föstudagur, 30. janúar 2009



náði næstum í skottið á bjartsýninni í dag... en bara næstum... gengur kannski betur á morgun... bíddu myndi þetta ekki flokkast undir bjartsýni

hlustaði á fallegan fyrirlestur í dag hjá manni sem sagði mér að ég væri ævintýrið, hann virtist trúa því svo algjörlega að ég trúði því næstum því, allir hinir héldu að hann væri fullur, í kjölfarið þurfti ég svo að skrifa niður eitthvað fallegt um sjálfa mig, nú er maður kannski ekki alveg rétt stemmdur þessa dagana fyrir jafn hégómlega hluti og opinbert sjálfshól, hugsaði því í mig höfuðverk en ætlaði aldrei að detta nokkur skapaður hlutur í hug, hripaði loks niður að ég væri svona dáldið fyndin eða eitthvað, þó aðallega af því ég var að brenna inná tíma og það hefði verið svo asnalegt að skrifa ekki neitt, leið eins og fífli og sú tilfinning ágerðist allhressilega þegar ég var neidd til að tala stöðugt um sjálfa mig í tvær mínútur fyrir framan nokkrar bláókunnugar manneskjur, botninn tók svo gjörsamlega úr þegar ég þurfti að hlusta á þetta sama fólk hrósa mér í aðrar tvær mínútur, martraðarkennd upplifun alveg hreint, varð alveg að gnísta úr mér jaxlana til þess að benda þessu ágæta fólki ekki á að nei þetta væri nú ekki alveg rétt skilið hjá því, eitthvað væri fólk nú ekki að sensa hlutina rétt, voðalegt hvað sumir eru litlir mannþekkjarar og lítið næmir á fólk þó þeir sitji svo nálægt manni að svitablettirnir undir höndunum hafi ekki með nokkru móti getað farið framhjá þeim, hef samt ákveðið að senda þeim ekki email til að leiðrétta allar þessar furðulegu rangfærslur sem þau fóru með, þau hafi greinilega verið með allt aðra konu í huga eða eitthvað þess háttar, þetta sé allt saman einhver undarlegur misskilningur, já einmitt þarna kom það, misskilningur

miðvikudagur, 28. janúar 2009

þriðjudagur, 27. janúar 2009

það er leiðinlegt til lengdar að vera í hollinn skollinn við engan nema sjálfan sig, maður er alltaf klukk, eða í stikki, eða ráfandi um blindandi, klessir á vegg og fær ljóta kúlu til að minna sig á hvað maður er mikill asni, langar ekki að gera neitt nema lesa en er endalaust trufluð af vinnu og eldhúsverkum og allri þessari dæmalausu dellu, ég veit ekki hver skrifaði uppá þetta bull en ég myndi gjarnan vilja eiga orð við þann alheimseyðileggjara!!!

markmið morgundagsins: reyna að vera ekki eins og viðrini um hausinn einn daginn í viðbót 

mánudagur, 26. janúar 2009

syfjan vill ekki úr kroppnum, heilinn minn virðist hafa tapað getunni til að tengja saman hugsanir, kaffið er að verða búið, sit í vinnunni og var að taka eftir því að peysan mín er öll í blettum, svona fer fyrir þeim sem klæða sig í myrkri með lokuð augu, handan við vinnudaginn er bíóferð með kríunni, ætlum að stúdera samskipti stúlku og refs og gúffa í okkur poppi, ekkert jafnast á við að eyða síðasta tvöþúsundkallinum í ónauðsynjar, hlakka til hlakka til

þið hlustið á hann scott matthews á meðan, yndislegur alveg hreint

laugardagur, 24. janúar 2009

föstudagur, 23. janúar 2009

óttalegur óskapnaður var þetta sem reis upp af koddanum í morgun, vakúmpakkaði sig í plast og vaxbar alla óvarða húð, kurlaði sig saman og kom sér fyrir innst inní skelinni, koffínið kom ekki á tengslum við umheiminn þó magnið hefði verið ískyggilegt en lagðist þess í stað á varnarlausa taugaenda og viðkvæmt hjartað, útúrtjúnuð skynfærin skelltu skollaeyrum við rödd skynseminnar sem reyndi af veikum mætti að sannfæra: "nei heimurinn er ekki að ráðast á þig, rafmagnsljós drepur ekki, hljóðbylgjur valda ekki líkamlegum áverkum", verst að geta ekki slegið út lekaliðann, andstyggðar rafmagnsljós sem smýgur um allt, rekur rýtinga í augu og dempar skinið frá stjörnunum, stóð lengi úti í kvöldmyrkrinu og rýndi upp í himininn, hugleiddi að grýta ljósastaura til að skerpa sýnina en doðinn gerði fjarlægðina milli allra hugmynda og athafna svo óyfirstíganlega að öruggast var að leita skjóls með búk undir sæng og höfuð inní bók, treysta því að fá heimsókn í svefni, helst frá heilögum anda eða hæfileikaríkum særingarmanni   

þriðjudagur, 20. janúar 2009

einhver eru nú pólskiptin þegar maður er farinn að liggja yfir ræðum bandaríkjaforseta á youtube, og enn undarlegra er að standa sig að því að öfunda ameríkana þegar maður hefur komið sér upp þeim leiða vana að finnast þeir púkalegir, ekkert púkalegt við það sem gerðist í ameríku í dag, heppnir þeir, ég vil líka eiga stjórnmálamenn sem tala eins og þeir af öllu hjarta bæði trúi og meini hvert einasta orð sem hrynur af vörum þeirra, og virðast setja hugtakið fólk í samhengi við eitthvað raunverulegt, stjórnmálamenn sem eru eins og stilltur stormur, loforð sem er ekki hægt annað en að trúa að verði að veruleika...ég virkilega öfunda ameríkana     


sunnudagur, 18. janúar 2009

ástin dugir að eilífu...og restin er  málinu óviðkomandi, eða þannig hljómar alla vega veruleikinn smættaður niður í nauðsynjar þegar maður er búinn að drekka alltof mikið hvítvín, alla vega elska ég þig þarna hinu megin við tungumálið og erfiða mánudagsmorgna og þrjúþúsund ljósár af of fáum faðmlögum

