miðvikudagur, 25. febrúar 2009
páfuglinn varð að heiðu litlu í fjöllunum, það var náttúrulega ekki nokkur sála að kveikja á perunni fyrir utan slavneska security gæjann sem var að vinna fyrir utan stofuna mína, manngreyið missti alveg skrúfjárnið, stundi upp "hello heidi" og horfið á mig eins og eitthvað sem hefði óvænt stokkið út úr uppáhalds klámmyndinni hans, eiginmanninum fannst þetta líka mjöööög stimmúlerandi outfit og svo "hrikalega sætt þegar stelpur eru með svona fléttur", dæææææs karlmenn eru einfaldar skepnur
mánudagur, 23. febrúar 2009
föstudagur, 20. febrúar 2009
dæmi um það hvernig manni tekst stundum að eyða tíma sínum í fádæma vitleysu:
inná msn las ég mjög ítarlega úttekt á þeim atriðum sem eiga að vera pottþétt merki um að eiginmaðurinn sé ennþá alveg spriklandi sjúkur í mann, í stuttu máli sagt átti ekki eitt einasta þeirra við um manninn minn...ég hef ákveðið að taka þann pólinn í hæðina að msn sé skítasíða, skrifuð af amatörum sem ekkert mark sé takandi á!!!
ég er að hugsa um að vera páfugl á öskudaginn...spurning hvernig maður útfærir þetta stél
þriðjudagur, 17. febrúar 2009
topp tíu listi yfir hluti sem fara óútskýranlega í taugarnar á mér
*motivational speakers, algjörlega óþolandi lið
*stjórnmálamenn sem segja "það er alveg ljóst að..." mér afvitandi er nákvæmlega ekkert alveg ljóst þessa dagana
*fullur vaskur af óhreinu leirtaui (þarfnast ekki nánari skýringa)
*full karfa af óhreinum þvotti (þarfnast ekki nánari skýringa)
*tímarammar og tímaskortur (eða bara tíminn yfir höfuð sem gerir það að verkum að hugmyndin um "of seint" er til)
*asnalegar auglýsingar (hugsum um vanish auglýsingarnar, hvað er það???)
*verðlag í matvöruverslunum (helvítis highway robbery)
*fólk sem flokkar ekki ruslið sitt (aaaarrrrghhh)
*plastumbúðir (plast er óvinurinn fólk!!!)
*pop-up gluggar með skilaboðunum "this is not a joke! you won!" (sá sem stendur fyrir þessu á alla óheppni heimsins skilið!!!)
en svona til að jafna þetta út, yin og yan þið vitið...
topp tíu listi yfir hluti sem fá mig til að steppa af gleði
*tónlist (ég elska að koma á óvart múhahaha)
*að gera ekkert nema það sem mig langar þegar mig langar (ógisslega óábyrgt og æðislegt)
*að skrifa þetta bullumblaður (bullumblaður er skemmtilegt)
*kríuljós móðurbetrungur (best í heimi)
*gourmetbúðir (ef ég hef efni á að versla í þeim)
*eldamennska (þegar ég er ekki on tight budget í búðinni eða hundþreytt eftir vinnudaginn...sem er aldrei)
*bækur (meira að segja bara að horfa á þær)
* rennandi vatn (hugsanlega vanmetnasti lúxus í heimi)
*sullerí með stelpum
*litagleði (það sem maður er ófyrirsjáanlegur)
að lokum nokkrar játningar:
*flesta daga líður mér eins og hauslausri hænu í einhverju undarlegu veðhlaupi
*ég gleymi alltaf taupokunum heima þegar ég fer í búðina og ég þooooooli það ekki
*það var nett áfall að komast að því að ástin jafngilti ekki lífshamingju
*ég er að drepast úr allskonar þráhyggjum
*ég er ógeðslega óskipulögð og hef dulda andúð á skipulagi
þessi póstur er fyrst og fremst vitnisburður um það hvað maður verður geðveikur þegar maður er einn heima hjá sér og lasinn...góðar stundir
mánudagur, 16. febrúar 2009
