
ástkær bróðir minn átti fertugsammæli í gærkvöld, af því tilefni borðaði ég óhóflega af bernaissósu og gat fyrir vikið ekki fest svefn fyrr en seint um síðir sökum magakvala, við fjölskyldan og vinafólk gerðum okkur far um að gera daginn sem ánægjulegastan fyrir ammælisbarnið og færðum honum bæði flatskjá og bikiníklædda konu sem reyndar var bara listilega hönnuð brúnkaka (eðlilega, mágkona mín er ekki sú tegund konu sem maður vill reyta til reiði), ég smakkaði ekki á kökunni og setti í brýrnar þegar dóttir mín skar sér sneið af klobbanum, eiginmaðurinn kæfði niður hlátur og spurði hvernig smakkaðist, blessað barnið svaraði "bara vel" og smjattaði, en plebbaskapurinn ríður ekki við einteyming í þessari fjölskyldu því fyrsta vika í vinnu einkenndist af fordæmalausum ósmartheitum og klúðri, ég hef reynt að forðast það í lengstu lög að brydda upp á þeirri umræðu hér að ég sé byrjuð að vinna, svona eins og ef ég bara nefni það ekki þá sé það ekki að gerast í alvöru, þetta fer aldeilis glymrandi af stað, ég hef komið samviskusamlega of seint alla daga vikunnar eftir að hafa dröslað barninu í reiðskólann undir dægursmellinum "ég er að verða of sein" í flutningi kaótískrar kennslukonu sem ég kannast lítillega við, ég get svo svarið fyrir það en ég held hreinlega að það sé eitthvað í genamengi mínu sem geri það að verkum að mér sé físíólógískt ómögulegt að athafna mig innan þess tímaramma sem eðlilegu fólki þykir tilhlýðilegur, þetta er einhver mjög sértæk vangefni, í ekki eitt skipti alla vikuna hef ég náð að greiða mér og einn daginn varð ég ítrekað að athuga hvort ég væri af einhverjum óútskýranlegum ástæðum með hráan lauk í handakrikunum...sumu verður líklega bara ekki breytt
einhversstaðar hér í grendinni spretta fagurblá ber, ég hef séð þau en ég ætla ekki að segja ykkur hvar