þriðjudagur, 13. janúar 2009

setti í mig kjark og fór í bað, möndluolían í vatninu gerði meira fyrir andann en hörundið eins og flestir hlutir af keimlíkum toga, ég ilma samt eins og austurlensk kryddjurt og klippi táneglurnar, elskhugann langar engu að síður ekkert til að éta mig enda er hann maður upptekinn, hann er nefninlega búinn að finna sér nýja sjónvarpsseríu til að fylla uppí aukamínúturnar og allar hugsanlegar þagnir, möndluolía á ekkert í sjónvarpsseríu um hermenn í írak með byssur og hjálma, kjánalæti eru þetta kona

í gærkvöldi var á dagskrá sjónvarpsins háfræðilegur heimildarþáttur um uppgang mannsins þar sem fram kom með óyggjandi hætti hvernig samfélag manna fór til helvítis með akuryrkjunni, maðurinn var ekki fyrr farinn að þreskja korn en allt fór í vitleysu og menn rifust út í eitt um hver mátti eiga hvað og hver var að græða mest og allt þetta sem sundrar og skemmir, kemur þetta einhverjum á óvart??? ekki mér, hvernig á fólk eiginlega að taka góðar ákvarðanir með bullandi tannpínu og blóðsykurstuðulinn í æðiskasti, það getur vel verið að þessi þáttur hafi verið einhverjum opinberun og afhjúpað stórmerkileg sannindi en ég þarf nú enga franska prófessora til að benda mér á að kolvetni er óvinur mannsins númer eitt, hreinræktuð afurð djöfulsins og uppspretta alls ills!!!

laugardagur, 10. janúar 2009

mig setur hljóða, vildi að ég byggi á hjara veraldar, kannski er þögn þar líka, það ætti enginn að þurfa að tala fyrir hádegi, bara hlusta, hlusta á cohen og kveikja á kerti og hugsa, hugsa um að maður þurfi að hugsa meira...og hlusta...og skilja...og horfa í augu án þess að blikka, núna heyri ég ekkert nema suðið í eldavélinni og andadrátt hundsins...en nú kom bíll og skemmdi það, það ætti líka að banna bíla fyrir hádegi 
 
í húsinu mínu hefur óboðinn gestur gert sig heimakominn, tillt sér við eldhúsborðið, sofið í rúminu mínu, legið í sófanum mínum og leikið við barnið mitt á milli þess sem hann sendir mig inná bað að stara í klósettið, býðst ekki til þess að halda um ennið á mér þegar ég kasta upp, kinkar bara kolli, fær sér kaffi og gramsar í geisladiskunum... "ertu ekki að fara" spyr ég varfærnislega til að styggja hann ekki, ekkert svar, hann er í það minnsta þögull, við hlustum á cohen syngja um fuglinn á vírnum og ég óska þess að það birti ekki úti, óska þess að geta setið endalaust við eldhúsborðið mitt í þögn með dimman morgunn fyrir utan gluggann minn, þykjast ekki eiga neinar ljósaperur en finna af rælni kertastubb, spila cohen og hugsa   

þriðjudagur, 6. janúar 2009


þó maður vilji ekki lofa upp í ermina á sér er ég samt að hugsa um að reyna að gera betri mistök á þessu ári en því síðasta

sunnudagur, 4. janúar 2009

ég myndi nú kannski ekki segja að ég sé sú tegund konu sem dreymir um að láta berja sig til dauða með glerskó en mikið rosalega væri ég til í að þurfa ekki að vinna fyrir mér, alla vega ekki nema nákvæmlega þegar það hentaði mér, en á morgun þarf ég nú samt að mæta í vinnuna og sitja geysilega áhugavekjandi og inspírandi fyrirlestur um einelti og henda mér svo með hausinn á undan í að slá inn skrilljón einkunnir í það magnaða fyrirbæri mentor.is, jiiiii hvað ég er yfir mig spennt!!! 

americas funniest home video er í sjónvarpinu, ég veit að flestum finnst þetta óskaplega fyndið en ég á dáldið erfitt með að hlæja að óhöppum sem annað hvort minna mig á eitthvað sem hefur hent mig eða gæti mjög hæglega hent mig, næst á dagskrá er svo are you smarter than a fifth grader...best að slökkva bara
ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að ef væri ég ein af múmínálfunum (wishful thinking) þá væri ég mía litla, en eftir gaumgæfilegan lestur á múmínbókinni sem ég fékk í jólagjöf held ég svei mér þá að ég sé...múmínpabbi!!! þetta var töluvert áfall, ég þarf að hugsa líf mitt algjörlega uppá nýtt

föstudagur, 2. janúar 2009

gleðilegt gleðiár, ég er strax búin að brjóta áramótaheitið sem var einhver svona "hætta að éta þegar ég er orðin södd" klisja, ég er alveg að fá lífshættulegt sjálfsofnæmi og drepst örugglega mjög bráðlega, vonandi sem allra fyrst svo ég þurfi ekki að upplifa þá niðurlægingu að komast ekki í gallabuxurnar mínar