föstudagur, 31. júlí 2009

veikindapóstur væluskítsins

mér fer illa að vera veik, sjálfsagt hefur mörgum blöskrað hömlulaus sjálfvorkunin í mínum fyrri veikindapóstum en þeir eru allnokkrir og langir á þessari síðu, sért þú einn af þeim skaltu ekki lesa meira af þessari færslu heldur láta hér staðar numið og fara á feisbúkk þar sem er örugglega margt áhugavert í status hjá heilsuhraustu og harðgeru fólki, þvert á mitt geð er ég að öllum líkindum með hitalaust eintak af hinni alræmdu flensu sem kennd er við svín og ríður rúmum um alla veröld þessi misserin, það er ekki laust við að því fylgi nokkur huggun að eiga svo marga þjáningarbræður og systur um gervalla heimsbyggðina, að vera hluti af alþjóðlegum her manna og kvenna sem öll berjast með eigin blóði við þennan óvænta og uggvænlega vágest, maður finnur næstum því hvernig heimsborgarinn innra með manni hækkar aðeins í loftinu, verst þykir mér nafn flensunnar sem mér finnst alls ekki mönnum bjóðandi og gerir ekkert nema auka á þær vítiskvalir sem veirunni fylgja, eitt er að liggja andvaka með angur í öllum beinum og hálsinn svo helsáran að engu líkara er en að sá vondi sjálfur skemmti sér og sínum við að flambera í manni hálskirtlana, en að í ofanálag sé ýjað að því leynt og ljóst að maður teljist ekki lengur manneskja heldur svipi nú til þeirrar skepnu sem sóðalegust þykir, svo sóðaleg að ákveðnir hópar fólks telja það guðlast að leggja sér hana til munns og ekki nokkur kona með sæmilega sjálfsvirðingu vill líkjast, þar gott fólk tekur bjargið úr!!! eins og það sé ekki nóg að óttast um líf sitt því það verður að viðurkennast að þessi flensa hefur vægast sagt verið illa prómóteruð í fjölmiðlum og ekki laust við að þar hafi gætt nokkurrar múgæsingar, maður hreinlega veltir því fyrir sér hvort maður gangi út frá lækninum með borða um upphandlegginn skreyttan svínshöfði, í kjölfarið verði húsið manns einangrað og svo hætti fólk smám saman að hringja, nei kona bara spyr sig   

miðvikudagur, 29. júlí 2009

rétt í þessu reyndi ég að lesa fréttablaðið en varð lítið ágengt af þeim sökum að í því er ekkert til að lesa, fréttablaðið er ólýsanlega leiðinlegt þó ég hafi að vísu skellt uppúr í gær yfir umfjölluninni um skútusnillingana sem nenntu ekki að ná í mellurnar sínar, ég er herfilega móðguð fyrir hönd þessara mellna!!! í dag er ég féttablaðinu sérstaklega reið fyrir að splæsa pappír í aukablað um verslunarmannahelgina sem mér finnst fyrirgefiði ömurlega plebbalegt fyrirbæri og að auki fáránlegt þar sem allir eiga orðið frí um þessa helgi nema verslunarfólk, á þessu fólki er níðst sem aldrei fyrr þessa mestu ferða og fylleríishelgi ársins, það hef ég reynt á eigin skinni og kæri mig ekki um að rifja upp hvorki hér né annars staðar, en meira um slaka fjölmiðla, ég kaupi moggann um helgar og það blað er nú ekkert á neinu blússandi farti heldur, hvað á það að þýða að senda lesbókina í sumarfrí? lesbókin er yfirleitt það eina sem rífur mig framúr á laugardagsmorgnum, ég er reyndar ennþá í fýlu yfir að þröstur helgason hafi verið rekinn og sakna skrifa míns gamla kennara guðna elíssonar sem hefur verið undarlega þögull og fjarverandi eftir brottrekstur þrastar, að lesa skrif guðna var ágætis substitút fyrir að sitja í tímum hjá honum en tímar hjá guðna í bókmenntafræðinni voru afbragð og guðni er góður drengur, það var rúnar helgi líka sem nú er lektor í ritlist sem mig langar að nema en er stöðvuð af tvennu, þar ber fyrst að nefna minn innri aumingja sem praktíserar allar mögulegar úrtölur og segir margt ljótt um mig í mín eyru, svo er það fokkíngs lánasjóður námsmanna sem er einhvers konar sadískt apparat sem murrkar úr fólki lífið, verðlag í matvöruverslunum er svo auðvitað eitthvað alveg out of this world en allt í bónus kostar nú jafnmikið og innri líffæri á svörtum markaði