ægilegt alveg að liggja svona fyrir dauðanum aleinn og yfirgefinn heima hjá sér, svo þegar maður er alveg að skilja við hringir síminn og maður missir sig í að væla í mömmu sinni, mann fer alltaf að vanta mömmu sína alveg svakalega þegar maður er lasin, mamma með kalda bakstra og mjúkar hendur, en mömmuhjúkrun ásamt heimagerðum nestispakka og vasapening er víst eitt af þessum forréttindum sem maður missir við að verða fullorðinn, held reyndar að eiginmenn eigi að fylla þetta skarð en flestir þeirra eru samt rosa lélegir í því, þar af leiðandi hírist maður einn uppí sófa og horfir á dagsbirtuna troða sér í gegnum rúllugardínurnar og hugsar að svona verði þetta á elliheimilinu nema þá verður maður kannski bara með herðakistil og gangráð en ekki snýtusár og tóman ísskáp...sem gerir reyndar lítið til þar sem bragðskynið er sokkið í hor og slím
dreymdi í nótt að ég væri að dansa við egil helgason sem hafði grennst einhver ósköp, hugsanlega eftir stífar æfingar í enskum valsi því hann hélt fast um mittið á mér og sveif um allt gólf með mig án þess að ég fengi rönd við reist, skutlaði mér í snögga snúninga og þeytti mér í allar áttir, ég var alveg orðlaus en stamaði samt eitthvað um að aldrei hefði það hvarflað að mér að hann væri svona fimur dansari, hann sagði ekki orð heldur snérist með mig hring eftir hring eins og væri ég öskubuska á balli hjá rúv og hann staðráðinn í að ná mér heim með sér áður en klukkan slægi tólf...ja það sem á sér stað í manns eigin höfði þegar maður sleppir takinu!!!
laugardagur, 14. febrúar 2009
ætlaði að vera alveg bullandi rómantísk og sensúal í dag fyrir elskhugann en þessi flensuskítur er mig lifandi að drepa, maður er einhvernveginn ekkert rosalega gyðjulegur með stokkbólgna hálskirtla og nefrennsli, lafmóður við minnstu hreyfingu og hausinn alveg að springa, reddaði nú samt túlípönum og vaxaði mig svona til að klóra aðeins í bakkann...jú og þvoði rúmfötin, hva þetta er nú alveg ágætt
föstudagur, 13. febrúar 2009
ég get ekki hætt að hlusta á fleet foxes, bara get það ekki, elskan mín eldar músaka (sem er ekki exotískur afrískur réttur heldur svona dæmigerðara hakk með því sem til er í ísskápnum, veit ekki hvaðan í veröldinni þessi nafngift kemur) og ég drekk hvítvín til að mýkja rakvélablöðin í hálsinum, flensa kæmi sér afspyrnu illa núna þegar ég stend á hátindi verkefnabúnkans í vinnunni og sé vart til jarðar, fannst eins og það örlaði þó fyrir votti af auknum krafti í mínum annars síþreytta kroppi í dag svo ég beið ekki boðanna og henti mér á hlaupabrettið þar sem ég upplifði eitthvað sem ég held að hljóti að flokkast sem "near death experience", er samt eiginlega ennþá með hausverk eftir að hafa fylgt elskulegum nemendum mínum á skólahreysti í gær, sjálf er ég gersneydd öllu keppnisskapi en bæti það tvöfalt upp sem hamslaus stuðningsmaður, öskraði úr mér röddina og klappaði blöðrur í lófana og svitabletti í peysuna mína við að hvetja mitt lið áfram í gegnum æfingabraut sem lítur út eins og eitthvað hannað fyrir hermenn, hef heitið sjálfir mér að verða nógu mikil gi.jane til að geta klárað mig í gegnum svipað atriði, sé mig fyrir mér eins og demi moore í hlýrabol og stuttbuxum að gera armbeygjur á hnúunum, hva af hverju eru þið að hlæja? en ég held svei mér þá að annars sé þetta bara á smá uppleið þó persónuleikatruflanirnar séu ennþá óþægilega mikið innanborðs, stend enn á brúninni en þó ég gleymi mér annað veifið við að góna oní hyldýpið togast höfuðið æ oftar til himins og ég man að það er guð þarna einhvers staðar, þó ég beri litla virðingu fyrir tölfræði ætla ég að slá því fram að þetta sé á að giska svona 15% halli uppá við og ponsuljósglætan í mínum myrka huga á við 20 vatta peru, afrekaði meira að segja að blása á mér hárið áðan eftir að hafa verið eins og dauð rotta um hausinn alla vikuna, pæliði í því!!!
