
mér fer illa að vera veik, sjálfsagt hefur mörgum blöskrað hömlulaus sjálfvorkunin í mínum fyrri veikindapóstum en þeir eru allnokkrir og langir á þessari síðu, sért þú einn af þeim skaltu ekki lesa meira af þessari færslu heldur láta hér staðar numið og fara á feisbúkk þar sem er örugglega margt áhugavert í status hjá heilsuhraustu og harðgeru fólki, þvert á mitt geð er ég að öllum líkindum með hitalaust eintak af hinni alræmdu flensu sem kennd er við svín og ríður rúmum um alla veröld þessi misserin, það er ekki laust við að því fylgi nokkur huggun að eiga svo marga þjáningarbræður og systur um gervalla heimsbyggðina, að vera hluti af alþjóðlegum her manna og kvenna sem öll berjast með eigin blóði við þennan óvænta og uggvænlega vágest, maður finnur næstum því hvernig heimsborgarinn innra með manni hækkar aðeins í loftinu, verst þykir mér nafn flensunnar sem mér finnst alls ekki mönnum bjóðandi og gerir ekkert nema auka á þær vítiskvalir sem veirunni fylgja, eitt er að liggja andvaka með angur í öllum beinum og hálsinn svo helsáran að engu líkara er en að sá vondi sjálfur skemmti sér og sínum við að flambera í manni hálskirtlana, en að í ofanálag sé ýjað að því leynt og ljóst að maður teljist ekki lengur manneskja heldur svipi nú til þeirrar skepnu sem sóðalegust þykir, svo sóðaleg að ákveðnir hópar fólks telja það guðlast að leggja sér hana til munns og ekki nokkur kona með sæmilega sjálfsvirðingu vill líkjast, þar gott fólk tekur bjargið úr!!! eins og það sé ekki nóg að óttast um líf sitt því það verður að viðurkennast að þessi flensa hefur vægast sagt verið illa prómóteruð í fjölmiðlum og ekki laust við að þar hafi gætt nokkurrar múgæsingar, maður hreinlega veltir því fyrir sér hvort maður gangi út frá lækninum með borða um upphandlegginn skreyttan svínshöfði, í kjölfarið verði húsið manns einangrað og svo hætti fólk smám saman að hringja, nei kona bara spyr sig