barnið mitt er að vakna svo það er best að slökkva á tölvunni með tilliti til þess að ég var í tölvunni þegar hún fór að sofa og á borðinu mínu er miði sem á stendur "mamma tölvusjutlíkur" (stafsetning ekki mín þó ég viðurkenni fúslega að minni sé stundum ábótavant)

öfgafullir intróvertar eiga sín móment

fía er í köben og ég sakna hennar ömurlega mikið, systir mín í sveitinni sinni, systurdóttirin í annarri sveit, bráin í sínum dal sem gefur í skyn að lundar reyki þó ég hafi aldrei fundið neitt því til sönnunar, mágkonan sem á ekki að vera að vinna er samt alltaf að vinna, með öðrum orðum er nokkur skortur á kvenkvolitímómentum í þessari annars ágætu tilveru minni, vitavörðurinn með einn í extróvert þarfnast músanna sinna (út af einhverju fokki í helvíti vilja alltaf koma þrír þar sem ég slæ inn tvöfaldan samhljóða), átti reyndar fínasta deit í morgunsárið við kunningjakonu sem sækir sömu líkamsrækt og ég, sú er ólympísk gyðja, dökk á brá og brún og hreint heljarkvenmenni, við ákváðum sum sé að taka góða æfingu (undir hennar stjórn) þar sem við eigum það sameiginlegt að vilja hafa þetta doldið brútalt og forðast allt það er flokkast geti sem dömuskapur bæði í þyngdum og svitamagni, fyrir vikið er tilfinningin í mínum kroppi líkust því að einhver hafi losað bakvöðvana frá beini og fyllt fætur mína af sementi, það er vel, ég er á vondu farti eftir syndsamlega hegðun síðustu helgar og finnst ég bara fokkfeit og eiga allt slæmt skilið, en að öðru léttara, mánudagar eru nú mínir uppáhaldsdagar og þeir sem þekkja mig vel gætu útskýrt fyrir þeim sem þekkja mig minna eða alls ekki hversu ótrúlega erlendis það er að mér hugnist mánudagar, ég hef hingað til lifað lífi mínu líkt og af bókstafstrúarlegri hlýðni við hið lummulega orðatiltæki mánudagar til mæði og myndi bæta við til miska, misskilnings og mölétinnar meðalmennsku ef ég mætti (ofstuðlun af ásetningi), ástæðan fyrir þessum skyndilega og ófyrirséða umsnúningi mér innra er tiltekinn sjónvarpsþáttur á stöð 2, nú sýpur fólk hveljur og ég blóðroðna enda hef  ég oftar en ég kæri mig um að muna haft mjög hátt um skoðanir mínar á sjónvarpi (að það sé kúkur og ýmislegt annað sem ég ætla ekki að skrifa ef mamma mín skyldi einhvern tímann lesa þetta) og það í votta viðurvist, ég hef líka sagt margt ljótt um stöð 2, þá sömu stöð og ég (bílprófslaus manneskjan) hef nú fyrir því vikulega að labba mér yfir hálfan mosfellsbæinn og snýkja mér inn hjá venslafólki til að horfa á, bjargið tekur svo úr þegar ég játa að hafa hvatt eiginmann minn til að brjóta umferðarlög til að ég missti ekki af einni sekúndu af þessu stórmerka sjónvarpsundri sem er auðvitað hin óviðjafnanlega og margrómaða talentaleit só jú ðínk jú ken dens, hvað get ég sagt, ég er sjúk á sál og búk, ég elska dans og ég elska að dansa og hefði ég frá unga aldri ekki fundist ég fokkfeit og í þokkabót bara með einn í extróvert (nota bene, við skulum hamra dáldið á þessu atriði) þá hefði ég að öllum líkindum orðið dansari, hugsanlega skrambi góður þó ég sé ekki fyrir sjálfshólið, í dag dansa ég mest á stofugólfinu og stundum en afarsjaldan og alltof sjaldan og hreinlega bara nánast aldrei á fylleríi með fíu sem bæ ðe vei ég sakna  