þriðjudagur, 10. febrúar 2009
bíó þrjá daga í röð gerir eitt og annað fyrir þann sem of lengi hefur ekki dregið andann af neinu viti, revolutionary road reyndist óþæglilega skýlaus spegill á mitt eigið líf, the curious case of benjamin button var ljúf og fögur þó ég berjist eilíflega við fordóma mína í garð brad pitt, og the reader var einfaldlega hjartaskerandi, miðaverðið í regnboganum var hagstæðast, poppið í háskólabíói best og loftkælingin í sambíóunum í engu samræmi við hitastig á íslandi í febrúar, spurning hvort það sé ástæðan fyrir mínum auma hálsi...
annars er þetta helst:
af hverju er ég að drepa öll blóm
hvað á ég að gera við öll þessi verkefni í vinnunni
eftir hverju er ég að bíða
hvað er þetta með hann davíð oddson
ég vakna á undan klukkunni en nenni ekki fram úr
ég er stax farin að bíða eftir mánaðarmótum
ég verð að finna búning fyrir öskudaginn
...og ýmislegt annað misgáfulegt
mánudagur, 9. febrúar 2009
föstudagur, 6. febrúar 2009
ég þekki ekki lögmál eðlisfræðinnar svo ýkja vel, get jafnvel talist óvenjulega vitlaus á því sviði, en þessi kyrrstaða hlýtur að ganga í berhögg við öll vísindi og reglur um eðlileg orsakasambönd hlutanna, ég gæti hugsanlega fengið einhvern botn í þetta ef það væri ekki fyrir bölvað afstæðið...
dökkhærða konan með flækjuhausinn horfir á önnu-kareninuskóna sem síðsumars fengust fyrir heppni á spottprís í búð sem verðleggur skófatnað líkt og væri um kærleikann, tryggðina og önnur helgustu verðmæti mannsandans að ræða, þetta var vitaskuld fyrir fallið mikla sem spakir menn telja fyrirboða um fararheill, á þeim tíma þegar þessi sama kona, sem fúslega gengst við þeirri ákæru að vera haldin fagurfræðilegri þrá eftir skóm (og veit í hjarta sér að það er vissulega barnslega bjánalegur eiginleiki og engum til framdráttar) átti galdragrip úr plasti, töfrar gripsins voru þó nokkuð takmarkaðir og umfram allt algjörlega tímabundnir svo alloft síðan þegar konan mátar þessa sömu skó getur hún ekki annað en gert lítið úr öllum söguskýringum um ástæður þess að hér á landi séu engar járnbrautir og þess í stað lofað það sem merki um fyrirhyggjusemi þess sem alla hluti veit og skipuleggur framgang atburðanna af slíkri útsjónasemi að ófullkominn hugur hennar sjálfrar getur ekki túlkað þá sem annað en tilviljanir, en vitaskuld er það engin tilviljun að kona í önnu-kareninuskóm með norðurhvelsmyrkur í sálinni gengur um í blindni og finnur ekki eina einustu járnbraut!!! ónei það er guðleg forsjá
mánudagur, 2. febrúar 2009
mánudagsmorgunn, elskan mín farin í vinnuna, unglingurinn hljóp út á síðustu stundu eins og alltaf, með tóman maga eins og alltaf því meiköppið er svo tímafrekt, við krían rölltum saman í morgundimmunni í skólann með latan hund í bandi og trefilinn vafinn upp að augum, kom heim og hitaði kaffi og hlustaði á uppþvottavélina vinna fyrir mig, mér þykir vænt um uppþvottvélina mína, hún segir aldrei "æ ég nenni því ekki", ég aftur á móti nenni ekki í vinnuna, kannski heppnin sé með mér í dag og ég hrasi og mjaðmabrotni í hálkunni, hver veit hver veit, nei nei ég klára kaffið mitt, set undir mig hausinn og þil nýju möntruna mína í huganum "ég get lifað þennan vetur af ég get lifað þennan vetur af ég get lifað...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)