekki laust við að manni sárni þó maður beri sig vel, eins og alltaf er það kríuljósið sem lýsir upp veröldina og lætur ástand móðurinnar ekki vekja hjá sér neinn viðbjóð að ráði heldur kvartar einungis yfir því að fá ekki að drekka með mér gatorade drykkinn sem eiginmaðurinn sótti í sjoppuna svo ég þornaði nú ekki alveg upp, fólk er sem sagt svona misspennt fyrir því að skiptast á líkamsvessum við mann í augnablikinu og ætli maður verði ekki bara að reyna að taka því, allir hafa jú sín takmörk