mánudagur, 27. júlí 2009

ég er að lesa "skurðir í rigningu" eftir jón kalman, alltaf þegar ég les jón kalman fæ ég þessa asnalegu tilfinningu, sem ég ætti kannski ekki að flíka mikið, það er að mig langi til að vera jón kalman, og það þrátt fyrir að hann hafi nánast keyrt mig niður með innkaupakerrunni sinni við hreinlætisrekkann í bónus um daginn

ég gæti reyndar alveg líka stundum hugsað mér að vera hún frú loren

sunnudagur, 26. júlí 2009

af systraþeli og þess háttar

ég eyddi helginni við bjórslark og ýmislegt annað misjafnt á landareign systur minnar hér nokkuð sunnan við borgarmörk, við erum hrikalega góðar í að vera dreifbýlis og förum létt með að þrífa okkur ekki af neinu viti í marga daga og nota sama sjúskaða kókglasið aftur og aftur og aftur, ég reyndi að vera til einhvers gagns en tókst illa upp sökum drykkju, yfirleitt þegar fólk talar um sinn betri helming á það við maka sinn, ef ég aftur á móti tek mér þessi orð í munn á ég við systur mína, hún er besti vinur minn og kann að keyra fjórhjól án þess að bjórinn sullist út um allt, strákar kunna ekki svoleiðis, hún er líka gáfaðri en almennt tíðkast sem gerir það að verkum að stundum skil ég hana ekki alveg en það gerir ekkert til því það er gagnkvæmt, hún neyðist nefninlega oft til að hlusta á mig þvaðra og bulla og tekst samt að gefa góð ráð þó engin sé í mér heil brúin, við erum tengdari en tungumálið getur lýst og hún hefur kennt mér margt og mikið mikilvægt eins og til dæmis gildi þess að segja eitthvað fallegt við aðra og fyrirgefa, og þó hún hafi þegar við vorum litlar átt það til að láta mig fá það óþvegið þá var það yfirleitt í þeim tilgangi að vísa mér nautheimsku örverpinu réttan veg, ég man til dæmis eftir því þegar hún benti mér á að maður ætti að velja sér föt í litum sem fari vel saman, fram að því hafði ég bara gripið það sem mér fannst fínt og hafði ekki leitt hugann að því að toppur og brók þyrftu að passa saman að einhverju öðru leyti en því að annað hyldi efribúk og hitt hinn neðri, ég gat ekki andað upp orði yfir þessari snilli en man að ég hugsaði með mér að ég hlyti að hafa litið út eins og asni fram til þessa og hef lagt mig fram við að forðast þann pitt æ síðan, hún er mér undarlega góð og ég hugsa að það ljótasta sem hún hafi sagt við mig eftir að við urðum fullorðnar hafi verið þegar hún tók uppá að þráspyrja mig hvort það sé einhver ástæða fyrir því að ég ætli að fá mér brauð með ost eða salat með kjúkling...hvort ég hafi eitthvað sérstakt á móti bókstafnum i sem beygingarendingu eða jafnvel þágufallinu per se, því þó enginn heilvita maður vilji gera sig sekann um þann glæp sem þágufallssýki er þá sé það kannski fulllangt gengið að sniðganga þágufallið eins og það leggur sig, maður á nefninlega að segjast ætla að fá sér brauð með osti og salat með kjúklingi, þetta er auðvitað satt og rétt og ætti að vera hverju meðalgreindu mannsbarni ljóst svo ekki sé talað um háskólamenntað fólk, þó ég vildi óska að ég gæti sagt að þetta hafi verið þarna einhverntímann í fyrndinni þegar ég var ennþá með stinn brjóst og höfuðið fullt af heimsku þá var þetta því miður bara í fyrra, en ég tók þetta auðvitað til mín og rétt áðan var ég til dæmis að fá mér hafrakex með osti (og það í ótæplegu magni) svo þarna sjáið þið, það getur vel verið að karlmenn séu berir að baki nema bróður eigi en ég leifi mér nú að spyrja hvort það sé eitthvað agalegt við það að vera ber karlmaður á hestbaki? aftur á móti ætla ég að fullyrða að án systur sinnar er maður eins og staddur út á miðri miklubraut á háannatíma íklæddur dúnúlpu, lopavettlingum og flíshúfu en gjörsamlega allsber að neðan, sem sagt eins og tótal viðrini

föstudagur, 24. júlí 2009

ég vil að jesú kalli út alla postulana og vindi sér í það að stöðva tímann og fá barnið mitt til að borða, og fyrst hann væri á annað borð kominn á lappir mætti hann útrýma anorexíunni úr hausnum á mér og kenna mér að elska sjálfa mig meira, ef hann gæti fundið varanlega lausn á sjálfsefanum líka væri það vel þegið

ég er ekki í stuði til að hafa fyrir hlutunum
fokking gyðjuhrokinn í mér

fimmtudagur, 23. júlí 2009

ég er að lesa konur, ég verð að viðurkenna að þó mig sé búið að langa til að lesa þessa bók lengi hef ég verið nett hrokafull gagnvart þessari umræðu um að hún sé svo "óþægileg", var búin að ákveða að það þýddi bara að það væri aðeins of mikið talað um brund í þessari bók, ó agalegt, ég myndi aldrei lýsa þessari bók með orðinu óþægileg, miklu fremur myndi ég segja að hún væri ógeðsleg, veki viðbjóð, hrylling, skelfingu, þessi bók fer undir skinnið á manni og situr í taugaendunum, ruglar í skilningsvitunum og hefur höfuð manns að leiksoppi, ég hóf lesturinn í gærkvöldi og hætti ekki fyrr en í nótt, það var vond hugmynd, eftir að hafa skikkað mig til að stinga bókamerkinu inní hana lá ég útúrtjúnuð og óttaslegin með steinsofandi dóttur mína við hlið mér, hugsaði um allt það ljóta sem gæti hent hana og varð hræddari og hræddari, fann að ég var að míga í mig en þorði ekki á klósettið, hugleiddi að vekja eiginmanninn og biðja hann um að koma með mér að pissa en sá svo hvað það væri fáránlegt svo ég hætti við, neyddi mig framúr, kveikti öll ljós og sprændi á methraða, þegar ég loksins sofnaði fékk ég ógeðslega martröð og vaknaði stuttu síðar öll stíf og samanbitin með hjartað á fullu, heyrði umgang á efri hæðinni sem skyndilega virkaði mjög grunsamlegur, sú staðreynd að fólkið fyrir ofan mig á ungabarn og því algjörlega með uppáskrifað fyrir næturbrölti varð einhvern veginn alveg irrelevant, ég vildi næstum óska að ég hefði aldrei byrjað á þessari bók, óhugnaðurinn í henni liggur ekki síst í því að frá fyrstu síðu er manni ljóst að maður hefur rambað inní heim sem lætur ekki að neinni stjórn og hefur engin skýr mörk raunveru og óraunveru, geðveiki, drykkjutremma, ímyndun, martraðir og ofsóknaræði renna saman og í miðju alls þessa er aðalpersóna sem er vægast sagt ekki traustvekjandi og reyndar ekkert sérstaklega viðkunnleg heldur, kona sem hefur enga stjórn á lífi sínu og maður hefur ekkert endilega mikla samúð með hvað þá að maður hafi einhverja trú á að hún ráði við þessar aðstæður og geti fundið leið út úr þeim, langar jafnvel á köflum til að hrista hana duglega, segja henni að hætta þessu helvítis rugli, taka sig saman í andlitinu, taka stjórn, en í staðinn togast maður lengra og lengra með henni inní stjórnleysið og verður sífellt meðvitaðri um að það er ekkert við þessu að gera, svona er þetta bara, hér hefur maður ekkert um hlutina að segja, smitast af uppgjöfinni, finnur óttann læsast um sig, þetta mun fara illa 

miðvikudagur, 22. júlí 2009

í dag er mæðgnadagur, ég ætla að hringja í mömmu mína og í  sameiningu getum við kannski temprað eitthvað áhuga dóttur minnar á csi

þriðjudagur, 21. júlí 2009

að gera það sem mann langar

í tilefni af því að fyrirtækið sem maðurinn minn vinnur hjá er farið á hausinn sleppti familían sér alveg í fantasíum um framtíðina við kvöldverðarborðið í gær, börnin eru æst í að flytja til ástralíu, unglingurinn er nefninlega alveg með það á hreinu að í ástralíu klæðist fólk ekki neinu nema bikiní og geri ekkert nema surfa allan daginn alla daga, krían sér þetta sem langþráð tækifæri til að vingast við kengúrur, elskuleg börnin sjá enga annmarka á þessu plani, pabbi verði bara listmálari og mamma rithöfundur og svo skella sér allir í sjóinn, ég gæti ekki verið meira sammála, ég meina hver þarf að borða??? 

mánudagur, 20. júlí 2009

þetta veður fer illa með hugmyndaflugið, þó ég hendist á lappir á morgnana með fullt af góðum áformum í höfðinu enda ég alltaf brjóstaber úti á palli með bók, nágrannarnir vita ekki alveg hvernig þeir eiga að taka þessu, þeir veigra sér við að vera í frisbí í garðinum og voga sér ekki að nálgast nektarnýlenduna hjá skrítna grannanum, um daginn missti barnið á efri hæðinni boltann sinn inná pallinn minn, ég var ekkert að kveikja enda djúpt sokkinn í interiorblaðið mitt og í þokkabót með fleet foxes á fullu blasti í græjunum, það var ekki fyrr en ég heyrði í taugaveiklaðri mömmunni sem hélt aftur af æstum krakkanum sem ég fattaði að eitthvað væri að, mamman: nei nei birkir minn láttu boltann bara eiga sig, við sækjum hann bara seinna (birkir grenjar og gólar og vill fá boltann) mamman (rosa stressuð): nei birkir viltu gjöra svo vel að koma hérna konan er að hvíla sig, þegar hér er komið sögu er birkir alveg að missa það svo ég drattast á lappir og skutla einhverju yfir tútturnar svona til að taka mesta edgið af þessu, "hva vantar boltann" spyr ég og hendi boltanum yfir girðinguna, vesalings nágrannakonan sem var í mjög siðsamri flíspeysu alveg horfði í allar áttir nema framan í mig (eins og ég sé með brjóst í andlitinu eða eitthvað) og muldrar eitthvað um æ þessi börn, ég bara brosti og henti mér í hengirúmið doldið grobbinn með að smotteríisbrjóstin mín gætu hrært svona upp í liðinu, who knew maður?

sunnudagur, 19. júlí 2009

fjölskyldan er snúin heim eftir helgardvöl í sumarbústað, til að gleðja unglinginn var stillt á fm957 alla helgina, mér líður eins og ég þurfi að drepa eitthvað

föstudagur, 17. júlí 2009

hálfvemmilega ástarfærslan

ég á fimm ára brullaupsammæli í dag, væri eitthvert réttlæti í heiminum væri ég í barcelona og við værum ekki að fara að borga icesave með prumpgjaldmiðlinum okkar en það verður víst ekki á allt kosið, fimm ár eru viður svo nú þarf eggvopn, keðjusög eða eldingu til að kljúfa þetta hjónaband, viðinn má þó pússa upp, bera á hann viðarvörn og jafnvel mála í nýjum lit ef þurfa þykir, nú gildir sem sé að hugsa um viðhald og endurbætur, eins og í öllum heilbrigðum hjónaböndum hafa komið móment þar sem mig hefur langað til að kæfa manninn minn í svefni (og þið sem hélduð að þetta væri svona væmin ástarfærsla), sá sem segist aldrei hafa upplifað þá tilfinningu að hafa langað til að kála maka sínum er annað hvort að ljúga eða algjör tilfinningaleg flatneskja, einhver hrikalega gáfaður sagði einhvern tímann að fólk verði ástfangið nánast án þess að hafa nokkuð um það að segja en að elska einhvern sé ákvörðun, ég hugsa yfirleitt um þessi orð þegar ég er alveg rasandi yfir því að ég hafi allsgáð og ótilneydd fjölgað mér með þessum manni þarna í sófanum, almennt væri hægt að lýsa muninum á okkur hjónum á þann hátt að hann sé dáldið þessi týpa sem er alltaf með hallamálið og tommustokkinn uppi við og vill slá alla mögulega varnagla en ég meira svona brussusmíðastelpan sem finnst í fínu lagi að slumpa bara eitthvað á þetta, en eins og ég minntist á í færslu hér neðar þá er ég reglulega minnt rækilega á það að það eru alveg fínar ástæður fyrir því að ég sagði já við öllu þessu um að elska og virða og styðja í blíðu og stríðu, maðurinn minn er nefninlega einstaklega góð og heiðarleg manneskja, og þó hann hafi eiginleika sem fá mig til að reyta hár mitt og skegg (verð að fara að gera eitthvað í þessu með mústasið) eins og til dæmis bilaða nákvæmni og vanafestu (sófinn og talvan muniði) þá hefur hann líka eiginleika sem fá mig alveg til að falla í stafi og þurfa að styðja mig við dyrakarminn, hann er til dæmis fáránlega handlaginn, algjör handy man sem allt leikur í höndunum á sama hvað það er (oftast líka eiginkonan), ég hugsa að ég gæti aldrei verið gift manni sem kynni ekki á borvél (fyrirgefið hvað þetta samræmist illa kynjafræðilegri rétthugsun), til viðbótar er hann ljúflundaður með meiru með ríka samúðarkennd og tryggari vinur en gengur og gerist (ókei þetta er að verða svona væmin ástarfærsla), svo má ekki gleyma því að oftast leifir hann mér að hafa hlutina eins og ég vil hafa þá þó hann sé mér hundósammála og sjálfsagt sé ég á köflum algjörlega óþolandi í sambúð, en þó það sé oft drulluerfitt að finna rómantíkina í hversdagsleikanum og þó það eigi ekki fyrir neinu hjónabandi að liggja að löðra alla daga ársins í sveittu sexi og hamslausum ástaröldum þá kemst ég alltaf að því þegar ég sé í gegnum uppvaskið og vísareikningana og þvottahrúguna að ég er skotin í þessum manni þarna í sófanum, skítskotin í honum alveg  

fimmtudagur, 16. júlí 2009

klukkan er hálf eitt eftir miðnætti og ég er að fara í bað, ekki svo að skilja að baðferðir í skjóli nætur séu persónulegt hobbý sem þið vissuð ekki af, nei ég bara var að klára "karlar sem hata konur" og get því hvílst róleg, ég hef vart sofið, borðað né þrifið mig í tvo sólarhringa og lykta eins og vörtusvín

ljúfa drauma   

miðvikudagur, 15. júlí 2009

eitt og annað af endurtekningunni

ég fæ ámynningu um það að það séu alveg haldbærar ástæður fyrir því að ég giftist manninum mínum

ég les fram á nótt og íhuga að stilla klukkuna snemma til að halda áfram

ég drekk líter af kaffi fyrir hádegi og borða banana með lífrænu hnetusmjöri og drekk eitt glas af lífrænum ace safa á meðan ég les blöðin og hangi í tölvunni

ég hugleiði að ég sé á rangri hillu í lífinu en kemst ekki að neinni niðurstöðu um hvar hina réttu sé að finna svo ég fer bara aftur að lesa

ég er hégómlegur asni sem pirrar sig á appelsínuhúðinni á rassgatinu

ég hleyp og hleyp og hleyp og hlusta á nick cave (samt situr fokking appelsínuhúðin á rassgatinu eins og tryggasti vinur í heimi)

ég stari á barnið mitt og velti því fyrir mér hvernig ég hafi farið að því að búa til eitthvað svona fallegt

ég flokka ruslið mitt og hata að mér takist ekki að minnka helvítis umbúðaflóðið inná heimilið

ég finn fyrir vanmætti mínum þegar ég les blöðin og get ekki myndað mér skoðun á nokkrum sköpuðum hlut sem einhverju máli skiptir (en veit fyrir víst að ég höndla ekki fleiri fréttir um michael jackson)

ég hugsa í hringi um hvað sé sannleikur, kjarni, raunveruleiki og hvað sé viðhorf, túlkun, hugarburður, ímyndun, vani, tálsýn, þráhyggja en kemst ekki að neinni niðurstöðu svo ég fer bara aftur að lesa

ég skamma mig fyrir að vera ekki nógu góð dóttir, systir, eiginkona, vinkona...en ekki móðir, held ég sé bara drullugóð mamma

ég glími við efann, sérlega sjálfsefann sem er kvennasjúkdómur sem ég er illa haldinn af og ég þooooooooooli það ekki

ég hlæ mig máttlausa af prumpubröndurum dóttur minnar

ég er meðvituð um að ég þarf að svissa af replay yfir á stopp en finn ekki takkann þó ég vita að það er ferningur á honum og ég hafi frá náttúrunnar hendi afbragðsgott formskyn

þriðjudagur, 14. júlí 2009

það er eins gott að maður á dætur því allir kvenklettarnir í lífi mínu eru horfnar í faðm sveitasælunnar og hafa skilið mig eftir eina, frjóofnæmið er öllu trygglyndara og heldur mér þrálátum og fremur illa séðum félagsskap, ástkær eiginmaðurinn hefur tekið upp á því að veiða á næturnar og sofa á daginn, ég segi svo sem ekkert við því á meðan hann lætur sér nægja að veiða aðeins fiska en ekki kvenfólk og svarar í símann, konur eins og ég með öflugt ímyndunarafl geta þó hæglega spunnið eitt og annað úr þessum efnivið, vaknaði undir morgun nú nýlega og fann elskuna mína hvergi nokkurs staðar undir sænginni, var þá viss um að hann hefði sofnað í sófanum með tölvuna í fanginu en apparatið virðist oft fara betur í fangi en eiginkonan, en sófinn reyndist jafn tómur og hjónarúmið og ekki var karlmennið í baði þó hann sé þrifnari en gengur og gerist og baðkarið sé á eftir sófanum líklega vinsælasti blettur heimilisins, ekkert svar í síma og engin skilaboð...(ærandi þögn), það er á svona stundum sem konur sem elska menn fara aðeins offari í hugarspuna, eins og ekkert lægi beinna við stökk ég samstundis á þá ályktun að maðurinn minn lægi örendur á botni þingvallavatns innan um allar helvítis bleikjurnar sem hafa ekki bitið á hjá honum í sumar, þetta var augljóst og gat ekki öðruvísi verið, ég var orðin ekkja og búin að fara í gegnum það að tilkynna börnunum fréttirnar og jarða manninn í kyrrþey þegar hinn látni gekk inn um útidyrahurðina og fleygði sér uppí angandi af fiskifýlu, ég veit ekki hvort ég var fúlli út í hann eða sjálfa mig fyrir djöfuls vitleysuna í mér, en það er ekki eins og maður sé bara í því að dikta upp tragískan dauðdaga fjölskyldumeðlima og fóstra í sér móðursýkina, nei ég held nú síður og þar sem maður á ekki að gera lítið úr sínum hversdagssigrum þá bið ég fólk um að veita því athygli að mandarínurnar hennar simone er ekki lengur á "ég er að lesa" listanum en er þess í stað komin á "ég elska að lesa" listann sem þýðir að ég er búin með hana, allar 736 síðurnar, þetta er búið að taka dáldinn tíma og mér líður eins og ég hafi verið að kveðja góðan vin sem hafi leigt hjá mér herbergi síðastliðið ár, þetta er ein af þessum bókum sem ég hefði helst ekki viljað klára, tómarúmið var svo þrúgandi að ég slakaði á þeirri stefnu minni að lesa ekki krimma og lét undan samfélagsþrýstingnum og fékk "karlar sem hata konur" lánaða hjá systu bestu, las fyrstu tvo kaflana í gærkvöldi og ég verð víst að éta eitt og annað ofan í mig því mér finnst nokkuð líklegt að þessi bók muni eyðileggja líf mitt næstu daga, langar bara að liggja í bælinu allan daginn og hætta ekki fyrr en ég kemst að því hver er að senda þessi blóm, best að henda sér uppí og muna svo að geyma skáldskapinn í bókum en ekki í manns veika höfði svo maður endi nú ekki á því að verða ein af þessum konum sem karlar hata!!!

mánudagur, 13. júlí 2009

jeminn þetta veður!!! komd´út að leika

þriðjudagur, 7. júlí 2009

heimili mitt...ísland

mikið rosalega virkar íbúðin manns stór eftir fjagra daga veru í agnarsmáu tjaldi, förum ekki einu sinni út í það hvað hjónarúmið er yndislegt þegar maður er búinn að sofa (eða öllu heldur reyna af öllum mætti að festa svefn) á lekri vindsæng undir rökum illa lyktandi rúmfötum með mosa og fjallagrös klístruð um allan kropp, ekki það að það sé ekki ágætis æfing í rómantík að kúra í kuðung með elskunni sinni og hlusta á fuglana syngja en þegar maður vaknar ýmist við að frjóofnæmið hellist yfir mann af fullu blasti klukkan fimm á morgnana eða það gerir svo heiftarlegt skýfall að maður heyrir vart eigin hugsanir og eiginmaðurinn ofan á allt búinn að brenna gat á tjaldið í örvæntingarfullri tilraun til að kynda upp fyrir elskuna sína þá er kannski mesti sjarminn farinn af þessu, ég minnist svo á það í mjög hröðu framhjáhlaupi að almenningssalerni á tjaldstæðum eru sérlega hægðatregðuvaldandi, en guð almáttugur ekki skilja mig sem svo að þetta hafi verið tóm kvöl og pína, mikið er gott að láta minni sig á hvað skaparinn hefur gefið manni stórkostlega gjöf, hver á sér fegra föðurland er spurning sem á eilíflega rétt á sér, kraftur hafsins við dyrhóley svo lamandi að það er eins og almættið gefi manni högg í bringuna, þjóðgarðurinn í skaftafelli svo dásamlega ilmandi af lyngi og birki og jökulsárlón svo tilkomumikið í sinni kyrrlátu dulmögnun, bláklukkan, hvönnin og blóðbergið... maður getur ekki annað en fundið til auðmýktar og gengist við því möglunarlaust hvað maður er þrátt fyrir alla sína smæð þó óendanlega þýðingarmikill og hvað maður standi í mikilli þakkarskuld sem aldrei verður að fullu greidd, takk góði guð ég skal gera mitt besta 

miðvikudagur, 1. júlí 2009

væri ég lag með sigurrós héti ég skýglópur

það sem ég á að vera að gera er að búa til innkaupalista og pakka niður fyrir ferð fjölskyldunnar til austfjarða sem hefst á morgun, það sem ég er að gera er að hanga í tölvunni og skoða myndir af garðveislum, interiorbúðum, kökum, blómaskreytingum, veggfóðri og antíkmunum svo fátt eitt sé nefnt...ætli það sé þetta sem fólk á við þegar það talar um að vera með hausinn í skýjunum?